Suðurglugginn

Svarti hundurinn

„Allt í einu er kominn hundur hingað að sniglast í kringum húsið. Hann er að sjálfsögðu svartur, annars hefði ég orðið undrandi. Ég veit ekki hvaðan hann kemur, líklega úr einu af húsunum sem eru í sama lit og hann. Annars hefur hann augu eins og selur, hann gæti þess vegna verið kominn upp úr sjónum, hvað veit maður. Ég gef honum kleinu út um dyrnar, en það eru líklega mistök því hann horfir á mig eins og ég sé hálfguð. Ég vil ekki vera hálfguð neinnar lífveru, hvað þá alguð. Ábyrgðin sem fylgir slíku er sligandi. Ég vil enga ábyrgð. Forðast meira að segja ábyrgðarbréf. Ef ég fæ tilkynningu um að það sé ábyrgðarbréf á pósthúsinu, þá sæki ég það ekki.“

Suðurglugginn (27-28)