afþreying

Lesefni í sumarfríinu

 

Aukaverkanir

29565510._UY2421_SS2421_

Njáll er miðaldra útbrunninn heimilislæknir, langþreyttur á fótsveppum, kæfisvefni og margvíslegri fíkn sjúklinga sinna. Hann er orðinn lífsleiður og einrænn, börnin vaxin frá honum og eiginkonan búin að fá alveg nóg. Ýmsir atburðir verða til þess að hann þarf að endurskoða líf sitt. Glæný og skemmtilega kaldhæðin bók eftir Ólaf Hauk Símonarson.

 

Dalalíf

imagesFjórða útgáfa af þessari sívinsælu sögu um ást í meinum og margslungin örlög í íslenskri sveit á 19. öld. Guðrún þótti aldrei nógu fín, menntuð eða merkileg til að vera talin meðal mestu höfunda þjóðarinnar þótt verk hennar væru gríðarlega vinsæl og lesin upp til agna. Það er áhugavert að sjá hvernig ný kynslóð lesenda tekur verkum Guðrúnar. Eru þau sígild? Á sveitalífið í Hrútadal með lókaldrama og kaffiþambi upp á pallborðið hjá unga fólkinu nú á dögum?

 

Glerhjálmurinn

UnknownHeimsfræg skáldsaga frá 1963 eftir bandarísku skáldkonuna Sylviu Plath, í þýðingu Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur (2003). Áhrifamikil bók um þar sem sagt sagt er frá brenglaðri sjálfsmynd og andlegu niðurbroti. Sylvia Plath varð eins konar tákngervingur fyrir kvenfrelsisbaráttu á sjöunda áratugnum, eftir glæsilegt upphaf á ferlinum sat hún uppi með börn og bleyjuþvott meðan eiginmaðurinn varð lárviðarskáld. Skyldulesning allra femínista með sómatilfinningu.

 

Konan í blokkinni

Unknown-1Hörkuspennandi saga, glóðvolg úr prentsmiðjunni, eftir Jónínu Leósdóttur. Sagan gerist í Reykjavík samtímans um jólaleytið þegar allir eru í stresskasti en Edda gamla er hálftýnd í öllum látunum. Hún er lífeyriseigandi (nýyrði í stað orðsins ellilífeyrisþegi), eldspræk með allt á hreinu og ljóst að fleiri glæpamál bíða hennar. Konur knýja atburðarásina, þær hugsa þokkalega vitrænt og láta til skarar skríða. Hommatengdasonurinn er samt skemmtilegasta týpan.

 

Níunda sporið

Unknown-2Glæný skáldsaga eftir Ingva Þór Kormáksson sem hlaut Gaddakylfuna 2009 fyrir glæpasöguna Hliðarspor. Sögumaður hlustar á sögu Egils, fornvinar síns, um dóp, brennivín og mannlega eymd. Atburðir sem gerðust í barnæsku hafa ófyrirsjáanleg áhrif og nú kemur að skuldadögum. Mjög trúverðugar lýsingar á djammi og alls konar rugli, hressandi lesning fyrir verslunarmannahelgina.

 

Regnskógabeltið raunamædda

Unknown-3Kom fyrst út 1955 og árið 2011 á íslensku í frábærri þýðingu Péturs Gunnarssonar. Bókin olli úlfaþyt meðal mannfræðinga og heimspekinga um heim allan en Leví-Strauss lýsir hér m.a. vettvangsrannsóknum á ættbálkum frumskóga Brasilíu sínum á síðustu öld. Höfundurinn lést 2009, rúmlega aldar gamall og hafði þá dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir allnokkru. Þetta er ferðasaga í bland við sjálfsævisögu og heimspekipælingar. Fjallað er um vestræna og suðræna menningu, nýlendustefnu og þjóðarmorð en eftir að Evrópubúar ruddust inn í Suður-Ameríku lágu hundruð þúsunda frumbyggja í valnum. Íslenskir afkomendur nýlenduþræla ættu ornað sér við tragískt hitabelti og frumstætt skógarlíf og læra smá um sögu heimsins í leiðinni.

Spámennirnir í Botnleysufirði

Unknown-4Mögnuð saga um líf í nýlendu Dana á Grænlandi á átjándu öld. Sagan hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Þýðingin er eftir Jón Hall Stefánsson og ekkert áhlaupaverk. Höfundurinn, Kim Leine, bjó sjálfur á austurströnd Grænlands og þekkir aðstæður vel. Margir Danir eru sárreiðir út í hann og telja hann fara með tómt fleipur um misnotkun og arðrán í aldaraðir í hinni dönsku nýlendu. Konur voru í sérstaklega vondri stöðu og réðu litlu um örlög sín. Ef manni finnst sumarið ekki nógu hlýtt eða sólríkt er gott að grípa í þessa sögu, sem manni verður beinlínis hrollkalt af að lesa – ekki bara út af veðurlýsingunum. Endist allt sumarið.

