Ástin, taflið og tungumálið

Astarmeistarinn-175x260

Anna og Fjölnir sem bæði hafa  lent í hrakningum á vegum ástarinnar rekast af tilviljun hvort á annað í hinni fögru Grímsey. Það væri kannski alveg tilvalið að þau þreifuðu fyrir sér en í staðinn veðja þau sín á milli um ástina, að þau hvort í sínu lagi finni ástarmeistara sem getur kennt þeim að elska, án ótta. Leiðir skilja og veðmálið gengur út á að í  hvert sinn sem þau hitta einhvern sem gæti verið meistari í ást skrifa þau hvort öðru bréf og í hverju bréfi er einn leikur í skák. En er einhver íþrótt eins langt frá því að vera sexí? Annað kemur á daginn, bókin löðrar í daðri og erótík, myndmálið er ferskt, textinn á fallegu tungumáli og snilldartaktar í hörkuspennandi  skák, sem svo sannarlega hefur aldrei verið tefld áður, kóróna verkið.

Ástarmeistarinn er fjórða skáldsaga Oddnýjar Eirar en hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir verk sín. Rauði þráðurinn í þessari bók er leitin að grundvelli ástarinnar, reynt er að skilja ástina í öllum sínum margvíslegu myndum og fjalla um sambandið milli ástar, valds og tungumáls. Fyrri hluti bókarinnar samanstendur af bréfum og skákleikjum og smátt og smátt kynnast skötuhjúin betur og takast á við bælingu sína, skömm, höfnunarótta og ástarfælni. Minningar streyma fram, draumar eru raktir og ráðnir, de Sade kemur m.a. við sögu ásamt ástkonunum frægu, þeim Önnu Karenínu og Önnu frá Stóru-Borg; Nietzsche og Simone de Beauvoir svífa yfir og heimsfrægar skákkonur skjóta upp kolli. Í seinni hlutanum dregur til tíðinda og ástarmeistararnir birtast með kenningar sínar og kynþokka. Öllu ægir saman í sjóðandi ástarpotti þar sem kynorkan vellur og kraumar svo úr verður ögrandi texti, heillandi persónur og hugljúf atburðarás.

Anna og Fjölnir birtast sem venjulegar og breyskar manneskjur. Fjölnir er bangsalegur útbrunninn sálfræðingur, grimmur „fræðarefur“ (20). Hann hefur unun af að leika sér með orð og hugmyndir, er jarðbundinn og leitandi og hefur farið illa út úr hjónabandi. Hluta sögunnar dvelur hann við rannsóknir og ritstörf í Odda en þangað barst einmitt skákin fyrst til Íslands (135)! Krísa hans felst m.a. í því að hann er í biðstöðu í lífinu og konur virðast elska hann annaðhvort bara sem elskhuga eða andlegan bróður. Hann er orðinn þreyttur á  að veita fagleg ráð og sýna skilning. Hann þráir að vera elskaður og að verða meiri karlmaður en menntamaður.

Anna er heilari, jógaiðkandi og nýaldarsinni, stöðnuð í einsemd og framan af sögu er hún ansi forn í háttum. Þegar hún heimsækir Fjölni í Odda hugsar hún með sér hvort hún sé hrifin af honum og hvers vegna „skyldi hún þá ekki gefast honum?“  sem er furðulega gamaldags hugsun. Hún óttast mest að geta aldrei elskað framar en þegar hún stígur yfir sín eigin mörk með hinum unga og graða Einari, verður hún frjáls, eins og laus undan aldagömlu oki. Tungumál kynlífs þeirra vísar í bókmenntir frá fyrri hluta síðustu aldar, hér er komin samfarasenan sem aldrei var skrifuð í Önnu frá Stóru-Borg. Myndmálið tengist allt smiðjunni þar sem ástarfundurinn fer fram, járnið er hamrað, kraftmikil kvika breytist í sindrandi gjall, „limurinn enn beinstífur eins og nýhert stál“ og snípurinn eins og nýsmíðaður koparhnappur (176-7).  Tungumálinu er beitt á óvenjulegan og skapandi hátt svo úr verður nýtt ástarmál. Fleiri kynlífssenur eru svona fallegar en spurning vaknar um hvort ekki megi segja typpi og píka í bók? Limur og sköp verða að teljast frekar tepruleg orð í frumlegri og ögrandi skáldsögu á 21. öld.

Tafl er líkt og ástin tveggja manna spil (114). Ástin er valdatafl og spennan milli Önnu og Fjölnis vex eftir því sem líður á söguna, getur þetta endað vel? Þegar Fjölnir býður Önnu jafntefli er hún með unnið tafl. Hún er drottning ástarinnar, hún hefur leyst orku úr læðingi og sigrast á óttanum.  En hver er þá kóngurinn? Það er nóg um að hugsa  eftir lestur þessarar afbragðsgóðu bókar. Er til ást án einurðar? Eru hugur og  hjarta eitt? Er hægt að elska án ótta? Ryður ástin sársaukanum burt? Ástarmeistarinn svarar  brennandi spurningum æstra lesenda á sinn hátt, látið hann ekki framhjá ykkur fara.

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s