Bókmenntir

Fokkið ykkur öll. Um smásögur Steinars Braga, Allt fer

Smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer, er hnausþykkt og efnismikið og inniheldur nítján langar og fullburða sögur. Þær eru hvorki fallegar né meinlausar og ekki allar nýjar, þær eru margar og misgóðar en það er í þeim miskunnarlaus kraftur. Ef Steinar Bragi fær ekki bókmenntaverðlaunin, af þeim sem tilnefndir eru 2016, eru þau bara prump.

Hvergi verður maðurinn eins lítill og ófrjáls, svo augljóslega roðhundur og þræll, eins og í fríhöfninni, þeim óskáldlega stað þar sem „meira að segja skórnir voru tortryggðir“ (11). Þar gengst fólk undir lög, vald og skrifræði af fúsum og frjálsum vilja, „Hver einasti fermetri verðlagður og öryggisvottaður oft á dag“ (11) og sætir sjálfviljugt rannsókn á persónulegum farangri, jafnvel eigin líkama. Glansandi fríhöfnin er sögusvið fyrstu sögunnar í safninu, „Reykjavík er að vakna“ þar sem firring vestrænnar menningar er undirtónninn, þar sem hjarðhegðunin nær hámarki. Engin tilviljun að þetta er fyrsta sagan í safninu, hún er þrusugóð.

Karnívalísk útrás

Myndir úr fleiri sögum safnsins sitja fastar á heilaberkinum að loknum lestri. Í „Kaiser Report“ hittast tveir kunningjar sem báðir eru búnir að mála sig út í horn. Kyrkislanga og kettlingar koma við sögu og atburðarásin er svo hrollvekjandi að ráðsettur lesandi unir ekki lengur undir leslampanum heldur hrökklast fram á bað til að skvetta framan í sig köldu vatni. „Páfastóllinn“ er sprenghlægileg, um par sem glímir við ófrjósemi, og karnivalísk útrásin nær hámarki í órum rúnksenu á læknastofu í Smáralind; verulega kröftugt atriði. „Kristalsgíraffinn“ er nútímalegt ævintýri um að selja sál sína djöflinum, það er sígilt þema sem vísar ekki síst til nútímamannsins sem gín yfir öllu. Sama þema er  á ferð í „Sögunni af þriðjudegi“. Báðar nöturlegar frásagnir af mannlegri eymd.

„Hvíti geldingurinn“ vekur upp þanka um tilvist mannsins. Hvað verður um mann sem ekki aðeins glatar frelsi sínu heldur er kynhvötin líka frá honum tekin? Hvað drífur þann áfram sem er án löngunar, án ástar? Sagan er ofbeldisfull og grimmdarleg en með sérkennilegu seiðmagni, ein af myndrænustu sögunum í safninu. Í „Ósýnileikanum“ nýtir kona sér að geta horfið sjónum annarra, hún njósnar um fólk og hnýsist í sjálfan dauðann, rýfur friðhelgi á viðkvæmum tímum þegar vanmáttur og óreiða ríkir, hún mætir í jarðarfarir og erfidrykkjur og sest við banabeð:

_Fyrstu tvær jarðarfarirnar sat ég úti í sal með hinum, svo færði ég mig upp á altarið til prestsins, ekki til að vanvirða neinn, en ég er forvitin, mig langaði að sjá andlit allra í kirkjunni, horfa í andlit sorgarinnar. Úti í kirkjuskipinu sér maður aldrei nema út eftir sætaröðinni, inn í hnakkann á fólkinu fyrir framan og það er ókurteist að teygja fram hausinn og glápa. Af hverju sitjum við ekki í hring í kirkjum – þær eru formaðar fasískt og við horfum aldrei nema í andlit prestsins og það er andstætt öllu sem munnurinn á honum segir um bræðralag og kærleika!“ (312).

Allt í rassgati

Titill smásagnasafnins Allt fer vísar í ýmsar áttir; til forgengileika, missis og hrörnunar sem er kannski klisja, hver segir sosum að allt þurfi alltaf að halda áfram (296) en líka til þess að allt fer einhvern veginn, tíminn líður og hugsjónir og draumar fjara út, fólk þroskast saman eða í sundur, dofið af dópi eða vana í bullandi sjálfhverfu. Hverjum er það að kenna þegar flosnar upp úr sambandi sögumanns og Jennýjar í raðhúsahverfinu inni í rassgatinu á Sigmundi Davíð?

„Við erum bæði ágætis manneskjur  og viljum vel og ég segi það í alvöru: ef helmingur þessara endaloka skrifast á brestina í okkur og allt helvítis kjaftæðið úr æskunni, fullyrði ég að hinn helmingurinn fellur skuldlaust á leigumarkaðinn og  barninginn í öll þessi ár og helvítis pólitíkusa sem hafa gleymt því fyrir hverja þeir vinna, og græðgina í bönkunum og Gísla í Gamma og gamla Quarashi-tillann Sölva viðskiptafræðing, allt þetta lið sem liggur eins og vampírur á hjörtum okkar sem gæðum miðbæinn lífi – fokkið ykkur öll (299-300).

Trump-týpan

Síðasta sagan, „Garðurinn“, er glæsilegur endasprettur á þessu sagnamaraþoni. Stórgrósser á ráðstefnu  vopnasala í sótugri Shanghai er sama týpa og Donald Trump: erkiillmenni, siðblindur, firrtur og lyginn, glúrinn á markaðstækifæri en orðinn mettur á lífinu. Hann hefur reynt allt, keypt allt og fyrir honum er veröldin tóm og grimm flatneskja:

„Í partýi um daginn fékk ég hugmynd sem rifjast upp fyrir mér núna: að reisa verulega há og sparsöm háhýsi með engum gluggum sem þýðir allt önnur lögmál í burðarþoli, en fella skjái í innanverða veggina, alla með sérsniðnu útsýni – allir fengju hornskrifstofur með útsýni af hundruðustu hæð yfir borg að eigin vali, eða breytilegt, með mánudaga á tindi Everest, þriðjudaga úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Skjáir eru orðnir ódýrari en gluggar og kostar ekkert að þrífa þá, upplausnin HD í metersfjarlægð, færa sig svo yfir í þrívíddina. Þemadagar á föstudögum með útsýni yfir Kabúl, Raqqua eða Jemen og hádegisfyrirlestur um þær sætu hörmungar, eftir því við hvað fyrirtækin í húsinu eru að díla“ (324-325).

„Garðurinn“ er bæði reiðilestur yfir mannkyni sem skilur eftir sig sviðna jörð en líka elegía um mennskuna sem er á niðurleið, ástina sem er glötuð og ógeðið sem alls staðar viðgengst.

Manneskjan er bara líkami

Smásagnasafn Steinars Braga sker sig bæði að öllu leyti frá hinum óvenju mörgu smásagnasöfnum  sem út komu 2016 og frá öðrum skáldverkum síðustu áratuga.   Það er ekki verið að gæla við tungumálið, stílinn, orðlistina. Ekki verið að daðra við ismana, tala undir rós eða blikka ljóðrænuna. Það eru hugmyndirnar sem ráða ríkjum, þær vella fram, tæpitungulaust. Brýnt erindi og eldmóður einkenna þessar sögur allar, skapandi kraftur og ádeila sem helst minna á skáldskap Guðbergs Bergsson á góðum degi. Hið háleita er einskis vert, manneskjur eru ekkert merkilegar eða dularfullar,  þær eru bara líkamar.  „ – Líkamar að gera eitthvað við sjálfa sig, við aðra líkama eða við hluti… En líklega værum við ekkert án þessara litlu leyndarmála okkar, hvert í sínu horni að pota í holur, skera okkur með naglaþjöl, kasta upp. Hvað veit ég“ (307).

