Nesbö, alltaf í stuði

Einn frægasti glæpasagnahöfundur á Norðurlöndum, og þótt víðar væri leitað, er norski rithöfundurinn Jo Nesbö (f. 1960). Bækurnar um þunglynda lögreglumanninn og drykkjusjúklinginn Harry Hole hafa gert hann heimsfrægan enda glæpasögur af bestu gerð. Í nýjustu bók Nesbö, Blóð í snjónum, kveður við nýjan tón. Harry er víðs fjarri góðu gamni (kannski bara á fylleríi í Hong Kong) og eflaust verða einhverjir lesendur svekktir yfir að fá ekki sinn skammt af honum. Nýja aðalpersónan, Ólafur, er lesblindur leigumorðingi sem „afgreiðir“ fólk, hálfgerður lúser og afspyrnu slakur í stærðfræði. Hann er jafnframt sögumaður að skrifa eigin sögu og skýlir sér á bak við kaldhæðni, gálgahúmor og töffarastæla.

Blod_i_snjonum1-175x287

Hinn nýi tónn Nesbö er áhugaverður og kannski ágætis hvíld frá Harry Hole, bæði fyrir höfund og lesendur. Bókin er stutt og snaggaraleg en það gengur heilmikið á þótt blaðsíðurnar séu ekki margar. Það er engin morðgáta á ferðinni en nóg af blóði og kúlnahríð í bland við pælingar um lífið og tilveruna og vísanir í heimspeki, dýralífsmyndir og heimsbókmenntir. Sagan gerist á áttunda áratugnum, alllöngu fyrir daga gemsa og tölvutækni. Það snjóar vitaskuld endalaust og frostið herðir sífellt meir eftir því sem sögunni vindur fram. Lesendur verða ekki varir við neinar löggur en dvelja þeim mun lengur í huga Ólafs þar sem fortíð hans, og hugsanleg framtíð, raðast smátt og smátt saman og ýmsir glæpir í undirheimum Óslóborgar eru dregnir fram í dagsljósið. Yfir allri sögunni hvílir ísköld íronía, kaldrifjað kæruleysi einkennir Ólaf, þennan undarlega mann sem þó segist vera svo viðkvæmur. Þetta skilar sér mjög vel í afbragðsgóðri þýðingu Bjarna Gunnarssonar, sem tilnefnd er til Ísnálarinnar 2015 en það eru verðlaun fyrir best þýddu glæpasöguna. Bæði hann og Forlagið eiga hrós skilið fyrir að koma bókinni svona fljótt og vel til íslenskra lesenda en hún kom út í Noregi fyrir stuttu.

Blóð i snjónum hefur fengið afar misjafna dóma á Norðurlöndum. Margir segja að Nesbö sé hér í fantaformi, öðrum finnst bókin minna á einfalda stílæfingu, enn öðrum að hún sé leið til að skrifa sig frá Harry sem vissulega er orðinn þaulsætinn og skiljanlegt að Nesbö vilji reyna sig við eitthvað nýtt. Sumir saka Nesbö um að ætla að færa sig yfir í Hollywoodbransann. Sagan minnir á hasarkvikmyndahandrit með tilheyrandi ástarsenum og blóðsúthellingum og heyrst hefur að bíómynd eftir bókinni sé í burðarliðnum.

Nesbö er í góðu stuði, því er ekki að neita. Blóð í snjónum er þrælspennandi og lymskulega vel saman sett og það tekur varla nema kvöldstund að lesa hana. En þeir sem sakna Harrys geta bara lesið einhverja af bókunum um hann aftur, hann stendur líka alltaf fyrir sínu.

Birt í Kvennablaðinu, 26. júlí 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s