Angústúra

Svartur í Sumarhúsum

Chinua-Achebe

Chinua Achebe (1930-2013)           Mynd: Paris Review

Skáldsagan Allt sundrast (Things fall apart) eftir nígeríska rithöfundinn Chinu Achebe  er komin út á íslensku í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Bókin kom fyrst út 1958 og er fyrsta skáldsaga þarlend um nýlenduvæðingu Afríku sem skrifuð er af innfæddum. Áður höfðu lærðir yfirstéttarmenn í Evrópu skrifað um það sem fyrir bar í framandi heimsálfum en náðu aldrei að fanga blæbrigði og margræðni sögu, menningar og samfélags Afríku enda voru þeir fulltrúar heimsveldis sem hugðist ná valdi yfir frumbyggjunum undir yfirskini kristni og framfara og létu greipar sópa um auðlindir hennar.

Stríðsmaðurinn Okonkwo er karlmenni mikið sem hefur með ærinni fyrirhöfn komist til metorða meðal ættbálksins. Hann á þrjár eiginkonur, góðan forða af mjölrótum og mikla belgi pálmavíns. Í huga hans er heimurinn heill og óbreytanlegur. En honum verður á að brjóta slysalega gegn reglum ættbálksins og er gerður brottrækur. Að sjö árum liðnum snýr hann aftur í þorpið sitt en þá er allt breytt. Hvítu mennirnir eru komnir á vettvang og hafa öll völd. Þeir hafa byggt kirkju, komið verslun á fót og m.a.s. reist dómshús þar sem sýslumaður skipar hrokafullum réttarþjónum sínum fyrir og hegnir innfæddum fyrir minnstu yfirsjónir.

„Hvíti maðurinn er mjög snjall. Hann kom hljóðlega og friðsamlega með sína trú. Við hentum gaman að kjánaskap hans og leyfðum honum að vera. Nú er hann búinn að vinna bræður okkar á sitt band og ættflokkurinn getur ekki lengur staðið saman. Hann bar hníf að því sem sameinaði okkur og við erum sundraðir“ (213).

Öllu hefur farið aftur í þorpinu í fjarverunni og Okonkwo þarf að taka til sinna ráða. En hvers má hann sín gegn ofureflinu? Örlög hans ráðast af því að hann breytist ekki, aðlagast ekki og efast aldrei, í rauninni er hann í augum vestræns bókmenntagagnrýnanda alveg fáránlega þver og bældur; eins konar Svartur í Sumarhúsum. Og sögulokin eru í þeim anda, í senn bæði tragísk og algerlega snilldarleg.

Tungumálið er eitt af mörgu sem gerir þessa sögu eftirminnilega. Hún er skrifuð á ensku, tungu kúgarans, en er samt „vopn gegn vestrænni hlutdrægni“ eins og segir í eftirmála Maríu Ránar Guðjónsdóttur (253). Þýðing Elísu Bjargar er algjörlega trú tærum og kímnum, eiginlega íronískum stíl frumtextans. Víða koma fyrir afrísk orð og heiti sem enskan nær ekki yfir og eru óþýdd en aftast í bókinni er orðalisti með þýðingum þeirra. Framandi orðin, speki öldunganna, myndrænir málshættir ásamt þjóðsögunum sem þrælandi konurnar þekkja og segja, skapa skemmtilegan, seiðandi brag. Sögusviðið verður svo skýrt og raunverulegt að lesandinn hlammar sér hiklaust inn í obi og er farinn að kjamsa á fúfú áður en hann veit af. Þýðanda er ávallt vandi á höndum að gera framandi menningarheim aðgengilegan lesendum en ekkert bendir til þess að hann tilheyri ekki menningu frumtextans, svo vel er þýðingin af hendi leyst.

Siðir innfæddra sem hafa verið við lýði kynslóð fram af kynslóð eru ekki allir röklegir eða fallegir og langt frá því að vera göfgaðir í sögunni heldur er talað um þá af virðingu og fordómaleysi. Konur í þorpinu þurfa að þola margvíslegt misrétti og ofbeldi, ungum drengjum er fórnað og börn eru borin út. Hinir fátæku, ættsmáu og útskúfuðu innan ættbálksins sjá fljótlega tækifæri í að ganga til liðs við guð hvíta mannins og öðlast nýja framtíðarmöguleika. Kyrrstætt og lagskipt samfélag sem byggir á feðraveldi, helgisiðum töfraanda og afrekum hraustra stríðsmanna riðar til falls.

Allt sundrast er margræðari lesning en hún virðist vera við fyrstu sýn enda svart og hvítt, rétt og rangt, heilt og sundrað ekki eins einfaldar andstæður og ætla mætti.

Angústúra, 2018.
Birt í Kvennablaðinu, 14. maí 2018

Jólamatur

„Allir hlökkuðu til jólanna í þá daga. Á jólunum var vel skammtað þar, sem góð björg var í búi. Hver karlmaður fékk hálfan reyktan bringukoll og stóran magran hangikjötsbita, síðubita, sperðil og sneið af reyktum lundabagga, hálfan magál, pottbrauðssneið, smjör, hangikjötsflot og fjórar laufabrauðskökur.

Konur fengu sams konar mat, en allt að helmingi minna en karlmaðurinn“ (39).

Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason. Elínborg Lárusdóttir