Guðbergur Bergsson er einna merkastur rithöfunda hér á landi. Ferill hans er langur og skrautlegur og spannar allt frá módernískum umbrotaskáldsögum frá sjöunda áratug síðustu aldar, með hvassri ádeilu á undirlægjuhátt og þjóðrembu, til ljúfsárra endurminningabóka sem villa á sér heimildir og ögrandi og umdeildra ástarsagna, að ógleymdum ljóðum hans og meistaralegum þýðingum. Guðbergur hefur ekki legið á skoðunum sínum um land og þjóð og er jafnan með vöndinn á lofti. Í nýjustu bók sinni, Þrír sneru aftur, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014, er höfundurinn á kunnuglegum slóðum. Sagan gerist á fimmta áratug síðustu aldar og segir á ansi kaldhæðinn hátt frá áhrifum hernáms og veru ameríska varnarliðsins á íslenskt þjóðlíf og þeirri djúpu gjá sem myndaðist milli kyrrstæðs bændasamfélags og ungu kynslóðarinnar sem kærði sig hvorki um kotið, bátskelina né eilífðarbaslið lengur.
Sagan gerist framan af á afskekktum sveitabæ þar sem stelpur tvær, sem oftast renna saman í eina, búa með afa sínum og ömmu og önugum syni þeirra hjóna sem hatar þær og öll eru þau að drepast úr leiðindum. Eina tilbreytingin er þegar ferðalangar eiga leið um, tveir góðlátlegir Bretar birtast einn góðan veðurdag og skjóta svo aftur upp kolli síðar sem hermenn, Þjóðverji sem felur sig í hrauninu um tíma og íslenskur umrenningur sem flakkar um landið og vekur óhug hjá stelpunum. Það er eins og að vera staddur í baðstofunni í Sumarhúsum eða Fæti undir Fótarfæti þegar gamla konan hlýðir stelpunum yfir skræðurnar frá Ríkisútgáfu námsbóka fyrir ferminguna, bækur sem má ekki selja eins og stendur á kápunni, meðan afinn liggur í kör, hlandblautur á dívan. Myndin sem dregin er upp af sveitalífi og búskaparháttum fyrri tíma er svo sannarlega ekki fegruð.
Einangrunin er rofin þegar heimstyrjöldin síðari skellur á og Ísland er hernumið. Mæður stelpnanna eru löngu stungnar af úr sveitinni í fjörið í þorpinu, þær heillast af hermönnunum og flytja síðan til Ameríku, fyrirheitna landsins. Með aldrinum grípur útþráin stelpurnar líka þrátt fyrir uppeldi í guðsótta og góðum siðum og þær stökkva líka að heiman og er fátt um kveðjur. Gömlu hjónin hokra áfram ásamt syninum og strák úr þorpinu sem hefur hrakist þangað vegna veikinda móður sinnar. Þeir tveir kúra undir súð og lesa í fásinninu á kvöldin bókina Þrír sneru aftur, sem fjallar um skipbrotsmenn í stríðinu. Lýsingar á því hvernig sú saga þeytist um í hausnum á þeim og hvaða skilning þeir leggja í hana eru óborganlegar. Á meðan er gamla konan eitthvað að úðra, ung var hún gefin bóndanum sem er til lítils gagns og hún er alvön sjá um búskapinn, trúa á sinn guð og taka því sem að höndum ber. Henni berast bréf frá öðrum breska hermanninum sem dúkkaði upp á bænum sumarið góða forðum og vangaveltur hans um stríðsrekstur og fleira vekja upp hjá henni efasemdir um hlutverk sitt og tilgang með þessu jarðlífi en henni tekst þó oftast að hrista þær af sér með vinnu. Strákurinn fer frá bænum og brátt eru gömlu hjónin, dætur og dætradætur úr sögunni. Strákurinn og sonurinn verða miðja frásagnarinnar í seinni hluta sögunnar þegar nútíminn heldur innreið sína. Sonurinn gengur í barndóm, selur stráknum jörð foreldra sinna og dregst upp í eymd og volæði, „eirðarlaus í óhreinum sængurfötum, þakinn kaunum, sífellt að klóra sér og rífa sig til blóðs og sleikja fingurgómana (178). Strákurinn situr yfir honum og hlustar á endalaust raus hans á daunillum dánarbeði til að fylla í skörð glataðrar æsku og sakleysis. Hann og kona hans koma síðan á fót náttúruvænni hótelþjónustu á jörðinni og þá gerist það ótrúlega, þrír snúa aftur!
