Henrik Pattersson, oftast kallaður HP, er þrítugur smákrimmi í Stokkhólmi, latur, lyginn og sjálfelskur. Hann þráir heitast að ná árangri í einhverju og fá hrós og viðurkenningu, helst fyrirhafnarlaust. Á heimleið í skítuga íbúðarholu sína einn daginn finnur hann silfurlitan síma sem hann samstundis stingur á sig. Það reynist afdrifaríkt því áður en hann veit af er hann orðinn þátttakandi í hættulegum ARG-leik sem fer fram í gegnum símann. Spennufíknin heltekur hann en brátt tekur „Leikurinn“ öll völd og hann á fótum fjör að launa.
Bækur Anders de la Motte um fyrirbærið ARG (Alternative Reality Game) eru þrjár og heita [geim], [buzz] og [bubble], allt kunnugleg heiti á fyrirbærum í rafheimum. Síðasta bókin í geimtrílógíunni sem svo er nefnd kom út á Íslandi í ár hjá Vöku-Helgafelli/Forlaginu. Bækurnar hafa slegið í gegn víða um lönd en ekki fengið mikla athygli hérlendis þrátt fyrir grípandi söguþráð og aktúelt efni. Plottið snýst að stórum hluta um upplýsingaflóðið á netinu, hvernig heimsmynd fólks, ímynd þess og neysla eru mótuð og stjórnað af fjölmiðlum, valdhöfum, hagsmunaaðilum og markaðsöflum.
Nú er það svo að miklu magni af persónuupplýsingum er safnað í opinbera gagnagrunna, t.d. hjá sjúkrahúsum, skólum og bönkum, tryggingafélögum, lögreglu og skattstjóra, svo örfá dæmi séu nefnd. Net- og símanotendur leggja svo sjálfir hugsunarlaust til upplýsingar í púkkið með netvafri sínu og bæta við myndum, færslum og tístum, „lækum“ og leikjum, staðsetningum, athugasemdum og deilingum. Hægt er að kortleggja neyslumynstur, netvenjur og netnotkun hvers einasta manns í minnstu smáatriðum. Og sárafáir hafa áhyggjur af persónuvernd á netinu þótt bæði tölvu- og símanotkun auðveldi aðgengi að einkahögum og geri stöðugt eftirlit í rauninni afar auðvelt.
Ef engar hömlur eru á varðveislu og notkun netupplýsinga er hægt að kaupa þær á svimandi háu verði eða komast yfir þær með öðrum leiðum til að ná fólki á sitt vald. Stórfyrirtæki eru viljug til að greiða stjarnfræðilegar upphæðir fyrir þessi gögn og nota þau við markaðssetningu, ímyndarsköpun og skoðanamyndun, og það er einmitt það sem geimtrílógían snýst um og deilir á. Netógn eins og trjójuhestar, hakkarar og tölvuveirur, fyrir utan dróna, njósnir og eftirlitsmyndavélar og guð má vita hvað, eru alvöruógn og netglæpir eru alvöruglæpir. Þetta brýna efni fjallar de la Motte um af miklum áhuga og fagmennsku en hann vann við netöryggismál áður en hann sneri sér að ritstörfum.
„Nútímamaðurinn, sem telur sig vera svo frelsisunnandi og er svo annt um friðhelgi einkalífsins, kortleggur bæði sjálfan sig, skoðanir sínar og einkalíf af fúsum og frjálsum vilja. Ekki einu sinni Georg Orwell hefði getað séð þetta fyrir …“ [buzz], bls. 189.
HP er algjör lúði og hegðar sér oftast eins og óþekkur krakki en hann er ágætlega gefinn, fyndinn og orðheppinn. Myndmálið er skemmtilegt og orðaforðinn einkennist af slangri og stælum: „Hann átti sem sagt ekki um annað að velja en að kúldrast áfram í íbúðinni eins og einhver fucking Anna Frank“ (158). Þýðandinn, Jón Daníelsson, hefur lagt sig fram við að ná töffaraskapnum, húmornum og tæknimenningunni yfir á hressilega íslensku. Allar kaflafyrirsagnir eru á ensku og tengjast m.a. frösum úr bíómyndum, tölvuleikjum og tónlist sem gefa textanum afslappað og kæruleysislegt yfirbragð.
Það má búast við sífellt fleiri bókum og bíómyndum um net og skjámenningu í náinni framtíð enda tæknin farin að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks. Og hafðu hugfast áður en þú „lækar“ og deilir þessari grein, að „Stóri bróðir“ fylgist með þér.