Elísa Björg Þorsteinsdóttir

Svartur í Sumarhúsum

Chinua-Achebe

Chinua Achebe (1930-2013)           Mynd: Paris Review

Skáldsagan Allt sundrast (Things fall apart) eftir nígeríska rithöfundinn Chinu Achebe  er komin út á íslensku í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Bókin kom fyrst út 1958 og er fyrsta skáldsaga þarlend um nýlenduvæðingu Afríku sem skrifuð er af innfæddum. Áður höfðu lærðir yfirstéttarmenn í Evrópu skrifað um það sem fyrir bar í framandi heimsálfum en náðu aldrei að fanga blæbrigði og margræðni sögu, menningar og samfélags Afríku enda voru þeir fulltrúar heimsveldis sem hugðist ná valdi yfir frumbyggjunum undir yfirskini kristni og framfara og létu greipar sópa um auðlindir hennar.

Stríðsmaðurinn Okonkwo er karlmenni mikið sem hefur með ærinni fyrirhöfn komist til metorða meðal ættbálksins. Hann á þrjár eiginkonur, góðan forða af mjölrótum og mikla belgi pálmavíns. Í huga hans er heimurinn heill og óbreytanlegur. En honum verður á að brjóta slysalega gegn reglum ættbálksins og er gerður brottrækur. Að sjö árum liðnum snýr hann aftur í þorpið sitt en þá er allt breytt. Hvítu mennirnir eru komnir á vettvang og hafa öll völd. Þeir hafa byggt kirkju, komið verslun á fót og m.a.s. reist dómshús þar sem sýslumaður skipar hrokafullum réttarþjónum sínum fyrir og hegnir innfæddum fyrir minnstu yfirsjónir.

„Hvíti maðurinn er mjög snjall. Hann kom hljóðlega og friðsamlega með sína trú. Við hentum gaman að kjánaskap hans og leyfðum honum að vera. Nú er hann búinn að vinna bræður okkar á sitt band og ættflokkurinn getur ekki lengur staðið saman. Hann bar hníf að því sem sameinaði okkur og við erum sundraðir“ (213).

Öllu hefur farið aftur í þorpinu í fjarverunni og Okonkwo þarf að taka til sinna ráða. En hvers má hann sín gegn ofureflinu? Örlög hans ráðast af því að hann breytist ekki, aðlagast ekki og efast aldrei, í rauninni er hann í augum vestræns bókmenntagagnrýnanda alveg fáránlega þver og bældur; eins konar Svartur í Sumarhúsum. Og sögulokin eru í þeim anda, í senn bæði tragísk og algerlega snilldarleg.

Tungumálið er eitt af mörgu sem gerir þessa sögu eftirminnilega. Hún er skrifuð á ensku, tungu kúgarans, en er samt „vopn gegn vestrænni hlutdrægni“ eins og segir í eftirmála Maríu Ránar Guðjónsdóttur (253). Þýðing Elísu Bjargar er algjörlega trú tærum og kímnum, eiginlega íronískum stíl frumtextans. Víða koma fyrir afrísk orð og heiti sem enskan nær ekki yfir og eru óþýdd en aftast í bókinni er orðalisti með þýðingum þeirra. Framandi orðin, speki öldunganna, myndrænir málshættir ásamt þjóðsögunum sem þrælandi konurnar þekkja og segja, skapa skemmtilegan, seiðandi brag. Sögusviðið verður svo skýrt og raunverulegt að lesandinn hlammar sér hiklaust inn í obi og er farinn að kjamsa á fúfú áður en hann veit af. Þýðanda er ávallt vandi á höndum að gera framandi menningarheim aðgengilegan lesendum en ekkert bendir til þess að hann tilheyri ekki menningu frumtextans, svo vel er þýðingin af hendi leyst.

Siðir innfæddra sem hafa verið við lýði kynslóð fram af kynslóð eru ekki allir röklegir eða fallegir og langt frá því að vera göfgaðir í sögunni heldur er talað um þá af virðingu og fordómaleysi. Konur í þorpinu þurfa að þola margvíslegt misrétti og ofbeldi, ungum drengjum er fórnað og börn eru borin út. Hinir fátæku, ættsmáu og útskúfuðu innan ættbálksins sjá fljótlega tækifæri í að ganga til liðs við guð hvíta mannins og öðlast nýja framtíðarmöguleika. Kyrrstætt og lagskipt samfélag sem byggir á feðraveldi, helgisiðum töfraanda og afrekum hraustra stríðsmanna riðar til falls.

Allt sundrast er margræðari lesning en hún virðist vera við fyrstu sýn enda svart og hvítt, rétt og rangt, heilt og sundrað ekki eins einfaldar andstæður og ætla mætti.

Angústúra, 2018.
Birt í Kvennablaðinu, 14. maí 2018

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu