Bókablogg

„Ekki einu sinni Georg Orwell hefði getað séð þetta fyrir“

Henrik Pattersson, oftast kallaður HP, er þrítugur smákrimmi í Stokkhólmi, latur, lyginn og sjálfelskur. Hann þráir heitast að ná árangri í einhverju og fá hrós og viðurkenningu, helst fyrirhafnarlaust. Á heimleið í skítuga íbúðarholu sína einn daginn finnur hann silfurlitan síma sem hann samstundis stingur á sig.  Það reynist afdrifaríkt því áður en hann veit af er hann orðinn þátttakandi í  hættulegum ARG-leik sem fer fram í gegnum símann. Spennufíknin heltekur hann en brátt tekur „Leikurinn“ öll völd og hann á fótum fjör að launa.Bubble-175x286

Bækur Anders de la Motte um fyrirbærið ARG (Alternative Reality Game) eru þrjár og heita [geim], [buzz] og [bubble], allt kunnugleg heiti á fyrirbærum í rafheimum.  Síðasta bókin í geimtrílógíunni sem svo er nefnd kom út á Íslandi í ár hjá Vöku-Helgafelli/Forlaginu. Bækurnar hafa slegið í gegn víða um lönd en ekki fengið mikla athygli hérlendis þrátt fyrir grípandi söguþráð og aktúelt efni. Plottið snýst að stórum hluta um upplýsingaflóðið á netinu, hvernig heimsmynd fólks, ímynd þess og neysla eru mótuð og stjórnað af fjölmiðlum, valdhöfum, hagsmunaaðilum og markaðsöflum.Buzz-175x286

Nú er það svo að miklu magni af persónuupplýsingum er safnað í opinbera gagnagrunna, t.d. hjá sjúkrahúsum, skólum og bönkum, tryggingafélögum, lögreglu og skattstjóra, svo örfá dæmi séu nefnd. Net- og símanotendur leggja svo sjálfir hugsunarlaust til upplýsingar í púkkið með netvafri sínu og bæta við myndum, færslum og tístum, „lækum“ og leikjum, staðsetningum, athugasemdum og deilingum. Hægt er að kortleggja neyslumynstur, netvenjur og netnotkun hvers einasta manns í minnstu smáatriðum. Og sárafáir hafa áhyggjur af persónuvernd á netinu þótt bæði tölvu- og símanotkun auðveldi aðgengi að einkahögum og geri stöðugt eftirlit í rauninni afar auðvelt.

Ef engar hömlur eru á varðveislu og notkun netupplýsinga er hægt að kaupa þær á svimandi háu verði eða komast yfir þær með öðrum leiðum til að ná fólki á sitt vald. Stórfyrirtæki eru viljug til að greiða stjarnfræðilegar upphæðir fyrir þessi gögn og nota þau við markaðssetningu, ímyndarsköpun og skoðanamyndun, og það er einmitt það sem geimtrílógían snýst um og deilir á.  Netógn eins og trjójuhestar, hakkarar og tölvuveirur, fyrir utan dróna, njósnir og eftirlitsmyndavélar og guð má vita hvað, eru alvöruógn og netglæpir eru alvöruglæpir. Þetta brýna efni fjallar de la Motte um af miklum áhuga og fagmennsku en hann vann við netöryggismál áður en hann sneri sér að ritstörfum.

geim_175

„Nútímamaðurinn, sem telur sig vera svo frelsisunnandi og er svo annt um friðhelgi einkalífsins, kortleggur bæði sjálfan sig, skoðanir sínar og einkalíf af fúsum og frjálsum vilja. Ekki einu sinni Georg Orwell hefði getað séð þetta fyrir …“ [buzz], bls. 189.

HP er algjör lúði og hegðar sér oftast eins og óþekkur krakki en hann er ágætlega gefinn, fyndinn og orðheppinn. Myndmálið er skemmtilegt og orðaforðinn einkennist af slangri og stælum: „Hann átti sem sagt ekki um annað að velja en að kúldrast áfram í íbúðinni eins og einhver fucking Anna Frank“ (158). Þýðandinn, Jón Daníelsson, hefur lagt sig fram við að ná töffaraskapnum, húmornum og tæknimenningunni yfir á hressilega íslensku. Allar kaflafyrirsagnir eru á ensku og tengjast m.a. frösum úr bíómyndum, tölvuleikjum og  tónlist sem gefa textanum afslappað og kæruleysislegt yfirbragð.

Það má búast við sífellt fleiri bókum og bíómyndum um net og skjámenningu í náinni framtíð enda tæknin farin að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks. Og hafðu hugfast áður en þú „lækar“ og deilir þessari grein, að „Stóri bróðir“ fylgist með þér.

Birt í Kvennablaðinu, 30. ágúst 2015

„Skipt um sýlinder með köldu blóði“

Mynd_0890266

Elísabet Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnan gefið bækur sínar út sjálf en nú hefur hún hlotið Fjöruverðlaun og Lesendaverðlaun DV sem er fagnaðarefni, bæði verðskuldað og tímabært.