Engin miskunn

Á sagnaslóðum Steinars Braga eru fáir á ferli, hér eru óskáldlegir staðir eins og Eiðistorg, Perlan og Húsasmiðjan, skítugar stórborgir, fráhrindandi persónur, barnagirnd, tabú og töfrar og ógnvekjandi atburðir. Maður er hvergi óhultur, hræðilegir hlutir gerast í sífellu og alls staðar. Og það er enga miskunn að finna, aðeins myrka heimsmynd og dapurlega framtíðarsýn: „Ég er lappalaus fugl, hugsaði ég, líf mitt er sífellt flug úr einum stað í annan og ég get hvergi lent eða fundið hvíld“ (301).

Smásögur eru í senn bæði strangt og róttækt bókmenntaform sem býr yfir sérstökum áhrifamætti. Steinar Bragi hefur fullkomin tök á forminu og sýnir frábæra takta.  Allt smellur.

Birtist í Kvennablaðinu, 10. janúar 2017

Beittur kjarninn stendur einn eftir

Þurfum við á ljóðum að halda? Hafa ljóðskáld sérstöku hlutverki að gegna í samfélaginu? Eiga þau að yrkja til að létta fólki lífið, benda á fegurðina, leika sér með tungumálið, hugga og líkna?  Eða eiga þau að bægja frá okkur áhyggjum og kvíða, halda valdi og ofbeldi í skefjum? Er samt ekki langbest að ljóðið sé stillt, smart, hnyttið, krúttlegt, ekki of djúpt, ekki of flókið eða óskiljanlegt? Eiga ljóðskáld yfirleitt nokkuð erindi við valdhafana, samborgarana, lesendurna, mig persónulega með öllum þessum litlu og snyrtilega hönnuðu ljóðabókum sem koma út á nokkurra ára fresti í takmörkuðu upplagi? Hver má annars vera að því að lesa ljóð, er ekki alltaf brjálað að gera? Jú, það er vangefið mikið að gera, en það er svo mikið hjal og fjas og síbylja í gangi; hjakk, klisjur og frasar; merking orða er útjöskuð og margtuggin. En þannig er ljóð nefnilega ekki, þegar vel tekst til. Þess vegna lifir það, þess vegna þurfum við á því að halda. Og þá snúum við okkur að ljóðabók sem gæti breytt heiminum okkar.

Ekkert froðusnakk

Feril Kristínar Ómarsdóttur, ljóðskálds og rithöfundar með meiru, hófst með látum fyrir sléttum 30 árum með ljóðabókinni Í húsinu okkar er þoka sem hún gaf út sjálf og leikritinu Draumar á hvolfi sem sigraði í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins 1987. Síðan þá hefur hún verið afkastamikil á sviði bókmennta, skrifað skáldsögur og ljóðabækur auk leikrita, m.a. fyrir útvarp, og smásagna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín sem eru einkar frumleg og hafa alveg sérstæðan karakter.

Áttunda og nýjasta ljóðabók Kristínar heitir Kóngulær í sýningargluggum og er knálega ort og myrkt, ekkert léttmeti eða froðusnakk frekar en fyrri daginn og við fyrstu sýn er erfitt að átta sig á hvað þessir brotakenndu og furðulegu textar eiga að merkja. Bókin skiptist í 5 hluta, einn þeirra heitir „úr dagbók“, og er að sögn höfundar persónulegur bálkur, en í heild eru ljóðin í bókinni tæplega sextíu. Þau fjalla um samtíma, samhengi og samfélag; eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta og eru þess vegna torskilin  og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur á einhvern seiðandi hátt.   

Hverdagslegt klukkulíferni

Hefðbundin sjónarmið er hvergi að finna í þessari bók né stirðnað orðalag eða kunnuglegar myndir. Við sjáum krakka þræða saman varirnar með nál og tvinna, hafmeyjar með glerbrjóst stinga hausnum uppúr sjónum, himinninn er svangur og tannlaus, trúnaðarmaður stafrófsins segir kvöldfréttir og herskip flytja peysur og sokka til landsins. Fremst í bókinni eru einkunnarorð þar sem lesanda er boðið að líkamnast upp á nýtt áður en stigið er inn í launhelgar kóngulónna sem syngja í fyrsta ljóði bókarinnar, torskilið ljóð ð sem heitir „gluggakistur“, það  til að komast af. Þetta er ansi beitt, ansi drungaleg srað sem heitir „gluggakistur“, það  til að komast af. Þetta er ansi beitt, ansi drungaleg srasem er svo fallegt þegar Kristín les það:

Þarna er tónninn sleginn, með undarlegum orðum, endurtekningum, furðum og óvæntum atburðum. Lesandinn er staddur á stað þar sem allt getur gerst en sýningarstjóri er við völd.  Stað þar sem við erum vélmenni og líkneski og setjumst til borðs í dúkkuhúsi, hjakkandi í hversdagslegu klukkulíferni; verðir spenna boga og miða á okkur og lögreglan innsiglar eldhúsið, það eru yfirheyrslur og handtökur og við erum dregin fyrir dómara, við snyrtum hugarfarið og rekjum upp hugsanirnar til að komast af. Þetta er ansi drungaleg sýn, eiginlega óhugnanleg og leiðir hugann að distópíum eins og í Sögu þernunnar (Handmaids Tale) og 1984 þar sem firringin og valdið hafa náð yfirhöndinni yfir mennskunni.

Vélræn kerfi

Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði Kóngulóa í sýningargluggum smella inn í samfélagsumræðuna nú um stundir þegar verið er að draga valdið í efa, rýna í skrifræðisleg ferli og vélræn kerfi, þegar venjulegt fólk ræðst til atlögu ef réttlætiskennd þeirra er misboðið. Það er hamrað á fátækt, óréttlæti og grimmd í þessum ljóðum, myndmálið tengist líkamlegu ofbeldi og kvöl; höfuð eru afskorin, fingur klipptir af, flísar standa í augum, fingur er brotnir, gubbað í skál, þjáningin hverfur ekki, rýtingur er rekinn i hjartað. „Herra dómari“ er fulltrúi valdsins og honum er sama þótt mjólk renni úr geirvörtum utangarðskonunnar (54). En hvað getur maður sosum gert annað en skrifað dagbók, gert leikfimiæfingar, keypt í matinn (93); verið kónguló sem hniprar sig í sýningarglugga þar sem er ekkert líf, ekkert skjól. Það er þó örlítil vonarglæta, rétt á meðan „byltingarstelpur“ kasta eggjum í veggina, næst kasta þær í andlitin.

