Dansað á línunni

Drapa-175x263 Forlagið

Drápa Gerðar Kristnýjar hefst um vetur, um kalda og flæðandi nótt.  Einhver ógn hvílir yfir heiminum, m.a.s. snjórinn er fjandsamlegur í Reykjavík, borginni sem er sokkin og minnir á Sin City, og dularfullur sirkus rennur saman við myrkrið. Illúðlegir trúðar eru á stjái og undarlegur „Ég“, kannski dauðinn eða skrattinn sjálfur sem er stundum hundur en stundum maður með slútandi hatt eða svarta vængi, á stóran þátt í skuggalegri atburðarásinni. Leiðir línudansara og boxara liggja óvænt saman í þessari syndum spilltu veröld og illska, grimmd og dauði taka völdin.

Myndmálið í Drápu er rammgert og vekur strax hugrenningatengsl við hrylling og ofbeldi;  hnífsoddar stingast, nóttin fellur á með hvini eins og öxi, húð er rist upp og skorið er á æðar og sinar. Línudansarinn, fulltrúi fíngerðra hreyfinga, lipurleika og jafnvægislistar, kemst að því að boxarinn er ekki sá bjargvættur sem hann virtist vera en er ekki undankomu auðið.  Hann fær makleg málagjöld í grimmum dauðdaga en allt er þetta til einskis þegar upp er staðið, því  hið illa lyftir sér til flugs og leitar alltaf fyrir sér á nýjum stað.

Öll er drápan er vandlega  ydduð og engu orði ofaukið en það er eitt af einkennum á ljóðum Gerðar hversu fáguð og knöpp þau eru. Margir kunnuglegir frasar birtast í nýjum búningi, t.d. örlöglaus, mín er borgin myrk sem blý, svefn hinna ranglátu og að lofa græsku grafarans. Hér er höfundur í essinu sínu, víðlesinn og margfróður með sinn hárfína og ísmeygilega  húmor. Myndræn nýyrði verða til, eins og  t.d. „grjóteygur“ sem á einkar vel við um snjókarla. Kuldi og vetur eru sérgrein Gerðar og koma fram í mörgum bókum hennar. Veturinn er hér persónugerður á ný og tengist stríði og ofbeldi á mjög ferskan hátt. Og snjöll er t.d. myndin af bárujárni sem bylgjast í straumi (52).

Vísanir eru víða, m.a. í forn kvæði og ný, þjóðsögur og ævintýri, heiðni og kristindóm.  Einnig skjóta taktar úr fornum bragarhætti upp kolli, bæði ljóðstafir, hálfrím og hendingar. Þá voru í drápum jafnan stef til að skapa hrynjandi og svo er einnig í Gerðardrápu, eftirfarandi er endurtekið með óreglulegu millibili og tilbrigðum:

borgin

slegin nóttu

hvarf í kóf

Stefin eru kunnuglegar vörður í skuggaveröld Drápu, skapa draugalegt samhengi og og halda við óhugnaðnum og þeirri heimsendastemningu sem þrumir yfir í ljóðinu.

Það er auðvelt að sökkva sér ofan í Drápu og gleyma sér í myrkraveröld hennar, njóta fegurðar orðanna, kjamsa á myndmáli og stílbrögðum, túlka þetta óræða kvæði og greina óhugnanlegan boðskapinn. Ég komst ekki hjá að velta fyrir mér hvort táknin væru orðin þreytt, klisjuleg og margnotuð. Sirkus er jú flókið fyrirbæri sem hefur löngum verið skáldum hugleikið, þar renna saman list og íþrótt, frelsi og ánauð, gaman og alvara, maður og dýr; kjörinn vettvangur fyrir skáldskap. En Gerður er eins og línudansari og kemst klakklaust yfir klisjurnar.  Myrkusinn er úthugsaður og töfrum slunginn bæði að formi og efni.  Bókarkápan er smekklega hönnuð, blaðsíður sem skipta ljóðinu í kafla eru með naglaförum klóruðum í kistulok en sú hryllingsmynd birtist í kvæðinu. Það er vel splæst í umgjörð þessarar eigulegu ljóðabókar og enginn kotungsbragur á. Víðast eru ekki nema nokkrar línur á blaðsíðu en innihaldið er þeim mun magnaðra.

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s