þýðing

Ung og reið kona sem liggur mikið á hjarta

C3hPYFtWYAElxK8

Homo Sapína, grænlensk bók um ástir lesbía og homma, er ekki alveg það sem er í öllum bókahillum á sárfínum menningarheimilum (frekar en hinsegin bókmenntir almennt ef út í það er farið). Höfundurinn er Niviaq Korneliussen, fædd 1990, og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015 fyrir þessa bók, svei mér þá ef hún er ekki með yngstu kandidötum. Hún situr sjálf fyrir á bókarkápu, nakin að borða banana og lætur sér fátt um finnast. Bókin fjallar um fimm unga Grænlendinga í Nuuk, krísur þeirra og kynusla, ástina og tilvistarvandann. Ögrandi efni, bókarkápan er storkandi og titillinn bæði kaldhæðinn og femínískur; „sapína“ snýr hressilega upp á „sapiens“, hið hefðbundna tegundarheiti manneskjunnar í tvíhyggjulegu og merkimiðuðu regluveldi hins vestræna heims, enda er hægt að vera manneskja á svo margan hátt.

Líf fimmmenninganna fléttast saman á ýmsa vegu enda þekkjast allir í bænum, allir eru einmana og leita að ástinni sem er ansi snúið í fordómafullu samfélagi þar sem orðið „losti“ er ekki einu sinni til. Sjónarhornið er hjá einni persónu í hverjum kafla.  Fyrst hjá Fíu sem er hundóánægð með manni sínum og uppgötvar lesbískar hneigðir sínar þegar hún kynnist Söru; dæmigerð frásögn um að koma út úr skápnum og sætta sig við kynhneigð sína. Inuk er bróðir Fíu, hommi sem er útskúfað úr samfélaginu á Grænlandi, á milli systkinanna fara innileg bréf. Arnaq var misnotuð af föður sínum, hún tollir hvergi í vinnu eða námi en deyfir sig með kynlífi, áfengi og dópi og stefnir rakleiðis til helvítis. Ivik er kona í karlmannslíkama, hún hefur viðbjóð á líkama sínum og höndlar ekki ástina, hún býr með Söru hinni fögru sem berst við niðurrifshugsanir og þunglyndi en er í lokin viðstödd fæðingu systurdóttur sinnar og fær við það trú á lífið. Í lokin leikur Sara grænlenska tónlist á gítar, laus við hömlur og allt sem hefur íþyngt henni og ástin blómstrar.

Um leið og hver persóna fær sitt svið eða sinn kafla, á hún líka sitt lag sem kaflinn heitir eftir og hún vitnar stöðugt í, lagið túlkar hennar karakter og tengir við veröld afþreyingar og internets. Viðfangsefni sögunnar er ekki bara átök og þroski hverrar persónu fyrir sig heldur rambar samfélagið á barmi glötunar og krísur um kynvitund og þjóðerni bæta ekki úr skák. Inuk (nafnið merkir sá sem er Inúíti) er sú persóna sem helst tekst á við samfélag sitt og sjálfsmynd en í bréfum sínum til Fíu er hann uppfullur af hommahatri, skilgreinir í örvæntingu staðalmyndina af dæmigerðum Grænlendingi og lýsir sömuleiðis kreppunni eða komplexunum sem felast í því að vera eiginlega hvorki Grænlendingur né Dani. „All I want is to be home“ segir í einkennislagi hans með Foo Fighters.

Textinn er að mestu talmál, óheflaður, brotakenndur og úr ýmsum áttum; bréf og dagbækur, sms, ljóðlínur, lagatextar, myllumerki og frasar á ensku sem er væntanlega að verða handhægt tungumál unga fólksins á Grænlandi, rétt eins og hér. Skilaboð sem sett eru upp með farsímaútliti færa lesanda nær persónunum sem þannig sogast oní þeirra einkamál en hversu langlíf slík ritlist er má einu gilda því það er núið og samtíminn sem eru undir í þessu verki. Korneliussen er auðvitað tvítyngd og þýddi bók sína sjálf úr grænlensku yfir á dönsku og er þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur á íslensku hin rennilegasta. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þýðingin sé hallari undir ritmál en frumtextinn, finnst eins og stundum örli á því.