Bölsýnn lambaleggur

Ef við gefum ljóðunum tíma og alúð opnast þau og tengjast á margvíslegan hátt með endurtekningu bæði orða, mynda og hendinga, eins og vefur. Orð eins og „glerbrjóst“ kemur fyrir í nokkrum ljóðum, óvenjulegt orð og undarleg hugmynd sem vekur margvísleg hughrif. Orð og fyrirbæri tengd valdi, þ.e. yfirheyrsla, lífverðir, leikbrúða, lögregla, herskip og vegabréfsáritun, eru hér og þar í gegnum bókina. Endurtekningarnar skapa tilfinningu bæði fyrir heild og vélrænum takti. Tvö ljóð í röð heita „kveðja“, hér er dæmi um frumlegar myndir sem láta mann ekki í friði, sérkennilegan húmor og óvænt samhengi:

„hönd hvílir á diski
glös standa vörð við sorgardúk
einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg
höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar
svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

sósan teiknar varir á dúkinn

ég gaf hönd mína fyrir málsverð
hugsar skuggavera klædd döprum fötum
kápufóðrið: grátmúrinn

hve langa stund það tekur því að kveðja
hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun
notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

ekki skilja mig eftir
hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði“ (45)

Ljóð eins og „Hindranir yfirstignar, við vélmennin , yfirlýsing, boðflenna, ilmur“; ég vildi geta lesið þau öll hér en það er víst fleira efni í þættinum.

Og hvað er „minnisflís“? Allavega, hlutskipti skáldsins:

„moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann

hinar ólíku árstíðir

þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók

sofa í öðrum

tíminn er naumur

mér ber að huga að moldinni

sem ég er búin til úr

bregðast við éljum, sólskini, regni – “

(85)

Sögumaður sem þegir

Um Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér – en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.

Víðsjá

25. apríl 2017

Höfundur fastur í eigin ruglingslega handriti

Hljómar það ekki eins og þversögn að ætla að skrifa bók um ritstíflu? Það er nú samt ætlun Sigurðar Guðmundssonar í nýrri bók sem nefnist Musa.  Nafnið minnir á grískar listagyðjur en sögumaður tekur til öryggis fram að hún sé þó ekki ein af þeim frægu verum (49) heldur goðumlíkur sköpunarkraftur sem hann þráir og leitar að í dyrum og dyngjum og vonast í örvæntingu til að geti losað um stífluna miklu sem kemur í veg fyrir að hann geti skrifað bók.

Hugmyndir samofnar guðlegum flygsum

Í verkinu er sögumaður ýmist Maðurinn eða ég, í fortíð, nútíð eða framtíð,  í gráum hversdagsleika eða súrrealískum og draumkenndum aðstæðum. Eldri maður situr einn á hótelherbergi á 18. hæð á Hainan-eyju í Suður-Kínahafi og gramsar í tölvunni sinni í leit að innblæstri, veltir fyrir sér lífi sínu og list og fær af og til hvatningu frá töfradís úr iðrum netsins sem heitir því hallærislega nafni Hakký. Loks rennur hann saman við Musu sína á óljósum landamærum raun- og sýndarveruleika og lífs og dauða, ritstíflan brestur og hugmyndirnar streyma fram hver annarri betri, samofnar guðlegum flygsum og svifkjörnum.

Það eru margs konar pælingar í sögunni, t.d. um sköpun og stöðnun, list og ljóð, vegsömun konunnar sem skapara og listamanns, um guð, um form skáldskapar og sögumannsrödd. Ætli sögumaður sé alþjóðlegi myndlistarmaðurinn Sigurður  Guðmundsson, heimsþekktur fyrir ljósmyndir sínar og óvenjulega gjörninga um hálfrar aldar skeið? Eða rithöfundur sem hann segist þó ekki vera (15) en skrifaði frumleg verk eins og Tabula Rasa (1993), Ósýnilegu konuna (2000) og Dýrin í Saigon (2010); allt bækur sem rúmast illa innan hefðbundinna skilgreininga á skáldsögu, líkt og Musa. Eða er sögumaður aðeins röflandi karl sem feigðin vofir yfir og hvers skáldæð er uppþornuð? Hugsun hans er reikul og hrörnun hans og elli bersýnileg; ístra og fellingar, upphleyptir fæðingarblettir og mjóar vörtur, gisin bringuhár, skalli og lausar tennur (76). Það má kannski einu gilda hvernig hann er, hvað hann er eða var, en hvað vill hann okkur?

Líf án listar er andlaus rotnun

„Ef ég er ekki sískapandi líður mér bara eins og rotnandi kjötstykki. Ég hef alltaf unnið við sköpun og hræðslan við að missa sköpunargáfuna er svolítið dramatísk hjá mér. Ég held að það sé nokkuð algengt að listamenn glími við þetta – það er svo ennþá verra ef þeir eru mjög þekktir“ sagði Sigurður í DV um daginn. Það er erindi hans við okkur: að leggja áherslu á skapandi hugsun, sköpunargáfu, hugmyndir, ferli og fullnægju í að búa til list, að leggja til málanna, nálgast guðdóminn í listinni – algjörlega án predikunar og yfirlætis. En þetta er ekki auðvelt, ritstörfin verða „stefnulaust handritsklór“ sem bera aðeins vott um stöðnun, rotnandi nútíð og framtíðarlaust líf án hreyfingar og útsýnis (19) segir hann á einum stað. Það er vissulega betra að rembast áfram en rotna og lifa andlausu lífi án listar sem er í raun dauði.

Í heild er verkið allsherjar naflaskoðun, kannski sannsögulegt efni á einhvern hátt sem miðlað er með aðferðum skáldskaparins, þó með miklum efasemdum: „En er þetta ekki vitlaus aðferðarfræði, hugsar hann, að vera að grufla í eigin fortíð i örvæntingarfullri von um að finna aftur leiðina til lífsins. Hefur hann þá ekkert lært af þessum línum sem hann skrifaði fyrir meira en fjörutíu árum?

Bál verður ekki kynt
með eigin reyk.
Eins verða verk mín
ekki til að vísa mér veginn.
(43-44)

Lesturinn er þolinmæðisverk

Það verður að segjast að reynt er verulega á þolinmæði og innlifun lesandans í þessu verki. Því ritstíflan endurspeglast svo sannarlega í textanum sem tregðast við og höktir áfram, flatur og tilbreytingarlítill, með krampakenndum rykkjum; hann flæðir ójafnaður hægra megin á blaðsíðunum með furðu lítilli spássíu vinstra megin… Inn á milli seytla fram ágætlega skrifaðir kaflar, eins og af minnisstæðu atviki á Kleppi (60-74) og útlegging á dæmisögunni um Adam og Evu í aldingarðinum (89-98) sem hugsanlega er einhvers konar lykill að verkinu. Svo koma kaflar sem eru súrrealískir og minna á draum eða hálfvökuástand, þar sem sögumaður slæst við ryksugupoka eða er handa- og fótalaus ormur, eða fiskur sem slær til sporðinum og engist fastur í eigin ruglingslega handriti.

Lesandinn engist líka, með engu minni sporðaköstum, nema hann sé þeim mun þolinmóðari og áhugasamari um sjálfsmyndarkrísur og innblásið samband við ást og list.

Áföll frosin föst í minni mínu – Um Hirðfíflið

Anna Ragna Fossberg (f. 1966) hefur sent frá sér bókina Hirðfíflið sem hún gefur út sjálf. Áður hefur hún sent frá sér skáldsöguna Auðnu út árið 2018 sem er dramatísk fjölskyldusaga og ástarsöguna Hugfanginn.

Aðalsögupersóna bókarinnar, Inga Stella, elst upp við alkóhólisma móður og kynferðisofbeldi af hendi föður síns. Í bókinni ávarpar hún foreldra sína til skiptis, rifjar upp atvik úr bernskunni og reynir að átta sig á því hvernig þetta allt gat viðgengist.

Faðir hennar, sem ekki er nafngreindur í bókinni, er virtur maður í þjóðfélaginu sem hóf sig upp úr fátækt og bæklun til mennta og metorða. Yngsta barnið og pabbastelpan gerir hvað sem er til að fá athygli hans. Ofbeldið varð sífellt grófara en þögul hróp hennar um hjálp heyrast ekki. „Ég vildi óska að þú hefðir stigið inn og bjargað mér, náð mér frá þessum hættulega manni“ (126) segir Inga Stella í bókinni og ávarpar móður sína. Löngu síðar áttar hún sig á að móðirin var á valdi fíknar sinnar, veik og valdalaus hafði hún hvorki bolmagn né kjark til að taka dóttur sína úr þessum aðstæðum, þótt hún vissi hvað gekk á.

„Þegar heim kemur vaknar hirðfíflið úr dvala“ segir á einum stað í sögunni (135). Hirðfífl þarf konung sem pantar sýninguna, hlær og klappar. Hvort er hirðfíflið í sögunni, pabbinn eða barnið? Á viðbjóðslegan hátt stillir faðirinn dæminu upp eins og dóttirin vilji ofbeldið. En hún er bara barn að reyna að lifa af. „Í mínum augum er þetta lífsnauðsynlegt leikrit sem gengur út á að þjóna þér, gleðja þig svo allt verði gott“ (136). 

Afleiðingar ofbeldisins fylgja Ingu Stellu allt til þessa dags; sjálfshatur, áfallastreita, skömm og reiði, ofsakvíði og innilokunarkennd. Með bókarskrifunum varpar hún ábyrgðinni á hegðun föðurins af sér og skilar henni þangað sem hún á heima. Batinn tekur mörg ár með mikilli sjálfsvinnu og samkenndarmiðaðri nálgun sem byggir á núvitund og góðvild í eigin garð sem er forsenda þess að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Engum blöðum er um það að fletta að Inga Stella er Anna Ragna sjálf. 

Frásögnin er öll í nútíð sem færir atburðina nær lesandanum. Raunsæið er allsráðandi í lýsingum á líkömum, skömm, ofbeldi og blæðingum og bókinni fylgir kort af íbúðinni þar sem fjölskyldan bjó.

Að vera beitt kynferðisofbeldi í æsku er áfall sem hefur varanleg og djúpstæð áhrif á þroska og mótun barns. Hirðfíflið er saga af hrikalegu ofbeldi sem var þagað um og tók áratugi að vinna úr. Sannleiksgildi frásagna þolenda kynferðisofbeldis er oft dregið í efa og umdeilt hvort eigi að segja frá. En fyrir áhrif frá #metoo- og #höfumhátt-umræðu stíga æ fleiri fram og segja sögu sína. Það er hvorki auðvelt né sársaukalaust að raða saman brotum og erfiðum minningum í eina heild eins og segir á titilblaði bókarinnar, en hver einasta saga meitlar örlitla sprungu í þagnarhjúpinn:

Þótt áföll hafi frosið föst í minni mínu 

hefur þurft mikla túlkun

til að setja þau í samhengi og

koma sögunni í heild sinni á blað. 

Þú ert sannarlega hugrökk, Anna Ragna.

Birt á skáld.is 18.11.25

Dalalíf hið nýja – Um Sjáanda

Ester Hilmarsdóttir er fædd í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1985. Hún sópast inn í bókmenntirnar með íslenskt sveitalíf seint á síðustu öl og gullaldarmálfar – enda á heimavelli.

Fyrsta bók hennar, Fegurðin í flæðinu, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2023. Hún fjallar um blæðingar, allt frá fyrsta dropa til hins síðasta. Allt frá eftirvæntingunni sem því fylgir að byrja á fyrstu blæðingum til ergelsis, bakverkja og magakrampa. Ekkert er dregið undan. Farið er inn á jafnrétti, skömm, umhverfismál og fegurðina sem tengist þessu sérstaka ferli líkamans með alvöru og húmor í bland, segir í lýsingu á bókinni. Teikningar Esterar prýða bókina, þær eru dregnar svörtum línum með rauðum túrblettum.

Nú sendir Ester frá sér skáldsöguna Sjáandi. Sagan gerist á einu sumri í fögrum dal á tímum sveitasíma og förukvenna. Mögulega um 1970 en um þessar mundir eru rúm fimmtíu ár frá því að stórt atvik átti sér stað í sögu íslenskrar umhverfisverndar sem vísað er til í bókinni (Laxárdeilan). Á bænum Molastöðum er allt með kyrrum kjörum þar til spákonan Gyða mætir á svæðið með galdra og skyggnigáfu og er alls ekki öll þar sem hún er séð. 

Vikapilturinn Dofri er 14 ára mútugrey og það er í gegnum hann sem fylgst er með kostulegum persónunum og öllu því sem fram fer á bæjunum í sveitinni. Innan um hversdagslega atburði eins og bakstur og brugg, girðingarvinnu, sveitaball og heyskap, verður heimasæta sjúklega ástfangin af giftum manni, laumuhommar finna hvor annan, trans fær nýtt líf, bændur standa sameinaðir gegn kapítalisma og virkjunarframkvæmdum og buguð og gaslýst átta barna móðir grípur til örþrifaráða. Svo það er nóg um að vera í sveitinni. Það er eitthvað við efni og efnistök sem leiðir hugann til Dalalífs Guðrúnar frá Lundi sem er nú aldeilis ekki leitt að vera líkt við.

Frá öllu fjörinu er sagt á kjarnyrtu máli af einlægri frásagnargleði með líflegum samtölum að ógleymdri frábærri persónusköpun og miklum húmor. Þetta er kvennasaga, það eru konur sem hafa orðið lengst af og þær drífa söguna áfram. 

Víða eru kostulegir sprettir í sögunni sem gleðja og kæta. Það er óneitanlega gaman að lesa t.d. skáldlega málsgrein eins og þessa: „Hún hafði starað í eymd inn í fataskápinn sinn fyrr um daginn á morknar og lúnar kjóldruslur sem héngu uppi á armæðunni einni saman. Þar voru teygð hnappagöt, brotnar tölur, snjáðir olnbogar, upplituð efni og gapandi saumar af ofnotkun og umhyggjuleysi síðustu ára. .“  (219). 

Grípum niður í söguna á góðum stað:

Þar kom að því að eiginkona gifta mannsins kæmist að hliðarsporum bónda síns. Kvöld eitt í seinni hluta júlímánaðar var barið látlaust að dyrum á Molastöðum laust fyrir miðnætti. Konurnar voru komnar framí forstofu og reyrðu að sér náttsloppana þegar hurðinni var hrundið upp með látum. Úti var tekið að rökkva og það tók Krúsu ofurlitla stund að sjá hver var mætt. Gyða hafði hinsvegar fengið hvísl úr handanheimi um að von væri á fjandsamlegri heimsókn og var búin að vera sem hengd upp á þráð, kyrjandi bænir öllum til verndar. Gerður hafði gleymt gleraugunum á náttborðinu í öllum æsingnum og rýndi sig rauðeygða við að sjá hvaða gest bar svo frekjulega að garði svona síðla kvölds.

