Svalar seríubækur

Mamma, pabbi, barn er bók númer tvö í svokallaðri Hammerbyseríu eftir sænska rithöfundinn Carin Gerhardsen (f. 1962). Fyrsta bókin er Piparkökuhúsið sem kom út á íslensku 2014 og fjallað var um hér í Kvennablaðinu. Serían samanstendur af átta bókum um erfið og flókin störf harðsnúins lögregluteymis í Hammerstad, í suðurhluta Stokkhólms.

Mamma_babbi_barn-175x272

Carin Gerhardsen er nú einn af þekktustu glæpasagnahöfundum á Norðurlöndunum. Hana hafði lengi dreymt um að skrifa og var tilbúin með handrit að þremur bókum þegar hún loksins herti sig upp í að fara til útgefanda og nú njóta bækur hennar gríðarlegra vinsælda. Undanfarin ár hefur komið bók á ári í seríunni í Svíþjóð, aðeins ein hefur verið þýdd á ensku hingað til (sjá HÉR um norrænar glæpasögur á ensku) en nú eru komnar tvær á íslensku í rennilegri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur.

Gerhardsen er trú hinni skandinavísku spennusagnahefð. Helstu hugðarefni hennar eru dekkri hliðar mannlífsins, undarlegar tilviljanir og hvernig velferðarsamfélagið bregst skyldu sinni á ögurstundu. Sögupersónurnar búa oft við erfiðar fjölskylduaðstæður, yfirþyrmandi einmanaleika, drykkju, heimilisofbeldi og sifjaspell sem leiða þær út á ystu nöf. Í lögguteyminu er einvalalið, hver og ein persóna á sér sjálfstæða tilveru utan vinnunnar með skuggahliðum og erfiðri fortíð  sem blandast við spennuna sem Carin Gerhardsen skapar svo listilega. Fyrirliðar teymisins eru Conny Sjöberg, gamalreyndur jálkur, eldklár, vinnusamur og fljótur að hugsa og Petra Westmann, ung og harðdugleg lögreglukona sem þarf að berjast með kjafti og klóm við karlaveldið í löggunni. Bæði hafa eitthvert sjötta skilningarvit og eru óhrædd við að fylgja hugboði, þetta er sómafólk sem óhætt er að treysta. 

Í Pabbi, mamma, barn eru tvö morðmál í gangi. Ung stúlka er myrt um borð í Finnlandsferjunni, og kona finnst látin og lemstruð í sandkassa en sonur hennar er hætt kominn, yfirgefinn í barnavagni í grennd. En löggan veit ekki að konan á þriggja ára dóttur, Hönnu, sem er alein heima og gríðarleg spenna skapast þegar sjónarhornið er hjá henni. Það er röð tilviljana og óafsakanleg vanræksla sem veldur því að enginn tekur mark á  eða bregst við símtali um að lítið barn sé aleitt heima. Eldri kona sem Hanna hringir óvart í hefur samband við lögregluna en þar á bæ er brugðist við með yfirlæti.  Konunni er misboðið enda finnst henni eins og það sé nú litið á hana sem „ruglaðan gamlingja aðeins sjö árum eftir að hún hafði verið vinnandi háskólaborgari og einn af máttarstólpum samfélagsins“ (209) og tekur til sinna ráða. Það er næstum óbærilegt að fylgjast með því hvernig litla stelpan rambar smátt og smátt nær því að steypast í glötun. Það er umdeilanlegt hversu trúverðug flétta og sjónarhorn Hönnu litlu er, en það er sannarlega óvenjulegur og áhugaverður þráður sem gerir þessa bók sérlega eftirminnilega.

Hammerby-seríubækurnar eru svalar og vel skrifaðar, fjalla um venjulegt fólk í raunverulegum háska og eru gríðarlega spennandi.  Það þarf að gera gangskör að því að þýða þær bækur sem þegar eru komnar út á sænsku í seríunni. Það er ekki hægt að halda út að fá bara eina á ári.

Birt í Kvennablaðinu, 1. ágúst 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s