Ævisögur

Grúsk vikunnar

Photo389127

„Það hefur farið með versta móti um hjartað í mér undanfarið. Það hefur lamist lengi, og upp á síðkastið hefur verið þröngt um það í brjóstinu eins og brjóstið og hjartað eigi ekki saman lengur. Eitthvað er sem þrengir að rifjunum og í sambandi við þetta gína mér kolsvört leiðindi og hræðsla í allar áttir, stundum svo að mér verður flökurt. Nú er tími til að byrja á bókinni um píslirnar. Engin lifandi sál nærri, að heitið geti, fegurð heimsins fjarri mér, nema einhver ögn af fegurð himinsins. Það sem ég hef fyrir augum eru veggirnir, rúmin, konurnar í rúmunum, fólkið sem hefur þann leiðindastarfa með höndum að stjana við okkur, rytjulegir fuglar sem tína í sig mola af hvítabrauði til að gera sig heilsulausa, grimmilegir sjófuglar að hakka í sig kryddað ket og þykir vont, skima í kringum sig við hvern bita til að forða því að frá þeim verði hrifsað, ljótir veggir, ljót þök og afarljótur strompur, rytjulegar jurtir að deyja í leirkerum sínum. Samt er jörðin full af auði og allsnægtum, og jörðin er góð, vindar hennar og birta og fjöldamargt annað, og líklega einhverjar sálir til einhverstaðar, þó að þær séu vandfundnar og hittist helst í bókum –“.

Málfríður Einarsdóttir

1899-1983

Árni Magnússon

Eigi að lýsa útliti hans, þá var hann með stærstu og hæstu meðalmönnum, holdugur og þrekinn en hafði nettar og smáar hendur. Samsvaraði sér vel í andliti, var jafnleitur, bar með sér persónuleika fyrirmanns, sem er yfir aðra settur. Hann var svartur á hár, skegg og augabrýr, lét krúnuraka hvirfilinn. Var nokkuð langleitur í andliti, fulllur að vöngum, hvítleitur, ekki bleikfölur (…). Augun voru venjuleg og blá, hvorki svört, gul eða grá, og voru líkt og nokkuð kyrrstæð, augnaráðið stillt og óhvikult. Þó var líkt og hann hefði einhver skugga yfir augu og augabrúnum, eitthvað sem gefur í skyn að leyndarmál liggi á hjarta. Nefið var nánast beint og munnurinn venjulegur, að öllu samanlögðu var allt andlitið fullkomið og hver líkamshluti í samræmi við annan. Og svipurinn sýndi stöðuglyndi, alvörugefni og íhygli, það er að segja, andlit hans hæfði og sýndi lærðan og atkvæðamikinn mann. Hann var ekki fljótmæltur, hafði áhersluþunga líkt og hann vildi festa allt sem hann sagði í hug viðmælanda síns. Hann var nokkuð hægur í hreyfingum og augnatilliti en öruggur og einnig hafði hann ákveðið og fast göngulag. Allur líkami hans var gildur, þykkur og karlmannlegur. Að öllu samanlögðu var maðurinn jafn traustur að útliti sem innræti og bar þess sýnilegan vott.

Ævisögur ypparlegra merkismanna eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík