Rifjaði upp ritdóm um Lygasögu Lindu Vilhjálmsdóttur frá 2003 á skald.is. Mögnuð bók um alkóhólisma og ofbeldi. Setti hana líka inn þar sem skáld vikunnar enda páskar og hún hefur ort um ástandið í vöggu kristindómsins.
Mynd: bokmenntaborgin.is
Rifjaði upp ritdóm um Lygasögu Lindu Vilhjálmsdóttur frá 2003 á skald.is. Mögnuð bók um alkóhólisma og ofbeldi. Setti hana líka inn þar sem skáld vikunnar enda páskar og hún hefur ort um ástandið í vöggu kristindómsins.
Mynd: mbl.is
Það liggur eitthvað í loftinu. Menn eru að verða svo meyrir og nostalgískir, menn horfa til baka, gera upp líf sitt, kafa ofan í uppeldið, ástina, eineltið, fátæktina, fíknina og skömmina, hjónabandið, geðveikina, dauðann. Og pæla í hvernig varð ég nú skáld, ballettdansari, prestur eða róni – hvað gerði mig að því sem ég er?
Tilhneiging sjálfsverunnar til að gera upp fortíðina birtist víða í skáldverkum samtímans, í ljóðum, sjálfs-/skáldævisögum, myndlist og kvikmyndum. En það er ekki oft sem sjálfsævisaga er ekki skrifuð að sjálfinu, af þeim sem sagan snýst um. Ég verð að viðurkenna að það ergði mig dulítið í fyrstu að handleika Þúsund kossa, (sjálfs)ævisögu Jógu eftir Jón Gnarr. Af hverju er karl að skrifa fyrir konu? Er þetta enn eitt dæmið um karl sem tekur efni konu, sögu hennar og ljóð, og býr til prentunar, raðar upp, skrifar formála og athugasemdir og klippir burt eða bætir í að eigin geðþótta eins og svo mörg dæmi eru um úr bókmenntasögunni? Jóhanna Jóhannsdóttir, sem alltaf er kölluð Jóga, hefur orðið í bókinni og segir frá hverju klandrinu á fætur öðru í lífi sínu en Jón, eiginmaður hennar, skráir og er höfundurinn. Er Jóga dáin eða mállaus? Er hann búktalari fyrir Jógu? Hvað er málið?
Jóga segir: „Ég veit ekki mikið um bækur. Ég hef ekki lesið margar bækur og aldrei skrifað bók, en ég hugsaði sem svo að kannski gæti hann farið í gegnum þetta með mér með því að skrifa söguna“ (272).
Nú nú, allt í lagi, gefum þessu sjens, Jón er fínn rithöfundur og textasmiður og styður við bakið á konu sinni. Sagan hefst á notalegum árum í Kópavoginum þar sem Jóga elst upp, hress og opin, soldið fiðrildi og krútt, hæfileikarík og sjálfstæð stúlka. Þeir kaflar eru léttir og ljúfir og mesta furða hvað hægt er að búa þar til úr litlu efni. Í fyrri hluta bókarinnar er lesandinn búinn undir að Jóga muni reka sig harkalega á í tilverunni, sakleysi hennar og trúnaðartraust mun sannarlega tortímast.
Nítján ára gömul fer Jóga sem au pair til New York, lendir þar í alvarlegu bílslysi 1981 og tilveran fer á hvolf. Eftirmálin eru með mestu ólíkindum, allt klúðrast sem klúðrast getur og Jóga snýr aftur heim, niðurbrotin og skömmustuleg. Það er fyrst núna, þrjátíu og fimm árum síðar, sem hún kastar af sér byrðum áralangrar sjálfsásökunar og skoðar hlutina í nýju ljósi.
Það kemur á daginn að Jón Gnarr er hvergi nálægur í þessari bók, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Honum tekst afar laglega að halda sjálfum sér utan við söguheiminn og skrásetja frásögnina án þess að troða Jógu um tær. Hann (eða þau?) skapa trúverðugan og viðkunnanlegan sögumann, sem í senn er „Viking Woman“ og „óttalegur njóli“. Ung og hrekklaus verður Jóga fyrir alvarlegu áfalli, staulast síðan um með brotna sjálfsmynd, fótsár og vegmóð af illsku heimsins. Þetta er vel gert og nærfærnislega í bókinni og ekki annað hægt en finna til samúðar og samkenndar með stúlkunni í öllum hremmingunum.
Það sem kom fyrir Jógu í Ameríku er viðkvæmt mál en í bókarlok tekur hún saman hvaða mark þessi erfiða reynsla hefur sett á hana. Skömmin er stór hluti af afhjúpuninni og uppgjöri við fortíðina. Það þarf mikið hugrekki til að opinbera það sem maður hefur blygðast sín fyrir alla ævi en það er líka léttir. Saga Jógu er um svikið sakleysi en hún fjallar líka um fyrirgefningu; um það að geta fyrirgefið sjálfum sér.
Jóga segir: „Ég veit ekki alveg ennþá hver tilgangurinn með þessari bók er. Kannski er einhver frekari heilun fólgin í því fyrir mig að koma þessari reynslu frá mér. Kannski styrkir það mig að hafa gengið í gegnum þetta upprifjunarferli. Ég veit það ekki enn. Kannski getur saga mín hjálpað öðrum á einhvern hátt, gefið styrk eða von. Ég vona það af öllu hjarta“ (281).
Ég er viss um að skrifin skila einhverju góðu fyrir hana og Jón. Lesendur munu áreiðanlega hafa gaman af bókinni; dúndrandi eitís-fílingnum, heiðarleikanum, hugrekkinu og uppgjörinu; og jafnvel draga af henni nokkurn lærdóm enda er þetta öðrum þræði öndvegis sjálfshjálparbók. En ég velti fyrir mér hvort það sé alveg bitið úr nálinni. Er Jóga tilbúin að bera höfuðið hátt eða ætlar hún að standa að baki Jóni, hinum vel skrifandi karli? Það eru nokkrar myndir í bókinni úr einkasafni en engin almennileg mynd af Jógu, á bls 180 er mynd af þeim hjónum þar sem sést ekki framan í hana og á bókarkápunni heldur hún fyrir andlitið.
Náði mynd af Kim Leine þar sem hann las upp í Eymundsson í Austurstræti regnblautan miðvikudag. Leine fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Spámennina í Botnleysufirði og eftir upplesturinn fór hann að hitta kollega sinn, Einar Má Guðmundsson, á kaffihúsi. Kalak er sjálfsævisaga, þar sem lýst er uppvexti Kims í Kaupmannahöfn þar sem hann býr við kynferðisofbeldi og vanrækslu af hendi föður síns og leiðist út í alls konar rugl, flytur til Grænlands og gengur þrusuvel að aðlagast lífinu þar en Kalak þýðir eiginlega „gegnheill Grænlendingur“; nafn sem söguhetjan fékk sér til háðungar þar í landi. Frábær bók.
„Maður man og á í höfði sínu dýrindis upptökur og bara kveikir á og fer þangað“, segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, í sjálfsævisögu sinni, Stúlka með höfuð. Sagan er smiðshöggið í ættarsöguþríleik en formæður hennar voru stúlkur með fingur og maga.
Einlæg og nærgöngul
Í sjálfsævisögum ganga höfundar misjafnlega nærri sjálfum sér enda markmið og tilgangur þeirra margvíslegur. Sjónarhornið ræður miklu og áhugavert að skoða hvað ratar í ævisögu og hverju er sleppt til að búa til ímynd eða sjálfsmynd úr brotakenndum minningum. Aðferðirnar eru mismunandi, margir fegra og göfga sögu sína, fæstir afhjúpa lífshlaup sitt grímulaust en fela heldur og bæla það sem ekki kemur þeim vel í heildarmyndinni, loks er sumu hreinlega stungið undir stól. En skemmst er frá því að segja að einlæg og nærgöngul sjálfsævisaga eins og Þórunnar er sjaldséð og mikill happafengur.
Tíminn er ekki lína
Sagan hefst í föðurhúsum, Tóta litla elst upp meðal sjö systkina, pabbinn er flugkappi, móðirin einkabarn og stúdent. Farið er yfir skólaárin, samband foreldranna sem endar með sársaukafullum skilnaði, sumarstörfin, sveitadvölina og fiskvinnuna, vinkonurnar, sjensana og menntaskólann. Þá er heimdraganum hleypt, utanlandsferðir, námsárin og svo hjónalíf og barneign. Lífshlaupið er dæmigert (a.m.k. framan af) fyrir manneskju sem fædd er á Íslandi um miðja síðustu öld og sett í skáldlegt og þroskað samhengi, líkt og hjá fleiri höfundum af 68-kynslóð sem skrifa nú í óða önn minningabækur sínar.
Mesta áherslan er á æskuna og fram yfir tvítugt, einkum á það tráma sem skilnaður foreldranna var. Þegar hún kemst til vits og ára tekur bóhemlífið við með ýmsum tilfæringum og skemmtilegum tilraunum. Sagan er ekki alveg í krónískri röð heldur kvikna hugrenningar hver af annarri og tengjast á ýmsa vegu. Tíminn er heldur ekki lína, „Þetta eru tvenn ímynduð lönd, fortíðin og framtíðin. Hrygglengjan er föst í núinu, vængirnir dreyma sig burt. Hvor í sína átt“ (315).
Skrýtin gimbur
Þórunn hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér og kallar sig skrýtna gimbur, galning og lukkugæs. Hún hefur líka húmor fyrir lífinu og kokkar enga sorgarsúpu eins og hún orðar það þrátt fyrir erfiðleika og skakkaföll og vill ekki að skrifa ljótt um samferðafólk sitt. Hér eru engir skandalar, ekkert slúður eða illmælgi. Allir eru yndislegir, fagrir og góðir á sinn hátt í minningunni. Það er hins vegar galli að alltof margir eru nefndir til sögunnar í svip og hér hefði mátt skerpa línur, sérstaklega í kaflanum um menntaskólaárin.
Foreldrarnir fá skilning og samúð þrátt fyrir brotalamir sínar, því frá þeim kemur sitthvað sem gerir mann að því sem maður er. Þórunn segir að sér hafi í gegnum árin tekist að stilla saman ólíka heima foreldra sinna og þannig vanist mótsögnum í sjálfri sér og lífinu (162). Það er stórt skref í lífi og þroska sérhverrar manneskju.
„Gangandi taugaþúfa“
Einlægnin í sögunni er einstök, það nennir enginn að lesa prakkaralegar drengjabækur, glansmyndakenndar frægðarsögur eða karlagrobb eftir að hafa lesið Stúlku með höfuð. Og höfuðið er stórt, það er „gangandi taugaþúfa“, fullt af alls konar hugsunum og minningum; um Reykjavík síðustu aldar, laugardagsbaðið og sveskjugraut í vömbinni, uppeldisaðferðir og atlæti kynslóðar sem hafði lifað heimstyrjöld – um veröld sem var.
Það er svo margt sem hefur áhrif á þroskann og sjálfsmyndina, margs konar áföll og sigrar, álit annarra, tíska og hippamenning, hass og sýra, vinátta, kynlíf og ástarsambönd en á endanum kemst stúlkuhausinn furðu heill frá þessu öllu. Sjálfsmyndin hefur breyst frá bólóttum og viðkvæmum gleraugnaglámi sem er skrýtinn að innan og ömurlegur í leikfimi yfir í fallega og lífsreynda konu sem er þakklát fyrir gjafir lífsins.
Frábær stílisti
Stíllinn er ljóðrænn, fyndinn og tregafullur, fullur af dásamlegu trúnaðartrausti. Orðfærið er mjög skemmtilegt, forneskjulegt og frumlegt í senn, enda Þórunn frábær stílisti. Sem dæmi mætti nefna að taka trú dýrúðar (gerast grænmetisæta), mánatíðir (blæðingar), eiga flugpabba, að landlasta o.m.fl.
