Jón Kalman

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Fiskarnir hafa enga fætur

Fiskarnir-hafa-enga-fætur-175x275Í bókinni segir Jón Kalman Stefánsson sögu nokkurra kynslóða á Íslandi, í senn sögu tíma og þjóðar. Þetta eru dramatískar sögur, um minningar, gleymsku og bælingu, æsku og elli, ást, harm og dauða með áþekku ljóðrænu og heimspekilegu ívafi og í þríleiknum sínum mikla, með heillandi frásögn, djúpum þönkum, frábærum mannlýsingum og hápólitískum boðskap. Verkið er eins og fögur tónlist, kaflarnir hefjast á alls konar pælingum, um hamingjuna, ástina, karlmennsku tungumálsins og kúgun konunnar, endalokin, sem leiða svo lesandann til persónanna og örlaga þeirra.Svo fallega skrifað þótt endurtekningar séu margar og t.d. orðið dökknandi sé höfundi mjög tamt á tungu.  Keflavík er svartasti staður landsins, kvótinn farinn, herinn farinn, búið að dæma bæinn úr leik. Á Norðfirði eru erfiðir tímar, þung barátta, líf í sjávarplássi er basl og strit og hráslagi, þreyta og svefnleysi taka sinn toll, ástríðan glatast, neistinn slokknar og kona breytist í lifandi múmíu. Sjálfsmynd þjóðarinnar er byggð á blekkingum, hún er þjökuð af minnimáttarkennd, fyrirlítur fortíð sína, torfkofana og fiskihjallana, sjávarútvegurinn stendur undir íslensku efnahagslífi en samt mega hjallarnir ekki sjást frá veginum að nýju flugstöðinni.Kaninn og kvótinn eru svartir blettir á sögu þjóðarinnar, fortíðin rímar ekki við glæstan samtímann, hvað eigum við að gera við hana? (332) Græðgin er svarthol mannsins, okkur er innprentað að við þurfum alltaf meira og meira, óseðjandi fíklar sem er stjórnað af einhverjum hagsmunaöflum sem græða á því að forheimska okkur, halda okkur við efnið. Og við svíkjum þá sem við elskum, svíkjum okkur sjálf og svíkjum uppruna okkar. Það er beittur tónn í þessu frábæra verki Jóns Kalmans í bland við ljóðrænuna, fagran stílinn og harmsöguna.

„Því er þá þannig háttað að öll atvik fortíðar, þau smáu sem stóru, skítlegu sem fallegu, hlátur og snerting handa, allt saman er fyrr eða síðar flautað út af, dæmt til að gleymast, dæmt til dauða, útþurrkunar, en þó einvörðungu vegna þess að enginn man lengur eftir því, hugsar aldrei um það, eða heldur ekki til haga, og þar með verður allt sem við lifðum smám saman að engu, ekki einu sinni lofti, sem er svo sárt, mikil sóun, og ýtir okkur í átt að tilgangsleysinu. Líf mannsins er verður í mesta lagi stakir tónar án lags, tilviljunarkennd hljóð en engin tónlist – er þarna komin ástæðan fyrir því að við ávörpum þig með þessari sögu kynslóða og hundrað ára, þessari sögu, eða plánetu, halastjörnu, þessu dægurlagi, þessum vinsældalista á heimsenda, vegna þess að við viljum að þú vitir að Margrét var einu sinni nakin undir ameríska kjólnum, brjóstin smá, hvelfd, langir, grannvaxnir en sterkir fótleggirnir læstust skömmu síðar utan um Odd, svo þú vitir og gleymir helst aldrei að einu sinni voru allir ungir, svo þú áttir þig á því að öll verðum við einhverntíma að brenna, brenna af ástríðu, hamingju, gleði, réttlæti, þrá, því það er sá eldur sem lýsir upp myrkrið , sem heldur úlfum gleymskunnar fjarri, eldurinn sem hitar upp lífið, svo þú gleymir ekki að finna til, svo þú breytist ekki í mynd á vegg, stól í stofunni, mublu fyrir framan sjónvarpið, í það sem horfir á tölvuskjáinn, í það sem ekki hreyfist, svo þú verðir ekki að því sem tekur tæpast eftir neinu, svo þú dofnir ekki upp og verðir að leiksoppi valdsins, hagsmunaafla, verðir ekki að því sem skiptir litlu máli, dofinn, í besta falli smurning í dularfullu tannhjóli. Brenna, svo eldurinn dofni ekki, hjaðni, kulni, svo veröldin verði ekki að köldum stað, bakhlið mánans“ (300-301).