Vinkonuserían

framurskarandivinkonaStefnum við ekki allar á að ná a.m.k. einu góðu kvöldi, jafnvel bústaðahelgi, með bestu vinkonunni í sumarfríinu? Vinkonuserían svokallaða hefur heillað milljónir lesenda um heim allan en þar er lýst stöðu kvenna í íhaldssömu samfélagi í Napólí um miðja síðustu öld. Brynja Cortes Andrésdóttir þýðir lipurlega úr frummáli og aldrei er of oft minnt á hve íslenskir lesendur eiga þrautseigju og þolgæði þýðenda mikið að launa. Elena Ferrante er fræg fyrir að vilja ekki vera fræg, birtir undir dulnefni og fer huldu höfði.

 

Öddubækurnar

Unknown-5Jenna Jensdóttir lést í mars á þessu ári en hún ásamt manni sínum skrifaði Öddubækurnar sem komu allar sjö út í einum pakka í fyrra. Adda naut gríðarlegra vinsælda um 1970 og spennandi að sjá hvernig hún hefur elst. Hún var fátæk og munaðarlaus en það varð henni til bjargar að siðavönd og réttrúuð hjón tóku hana í fóstur. Adda fetar hefðbunda þroskabraut þess tíma, lýkur stúdentsprófi og trúlofast læknanema en þar endar sagan. Það er alveg furðulega stutt síðan að líf kvenna endaði einmitt þarna.

Dýrið gengur laust

 

Stefán Máni heldur sig við glæpi úr undirheimum Reykjavíkur í nýrri bók sem nefnist Nautið. Titillinn tengist m.a. Chicago Bulls-fána, gróteskri senu þar sem saklausu nauti er slátrað og örlögum mesta illmennisins í sögunni auk þess sem karlpersónurnar yfirleitt eru ansi tuddalegar. Sagan gerist að stórum hluta á landsbyggðinni og þar eru sömuleiðis framdir glæpir, s.s. sifjaspell, hópnauðgun og sálarmorð.

Obeldið er alls staðar í sögunni og margar persónur eru hressilega stangaðar, s.s. smákrimminn Ríkharður, Hanna sem þarf að þola hroðalegri meðferð en lengi hefur sést í íslenskum bókmenntum og Óskar, léttvangefinn  strákur, sem býr við illt atlæti á afskekktum sveitabæ.

Það er ekki vert að gefa of mikið upp um söguþráðinn en sagan er krassandi og hreinlega hrollvekjandi allan tímann. Styrkur hennar liggur í hraðri frásögn, tíðum senuskiptingum í tíma og rúmi og trúverðugum persónum sem allar hafa sinn djöful að draga.

Persónurnar eru allar ógeðfelldar, ýmist fíklar eða vondar manneskjur eða hvort tveggja. Óskar er óvenjuleg persóna sem hefði getað þegið örlítið meiri alúð af hendi höfundar. Hann er algjör steríótýpa, góður risi sem óvart drepur köttinn, og minnir aðeins of mikið á Lenny úr skáldsögu Steinbecks, Músum og mönnum. Karlarnir eru allir ofbeldisseggir og kvenpersónurnar eru fórnarlömb sem þola ofbeldið af fálæti eða varnarleysi.

Í frásögninni miðar allt  í átt að meiri ógæfu og spennan er gífurleg. Fyrirboði um ógn og dauða er undirstrikaður með óreglulegu og feitletruðu „tikk takki“ – sem er kannski fulldramatískt. Ítarlegar og raunsæislegar lýsingar á umhverfi skapa andrúmsloft  þar sem eitthvað illt er sífellt í aðsigi og voðinn gefinn í skyn, eins og í stofunni sem hér er lýst en þar mætir ein sögupersónan grimmum örlögum:

„Stofan er lítil og ofhlaðin húsgögnum, skrautmunum og grænum plöntum sem allar eru ofvaxnar, teygja sig  til allra átta og varpa kræklóttum skuggum á ljósgula veggina – engu líkara  en herbergið sé fullt af lappalöngum risakóngulóm sem grafkyrrar bíða þess að hann loki augunum, þá stökkva þær af stað og spýta í hann eitri. Húsgögnin eru gömul og lúin, úr tekki og lökkuðum viði, heklaðir dúkar á borðunum, slitið flauelsáklæði á stólunum og sófanum. Á veggjunum eru plattar, myndir og alls konar drasl sem klifurjurtirnar skríða eftir og hanga á. Þykkt teppi á gólfinu, lykt af ryki og tekkolíu í loftinu (117-118)

Stefán Máni er á kunnuglegum slóðum í þessari bók, hægt er að ganga að honum vísum með vel byggða og óhugnanlega sögu þar sem smákrimmar og steratröll rífa kjaft, allt veður í dópi og druslum og dýrið gengur laust. Nýjustu fréttir eru þær að sjónvarpsþáttaröð sé í bígerð eftir sögunni. En það er langt í það, lesið bókina fyrst.

Spennusaga

Sögur, 2015

234 bls

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. des. 2015