Í frásagnarhætti og stíl Homo Sapína felst djörf formtilraun, eða kannski öllu heldur (ungæðisleg) kærulaus afstaða til forms, og bæði tónlistin sem vísað er til og tengist hverri persónu sérstaklega og grófkornóttar ljósmyndirnar hjálpa til við að birta alla þá skömm, þrá og bælingu sem knýja persónurnar áfram. Ljósmyndirnar hafa eitthvað alveg sérstakt við sig, það er þessi hráa nekt og loðni sígarettureykur, eins konar Ástu Sig svipur á þeim, sem bera með sér uppreisn og léttúð. Það er ung og reið kona sem heldur utan um þræði sögunnar og henni liggur mikið á hjarta.

Heyrum að lokum Korneliussen lesa upp úr bókinni stutt brot, fyrst hina hefðbundnu skilgreiningu á Grænlendingi sem stoltur elskar sitt fagra land og virðir forfeður sína og síðan hvað þýðir í raunveruleikanum að vera Grænlendingur; að vera misnotaður, fullur og reiður og beita ofbeldi.

„Vort ævagamla land, hypjaðu þig til fjalls og komdu aldrei aftur. Hættu að taka þig svona sjúklega alvarlega og taktu öll skitnu börnin þín með þér.

/Greenlander by force“ (56).

Upplestur: https://politiken.dk/kultur/boger/skonlitteratur_boger/art5553459/Romandebutant-fort%C3%A6ller-modigt-om-at-finde-sig-selv-seksuelt-i-Nuuk

Víðsjá, 29. júní 2018

Svartur í Sumarhúsum

Chinua-Achebe

Chinua Achebe (1930-2013)           Mynd: Paris Review

Skáldsagan Allt sundrast (Things fall apart) eftir nígeríska rithöfundinn Chinu Achebe  er komin út á íslensku í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Bókin kom fyrst út 1958 og er fyrsta skáldsaga þarlend um nýlenduvæðingu Afríku sem skrifuð er af innfæddum. Áður höfðu lærðir yfirstéttarmenn í Evrópu skrifað um það sem fyrir bar í framandi heimsálfum en náðu aldrei að fanga blæbrigði og margræðni sögu, menningar og samfélags Afríku enda voru þeir fulltrúar heimsveldis sem hugðist ná valdi yfir frumbyggjunum undir yfirskini kristni og framfara og létu greipar sópa um auðlindir hennar.

Stríðsmaðurinn Okonkwo er karlmenni mikið sem hefur með ærinni fyrirhöfn komist til metorða meðal ættbálksins. Hann á þrjár eiginkonur, góðan forða af mjölrótum og mikla belgi pálmavíns. Í huga hans er heimurinn heill og óbreytanlegur. En honum verður á að brjóta slysalega gegn reglum ættbálksins og er gerður brottrækur. Að sjö árum liðnum snýr hann aftur í þorpið sitt en þá er allt breytt. Hvítu mennirnir eru komnir á vettvang og hafa öll völd. Þeir hafa byggt kirkju, komið verslun á fót og m.a.s. reist dómshús þar sem sýslumaður skipar hrokafullum réttarþjónum sínum fyrir og hegnir innfæddum fyrir minnstu yfirsjónir.

„Hvíti maðurinn er mjög snjall. Hann kom hljóðlega og friðsamlega með sína trú. Við hentum gaman að kjánaskap hans og leyfðum honum að vera. Nú er hann búinn að vinna bræður okkar á sitt band og ættflokkurinn getur ekki lengur staðið saman. Hann bar hníf að því sem sameinaði okkur og við erum sundraðir“ (213).

Öllu hefur farið aftur í þorpinu í fjarverunni og Okonkwo þarf að taka til sinna ráða. En hvers má hann sín gegn ofureflinu? Örlög hans ráðast af því að hann breytist ekki, aðlagast ekki og efast aldrei, í rauninni er hann í augum vestræns bókmenntagagnrýnanda alveg fáránlega þver og bældur; eins konar Svartur í Sumarhúsum. Og sögulokin eru í þeim anda, í senn bæði tragísk og algerlega snilldarleg.

