Ófeigur SIgurðsson

„Bókmenntirnar koma mér í gröfina“

2000

Frá blóðbaðinu í Tlatelolco, 1968

Að lokast inni á klósetti er ekki það skáldlegasta sem getur skeð. En í skáldsögu sem gerist í Mexíkó 1968 eftir heimsfrægan, chileanskan rithöfund sem lést langt fyrir aldur fram, getur allt gerst.

Á síðustu árum hefur leitað mjög á listamenn að gera upp við hugmyndir og atburði kynslóðar sem kennd er við 1968. Undir lok sjöunda áratugarins var eins og bylgja frelsis og andófs flæddi um heiminn, ungt og áræðið fólk reis gegn stöðnun og kúgun í þjóðfélaginu en íhaldssamir einræðisherrar og valdasjúkar herstjórnir reyndu að berja það niður með valdi og veittust sérstaklega að  háskólum þar sem gagnrýnin hugsun og ný vísindi voru í gerjun. Stúdentaóeirðir brutust út og enduðu oftar en ekki með ofbeldi og blóðbaði sem settu mark sitt á söguna.

Áhrifamikill höfundur

filesSkáldsagan Verndargripur eftir Roberto Bolaño (1953-2003) gerist einmitt þetta fræga ár. Þetta er fyrsta bók höfundar sem kemur út á íslensku en hann er talinn „áhrifamesti höfundur sem komið hefur frá hinum spænskumælandi heimi síðastliðin 30-40 ár“, eins og Ófeigur Sigurðsson segir í flugmælskum eftirmála þýðingar sinnar. Hann þýðir úr frummálinu sem er einkar lofsvert og ekki annað að sjá en þýðingin sé stórgóð. Seint verður þökkuð eins og vert er öll sú erfiðisvinna sem þýðendur leggja á sig við að færa íslenskum lesendum heimsbókmenntir.

Ævisaga Roberto Bolaño er rakin stuttlega í eftirmálanum en fjölmiðlar og bókaútgefendur hafa afbakað hana og blásið út til að maka krókinn. Hann lést aðeins fimmtugur að aldri: „Það eru bókmenntirnar, sagði Bolaño í einu af síðustu viðtölunum sem hann veitti, sem eru að rústa heilsu minni og koma mér í gröfina“ (184).

Á kvennaklósettinu

Sagan tengist raunverulegum atburðum (Bók vikunnar). Í september 1968 réðst mexíkanski herinn inn í háskóla Mexíkóborgar, UNAM, og handtók bæði nemendur og kennara. Hópur fólks var leiddur á brott og voru menn ýmist fangelsaðir, pyntaðir eða teknir af lífi. Í sögunni sleppur ein stúlka undan hermönnunum og lokast inni á kvennasalerni í skólanum. Þar hírist hún í dögum saman, les ljóðabók, grætur yfir glötuðum tíma, hripar gömul kvæði á klósettpappír og sturtar þeim niður og lætur hugann reika um dimma dali fortíðar, þjáningu mannlífsins og mátt skáldskaparins:

„Ég hugsaði: þrátt fyrir öll mín klókindi og allar mínar fórnir, þá er ég búin að vera. Ég hugsaði: það var mjög ljóðræn athöfn að eyðileggja skrifin mín. Ég hugsaði: það hefði nú verið betra að gleypa þau, nú er ég búin að vera. Ég hugsaði: hégómi skriftanna, hégómi eyðileggingarinnar. Ég hugsaði: vegna skriftanna spyrnti ég við fæti. Ég hugsaði: vegna þess að ég eyðilagði skrifin munu þeir finna mig, þeir munu berja mig, þeir nauðga mér, þeir drepa mig. Ég hugsaði: þessir tveir hlutir eru tengdir, að skrifa og eyðileggja, fela sig og vera fundin…“ (172).

Hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta

Aðalpersónan, Auxilio Lacouture, er með indjánablóð í æðum. Hún kallar sig móður skálda og verndara ljóðlistar. Hún segist vera vesæl, úrúgvæsk skáldkona og ferðalangur án vegabréfs, hún þvælist um ganga háskólans en er þó ekki námsmaður, vinnur stopult og býr hvergi, dandalast bara með hinum og þessum stefnulaust. Hún virkar eins og hún sé hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta, hangir á börum með ungu menntafólki sem spjallar um bókmenntir og listir. Minni hennar er gloppótt og sjónarhornið hálfbrjálað, reikult og óáreiðanlegt. En hún hefur húmor fyrir sjálfri sér og lífinu öllu:

„Ég hló að pilsunum mínum, þröngu buxunum mínum, að röndóttu sokkabuxunum mínum, að Prins Valíant-klippingunni, hárinu sem varð með degi hverjum minna ljóst og meira hvítt, að augum mínum sem grannskoðuðu nætur Mexíkóborgar, að rauðum eyrum mínum sem hlustuðu á sögurnar í háskólanum, um stöðuhækkanir og stöðulækkanir, ómerkingana, þá hunsuðu, smjaðrarana, skjallarana, fölsku verðleikana, titrandi rúmin sem þau skriðu úr og skriðu aftur upp í undir nötrandi himni Mexíkóborgar, þessum himni sem ég þekkti svo vel, þessu róstusama og óaðgengilega himni, sem var eins og astekapottur sem ég gekk lífsglöð undir, með öllum skáldum Mexíkó…“(47).

