Glæpasaga

Svalar seríubækur

Mamma, pabbi, barn er bók númer tvö í svokallaðri Hammerbyseríu eftir sænska rithöfundinn Carin Gerhardsen (f. 1962). Fyrsta bókin er Piparkökuhúsið sem kom út á íslensku 2014 og fjallað var um hér í Kvennablaðinu. Serían samanstendur af átta bókum um erfið og flókin störf harðsnúins lögregluteymis í Hammerstad, í suðurhluta Stokkhólms.

Mamma_babbi_barn-175x272

Carin Gerhardsen er nú einn af þekktustu glæpasagnahöfundum á Norðurlöndunum. Hana hafði lengi dreymt um að skrifa og var tilbúin með handrit að þremur bókum þegar hún loksins herti sig upp í að fara til útgefanda og nú njóta bækur hennar gríðarlegra vinsælda. Undanfarin ár hefur komið bók á ári í seríunni í Svíþjóð, aðeins ein hefur verið þýdd á ensku hingað til (sjá HÉR um norrænar glæpasögur á ensku) en nú eru komnar tvær á íslensku í rennilegri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur.

Gerhardsen er trú hinni skandinavísku spennusagnahefð. Helstu hugðarefni hennar eru dekkri hliðar mannlífsins, undarlegar tilviljanir og hvernig velferðarsamfélagið bregst skyldu sinni á ögurstundu. Sögupersónurnar búa oft við erfiðar fjölskylduaðstæður, yfirþyrmandi einmanaleika, drykkju, heimilisofbeldi og sifjaspell sem leiða þær út á ystu nöf. Í lögguteyminu er einvalalið, hver og ein persóna á sér sjálfstæða tilveru utan vinnunnar með skuggahliðum og erfiðri fortíð  sem blandast við spennuna sem Carin Gerhardsen skapar svo listilega. Fyrirliðar teymisins eru Conny Sjöberg, gamalreyndur jálkur, eldklár, vinnusamur og fljótur að hugsa og Petra Westmann, ung og harðdugleg lögreglukona sem þarf að berjast með kjafti og klóm við karlaveldið í löggunni. Bæði hafa eitthvert sjötta skilningarvit og eru óhrædd við að fylgja hugboði, þetta er sómafólk sem óhætt er að treysta. 

Í Pabbi, mamma, barn eru tvö morðmál í gangi. Ung stúlka er myrt um borð í Finnlandsferjunni, og kona finnst látin og lemstruð í sandkassa en sonur hennar er hætt kominn, yfirgefinn í barnavagni í grennd. En löggan veit ekki að konan á þriggja ára dóttur, Hönnu, sem er alein heima og gríðarleg spenna skapast þegar sjónarhornið er hjá henni. Það er röð tilviljana og óafsakanleg vanræksla sem veldur því að enginn tekur mark á  eða bregst við símtali um að lítið barn sé aleitt heima. Eldri kona sem Hanna hringir óvart í hefur samband við lögregluna en þar á bæ er brugðist við með yfirlæti.  Konunni er misboðið enda finnst henni eins og það sé nú litið á hana sem „ruglaðan gamlingja aðeins sjö árum eftir að hún hafði verið vinnandi háskólaborgari og einn af máttarstólpum samfélagsins“ (209) og tekur til sinna ráða. Það er næstum óbærilegt að fylgjast með því hvernig litla stelpan rambar smátt og smátt nær því að steypast í glötun. Það er umdeilanlegt hversu trúverðug flétta og sjónarhorn Hönnu litlu er, en það er sannarlega óvenjulegur og áhugaverður þráður sem gerir þessa bók sérlega eftirminnilega.

Hammerby-seríubækurnar eru svalar og vel skrifaðar, fjalla um venjulegt fólk í raunverulegum háska og eru gríðarlega spennandi.  Það þarf að gera gangskör að því að þýða þær bækur sem þegar eru komnar út á sænsku í seríunni. Það er ekki hægt að halda út að fá bara eina á ári.

