Gyrðir Elíasson

Krúttlegir smáglæpir

my-new-presenta_23258363_b91f2f37f2b8bfc7569b24af12e81e51d0b5e2baÍslensk smásagnagerð stendur með miklum blóma um þessar mundir. Höfuðskáld eins og Gyrðir Elíasson, Þórarinn Eldjárn, Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og fleiri hafa með verkum sínum sýnt svo listilega hvers formið er megnugt og nú spreytir sig hver lærisveinninn af öðrum.

Smásagnasafn Björns Halldórssonar (f. 1983), Smáglæpir, hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta 2016 en kom út nú á dögunum hjá bókaforlaginu Sæmundi. Björn er nýr í bransanum en lofar góðu, í bókinni eru sjö sögur sem allar eru ánægjuleg lesning.

Fyrsta sagan í safninu, Barnalæti, sker sig úr. Þar talar telpa sem er nýflutt í hverfið og býr við þreytandi heimilislíf. Hún er auðveldlega útsett fyrir undarlegu ofbeldi nágrannadrengsins og virðist vera í þann veginn á leggja út á óheillavænlega braut. Þetta er langbesta sagan í bókinni; áhrifamikil og uggvekjandi í einfaldleika sínum. Í hinum sögunum hafa karlar orðið, á ýmsum aldri og í misjöfnum aðstæðum. Í sögunni Ef þið hefðuð hringt er nöturleg spenna milli þess sem Sólmundur gamli hugsar og þess sem hann segir en dregin er upp mynd af harðjaxli sem ætlar ekki að gefa færi á sér eða linast með aldrinum og dæmir sjálfan sig þar með til einsemdar. Rekald fjallar um mann á elliheimili, lítt notað sögusvið sem býður upp á skemmtilegar senur. Endirinn er stíðnislegur og lesandinn fær ekki það sem hann bjóst við. Marglyttur er á yfirborðinu byggð á bernskuminningu um sjóferð sem endar illa en hún er áleitin og snýst ekki síður um sekt og fíkn. Saga sem heitir Eiginmaðurinn og bróðir hans segir frá Bödda sem giftist konu frá Filipseyjum. Hún fer frá honum og Jóhann, bróðir hans, rifjar upp ýmis atvik sem varpa ljósi þá ákvörðun hennar. Sjálfur á Jóhann í frekar brengluðu sambandi við sína eigin fjölskyldu. Það er ýjað að ýmsu og boðið upp á óvænta túlkun undir lokin og ógnin seytlar inn í huga lesandans.

Það er margt gott í Smáglæpum en stíllinn er helsti veikleikinn; stundum myndrænn en oftast raunsær og hversdagslegur; einkennist af talmáli víða og málvillur eru á stangli. Stílinn þarf að æfa og nostra við, fága og pússa til að nálgast fullkomnun lærimeistaranna og varla við slíku að búast í frumraun höfundar.

En hverjir eru smáglæpirnir sem verkið dregur nafn sitt af? Þeir felast í hikinu, hugleysinu, lygunum og ofbeldinu í lífi okkar; glæpum sem við höfum öll gerst sek um gagnvart hvert öðru og sjálfum okkur.

Bókaforlagið Sæmundur 2017

Smáglæpir, 142 bls.

 

Birt í Kvennablaðinu, 7. júlí 2017

 

 

Tilvitnun dagsins

_MG_7697

„Hundar hafa engin réttindi einsog allir vita, og hin alþekkta kristilega miskunnsemi nær ekki niður til þeirra. Kristileg miskunnsemi er mjög stirð í bakinu, og á erfitt með að beygja sig. Það hentar henni betur að vera með höfuðið í skýjunum.“

Gyrðir Elíasson, 2016

Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016

Villimenn í vestri

Shirley Jackson (1916–1965) var þekktur rithöfundur í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hún var heimavinnandi húsmóðir, stundaði ritstörf sín jafnan heima við og annaðist börn og bú samhliða. Þekktust var hún fyrir gotneskar hrollvekjur sínar sem jafnað hefur verið líkt við sögur eins frægasta hryllingsmeistara fyrr og síðar, Edgars Allen Poe.

Líf á meðal villimanna, sem er nýkomin út á íslensku, er kannski ekki alveg dæmigerð fyrir höfundarverk Shirley Jackson. Engu að síður er bókin mikill fengur fyrir alla sem unna listilegum stíl og heimsbókmenntum.