Stuttar krullurnar stóðu úfnar út í loftið og glitruðu af silfri tunglsins eins og snákar sjálfrar Medúsu. Málmlitur bjarmi næturinnar bætti heldur á ónot þeirrar svipmyndar sem fyrir þeim stóð, silfurslegin, í dyragættinni. Þar var Bergfríður á Brekku mætt og hún var ekki komin til að þiggja kaffi og með því. Hún var komin til að hefna fyrir hórdómsbrot bónda síns. Fölblá augu frúarinnar voru samankipruð af bræði. Hérna stóð hún, sjálf ísdrottningin, rafmögnuð af tunglskini og heift, og sendi sínar ísnálar í átt til Krúsu. Krúsa gekk aftur á bak sem í leiðslu inn í forstofuna, skelfingu lostin., í tilraun til að komast í burtu frá þessari kviðmágkonu sinni. Breiður afturendinn staðnæmdist við símaborðið og ruddi símanum, ásamt tveimur postulínsstyttum, niður á gólf svo undir tók í forstofunni. Skellurinn virkaði eins og byssuhvellur við rásmark og við hann æddi Bergfríður af stað í átt til Krúsu með hvítkreppta hnefana reidda til lofts. Krúsa stóð sem negld við vegginn, líkt og dýr starir í bílljós sem færast nær á ógnarhraða og getur sig hvergi hrært. Bergfríður kastaði sér á Krúsu. Hún reif og tætti í náttkjólinn, barði og sló í andlit og bringu, klóraði og kleip í handleggi, og rykkti í hár meðan hún lét flaum fúkyrða ganga yfir hana.

(…)

Bergfríður dró djúpt andann og það sást í viprunum sem fóru um andlit hennar að hún mátti taka á honum stóra sínum til að sýna stillingu. Hún strauk yfir rifna blússuna og renndi báðum höndum um hár sér eins og til að reyna að stilla til friðar í því óglæsilega umróti sem hafði farið um höfuð hennar. Því þótt hún hefði haft yfirhöndina í slagsmálunum við heimasætuna, þá hafði Krúsu samt tekist að grípa handfylli af hrjúfum krullum frúarinnar og rífa af svo eftir sat þumlungslangur blettur þar sem skein í skallann. Krúsa lá enn stjörf á gólfinu og hélt sem fastast um hárvöndulinn. Gerður og Gyða þurftu að hjálpa stúlkunni á fætur og spenna upp kreppta lófa hennar af afli til að losa um hárflyksurnar sem svifu eymdarlega niður á forstofugólfið (187-188).

Sjáandinn er fínasta skemmtilesning um ástina og sambandið við náttúruna, um fjölbreytileika mannlífsins og fegurðina í berjunum og stráunum og um niðinn í ánni sem liðast um dalinn, alveg frjáls – þökk sé bændumum í Mývatnssveit.

Birt á skáld.is 19.11.25

Fjarveran og afskiptaleysið – Um Útreiðartúrinn

Nýjasta bók Rögnu Sigurðardóttur, Útreiðartúrinn, er „áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni“ eins og segir á bókarkápu. Þar segir frá Sævari, Helgu konu hans og 14 ára einkasyninum Pétri sem eru nýflutt á Álftanes. Kvöld eitt kemur sonurinn heim í lögreglufylgd en svo virðist sem þrír strákar hafi ráðist á hann og Sindra vin hans að tilefnislausu. Þegar frá líður birtist myndband á netinu af árásinni og þá fer Sævar að gruna að Pétur hafi ekki sagt satt um atburðinn. Þegar Pétur síðan pínir Sindra til að borða rótsterkt chili til að birta sem grín á tiktok, fara að renna tvær grímur á Sævar. Getur verið að Pétur hans sé „bully“ og ofbeldismaður?

Glósur, gón og káf

Frásögnin hefst á dularfullu andláti í útreiðartúr ungs fólks á Álftanesi í júní 1881. Erfitt reynist að henda reiður á hvort það var slys eða ekki. Einn er síðan grunaður um morð en sluksað var við rannsóknina. Sá grunaði, Eyjólfur, er langalangafi Sævars. Þetta var þaggað niður í fjölskyldunni og Sævari finnst mannorðshnekkir að vera kominn af morðingja (98). Hann ætlar samt að segja Pétri söguna í þeirri von um að hún veki áhuga hans og tengi þá feðga saman. En þetta er of fjarlægt og snertir hann ekki: „Kúl saga“ segir Pétur (37). Svo tekur Sævar til við að rannsaka málin sjálfur, bæði gamla morðmálið og árásina.

Í þessum þætti sögunnar er dregin er upp mynd af samfélagi þar sem stéttaskipting er mikil og vinnufólk hefur um fátt að velja. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Guðnýjar, formóður Sævars, sem freistar þess að komast frá vinnukonulífinu í dalnum og skapa sér framtíð á Álftanesi með téðum Eyjólfi. Skiljanlega vill hún komast burt; hlutskipti vinnukonunnar, sem ofan á húsverkin felst í að þjóna vinnumönnunum á bænum sem í skjóli forréttinda sinna fara sínu fram:

„Frá því hún mundi eftir sér höfðu þeir hreytt í hana ónotun, ýtt við henni, skammað hana, skipað henni fyrir, hæðst að henni og hlegið framan í hana um leið og þeir gerðu ráð fyrir sífelldri þjónustu. Þegar hún stálpaðist og það fór að móta fyrir brjóstunum undir treyjunni störðu þeir opinskátt og slefandi. Þeir þreifuðu á rassinum á henni þar sem hún stóð við pott með sjóðandi vatni og gat sig hvergi hreyft. Þeir földu þetta ekki, hvorki glósurnar, gónið né káfið. Því skyldu þeir gera það?“ (139).

Eyjólfur er öðruvísi en aðrir vinnumenn, hann er vænn og myndarlegur. En það eru brestir í honum, hann virðist vera hálfgerð rola, uppburðarlítill og drykkfelldur. Þegar þau koma á Álftanes reynast aðstæður öðruvísi en til stóð.

Saga útreiðarfólksins er byggð á raunverulegu sakamáli, svonefndu Kristmannsmáli. Útreiðarfólkið var hneppt í varðhald og yfirheyrt en svo reyndist merkilega lítill áhugi yfirvalda á að upplýsa málið. Málið lognaðist svo útaf en orðrómurinn lifði. Í bókarlok er málið hins vegar loksins upplýst!

Landslag og kynslóðabil

Landslagið á Álftanesi leikur stórt hlutverk í þeim sögum sem fram vindur í bókinni, enda er gróið holtið óbreytt frá fornu fari, „þúfurnar áþekkar og mosagróið hraungrýtið sömuleiðis. Grjótið var samt, lyngið og mosinn á holtinu. Sjávarlyktin sú sama.“ (35). Landslagið er bæði  leikmynd og táknmynd fyrir tíma og tilfinningar. Kynslóðabilið er ekki bara á milli langalangafans og Sævars, það er síst minna á milli Sævar og Péturs:

„Gargandi mávar tóku dýfur fyrir ofan okkur, hestar stóðu á beit í móanum fyrir neðan holtið, sólin merlaði á sjónum allt í kring. Innra með mér toguðust á sólskinið og skuggarnir í hrauninu, vitneskja um söguna sem leiðsögumaðurinn átti eftir að segja okkur uppi á holtinu, fjarlægðin sem ég fann fyrir milli okkar Péturs. Ég saknaði stráksins míns og mig langaði að ná til hans … Ég fylgdist með Pétri feta sig óöruggur yfir þúfur og áttaði mig á að hann var ekki vanur því. Hvernig gat verið að hann kynni ekki að ganga í þúfum?… (33)“.