Birt í Kvennablaðinu, 1. ágúst 2015

Nesbö, alltaf í stuði

Einn frægasti glæpasagnahöfundur á Norðurlöndum, og þótt víðar væri leitað, er norski rithöfundurinn Jo Nesbö (f. 1960). Bækurnar um þunglynda lögreglumanninn og drykkjusjúklinginn Harry Hole hafa gert hann heimsfrægan enda glæpasögur af bestu gerð. Í nýjustu bók Nesbö, Blóð í snjónum, kveður við nýjan tón. Harry er víðs fjarri góðu gamni (kannski bara á fylleríi í Hong Kong) og eflaust verða einhverjir lesendur svekktir yfir að fá ekki sinn skammt af honum. Nýja aðalpersónan, Ólafur, er lesblindur leigumorðingi sem „afgreiðir“ fólk, hálfgerður lúser og afspyrnu slakur í stærðfræði. Hann er jafnframt sögumaður að skrifa eigin sögu og skýlir sér á bak við kaldhæðni, gálgahúmor og töffarastæla.

Blod_i_snjonum1-175x287

Hinn nýi tónn Nesbö er áhugaverður og kannski ágætis hvíld frá Harry Hole, bæði fyrir höfund og lesendur. Bókin er stutt og snaggaraleg en það gengur heilmikið á þótt blaðsíðurnar séu ekki margar. Það er engin morðgáta á ferðinni en nóg af blóði og kúlnahríð í bland við pælingar um lífið og tilveruna og vísanir í heimspeki, dýralífsmyndir og heimsbókmenntir. Sagan gerist á áttunda áratugnum, alllöngu fyrir daga gemsa og tölvutækni. Það snjóar vitaskuld endalaust og frostið herðir sífellt meir eftir því sem sögunni vindur fram. Lesendur verða ekki varir við neinar löggur en dvelja þeim mun lengur í huga Ólafs þar sem fortíð hans, og hugsanleg framtíð, raðast smátt og smátt saman og ýmsir glæpir í undirheimum Óslóborgar eru dregnir fram í dagsljósið. Yfir allri sögunni hvílir ísköld íronía, kaldrifjað kæruleysi einkennir Ólaf, þennan undarlega mann sem þó segist vera svo viðkvæmur. Þetta skilar sér mjög vel í afbragðsgóðri þýðingu Bjarna Gunnarssonar, sem tilnefnd er til Ísnálarinnar 2015 en það eru verðlaun fyrir best þýddu glæpasöguna. Bæði hann og Forlagið eiga hrós skilið fyrir að koma bókinni svona fljótt og vel til íslenskra lesenda en hún kom út í Noregi fyrir stuttu.

Blóð i snjónum hefur fengið afar misjafna dóma á Norðurlöndum. Margir segja að Nesbö sé hér í fantaformi, öðrum finnst bókin minna á einfalda stílæfingu, enn öðrum að hún sé leið til að skrifa sig frá Harry sem vissulega er orðinn þaulsætinn og skiljanlegt að Nesbö vilji reyna sig við eitthvað nýtt. Sumir saka Nesbö um að ætla að færa sig yfir í Hollywoodbransann. Sagan minnir á hasarkvikmyndahandrit með tilheyrandi ástarsenum og blóðsúthellingum og heyrst hefur að bíómynd eftir bókinni sé í burðarliðnum.

Nesbö er í góðu stuði, því er ekki að neita. Blóð í snjónum er þrælspennandi og lymskulega vel saman sett og það tekur varla nema kvöldstund að lesa hana. En þeir sem sakna Harrys geta bara lesið einhverja af bókunum um hann aftur, hann stendur líka alltaf fyrir sínu.

Birt í Kvennablaðinu, 26. júlí 2015

Upphitun fyrir annað og betra?