Stíll sögunnar er eins og aðdáendur Guðbergs þekkja, þéttur, harkalegur, miskunnarlaus og meinfyndinn. Víða eru skýr tákn og vísanir enda er hér um táknsögu að ræða því hún fjallar um íslenska þjóð sem var fáfróð, einangruð og afskekkt, hreifst með útlendum straumum og hrekst síðan stjórnlaust í endalausum sjávarháska. Persónurnar eru allar nafnlausar og afskaplega ógeðfelldar og lastafullar í lágkúru sinni þar sem þær velkjast um í sögunni. Kona stráksins er t.d. skýr táknmynd fyrir séríslenska græðgi og sjálfbyrgingshátt, gamla konan stendur fyrir fornar hefðir og gömul gildi sem enginn kærir sig lengur um og hafa glatast.
Víða eru gullmolar að hætti Guðbergs, eins og: „Af umræðunum varð hið skringilegasta gaman sem grípur sumt fólk á efri árum þegar fortíðin er mikil en framtíðin stutt. Allt fer eftir því hvort minnið er gott og heilsan sæmileg, en hvað sem minni og heilsu líður verður framtíðin aldrei annað en takmörkuð óvissa sem endar á fullvissu“ (200). Guðbergi er ekkert heilagt og hann lætur gamminn geisa. Íslendingasögurnar og fégráðug þjóðin fá makið um bakið:
„Í þessum sögum var ekki að finna neinar hetjudáðir heldur þann hroka, öfund, hégómlyndi og smámunasemi sem fylgir einangrun eftir að fólk af vissri þjóð hefur slitnað að mestu frá stærri evrópskri menningarheild og myndað sína eigin sögu… Í þessum sagnaheimi, sem minnti á heim nútímans, verðlagði fólk allt. Ættirnar verðlögðu jafnvel manndráp innan þeirra og fjölskyldur mátu bæturnar misjafnlega. Allt fór eftir því hver hafði verið drepinn. Mikið fékkst fyrir dráp á sumum, minna á öðrum“ (208).
Samhliða þemanu um stríðsgróða, undirlægjuhátt og Kanamellur sem sífellt endurtekur sig í sögu þjóðarinnar er fjallað um vanrækslu og ofbeldi, elli og sjúkdóma, hnignun og hrörnandi líkama eins og Guðbergi er einum lagið:
„…þegar angistin nístir holdið fer hugurinn að leita frelsis og tungan fæst til þess að viðurkenna margfaldleika lífsins og grimmdina sem því fylgir. Maður er þá orðinn gamall og þunglyndur og ófær um að líta á sig með hliðsjón af öðru en sjúkdómunum sem þjá hann, ólíkt því þegar hann var ungur og sá aðeins hreystina og hélt að heilbrigði fælist í hæfileika til að blekkja sjálfan sig, að verða nógu blindur til að sjá ekki hvað leiðir til uppgjafar“ (191).
Kvenfólkið í sögunni hefur lágar hvatir og þráir ekkert heitar en hjónaband, helst með Kananum, og skeytir engu um tilfinningar karlmannanna. Þeir enda í bælinu, hlandblautir og getulausir í kör, ástlausir og einmana. Strákurinn er undir hælnum á konu sinni, pirraður yfir því að hún er honum fremri í flestu og nær sér niðri á henni og föður sínum í leiðinni á óvæntan og kvikindislegan hátt. Boðskapurinn er skýr, hér rekur allt á reiðanum og okkur er ekki viðbjargandi. Menn binda vonir við að ferðaþjónusta komi í staðinn fyrir Kanann, túristar í stað hermanna, þetta reddist og allir græði og verði ríkir. Þó er ekki neinu að treysta:
„Nú sá hún ekki fram á mikla aðsókn, að ekki væri hægt að reiða sig á ferðafólk fremur en annað í þessu landi óstöðugleikans. Allt var óstöðugt: veðurfarið, gengið gjaldmiðilsins, verðlagið, samgöngur og yfirvofandi fellir í fjármálastjórn ríkisins. Það var sama sagan og í landbúnaði áður. Og fiskgengd á miðin fór eftir duttlungum strauma. Jafnvel fjöllin tóku allt í einu upp á einhverjum fjanda, eldgosum og stöðugum jarðskjálftum með frosti fram eftir sumri og kolrugluð trén áttu það jafnvel til að bruma í skyndilegum hlýindum á miðjum vetri. Konan fór að formæla náttúrunni, allt væri orðið nútímalegt nema hún, hér væri til allt af öllu, allt stæðist samanburð við aðrar þjóðir, framfarir væri hvarvetna, en loftslagið og náttúran eins og aftan úr rassgati“ (206).
Þrátt fyrir ömurleikann og vonleysið er ekki hægt annað en að lesa þessa mögnuðu bók upp til agna til að komast að því hvernig fer fyrir okkar ógæfulegu, íslensku þjóð sem er dregin sundur og saman í nístandi háði og afhjúpuð svona miskunnarlaust og snilldarlega.
Hljómar eins og Guðbergur, – mælir þú með henni í leshring?
Algjörlega, alveg drepfyndin bók!