Glæpir eru víða

Sævar er heimavinnandi og nostrar við bókaskreytingar á vinnustofunni sinni. Hann nær engu sambandi við son sinn sem hann margoft langar að faðma og sýna umhyggju og vinsemd en hikar alltaf og heldur aftur af sér. Pétur er að breytast úr barni í fullorðinn og Sævar nær ekki utan um þær andlegu og líkamlegu breytingar sem verða á honum. Hann finnur fyrir sektarkennd yfir að hafa skipulagt að flytja með Pétur á viðkvæmum aldri úr hverfinu sem litla fjölskyldan  hafði búið í síðan hann fæddist.

Stutt er í sjálfsásökun, reiði og skömm hjá Sævari. Hann á erfitt með sig vegna yfirgangs og gaslýsingar sem hann varð fyrir sem gutti, af hendi Togga sem hann leit á sem sinn besta vin. Sá þráður er rakinn til sumardvalvar í sveitinni hjá ömmu og afa á Álftanesi þar sem Sævar kynntist Togga fyrst í kringum 1980. Þá koma til sögunnar kynni Sævars af rannsóknarblaðamanninum Bergi sem skyndilega var ekki lengur velkominn í heimsókn eftir að hann skrifaði grein um morðmálið frá 1881 og reif þar með upp gömul sár.

Glæpirnir eru víða; Bergur hafði sem blaðamaður hagnast á þiggja mútur fyrir að hilma yfir skattsvikum og eignaðist þannig lóð á Álftanesi. Hann dró fjölskylduna sína nauðuga með sér þangað (sjá  magnaða senu á bls. 206-209), rétt eins og Sævar telur sig hafa gert. Bergur var fjarhuga faðir sem ráðskaðist með fjölskyldu sína en hlustaði aldrei. Sævar veltir fyrir sér hvort hann sjálfur sé sama manngerð: „Viltu hlusta á mig?“ sagði Helga stundum við mig og það hafði svo oft pirrað mig. „Ég er að hlusta,“ sagði ég þá, en kannski var ég ekki að því. Af hverju væri hún annars að biðja mig sérstaklega um það? (209).

Samband þeirra hjóna Sævars og Helgu virðist einkennast af fálæti og afskiptaleysi sem hlýtur að varpast yfir á Pétur.

„Helga fann að eitthvað var að  en hún gerði líklega ráð fyrir að það væri vinnan, að ég væri í tímapressu og mér gengi ekki nógu vel en þá átti ég til að verða þögull og afundinn. Við höfum okkar rútínu eftir meira en tveggja áratuga hjónaband. Henni hefur lærst með tímanum að láta mig í friði þegar þannig stendur á. … Og ef mér finnst Helga vera fjarlæg eða ég finn að eitthvað hvílir á henni sem hún ræðir ekki við mig treysti ég henni til að leysa úr því og hleyp auka hring til að ná betra jafnvægi. Við þurfum ekki lengur að ræða alla hluti“ (125).

Helga stendur í skugga og er eingöngu sýnd með augum Sævars. Undir lok sögunnar er hún orðin ein taugahrúga, með bauga undir augunum og þráhyggjukennda hegðun.

Pétur er trúverðugur unglingur sem spilar ofbeldisfulla tölvuleiki einn og afskiptalaus í herberginu sínu, svarar með hnussi eða eins atkvæðisorðum og er með hausinn á kafi í samfélagsmiðlum. Hann bæði horfir á ofbeldismyndbönd og býr þau til og finnst það ekkert tiltökumál. 

Allar þessar sögur, persónur og svið speglast á margs konar hátt og draga fram bresti, skömm og sektarkennd sem kynslóðirnar burðast með. Sindri og Sævar eru t.d. hliðstæður því þeir upplifa báðir að besti vinurinn bregst þeim og þeir skammast sín fyrir að hafa lent í ofbeldi. Sævar skammast sín svo mikið fyrir það sem Pétur gerði að hann forðast að hitta fólk (263) og fjarlægist fjölskyldu sína. Eyjólfur á sér ekki viðreisnar von eftir atburðinn í útreiðartúrnum og skömmin hrekur hann burt frá konu og barni.  Guðný skammast sín fyrir að hafa ekki klárað útreiðartúrinn og grípur því til lygi í yfirheyrslunum. Toggi og Pétur beita báðir vini sína ofbeldi.

Grunnt á grimmdinni

Á bókakápunni er grimmdarleg sena og það er grunnt á grimmdinni, án aðhalds og marka getur hún flætt yfir bakka sína. Hvað verður um Pétur? Mun hann einhvern tímann sjá mun á réttu og röngu, mun hann alltaf þræta fyrir misgjörðir? Stendur litla fjölskyldan þetta af sér eða sundrast?  Sævar þekkir hvorki son sinn né sjálfan sig, hann skilur ekki hvaðan reiðin kemur sem grípur hann stundum. Hann elskar Pétur og stendur frammi fyrir því að velja hvort eigi að hilma yfir með honum eða draga hann til ábyrgðar.  Og sektarkenndin nagar hann.

„Ef ég hefði bara verið betri pabbi. Hvað ef ég hefði fylgst betur með, tekið breytingarnar alvarlega, sýnt nýju vinunum hans meiri áhuga? Hefði verið strangari, haft stjórn á hverju Pétur hafði aðgang að í símanum sínum, stjórnað hverja hann hitti, hvar og hvenær.“ (258).

Hugurinn hvarflar til metsölubókarinnar Kvöldverðurinn eftir hollenskan höfund, Herman Koch, sem kom hingað á bókmenntahátíð 2013. Í þeirri bók fremja 15 ára bræðrasynir ódæði og siðferðislegar spurningar vakna varðandi afstöðu foreldranna þegar piltarnir þekkjast á upptöku úr öryggismyndavél.  Sagan endurtekur sig og ofbeldið í heiminum margfaldast. 

Útreiðartúrinn glímir á hugvekjandi hátt við sömu sígildu spurningar, með djúpstæðri tengingu við land og sögu, sekt og skömm. Persónur sögunnar í nútímanum reyna að  fóta sig í grimmum heimi alveg eins og forfeðurnir, þar sem gildin eru fljótandi, sannleikurinn og siðferðið líka. Áður fyrr var það samfélagsgerðin sem gróf undan jafnræði, staðfestu og heilindum, núna er það fjarveran og afskiptaleysið.

Birt á skáld.is 22.11.25

HIÐ RÓTGRÓNA MERKI FÁTÆKTAR OG UMKOMULEYSIS – um Tvenna tíma

Bókaforlagið Angústúra réðst árið 2017 í endurútgáfu ævisögunnar Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason (kom fyrst út 1949), síðustu bók Elínborgar Lárusdóttur sem var afkastamikill rithöfundur um miðja síðustu öld. Útgáfan er vönduð og eiguleg, með orðskýringum, formála og eftirmála, orðskýringum og ljósmyndum úr einkasafni og er ómetanleg heimild um horfinn tíma og harða lífsbaráttu, ekki síst kvenna. Hætt er við að nútímafólk trúi varla að barn hafi þurft að þola þá meðferð sem Hólmfríður Margrét Björnsdóttir (1870-1948) fékk í uppvexti sínum í Skagafirði undir lok 20. aldar. En þetta var hlutskipti margra íslenskra barna og vinnukvenna fyrr á öldum.