Tungumálið er eitt af mörgu sem gerir þessa sögu eftirminnilega. Hún er skrifuð á ensku, tungu kúgarans, en er samt „vopn gegn vestrænni hlutdrægni“ eins og segir í eftirmála Maríu Ránar Guðjónsdóttur (253). Þýðing Elísu Bjargar er algjörlega trú tærum og kímnum, eiginlega íronískum stíl frumtextans. Víða koma fyrir afrísk orð og heiti sem enskan nær ekki yfir og eru óþýdd en aftast í bókinni er orðalisti með þýðingum þeirra. Framandi orðin, speki öldunganna, myndrænir málshættir ásamt þjóðsögunum sem þrælandi konurnar þekkja og segja, skapa skemmtilegan, seiðandi brag. Sögusviðið verður svo skýrt og raunverulegt að lesandinn hlammar sér hiklaust inn í obi og er farinn að kjamsa á fúfú áður en hann veit af. Þýðanda er ávallt vandi á höndum að gera framandi menningarheim aðgengilegan lesendum en ekkert bendir til þess að hann tilheyri ekki menningu frumtextans, svo vel er þýðingin af hendi leyst.

Siðir innfæddra sem hafa verið við lýði kynslóð fram af kynslóð eru ekki allir röklegir eða fallegir og langt frá því að vera göfgaðir í sögunni heldur er talað um þá af virðingu og fordómaleysi. Konur í þorpinu þurfa að þola margvíslegt misrétti og ofbeldi, ungum drengjum er fórnað og börn eru borin út. Hinir fátæku, ættsmáu og útskúfuðu innan ættbálksins sjá fljótlega tækifæri í að ganga til liðs við guð hvíta mannins og öðlast nýja framtíðarmöguleika. Kyrrstætt og lagskipt samfélag sem byggir á feðraveldi, helgisiðum töfraanda og afrekum hraustra stríðsmanna riðar til falls.

Allt sundrast er margræðari lesning en hún virðist vera við fyrstu sýn enda svart og hvítt, rétt og rangt, heilt og sundrað ekki eins einfaldar andstæður og ætla mætti.

Angústúra, 2018.
Birt í Kvennablaðinu, 14. maí 2018

Hvort

Hvort mun þeim sem loksins lúinn

lýkur göngu fótasár

hvíld í sedrushlíðum búin,

hvíld á bökkum Jökulsár?

 

Mundi þar sem ljós að landi

lyftist alda og gnýr við strönd,

eða í gröf í gulum sandi

grafa lík mitt ókunn hönd?

 

Sama er mér, því guðs hin góða

grund mun álík þar og hér

og um næturhvolfið hljóða

hvirfing stjarna yfir mér.

 

Heinrich Heine
Málfríður Einarsdóttir þýddi með liðsinni frá Ólafi Halldórssyni

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Krossgötur

Ný bók Lizu Marklund um blaðakonuna þrautseigu og snjöllu, Anniku Bengtson, heitir á frummáli Du gamla, du fria sem er þýtt sem Krossgötur. Í sögunni er manninum hennar rænt og haldið í gíslingu í myrkviðum Afríku upp á líf og dauða. Sjónarhornið er til skiptis hjá henni og honum og eru kaflarnir sem gerast í gíslingunni gríðarlega spennandi. Sálarstríð og björgunaraðgerðir Anniku er ekki eins spennandi, þar er lopinn teygður með senum eins og „hún pissaði og burstaði í sér tennurnar…“ þar til maður fær alveg nóg. Endirinn er óvæntur og sýnir alveg nýja hlið á þeim hjónum en ég var þeirri stundu fegnust þegar ég lauk við bókina. Ofbeldið er gríðarlegt og spennan oft óbærileg en frásögnin er langdregin og lágreist og þýðingin er víða ansi kæruleysisleg. Í bókinni kemur vel fram snörp ádeila á okkur Vesturlandabúa sem hugsum bara um okkur sjálf og skeytum engu um örlög meðbræða okkar í öðrum heimsálfum. Við stuðlum að vopnasölu, barnaþrælkun og blóðdemantasölu og hirðum arðinn af viðskiptunum til að geta búið enn betur um okkur og makað krókinn. Vondu Vesturlönd.