 Í nýjustu bók Lizu Marklund, Hamingjuvegi, glíma blaðakonan Annika Bengtzon og Nina Hoffman rannsóknarfulltrúi við sérkennilegt og sorglegt mál um leið og ritstjóri Kvöldblaðsins sætir netofsóknum og gömul mál og persónur úr fyrri bókum skjóta upp kolli. Upphaf sögunnar er hrikalega ofbeldisfullt og varla hægt að stauta sig fram úr því án þess að verða hálfóglatt. Stjórnmálamaðurinn Lerberg finnst alvarlega limlestur á heimili sínu eftir ótrúlegar pyntingar og konan hans er horfin sporlaust. Börn þeirra hjóna eru kynnt til sögunnar, örvingluð og yfirgefin enda þau hugsanlega í vondu fóstri en það er kaldhæðnisleg og sænskuskotin ádeila á einkavæðingu og kapítalisma að Lerberg hafði einmitt barist fyrir því á sínum stjórnmálaferli að félagsþjónusta og fósturheimili yrðu lögð niður.

Þær stöllur Annika og Nina rannsaka málið en verður lítið ágengt, m.a. þar sem einkalífið tekur sitt pláss. Í því stússi er Annika mannleg og breysk persóna sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Hún þarf m.a. að glíma við illskeyttan fyrrverandi eiginmann, stjúpbörn núverandi sambýlismanns og léttklikkaða systur svo hún hefur í mörg horn að líta. Nina á að baki flókna fortíð og á erfitt með umgengni við annað fólk, en það er jú þekkt minni úr nýlegum skandinavískum bókmenntum og kvikmyndum að lögreglukonur þurfa að vera hálfskrýtnar og næstum fatlaðar í samskiptum til að vera trúverðugar.

Stieg Larsson var einna fyrstur til að lýsa tölvunotkun sögupersóna ítarlega í sínum frægu bókum, til að undirstrika ráðsnilli þeirra á tækniöld. Nú hafa margir tekið upp þetta trix sem virkaði flókið og spennandi þegar var verið að lýsa glæpum á netinu og starfsaðferðum hakkara en er ekki sérlega áhugavert þegar verið er að teygja lopann: „Hendur hennar sveimuðu ofan við lyklaborðið, hún vissi ekki hvernig forritin virkuðu en grundvallaratriðin hlutu að vera eins og á PC-tölvu. Neðst á skjánum var röð af táknum fyrir ýmis forrit, þau stækkuðu þegar hún færði bendilinn yfir þau. Hún smellti á pósthólfið, í innhólfinu var eitt skeyti“(356).

Annika Bengtzon er heillandi sögupersóna, hún er eldklár hörkunagli, hirðuleysisleg í útliti en hugurinn er sístarfandi. Hún er fyrsta kvenkyns aðalpersóna í sænskri glæpasagnaflóru og í bókum um hana er fókusinn jafnan á stöðu kvenna og barna. Bækur Lizu Marklund um þessa eldkláru blaðakonu hafa selst í 15 milljónum eintaka og verið þýddar á 30 tungumál. Þýðing Ísaks Harðarsonar er ágæt, þyrfti ekki að vera samræmi milli titilsins Hamingjuvegar (Lyckliga gatan) og þeirrar Hamingjugötu sem verður endastöðin í lok bókarinnar?

Hamingjuvegur er hörkuspennandi bók og stendur alveg fyrir sínu en er langt í frá besta bók Lizu Marklund. Maður hefur á tilfinningunni að hún sé upphitun fyrir næstu bók þar sem margir lausir endar þvælast fyrir í sögulok. Fyrrverandi eiginmaður Anniku hefur t.d. eitthvað misjafnt í hyggju, Valter starfsnemi í fjölmiðlun, er kynntur til sögu en gufar svo bara upp og kannski fær Annika stöðuhækkun innan skamms. Hún hefur allavega ekki sagt sitt síðasta orð og næstu bók verður tekið fagnandi.

Birt í Kvennablaðinu, 12. júlí 2015