Í nýrri ljóðabók, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014), lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa.

Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.

Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.

Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).

Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:

Kaffiskvettan

Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)

Birt í Kvennablaðinu, 29. mars 2015

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson

MálarinnÍ Málaranum eftir Ólaf Gunnarsson er mikið drama. Davíð er listmálari, vinsæll og vel stæður en honum finnst ekki hafa fengið þá listrænu viðurkenningu sem hann á skilið. Hann er reikull í ráði, vansæll og ósjálfstæður og alltaf að bera sig saman við aðra listamenn, m.a. Kjarval og því er ekki furða að hann sé í sjálfsmyndarkreppu. Hann þarf líka að sanna sig fyrir tengdapabba sem fyrirvinna fjölskyldunnar og málar því aðallega huggulegar myndir sem seljast vel. Í örvæntingu ákveður hann að mála eina mynd í anda Kjarvals og tekst svona líka vel upp. Myndin selst á uppboði á svimandi háu verði en Davíð er í vondum málum því hann ætlaði að kaupa hana sjálfur og gefa akademíunni og snobbliðinu langt nef. Eftir því sem líður á söguna flækist hann meir og meir inn í aðstæður sem hann ræður ekkert við, Frásögnin er íronísk, hröð og spennan gríðarleg, alltaf vonast maður til að rætist úr fyrir Davíð en hann framkvæmir án þess að hugsa og gerir hvert axarskaftið á fætur öðru enda stjórnast han af annarlegum hvötum. Persónurnar eru sumar dregnar einföldum dráttum (vondir útrásarvíkingar og heildsalar, heiðarlegir iðnaðarmenn), tengdafaðirinn Benedikt  fannst mér samt hressandi og skemmtileg týpa og listamaðurinn Illugi var flottur sem djöfullega góður listamaður. Lesandi sér  tilveruna með augum Davíðs sem er eigingjarn, afbrýðissamur, bitur og þjakaður af minnimáttar- og sektarkennd og ekki vert að gleypa það hrátt sem hann sér og heyrir. Umhverfi og staðhættir sögunnar eru bráðlifandi og allt listilega úr garði gert. Í bókinni er ekki gerð tilraun til að kryfja myndlist sögutímans, 9. áratugarins, sérstaklega en stemningin svífur samt yfir vötnum og hefur lítið breyst held ég, velgengni í bransanum snýst um frumkraft, metnað og dirfsku en ekki síður um að hafa fjársterkan bakhjarl og fá góða dóma í fjölmiðlum. Það truflaði mig ekkert hvort atburðir sögunnar vísa til Hafskipsmálsins eins og það raunverulega var eður ei, atburðarásin var trúverðug og afar spennandi. Undir lokin hefur Davíð alveg tapað glórunni og sagan endar með ósköpum.  Málarinn er hörkugóður reyfari með alvarlegum undirtón og átökum upp á líf og dauða.

Fyrir Lísu

Fyrir Lísu„Gott ætti sá sem væri með abstrakt sál. Mín er meira konkret og hún er svo illa lömuð greyið að hún er afskaplega mikið fyrir. Ég er alltaf að detta um hana. Svo reyni ég að standa upp. Mér gengur best þegar ég er kyrr. Í gröfinni verð ég mest kyrr. Og þá verður loksins búið að jarða afturgönguna í mér.“ (129-130)

Segir Lísa sem ásamt litla bróður var misnotuð af föður sínum um árabil. Martin Montag álpaðist í bílskúrinn til pabba hennar þegar hann var 8 ára saklaus drengur og er síðan stórskemmdur á sálinni. Hvort í sínu lagi reyna þau Lísa að tjasla saman brotunum og lifa eðlilegu lífi og taka til sinna ráða þegar leiðir þeirra liggja saman. Bók Steinunnar Sigurðardóttur, framhaldið af Jójó, Fyrir Lísu, er full af sársauka. Þemað er siðferði og afleiðingar kynferðisofbeldis á fórnarlambið og aðstandendur þess, langvinn áhrif á ástarsamband, vináttu og fjölskyldu. Martin treystir engum, vill ekki eignast börn, hann pínir líkama sinn með áti og svelti og hlaupum og höndlar ekki snertingu, ekki einu sinni frá Petru, yndislegri eiginkonu sinni. Enginn subbuskapur er í bókinni, engar ofbeldislýsingar, heldur bara sálarkvöl sem lýst er á nærfærinn og ljóðrænan hátt. Samtölin eru skrýtin enda persónurnar sér á parti en þau eru skemmtileg og fyndin þótt undir búi átakanleg sorg. Ástin í ýmsum myndum er viðfangsefni sem er Steinunni hugleikið og hún fer afar vel  með. Eins og alltaf í bókum Steinunnar er nóg af rauðvíni, ostum og góðum mat, klassískri tónlist og notalegri stemningu sem er í senn stundarfró og flótti fyrir hrjáðar sögupersónur. Bókin sækir á mann að lestri loknum og smellpassar svona svaðalega í fjölmiðlaumræðuna akkúrat núna.