Jón Ólafsson úr Grunnavík

Árni Magnússon

Eigi að lýsa útliti hans, þá var hann með stærstu og hæstu meðalmönnum, holdugur og þrekinn en hafði nettar og smáar hendur. Samsvaraði sér vel í andliti, var jafnleitur, bar með sér persónuleika fyrirmanns, sem er yfir aðra settur. Hann var svartur á hár, skegg og augabrýr, lét krúnuraka hvirfilinn. Var nokkuð langleitur í andliti, fulllur að vöngum, hvítleitur, ekki bleikfölur (…). Augun voru venjuleg og blá, hvorki svört, gul eða grá, og voru líkt og nokkuð kyrrstæð, augnaráðið stillt og óhvikult. Þó var líkt og hann hefði einhver skugga yfir augu og augabrúnum, eitthvað sem gefur í skyn að leyndarmál liggi á hjarta. Nefið var nánast beint og munnurinn venjulegur, að öllu samanlögðu var allt andlitið fullkomið og hver líkamshluti í samræmi við annan. Og svipurinn sýndi stöðuglyndi, alvörugefni og íhygli, það er að segja, andlit hans hæfði og sýndi lærðan og atkvæðamikinn mann. Hann var ekki fljótmæltur, hafði áhersluþunga líkt og hann vildi festa allt sem hann sagði í hug viðmælanda síns. Hann var nokkuð hægur í hreyfingum og augnatilliti en öruggur og einnig hafði hann ákveðið og fast göngulag. Allur líkami hans var gildur, þykkur og karlmannlegur. Að öllu samanlögðu var maðurinn jafn traustur að útliti sem innræti og bar þess sýnilegan vott.

Ævisögur ypparlegra merkismanna eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík

Hagir kvenna á 18. og 19. öld

Það var troðið út úr dyrum hjá Félagi um 18. aldar fræði í gær. Á málþingi voru  fjögur erindi um hagi kvenna á 18. og 19. öld. Fyrsta erindið flutti Guðný Hallgrímsdóttir um kokkapíuna Guðbjörgu Ketilsdóttur sem átti í ástarsamböndum við ríka kaupmenn á Akureyri og víðar. Hún er systir Guðrúnar sem líklega skrifaði fyrstu sjálfsævisögu íslenskra kvenna og Guðný hefur fjallað um, sjá hér. Þá sagði Eggert Þór Bernharðsson frá dæmdum konum í Natansmálum en það er eitt svæsnasta morðmál sögunnar. Margrét Gunnarsdóttir lýsti æruverðugri hófsemi heldri kvenna á þessum tímum. Handiðnir þóttu til vitnis um dyggðasamt líferni og nefndi hún m.a. þá Magnús Stephensen ogTómas Sæmundsson í því samhengi en hvorugur var þó þekktur fyrir bróderingar. Þá sýndi Margrét skemmtilegar myndir af prússneskum fyrirmyndarfjölskyldum og af hannyrðum Ingibjargar Einarsdóttur, konu Jóns Sigurðssonar. Skemmtilegasta og skáldlegasta erindið flutti Ragnhildur Bragadóttir,  „Sigurlaug, ástkona auðmanns“. Þar fjallaði hún með lifandi sviðsetningum á gullaldarmáli með leiftrandi húmor um stöðu vinnukvenna á þessum tímum og velti m.a. upp þeirri spurningu hvort konur hafi verið undirokaðar, kúgaðar og ófrjálsar manneskjur. Voru þær nauðugar hjásvæfur? Gátu þær ráðið örlögum sínum, valið sér verndara í líki elskhuga? Notfært sér fegurð sína, kynþokka  og greind til að lifa af í harðneskjulegu karlasamfélagi þannig að líf þeirra yrði bærilegt, jafnvel gott? Það gerði Sigurlaug Sæmundsdóttir (1810-1901) sem var ástkona Kristjáns Jónssonar (1799-1866)  landsþekkts og vellauðugs óðalsbónda norðanlands. Saman áttu þau börn þótt bæði væru gift og samband þeirra stóð í 20 ár. Nánar má lesa um þetta allt saman á Vefni, vefriti félagsins, vonandi fljótlega.

Félag um 18. aldar fræði verður 20 ára á þessu ári. Ég var á stofnfundi félagsins sællar minningar og sat í stjórn þessu fyrstu árin, m.a. með Matthíasi Viðari Sæmundssyni, Inga Sigurðssyni og téðri Ragnhildi Bragadóttur. Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími fyrir fáfróðan MA-nema. Ég mun sökkva mér frekar í fortíðina á næstu vikum því í fundarhléinu keypti ég mér bók eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík, Ævisögur ypparlegra merkismanna, sem ég hlakka mikið til að lesa.