Ástin og myrkrið

Textinn einkennist af hiki og flæði í senn, ljóðrænu og röfli, eintali og upptalningum, alls konar óreiðu og vísunum í sögu og bókmenntir Suður-Ameríku sem oft er erfitt að bera kennsl á fyrir ókunnuga. Athugasemdir þýðanda neðanmáls eru hjálplegar auk eftirmálans sem er skyldulesning. Öllu ægir saman, kvíða og kulda, grimmum veruleika og fornum goðsögnum; tíminn er óljós og óraunverulegur, persónur sögunnar þvælast stefnulaust um stræti og torg í ölæði og angist en alls staðar er þessi heiti lífskraftur og ástin til skáldskaparins.

Margt er myrkt í þessari sögu. Auxilio er óvenjuleg persóna, lifandi goðsögn og útigangskona á einhverju óljósu ráfi um þessa risavöxnu borg og undirheima hennar. Voveiflegir atburðir úr ofbeldisfullri fortíð ryðjast fram og ýta við lesandanum sem verður bæði ráðvilltur og sorgmæddur.

En hver er verndargripurinn sem sagan dregur nafn sitt af? Er það háskólinn, miðstöð mennta og framfara? Skáldskapurinn sem stúlkan sökkti sér niður í meðan lífið steypti stömpum fyrir utan klósettdyrnar? Nei, það er ekkert einfalt í þessu myrkraverki. Í lok sögunnar hljómar draugalegur söngur ungs fólks sem stefnir í vísan dauða og tengist sögu um kynslóð ungmenna sem var fórnað, um börn sem stefndu í stríð, „um hugrekkið og um speglana, um þrána og um gleðina. Og þessi söngur er okkar verndargripur“ (181).

Sæmundur, 2016

187 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 31. október 2016

Ljósmynd úr Guardian.

Í flaumi táknanna

Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, doðranturinn sem seldist í bílförmum og hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014, er ekki létt spennusaga eins og sumir gætu hafa haldið eftir lestur káputextans, heldur þungavigt sem reynir svo sannarlega á þolrif lesenda.Söguþráðurinn er bæði krókóttur og grýttur og hvað eftir annað liggur manni við að gefast upp. Inn á milli reynast þó vera greiðar götur, mjúkir sandar og tærar lindir sem gaman er að staldra við áður en haldið er aftur út í illfærurnar. Bókin skiptist í nokkra hluta, Drauma, Fjársjóði, Leyndardóma og Eftirleit, auk formála, Post scriptum og Eftirmála höfundar. Sögumaður lætur móðan mása um allt milli himins og jarðar; trú og tungumál, skáldskap, náttúru landsins og eðli þjóðarinnar og það eru innblásin varnaðarorð um þróun mannlífs og búsetu í þessu landi.

Persónurnar eru aðallega Öræfingar sjálfir, þrautgóðir og raungóðir. Dregin er upp mynd af hinum rómantíska íslenska sauðfjárbónda sem lifir í takt við náttúruna, þekkir drýlin í straumnum, vöðin og jöklana, veðrið, jarðfræðina og skepnurnar. Ógleymanlegir eru Tvískerjabræður, Jón föðurbróðir, tragískur túristamorðingi og landvörðurinn Snorra-Edda. Svo er það Dr. Lassi, lesbískur dýralæknir sem heldur utan um skrásetningu frásagnarinnar; furðuleg persóna, fantasía eða kannski bara óráð. Bernharður Fingurbjörg, örnefnafræðingur og doktorsnemi, leitast við að tengjast fortíð sinni í gegnum náttúruna og skilja táknfræði örnefna, hann gengur inn í jökulinn þar sem fegurðin ríkir ein en endar í kaosi og kastrasjón, lífs eða liðinn í undarlegri öskju eða kofforti á köggladekkjum sem gæti haft bæði margrætt og óljóst tákngildi.

Sagan er óreiðukennd og taumlaus, blandin fornum stíl og frásagnarhætti, textinn ryðst áfram og ærir óstöðugan. Fyrir koma langdregnir kaflar, t.d. um dauðarokk, og upptalning á íslenskum náttúrufræðingum. Þá er víða vitnað í gamlar heimildir sem sýndar eru í nýju samhengi, t.d. (óþarflega) langur kafli úr Annálum um sjálfsmorð forfeðranna sem afhjúpar öræfin innra með okkur, angist, þunglyndi og geðveiki.

