Dýrið gengur laust

 

Stefán Máni heldur sig við glæpi úr undirheimum Reykjavíkur í nýrri bók sem nefnist Nautið. Titillinn tengist m.a. Chicago Bulls-fána, gróteskri senu þar sem saklausu nauti er slátrað og örlögum mesta illmennisins í sögunni auk þess sem karlpersónurnar yfirleitt eru ansi tuddalegar. Sagan gerist að stórum hluta á landsbyggðinni og þar eru sömuleiðis framdir glæpir, s.s. sifjaspell, hópnauðgun og sálarmorð.

Obeldið er alls staðar í sögunni og margar persónur eru hressilega stangaðar, s.s. smákrimminn Ríkharður, Hanna sem þarf að þola hroðalegri meðferð en lengi hefur sést í íslenskum bókmenntum og Óskar, léttvangefinn  strákur, sem býr við illt atlæti á afskekktum sveitabæ.

Það er ekki vert að gefa of mikið upp um söguþráðinn en sagan er krassandi og hreinlega hrollvekjandi allan tímann. Styrkur hennar liggur í hraðri frásögn, tíðum senuskiptingum í tíma og rúmi og trúverðugum persónum sem allar hafa sinn djöful að draga.

Persónurnar eru allar ógeðfelldar, ýmist fíklar eða vondar manneskjur eða hvort tveggja. Óskar er óvenjuleg persóna sem hefði getað þegið örlítið meiri alúð af hendi höfundar. Hann er algjör steríótýpa, góður risi sem óvart drepur köttinn, og minnir aðeins of mikið á Lenny úr skáldsögu Steinbecks, Músum og mönnum. Karlarnir eru allir ofbeldisseggir og kvenpersónurnar eru fórnarlömb sem þola ofbeldið af fálæti eða varnarleysi.

Í frásögninni miðar allt  í átt að meiri ógæfu og spennan er gífurleg. Fyrirboði um ógn og dauða er undirstrikaður með óreglulegu og feitletruðu „tikk takki“ – sem er kannski fulldramatískt. Ítarlegar og raunsæislegar lýsingar á umhverfi skapa andrúmsloft  þar sem eitthvað illt er sífellt í aðsigi og voðinn gefinn í skyn, eins og í stofunni sem hér er lýst en þar mætir ein sögupersónan grimmum örlögum:

„Stofan er lítil og ofhlaðin húsgögnum, skrautmunum og grænum plöntum sem allar eru ofvaxnar, teygja sig  til allra átta og varpa kræklóttum skuggum á ljósgula veggina – engu líkara  en herbergið sé fullt af lappalöngum risakóngulóm sem grafkyrrar bíða þess að hann loki augunum, þá stökkva þær af stað og spýta í hann eitri. Húsgögnin eru gömul og lúin, úr tekki og lökkuðum viði, heklaðir dúkar á borðunum, slitið flauelsáklæði á stólunum og sófanum. Á veggjunum eru plattar, myndir og alls konar drasl sem klifurjurtirnar skríða eftir og hanga á. Þykkt teppi á gólfinu, lykt af ryki og tekkolíu í loftinu (117-118)

Stefán Máni er á kunnuglegum slóðum í þessari bók, hægt er að ganga að honum vísum með vel byggða og óhugnanlega sögu þar sem smákrimmar og steratröll rífa kjaft, allt veður í dópi og druslum og dýrið gengur laust. Nýjustu fréttir eru þær að sjónvarpsþáttaröð sé í bígerð eftir sögunni. En það er langt í það, lesið bókina fyrst.

Spennusaga

Sögur, 2015

234 bls

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. des. 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s