Byrjaði að vinna 5 ára

Ekki er mikið fjallað um tilfinningalíf, drauma og þrár í þessari ævisögu frekar en öðrum frá þessum tíma. En mikinn fróðleik er hér að finna um matargerð, híbýli og aðbúnað fólks og um félagslega stöðu töku- og fósturbarna en Hólmfríður var send til vandalausra aðeins fárra daga gömul. Hún var farin að sinna ýmsum verkum um 5 ára aldurinn, s.s. að prjóna, tæja ull og rífa hrís til eldiviðar. Átta ára varð hún að fara að vinna fyrir sér á kotbæ og voru henni þá falin verstu verkin, m.a. að bera vatn og mó, sópa og moka snjó. Föt sem hún fékk send þangað frá fósturmóður sinni fékk hún ekki afhent en börn húsbændanna voru klædd í þau og berfætt gekk hún sumrin löng. „Oft var Hólmfríður svo hungruð að hana sveið að innan… Oft var hún barin, og aldrei talað til hennar hlýtt orð og aldrei fannst þeim hjónum hún vinna nóg“ (46).

Í uppvextinum var hún jafnan vot í fætur og í skjóllausum görmum. Erfiðisvinna, veikindi og vannæring settu mark á heilsu litlu stúlkunnar, svo hún beið þess aldrei bætur (52). Hraktist hún á milli bæja við misjafnt atlæti, alls var hún á 12 bæjum fyrstu 19 ár ævi sinnar (155). Vinnuþrælkun var mikil og munaði verulega á kjörum karla og kvenna. Þótt allir ynnu mikið fengu karlar hærri laun (75 krónur á ári en konur 24). Þjónaði hver vinnustúlka einum karlmanni fyrir utan venjulegan vinnudag og átti að þvo af honum á sunnudögum (99). Það er frekar dulið í textanum hvað Hólmfríði sjálfri fannst um þennan ójöfnuð en hann er vissulega dreginn skýrt fram. En henni sárnaði að fá ekki að læra að skrifa og var hún orðin 16 ára áður en það varð.

Förukonur

Hólmfríður hefur haft næmt auga fyrir umhverfi sínu og segir m.a. skemmtilega frá nokkrum förukonum. Sumar voru útsjónarsamar og risu gegn stöðnuðu samfélagi, aðrar báru harm í brjósti eða áttu engan að. Átakanleg er frásögn af systkinunum Jakobi og Rannveigu á Minni-Brekku. Ljóst má vera að Jakob beitti systur sína miklu ofbeldi og vissu það allir. Þessi endurminning situr í Hólmfríði og hafði djúp áhrif á hana:

„Broslegt var að sjá þau saman í smiðjunni systkinin, hann í úlpunni, gyrtan reiptagli og berandi þrjá til fjóra hatta á höfði, hana í verstu görmum, svarta af sóti og skít, hokna í herðum og síhrædda, skotrandi hræðslulegum augunum upp á hinn mikla meistara og lesandi fyrirskipanir, þóknun eða vanþóknun úr hinum þóttalega svip hans. Svo mikið er víst, að hún vildi ekki styggja hann, enda má segja að allt líf hennar snerist um það, að reyna að gera honum til hæfis, létta undir með honum og vinna sem allra mest. En laun hennar urðu smá. Má vel vera, að hún hafi liðið í kyrrþey, þótt aldrei hefði hún orð á því og kvartaði ekki“ (88).

Kannski hefur Hólmfríður rifjað þetta upp þegar hún giftist síðar, manni sem hún leit mjög upp til og hafði völdin í farsælu hjónabandinu.

Hólmfríður kynntist ágætlega hinum fræga Sölva Helgasyni sem jafnan rogaðist með málaraborðið á bakinu á flakki sínu. „En ekki hafði fólk auga fyrir þessari list, sem honum sjálfum þótti svo mikils um vert, að hann fórnaði lífi sínu fyrir hana, en hlaut ekki annað að launum en hrakning og pyndingar“ segir Hólmfríður (93).

Ævintýri líkast…

Vorið 1897 giftist Hólmfríður Guðmundi Hjaltasyni, heimiliskennara og fyrirlesara, sem var sautján árum eldri en hún, og fluttist með honum á Langanes. Guðmundur var framfaramaður í menntamálum, skrifaði greinar í blöðin um kjör kvenna og barna og vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir ungmennafélög í landinu. Þótti eiginkonan unga honum varla samboðin, honum var t.d. boðið í mat á prestsetrið, en ekki Hólmfríði (107). Þau settust að á Þórshöfn vorið 1900 en bauðst svo að flytja til Noregs þar sem hagur þeirra vænkaðist.

Hólmfríður var þá um þrítugt og fékk í fyrsta sinn greitt í peningum fyrir vinnu sína (113) og fann til þess að hún var komin í aðra stétt. Hún bjó í notalegu húsnæði á fallegum stað, eignaðist vini og leið vel, henni var sýnd virðing og hún tók að rétta úr kútnum eftir að hafa allt sitt líf verið haldið niðri: „Minnimáttarkenndin, hið rótgróna merki fátæktar og umkomuleysis, hafði verið fylgifiskur hennar allt til þessa“ (120). Aldrei langaði hana aftur til Íslands en þar kom að hún varð að fylgja Guðmundi sem þráði að komast heim og starfa fyrir þjóð sína. Kjör þeirra versnuðu, þau misstu eitt barna sinna og loks dó Guðmundur 1919, 66 ára að aldri. Síðustu árin varð Hólmfríður því að fara aftur í vinnumennsku og lést síðan á elliheimili í Reykjavík. Þó fannst henni að líf sitt hefði verið „líkast ævintýri“ (142). Afkomendur þeirra hjóna eru merkismenn, m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðni Th. Jóhannesson.

Viðbót við sögu eiginmannsins?

Þegar að er gáð eru forfeður og formæður okkar flestra vinnufólk og niðursetningar sem strituðu alla ævi í harðbýlu landi. Saga Hólmfríðar er saga margra íslenskra kvenna og það er dýrmætt að hún hafi varðveist. Þótt Hólmfríður sé hógvær og dul var það „eindregin ósk“ hennar að bókin yrði skrifuð. Guðmundur Hjaltason skrifaði sjálfsævisögu sína sem út kom 1923 og bendir Soffía Auður Birgisdóttir á það í fróðlegum eftirmála að hugsanlega hafi sagnaritarinn Elínborg eða Hólmfríður sjálf hugsað bók sína sem viðbót við sögu eiginmannsins. Hvað sem því líður er Tvennir tímar sjálfstæð saga og yndislestur fyrir alla sem vilja þekkja uppruna sinn og fortíð.

Birt á skáld.is 2 febrúar 2022

BLÚSSANDI SKÁLDSKAPUR, BASL OG VÍMA – Um Ástusögur

Ásta SIgurðardóttir var ein af fyrstu módernísku höfundunum hér á landi og hafði áhrif á bókmenntir, menningu og samfélag svo eftir var tekið. Hún skrifaði um málefni sem tengjast reynsluheimi konu; nauðgun, misrétti, fordóma, valdaleysi og drykkju kvenna.