Sögumannsröddin er víðóma, stórskorni dýralæknirinn skráir söguna eftir þýðingu „Túlku“ á frásögn Bernharðs sem skrifaði bréf til „höfundar“. Söguþráður er teygður á milli súrra sena, fyndni, frumlegra tilþrifa í efni og stíl, og harmsagna, ádeilu og predikana. Margfaldur í roði byggir sögumaður upp framvinduna og rífur hana jafnharðan niður og honum liggur mikið á hjarta.Í bakgrunni eru örlagaþrungnir (karl)karakterar eins og t.d. kafteinn Koch sem hafði með sér íslenska hesta á Grænlandsjökul í harmrænni hrakfallareisu sinni 1912, Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem skrifaði um eðli skriðjökla sem hefði tryggt honum heimsfrægð ef það hefði verið birt á hans dögum, skáldið Ormarr sem birtist langdrukkinn, dvergvaxinn og tussulegur og á snilldarkvæði á bls. 174 og loks hinn ógæfulegi Fastagestur á Sirkus en rödd hans minnir held ég mest á höfundinn af hinum fjölmörgu röddum verksins. Hann fer á kostum, t.d. þegar hann fær orðið í túristarútunni:

„Fyrst liggur leiðin austur yfir Hellisheiðina, sagði Fastagestur í hljóðnemann, þar er vanmetin fegurð; á Hellisheiði undruðust þeir Eggert og Bjarni yfir óvæntri fegurðinni þegar þeir áttu leið um hana um miðja 18du öld en Reykvíkingar sjá ekki þessa fegurð, þeir sjá bara námur og gróða sem eru í raun eyðilegging og sóun, og er nú fegurðin í augum Eggerts og Bjarna sundurgrafin og boruð og liggja þar gagnslausir vegir þvers og kurs um sundurtættan mosann og hraunið, og endalaus rör og raflínur og háspennumöstur útum allt, þar er og torfærubraut og drullupyttir, þar eru hálf fjöll, opnar námur og ekkert nema virkjanir og verksmiðjur, allt saman minnisvarðar um eðli Íslendinga“ (196).

Það eru margar skemmtilegar pælingar í verkinu, s.s. hvað verður um örnefni sem er sökkt í uppistöðulón? Hvað er topotime? Er villiféð örugglega útdautt? Hvað er líkt með Sámi og hundi Kafka? Er íslenski bóndinn ríkisstyrktur böðull og dýraníðingur? Skógrækt ríkisins eða Órækt ríkisins? Textinn flæðir yfir bakka sína líkt og Skeiðaráin, „höfuðskepna Öræfinga“, og hrifsar lesandann með sér, stundum liggur honum jafnvel við drukknun en loks nær hann landi og getur þá ekki annað en dáðst að krafti flaumsins:

„örnefni sem tákn, sagði ég upphátt þarna á dúandi kláfinum yfir beljandi jökulvatninu, þarna varð mér í fyrsta sinn ljóst að það var raunhæfur möguleiki að klára doktorsritgerðina, ég var orðinn hræddur um að ferðin til Mávabyggða væri skálkaskjól fyrir hugmyndaleysi og söknuð og alls enginn rannsóknarleiðangur, og þótt ég klári aldrei ritgerðina er það leitin og uppgötvanirnar sem skipta mig mestu máli, að ég sé á hreyfingu, ég stækki svið mitt, hafi óvissuna sem mitt vitaljós… alltíeinu fann ég fyrir óöryggi á kláfinum yfir fljótandi dauða mínum, köldum og fögrum, það var óttinn við táknin, allan heiminn handan við táknin, undir flaut jökulkalt fljót af táknum, örnefnum… sennilega var ekkert handan við táknin nema tómið og ríkidæmi algleymisins, ég greip um höfuðið og æpti, penninn féll ofan í strauminn, Fuck fældist við, ég æpti eins og Ópið eftir Munch á kláfinum yfir jökulvatni táknanna, sólin roðaði austurhimininn og varð jökullinn sem sollinn blóði, grágrænt jökulfljótið svall undir mér en ég og Fuck dúuðum í lausu lofti sturlaðir af tóminu bak við táknin… (284–5)

Sumir kaflar bókarinnar eru svo listilegir að hraustustu menn geta vart varist tárum. Aðrir svo sýrðir að manni er skapi næst að gefast upp. Eina ráðið er að lesa þessa bók h æ g t, í lotum, gefa henni tíma og hleypa brýnum boðskapnum inn í hjartað. Sannarlega hrjóstrug öræfi en svona líka dáfalleg.

Birt í Kvennablaðinu 15. apríl 2015

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?