Ólafur Gunnarsson

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson

MálarinnÍ Málaranum eftir Ólaf Gunnarsson er mikið drama. Davíð er listmálari, vinsæll og vel stæður en honum finnst ekki hafa fengið þá listrænu viðurkenningu sem hann á skilið. Hann er reikull í ráði, vansæll og ósjálfstæður og alltaf að bera sig saman við aðra listamenn, m.a. Kjarval og því er ekki furða að hann sé í sjálfsmyndarkreppu. Hann þarf líka að sanna sig fyrir tengdapabba sem fyrirvinna fjölskyldunnar og málar því aðallega huggulegar myndir sem seljast vel. Í örvæntingu ákveður hann að mála eina mynd í anda Kjarvals og tekst svona líka vel upp. Myndin selst á uppboði á svimandi háu verði en Davíð er í vondum málum því hann ætlaði að kaupa hana sjálfur og gefa akademíunni og snobbliðinu langt nef. Eftir því sem líður á söguna flækist hann meir og meir inn í aðstæður sem hann ræður ekkert við, Frásögnin er íronísk, hröð og spennan gríðarleg, alltaf vonast maður til að rætist úr fyrir Davíð en hann framkvæmir án þess að hugsa og gerir hvert axarskaftið á fætur öðru enda stjórnast han af annarlegum hvötum. Persónurnar eru sumar dregnar einföldum dráttum (vondir útrásarvíkingar og heildsalar, heiðarlegir iðnaðarmenn), tengdafaðirinn Benedikt  fannst mér samt hressandi og skemmtileg týpa og listamaðurinn Illugi var flottur sem djöfullega góður listamaður. Lesandi sér  tilveruna með augum Davíðs sem er eigingjarn, afbrýðissamur, bitur og þjakaður af minnimáttar- og sektarkennd og ekki vert að gleypa það hrátt sem hann sér og heyrir. Umhverfi og staðhættir sögunnar eru bráðlifandi og allt listilega úr garði gert. Í bókinni er ekki gerð tilraun til að kryfja myndlist sögutímans, 9. áratugarins, sérstaklega en stemningin svífur samt yfir vötnum og hefur lítið breyst held ég, velgengni í bransanum snýst um frumkraft, metnað og dirfsku en ekki síður um að hafa fjársterkan bakhjarl og fá góða dóma í fjölmiðlum. Það truflaði mig ekkert hvort atburðir sögunnar vísa til Hafskipsmálsins eins og það raunverulega var eður ei, atburðarásin var trúverðug og afar spennandi. Undir lokin hefur Davíð alveg tapað glórunni og sagan endar með ósköpum.  Málarinn er hörkugóður reyfari með alvarlegum undirtón og átökum upp á líf og dauða.

Meistaraverkið

Ekki er ég sérlega hrifin af Meistaraverkinu eftir Ólaf Gunnarsson. Í bókinni eru 14 smásögur. Mér finnst hreinlega eins og sögurnar hafi verið geymdar í skúffu í áratugi, allavega var í þeim afar gömul sál og gamall tími sem þarf ekki endilega að vera slæmt ef vel er með farið. En það vantar í þær allan kraft, neista, spurn, átök. Þær gerast flestar í fortíðinni og snúast um svekkta og bælda karla, kynslóðabil og ást. Kvenpersónur sagnanna eru þrúgaðar, heimskar eða vergjarnar. Sögurnar eru langdregnar, með fyrirsjáanlega ófyrirsjáanlegu skúbbi í lokin og stíllinn flatur. Þessi bók Ólafs sem annars er í uppáhaldi hjá mér er langt frá því að bera nafn með rentu.

Forlagið