Þistilfjörður

Amma á Akureyri

19732250_10209688463550208_4169520249553070341_n

Amma mín á Akureyri, Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti (1917-2017) var einstök kona. Lágvaxin, fíngerð og falleg, léttlynd og glaðvær og hló smitandi hlátri. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og listum og það var alltaf mikið fjör á heimili hennar og afa, ekki síst þegar gripið var í píanóið og harmónikkuna. Heimili þeirra afa og ömmu var fallegt og nýtískulegt, þar var afar gestkvæmt og allir velkomnir.

Lífið var henni mótdrægt að mörgu leyti. Dóttir hennar, Hildigunnur, lést langt um aldur fram frá þremur litlum börnum, yngsti sonurinn og augasteinn allra, Einar Kristján, lést 46 ára. Óttar, faðir minn, lést 2013 og en þá var amma orðin fótsár af ævinnar eyðimörk.

Þegar amma fór á elliheimili opnaði hún dyr að heimili sínu og bað afkomendur að taka það af hennar góssi og nota sem þeim líkaði því hún þyrfti það ekki lengur. Það lýsir vel höfðingsskap hennar, nýtni og nægjusemi.

Amma var friðarsinni og jafnaðarmaður, örlát og hlý og tróð engum um tær. Vandvirk og vönd að virðingu sinni, smekkleg og kurteis. Mikið má af henni læra um lífsviðhorf, fallega framkomu, húmor og styrk í mótlæti. Þau pabbi voru bestu vinir enda lík um svo margt. Elsku amma er hvíldinni fegin, hún er afkomendum sínum falleg og góð fyrirmynd; minning hennar mun lifa lengi í hjörtum þeirra.

Minning að heiman. Fótbolti í Þistilfirði fyrir 70 árum

460-bobby-charlton-with-some-young-fans-in-the-backyard-of-his-home-on-beatrice-street-ashington-211079184-4344964

Bobby Charlton og aðdáendur  (ljósm. Iyi Orta Gol Getirir)

Hátíðarræða Sigmars Ó. Maríussonar

á vetrarfagnaði Átthagafélags Þórshafnar, 22. október 2016

„Ég ætla að segja frá harðsnúnu fótboltaliði í Þistilfirði. Það einkenndist af miklum áhuga og var íþróttin stunduð í frímínútum og eftir skóla á daginn. Nú heyrist mikið um þetta í fjölmiðlum og miklar peningafúlgur í sambandi við þennan merkilega leik. Hjá okkur var þessu öfugt farið, það var ekki króna í spilinu og liðum við nokkuð af þeim sökum.

Við fengum gamlan bolta hjá Ungmennafélaginu sem hafði munað sinn fífil fegri og var hann oftast sprunginn, en þá þurfti taka úr honum blöðruna og líma á hana bætur. Aðalviðgerðameistarinn var Viggi á Álandi, hann var snemma laginn í höndunum.

Nú er að nefna völlinn sjálfan. Það var tún Eggerts í Dal en þar var skólinn um þessar mundir, en þetta var farskóli í þá daga eins og margir vita sem eldri eru. Mörkin voru tvær og tvær hrossataðshrúgur og stærð vallar ekki í samræmi við alþjóðareglur, sem sagt engin stöng og engin þverslá. Þetta var frjálslegur og skemmtilegur leikur og stundum var bara notað eitt mark og gekk þá allt hraðara fyrir sig – og mætti vel athuga það í dag. Ég var 9 ára þennan vetur og ekki byrjaður í skóla en fékk að vera með, en skólaskylda þá var frá 10 ára aldri. Vigfús á Syðra-Álandi var aðaldriffjöðrin – hann prjónaði á okkur svokallaðar hárkollur, það var 2-3 cm breitt hand um höfuðið og kross yfir og var þetta alveg ómissandi í boltanum en geymt í vasanum í kennslustundum. Þeir yngri voru enn á stuttbuxnaskeiðinu en þeir sem komnir voru undir fermingu komnir í síðbuxur sem var mikið upphefð. Allir voru á gúmmískóm eða stígvélum í boltanum.

Leikmenn voru: Holli á Fjallaseli, hann var léttur á sér og hljóp hratt. Kobbi á Brekknakoti sem var hávær og skemmtilegur. Bragi í Dal, flinkur leikmaður. Hjalti í Flögu, harðfylginn. Bói á Svalbarði (Vilhjálmur Þorláksson) hljóp hægt en var ómissandi í marki. Maddi í Hvammi, langur og mjór og hraðskreiður. Allir voru dómarar og hrópaði hver upp í annan: Mál – mál! Þá var ekki sagt mark, heldur mál.

Af öllu þessu hnjaski hnignaði aumingja boltanum mjög og þar kom að ekki var hægt að líma blöðruna lengur. Var þá tekið til þess ráðs að troða boltann upp með heyi, og var hann ekki eins skemmtilegur eftir það. Þar kom svo að lokum að yfirleðrið var komið í hengla og fór þá að dofna yfir íþróttinni. Þá datt einhverjum í hug notast mætti við selshaus sem lá í reiðuleysi. Reyndist hann frekar illa, fékk fljótt glóðarauga og sprungna vör og ekki notalegt að skalla hann, enda flaug hann ekki hátt, eðli sínu samkvæmt.