Ekki þarf að lesa nema fyrstu blaðsíðurnar til að átta sig á því að sögumaðurinn er ekki bara einfaldlega glaðlegur og einlægur í frásögn sinni eins og virðist við fyrstu sýn, heldur lymskulega háðskur og meinfyndinn í lýsingum sínum á daglegu amstri barnafjölskyldu í Vermont um miðja síðustu öld. Hversdagslegir hlutir, eins og t.d. leikir barnanna, prakkarastrik elsta sonarins, ökunám húsmóðurinnar, barátta við skólakerfið, briddskvöld og innkaupaferð með dúkkuvagn, að ógleymdri „Inflúensuráðgátunni“ miklu, verða alveg drephlægilegir. Veruleiki heimavinnandi húsmóður og eiginkonu í úthverfi lítils háskólabæjar er sveipaður hippalegum töfraljóma um leið og gert er góðlátlegt grín að öllu saman. En undir niðri má greina óljósa taugaveiklun, vanmátt og ístöðuleysi húsmóðurinnar sem birtist í því að uppeldið er laust í reipum, krakkarnir leika lausum hala meðan pabbinn er í vinnunni og mamman situr á kafi í drasli og les glæpasögu. Oft er hún alveg út á þekju:

„Ég veit hvernig þau öll líta út, að sjálfsögðu. Hundurinn er með fjóra fætur og er mun stærri en kettirnir, sem virka hvort sem er einsog tvíburar. Drengurinn er óhreinn og er í gauðrifnum bláum gallabuxum. Faðirinn er áhyggjufullur á svip, dálítið yfirþyrmdur einhvern veginn. Eldri dóttirin er stærri en yngri dóttirin, þótt þar sé í gangi flókið kennslaferli, þar sem sú minni er í fötum sem sú stærri var í þar til fyrir skömmu, og þær eru báðar með ljósa lokka og blá augu. En hvað varðar að reyna til dæmis að muna hver tvö af þeim þremur hafa þegar fengið hlaupabóluna og hvert þeirra var bólusett gegn kíghósta, og hvort þau fengu öll þrjár sprautur eða hvort eitt þeirra fékk níu … Þetta ætlar að gera út af við mig“ (113).

imgres

Amerískar kvennabókmenntir í vandaðri íslenskri þýðingu rekur ekki á fjörur okkar á hverjum degi. Líf á meðal villimanna kom fyrst út í Bandaríkjunum 1953. Áður hafði Shirley skotist upp á stjörnuhimininn með smásöguna Lottery sem birtist í The New Yorker. Aldrei hafði blaðinu borist jafnmörg hatursbréf eins og vegna þessarar smásögu sem síðan varð heimsfræg og þýdd á fjölda tungumála, tveir þýðendur hafa m.a.s. spreytt sig á henni á íslensku, þau Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir (1999) og Kristján Karlsson (1957).

Gyrðir Elíasson þýðir bókina undurvel en hann er einstaklega fundvís á merkilegar bækur til þýðingar, bækur sem annars væru utan seilingar, eru óvenjulegar, eftirminnilegar og áhrifamiklar. Eftirmáli hans við Líf á meðal villimanna varpar skýru ljósi á höfundinn, verkið og söguna að baki. Gyrðir segir m.a. að sitthvað í efnistökunum minni á Sálminn um blómið eftir Þórberg Þórðarson „hvað skopstyrk og spennu varðar“ (241), er þá ekki verið að tala um snilldarverk? Ég er ekki frá því, þetta er allavega bók sem enginn bókmenntaunnandi má láta framhjá sér fara.

Birt í Kvennablaðinu 20. júlí 2015

Svarti hundurinn

„Allt í einu er kominn hundur hingað að sniglast í kringum húsið. Hann er að sjálfsögðu svartur, annars hefði ég orðið undrandi. Ég veit ekki hvaðan hann kemur, líklega úr einu af húsunum sem eru í sama lit og hann. Annars hefur hann augu eins og selur, hann gæti þess vegna verið kominn upp úr sjónum, hvað veit maður. Ég gef honum kleinu út um dyrnar, en það eru líklega mistök því hann horfir á mig eins og ég sé hálfguð. Ég vil ekki vera hálfguð neinnar lífveru, hvað þá alguð. Ábyrgðin sem fylgir slíku er sligandi. Ég vil enga ábyrgð. Forðast meira að segja ábyrgðarbréf. Ef ég fæ tilkynningu um að það sé ábyrgðarbréf á pósthúsinu, þá sæki ég það ekki.“

Suðurglugginn (27-28)