Bókina prýða bæði ljósmyndir (af sparihliðunum) og teikningar Þórunnar sjálfrar sem gefa sögunni enn frekar yfirbragð nándar og trausts .Víða er stuðst við gömul bréf og jafnvel gægst í facebook til að athuga hvað orðið hefur um gamla kærasta. Og öllu brasinu slegið upp í grín: „Hvað er maður alltaf að reyna að útskýra allt. Böl sagnfræðinámsins. Böl mannlífsins“ (259).
Líkaminn og kynhvötin
Saga Þórunnar er mjög líkamleg, hún er öðrum þræði um ástarsambönd, kynþroska og hormóna, blæðingar, afmeyjun og fullnægingar. Allt það sem þvælist endalaust fyrir stúlku með kristilegt uppeldi, sem hefur lesið rómantískar ástarsögur og er alin upp við borgaralegt siðferði.
Líkaminn og kynhvötin eru alls staðar í textanum og húmor og viska alltumlykjandi: „Ég man pissandi píkurnar á kúnum, svo líkar manns eigin sem kona getur aldrei séð gera slíkt hið sama. Víst eru til speglar en á þá pissar maður ei“ (147).
Erfðasyndin
Syndin er lævís og lipur og leggst af þunga á stelpuskjátuna, hún ætlar að stela pening fyrir sælgæti, þorir ekki að lúra hjá svölum Eyjapeyja því þá er hún svo mikil hóra og svo kremur hún hjörtu aðdáenda sinna. Og nú nagar hún sig í handarbökin yfir að hafa sleppt mörgum góðum sjens vegna misskilinnar tryggðar og niðurdrepandi sektarkenndar.
Langan tíma tekur að losna undan uppeldi og samfélagi þar sem bæling er alls ráðandi og dyggð barnsins felst í að láta lítið fyrir sér fara, ekki biðja um neitt, vera ekki fyrir. Strangleiki föðurins býr til endalausar sjálfsásakanir, ástarsorg móðurinnar býr til fælni við náin kynni og hvort tveggja fylgir alla ævi.
Útlínur minnisins
Sorgin knýr dyra eins og gengur og setið er í ekkjudómi eftir góðan mann sem lést sviplega og var öllum harmdauði. Fram kemur að hann vildi ekki vera í bókinni svo sagan endar þar sem hann kemur til skjalanna. Sagan er drifin áfram í sorg eftir hann og fjarvera hans er kvika sem sífellt minnir á sig, þannig er lesanda aftur og aftur kippt inn í nútíðina. Það er auðséð að sögumaður er enn að fóta sig í nýrri tilveru eftir missinn, reyna að leggja drög að nýrri framtíð og takast á við ný verkefni með sátt og fyrirgefningu í farteskinu.
Þórunn Jarla hefur lært hvað það er að elska, missa, gráta og sakna og að gleðjast um leið yfir öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða:
„…því ég er orðin gangandi æðruleysi. Þegar Eggert dó hætti allt að skipta máli. Líka hvort ég lifi eða dey eða þjáist. Þið getið ekki klipið mig með glóandi töngum, ég flýg burt, er úr eter og hverf sem skuggi fyrir sólu. Stundum þarf að brenna húsið til að sjá mánann“ (194).
Stúlka með höfuð, sjálfsævisaga
JPV, 2015
321 bls
Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) er nýkomin út í kilju, merktri „íslensk klassík“ (síðast birtist hún á rafbók 2010). Ég er alveg dottin ofan í hana og er með ritdóm í smíðum sem birtist í Kvennablaðinu fljótlega. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu, á gullaldarmáli, fyndin og fróðleg og einstök meðal íslenskra sjálfsævisagna, því Gröndal hlífir engum í samtíðarspegli sínum, síst sjálfum sér. Í grúski mínu rakst ég á þessa mynd af Gröndal (eftir Ólaf Th. Ólafsson), hún er táknræn og doldið falleg. Bóhem með sveitalegt skólasetrið í bakgrunni, bókamaður og fagurkeri sem sker sig úr umhverfi sínu.