Eftir þetta var farið í feluleik, sem alltaf var jafnspennandi, sérstaklega eftir að rökkva tók, og fleiri leiki, svo sem Fallin spýta og Yfir.

Sumir þessara góðu vina sem ég nefndi eru nú farnir á vit feðra sinna og ekki er mér kunnugt um að þeir hafi náð nokkrum frama í boltaíþróttinni. En vel og fallega var farið af stað.“

 


 

„Flugmarkálkurinn okkar, Aðalbjörn Arngrímsson, sem hjálpaði almættinu að gera þennan ágæta Sauðanesflugvöll sem reyndist vel, var fórnfús í starfi og faðir flugvallarins og frumkvöðull í að fá rafmagn í byggðarlagið og seinna sjónvarp og fleira mætti nefna. Hann var stundum í gamla daga kallaður Ljósapabbi, sem er heiðursnafn.

Ekki held ég að launin hafi alltaf verið há þegar hann var í þessum útréttingum fyrir sitt byggðarlag og starf hans fyrir flugfélagið meira og minna sjálfboðavinna.

Kunnugleg var röddin þegar Douglasinn var að koma frá Akureyri og farinn að nálgast. Þá greip hann míkrófóninn, búinn að senda einhvern ungan mann út að vindmæla: „Faxi – Alfreð, Faxi – Alfreð, Þórshöfn Radíó kallar, Faxi – Alfreð, Faxi – Alfreð, Þórshöfn Radíó.“

Áberandi var að þessi velunnari okkar vildi að allir ferðuðust á sem hagkvæmastan máta. Og því var það eitt sinn að hann sendi frá sér fulla vél til Akureyrar sem oftar. Eftir hæfilegan tíma er hringt til hans og ókunnugleg karlmannsrödd segir: „Það var að koma frá þér vél, Aðalbjörn, og ein miðaldra frú, Ólöf Jóhannsdóttir (Lóa Dodda) er á barnafargjaldi. Hvernig víkur því við?“ Ekki stóð á svarinu: „Hún er svo mögur, vesalingurinn.“

Meira ort um Óttar Einarsson

Óttar EinarssonÚr Bændablaðinu 21. febrúar

Þann 7. febrúar sl. lést í Hafnarfirði Óttar Einarsson skólastjóri og rithöfundur, einn ástsælasti hagyrðingur sinnar kynslóðar. Margar af vísum Óttars urðu landfleygar fyrir léttleika sakir og fágætrar kímni sem einkenndi hans eðlisgerð. Vísnahefðin var honum í blóð borin en eins og margir þekkja var Óttar sonur Einars Kristjánssonar frá Hermundarfelli, hins þekkta útvarpsmanns og vísnaskálds, og Guðrúnar Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði. Það er því afar viðeigandi að birta lesendum minningarljóð sem Jóhannes Sigfússon bóndi á Gunnarsstöðum orti frænda sínum og vini við hin döpru þáttaskil:

 

Árin stöðugt æða hjá,

eflist tímans hvinur.

Nú er Óttar fallinn frá

frændi minn og vinur.

 

Góður drengur genginn er

og gegn í alla staði.

Finnst mér verði að fylgja þér

ferskeytla úr hlaði.

 

Hennar bjarta stuðla stál

stöðugt þjóðin metur.

Ekki hafa íslenskt mál

aðrir rímað betur.

 

Ræktarsemi öll þín ár,

afar mikils virði.

Á grávíðinum glitra tár

í gamla Þistilfirði.

 

Ég átti fágæt bréfaskipti við Óttar á sl. vetri, sem verða sínu dýrmætari þegar hans nýtur ekki lengur við:

Höndin þó sé hætt að skrifa

háttum bundna stuðlagrein,

vísur þínar lengi lifa

og lýsa upp þinn bautastein.

 

Vísur Óttars einkenndust margar af óvanalegri kímni, og skopaðist hann oft að eigin viti og verðleikum:

Að sumu leyti Óttar er

afar klár og slyngur.

Annars bara eins og hver

annar vitleysingur.

 

Frá skólastjóraárum Óttars við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal lifa ótal vísur og bragir.

Hver man ekki erindið sem hann samdi við lagboðann „Love me tender“:

 

Dalvíkin er draumablá

og dýrðleg til að sjá.

Ofar stendur Upsafjall

eins og gamall kall.

:Sólin skín á stein og stekk

og stúlku í fyrsta bekk.

 

Brageyrað sagðist Óttar hafa úr föðurættinni, en glaðværðina frámóður sinni.

Þessum einkennum hélt Óttar til hinsta dags þrátt fyrir erfið veikindi:

 

Óttar vantar aðeins hlíf,

axlar þunga byrði.

Yrkir sig í sátt við líf

sem er einskis virði.

 

Vín er ekkert voða gott,

varla tóbak heldur.

Að vera edrú finnst mér flott

og fínt að vera geldur.

 

Umsjón:

Árni Geirhjörtur Jónsson

kotabyggd1@gmail.com