Ferskeytla

Meira ort um Óttar Einarsson

Óttar EinarssonÚr Bændablaðinu 21. febrúar

Þann 7. febrúar sl. lést í Hafnarfirði Óttar Einarsson skólastjóri og rithöfundur, einn ástsælasti hagyrðingur sinnar kynslóðar. Margar af vísum Óttars urðu landfleygar fyrir léttleika sakir og fágætrar kímni sem einkenndi hans eðlisgerð. Vísnahefðin var honum í blóð borin en eins og margir þekkja var Óttar sonur Einars Kristjánssonar frá Hermundarfelli, hins þekkta útvarpsmanns og vísnaskálds, og Guðrúnar Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði. Það er því afar viðeigandi að birta lesendum minningarljóð sem Jóhannes Sigfússon bóndi á Gunnarsstöðum orti frænda sínum og vini við hin döpru þáttaskil:

 

Árin stöðugt æða hjá,

eflist tímans hvinur.

Nú er Óttar fallinn frá

frændi minn og vinur.

 

Góður drengur genginn er

og gegn í alla staði.

Finnst mér verði að fylgja þér

ferskeytla úr hlaði.

 

Hennar bjarta stuðla stál

stöðugt þjóðin metur.

Ekki hafa íslenskt mál

aðrir rímað betur.

 

Ræktarsemi öll þín ár,

afar mikils virði.

Á grávíðinum glitra tár

í gamla Þistilfirði.

 

Ég átti fágæt bréfaskipti við Óttar á sl. vetri, sem verða sínu dýrmætari þegar hans nýtur ekki lengur við:

Höndin þó sé hætt að skrifa

háttum bundna stuðlagrein,

vísur þínar lengi lifa

og lýsa upp þinn bautastein.

 

Vísur Óttars einkenndust margar af óvanalegri kímni, og skopaðist hann oft að eigin viti og verðleikum:

Að sumu leyti Óttar er

afar klár og slyngur.

Annars bara eins og hver

annar vitleysingur.

 

Frá skólastjóraárum Óttars við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal lifa ótal vísur og bragir.

Hver man ekki erindið sem hann samdi við lagboðann „Love me tender“:

 

Dalvíkin er draumablá

og dýrðleg til að sjá.

Ofar stendur Upsafjall

eins og gamall kall.

:Sólin skín á stein og stekk

og stúlku í fyrsta bekk.

 

Brageyrað sagðist Óttar hafa úr föðurættinni, en glaðværðina frámóður sinni.

Þessum einkennum hélt Óttar til hinsta dags þrátt fyrir erfið veikindi:

 

Óttar vantar aðeins hlíf,

axlar þunga byrði.

Yrkir sig í sátt við líf

sem er einskis virði.

 

Vín er ekkert voða gott,

varla tóbak heldur.

Að vera edrú finnst mér flott

og fínt að vera geldur.

 

Umsjón:

Árni Geirhjörtur Jónsson

kotabyggd1@gmail.com