Rómanska Ameríka

„Bókmenntirnar koma mér í gröfina“

2000

Frá blóðbaðinu í Tlatelolco, 1968

Að lokast inni á klósetti er ekki það skáldlegasta sem getur skeð. En í skáldsögu sem gerist í Mexíkó 1968 eftir heimsfrægan, chileanskan rithöfund sem lést langt fyrir aldur fram, getur allt gerst.

Á síðustu árum hefur leitað mjög á listamenn að gera upp við hugmyndir og atburði kynslóðar sem kennd er við 1968. Undir lok sjöunda áratugarins var eins og bylgja frelsis og andófs flæddi um heiminn, ungt og áræðið fólk reis gegn stöðnun og kúgun í þjóðfélaginu en íhaldssamir einræðisherrar og valdasjúkar herstjórnir reyndu að berja það niður með valdi og veittust sérstaklega að  háskólum þar sem gagnrýnin hugsun og ný vísindi voru í gerjun. Stúdentaóeirðir brutust út og enduðu oftar en ekki með ofbeldi og blóðbaði sem settu mark sitt á söguna.

Áhrifamikill höfundur

filesSkáldsagan Verndargripur eftir Roberto Bolaño (1953-2003) gerist einmitt þetta fræga ár. Þetta er fyrsta bók höfundar sem kemur út á íslensku en hann er talinn „áhrifamesti höfundur sem komið hefur frá hinum spænskumælandi heimi síðastliðin 30-40 ár“, eins og Ófeigur Sigurðsson segir í flugmælskum eftirmála þýðingar sinnar. Hann þýðir úr frummálinu sem er einkar lofsvert og ekki annað að sjá en þýðingin sé stórgóð. Seint verður þökkuð eins og vert er öll sú erfiðisvinna sem þýðendur leggja á sig við að færa íslenskum lesendum heimsbókmenntir.

Ævisaga Roberto Bolaño er rakin stuttlega í eftirmálanum en fjölmiðlar og bókaútgefendur hafa afbakað hana og blásið út til að maka krókinn. Hann lést aðeins fimmtugur að aldri: „Það eru bókmenntirnar, sagði Bolaño í einu af síðustu viðtölunum sem hann veitti, sem eru að rústa heilsu minni og koma mér í gröfina“ (184).

Á kvennaklósettinu

Sagan tengist raunverulegum atburðum (Bók vikunnar). Í september 1968 réðst mexíkanski herinn inn í háskóla Mexíkóborgar, UNAM, og handtók bæði nemendur og kennara. Hópur fólks var leiddur á brott og voru menn ýmist fangelsaðir, pyntaðir eða teknir af lífi. Í sögunni sleppur ein stúlka undan hermönnunum og lokast inni á kvennasalerni í skólanum. Þar hírist hún í dögum saman, les ljóðabók, grætur yfir glötuðum tíma, hripar gömul kvæði á klósettpappír og sturtar þeim niður og lætur hugann reika um dimma dali fortíðar, þjáningu mannlífsins og mátt skáldskaparins:

„Ég hugsaði: þrátt fyrir öll mín klókindi og allar mínar fórnir, þá er ég búin að vera. Ég hugsaði: það var mjög ljóðræn athöfn að eyðileggja skrifin mín. Ég hugsaði: það hefði nú verið betra að gleypa þau, nú er ég búin að vera. Ég hugsaði: hégómi skriftanna, hégómi eyðileggingarinnar. Ég hugsaði: vegna skriftanna spyrnti ég við fæti. Ég hugsaði: vegna þess að ég eyðilagði skrifin munu þeir finna mig, þeir munu berja mig, þeir nauðga mér, þeir drepa mig. Ég hugsaði: þessir tveir hlutir eru tengdir, að skrifa og eyðileggja, fela sig og vera fundin…“ (172).

Hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta

Aðalpersónan, Auxilio Lacouture, er með indjánablóð í æðum. Hún kallar sig móður skálda og verndara ljóðlistar. Hún segist vera vesæl, úrúgvæsk skáldkona og ferðalangur án vegabréfs, hún þvælist um ganga háskólans en er þó ekki námsmaður, vinnur stopult og býr hvergi, dandalast bara með hinum og þessum stefnulaust. Hún virkar eins og hún sé hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta, hangir á börum með ungu menntafólki sem spjallar um bókmenntir og listir. Minni hennar er gloppótt og sjónarhornið hálfbrjálað, reikult og óáreiðanlegt. En hún hefur húmor fyrir sjálfri sér og lífinu öllu:

„Ég hló að pilsunum mínum, þröngu buxunum mínum, að röndóttu sokkabuxunum mínum, að Prins Valíant-klippingunni, hárinu sem varð með degi hverjum minna ljóst og meira hvítt, að augum mínum sem grannskoðuðu nætur Mexíkóborgar, að rauðum eyrum mínum sem hlustuðu á sögurnar í háskólanum, um stöðuhækkanir og stöðulækkanir, ómerkingana, þá hunsuðu, smjaðrarana, skjallarana, fölsku verðleikana, titrandi rúmin sem þau skriðu úr og skriðu aftur upp í undir nötrandi himni Mexíkóborgar, þessum himni sem ég þekkti svo vel, þessu róstusama og óaðgengilega himni, sem var eins og astekapottur sem ég gekk lífsglöð undir, með öllum skáldum Mexíkó…“(47).

Ástin og myrkrið

Textinn einkennist af hiki og flæði í senn, ljóðrænu og röfli, eintali og upptalningum, alls konar óreiðu og vísunum í sögu og bókmenntir Suður-Ameríku sem oft er erfitt að bera kennsl á fyrir ókunnuga. Athugasemdir þýðanda neðanmáls eru hjálplegar auk eftirmálans sem er skyldulesning. Öllu ægir saman, kvíða og kulda, grimmum veruleika og fornum goðsögnum; tíminn er óljós og óraunverulegur, persónur sögunnar þvælast stefnulaust um stræti og torg í ölæði og angist en alls staðar er þessi heiti lífskraftur og ástin til skáldskaparins.

Margt er myrkt í þessari sögu. Auxilio er óvenjuleg persóna, lifandi goðsögn og útigangskona á einhverju óljósu ráfi um þessa risavöxnu borg og undirheima hennar. Voveiflegir atburðir úr ofbeldisfullri fortíð ryðjast fram og ýta við lesandanum sem verður bæði ráðvilltur og sorgmæddur.

En hver er verndargripurinn sem sagan dregur nafn sitt af? Er það háskólinn, miðstöð mennta og framfara? Skáldskapurinn sem stúlkan sökkti sér niður í meðan lífið steypti stömpum fyrir utan klósettdyrnar? Nei, það er ekkert einfalt í þessu myrkraverki. Í lok sögunnar hljómar draugalegur söngur ungs fólks sem stefnir í vísan dauða og tengist sögu um kynslóð ungmenna sem var fórnað, um börn sem stefndu í stríð, „um hugrekkið og um speglana, um þrána og um gleðina. Og þessi söngur er okkar verndargripur“ (181).

Sæmundur, 2016

187 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 31. október 2016

Ljósmynd úr Guardian.