Út er komin bókin Ástusögur, líf og list Ástu Sigurðardóttur, skrifuð til heiðurs skáldkonunni því liðin eru 90 ár frá því hún fæddist. Ritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sá um hönnun og umbrot. Í bókinni er stefnt saman fræðikonum og skáldkonum auk þess em  fjölskyldumeðlimir skrifa í bókina og varpa á Ástu margvíslegu ljósi –  og skuggum.

Margt er merkilegt í  bókinni, bæði er þar vönduð fræðimennska og fallegur skáldskapur. Þar er að finna áður óbirt uppkast að smásögunni Frostrigningu sem einhver hefur ritskoðað af nokkru offorsi og einlæg bréf sem Ásta skrifaði systur sinni. Þá fjallar  Bergljót Soffía Kristjánsdóttir um kveðskap Ástu sem sýnir skýrt að skynjun hennar var óvenjuleg og Soffía Auður Birgisdóttir túlkar smásöguna Súpermann á nýstárlegan hátt. Í grein eftir Kolbein Þorsteinsson og Silju Aðalsteinsdóttur er m.a. rætt um þær miklu væntingar sem til Ástu voru gerðar sem skáldkonu og áttu etv þátt í hnignun hennar og falli. Dagný Þorsteinsdóttir ritar minningar um móður sína sem láta engan ósnortinn. Sigrún Margrét, annar ritstjóranna, skrifar ritrýnda grein um kvengotnesk viðfangsefni hjá Ástu. Og loks má nefna grein Dagnýjar Kristjánsdóttur þar sem m.a. er fjallað um þá drusluskömmun sem Ásta varð fyrir, svo dæmi séu tekin um áhugavert efni í bókinni.

Sjö skáldkonur heiðra Ástu í bókinni. Guðrún Hannesdóttir tekur upp þráð frá Ástu, þar sem hún skrifaði um heimahaga sína:  „…má allt eins kalla ljóð eins og svo margt óbundið mál hennar“:

Ég vildi láta grafa mig í flæðarmáli að loknum ævidögum eins og sumir landnámsmenn. Ekki þó af sömu ástæðim og þeir, enda byggðust þær á misskilningi eins og öll trú. Ef sjórinn „vígir“ sér það svæði sem hann ríkir yfir, er sú vígsla heiðin. Heiðni er eðli lands og hafs, lofts og elds, þetta heiða, kreddulausa lífsviðhorf sem er ekki skoðun og ekki trú, heldur eðli og lögmál, eilíft eins og náttúran. Í svölum hreinum ægissandi vil ég verða að engu, láta brimgnýinn kveða mig inn í þessa eilífu hringrás, meðan tær sjórinn þvær bein mín og tandurhreinn skeljasandur fágar þau hvít og breytir þeim í sína mynd (174).

Síðan ævisaga Ástu Minn hlátur er sorg kom út 1992, hefur vantað heildstætt rit með pælingum um höfundarverk þessarar merku skáldkonu. Lífi hennar og list eru gerð fagmannleg (tvær greinar eru ritrýndar) og fagurfræðileg skil, af virðingu og skilningi sem hún ekki naut í lifanda lífi. Ásta var fjölhæf og listræn, lifði hratt og dó ung, líf hennar var blússandi skáldskapur, basl og víma. Sögupersónur hennar eru utangarðs og áttavilltar í ríkjandi smáborgarahætti, „og eina leiðarljósið er oft og tíðum sígarettan“ eins og fram kemur í grein Ástu Kristínar Benediktsdóttur en þar segir að ljóst sé að frægar ljósmyndir Kaldals af skáldkonunni með sígarettuna hafi átt stóran þátt í að efla og varðveita ímynd Ástu sem uppreisnarkonu, bóhems og róttæklings – sem reyndist svo hvorki sanngjarnt né heilladrjúgt.

Birt á skáld.is 20. nóvember 2022

SKÁLDSKAPUR EÐA MINNINGABROT? Um Arfleifð óttans

Arfleifð óttans sem út kom á dögunum er fyrsta skáldsaga Unnar Sólrúnar Bragadóttur (f. 1951) en hún hefur sent frá sér á annan tug skáldverka á íslensku og sænsku frá 1971.

Sagan gerist á síðustu öld, líklega í kringum 1960 eða þar um bil. Í upphafi hvers kafla eru margvíslegar tilvitnanir sem endurspegla tíðarandann. 

Aðalsöguhetjan er Hanna, sem er utangarðs að mörgu leyti í fjölskyldunni, mögulega er hún ekki dóttir föður síns, hún stelur og lýgur, er í einhvers konar ómarkvissri uppreisn gegn ríkjandi gildum og stéttaskiptingu, hún vill ekki falla inn í hefðbundið kynhlutverk og hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli í bernsku sem rænir hana ró og svefni alla ævi. Á einu tímaplani sögunnar er Hanna komin á æskuslóðir og upplifir bernskutrámað aftur sem vonandi frelsar hana.

Saga (nafnlausrar) móður hennar er áhugaverð; saga margra kvenna áður en kvenfrelsi kom til sögunnar. Hún ólst upp hjá föðurbróður sínum og sá um öll heimilisstörf frá níu ára aldri. Giftist ung, er í ástlausu hjónabandi og þrælar alla daga, bæði heima og í frystihúsinu og hefur lagt alla sína drauma á hilluna. Húsbóndinn er á sjó, í húsinu er kalt, erfitt að þurrka föt og stígvél barnanna, vatn þarf að sækja í brunn og mataræðið er einhæft. Sorg og vanmáttur er daglegt brauð, þreyta og vonleysi hellast yfir hana en ekki dettur þeim karli hennar eða syni í hug að létta undir með henni á nokkurn hátt þar sem kynhlutverkin eru fastskorðuð á þessum tíma. Karlar eru á vertíð og lesa bók í frístundum, eru í lúðrasveit eða verkalýðsfélagi og því fær ekkert breytt. Sjálfur ólst pabbinn upp við mikla fátækt og erfiðisvinnu. Fjölskyldan flytur síðan í þéttbýlið í leit að betra lífi en þar reynist svo vera sama harkið og þrældómurinn. 

Hanna hafði fengið munnhörpu og vildi gjarnan vera með í lúðrasveitinni.

„Þar eru engar stelpur“, sagði Gunni með fyrirlitningarrómi, „og ekki heldur munnhörpur. Stelpur eiga bara að hjálpa til heima.“

Hanna varð bæði sár og reið. „Hjálpaðu til sjálfur.“

Hún var dugleg á munnhörpuna og afhverju fékk hún ekki líka að spila í lúðrasveitinni. Það var óréttlátt. Þóra huggaði hana og sagði henni að hætta þess væli. 

„Lærðu bara að elda mat í staðinn,“ sagði hún, „það fær Gunni ekki.“

Stuttu seinna þegar Gunni ætlaði að æfa sig á trompetið fann hann ekki munnstykkið. Hann leitaði alls staðar og Þóra hjálpaði honum. Hanna fylgdist þögul með leitinni og Þóra spurði hana hvort hún hafði séð munnstykkið. Hanna leit frökk á Þóru og sagði svo eftir augnablik. „Ég er stelpa og veit ekkert um munnstykki. Er það kannski grautarsleif?“

Munnstykkið fannst stuttu seinna í grautarpotti í eldhúsinu. (72-3)

Í upphafi bókar er tekið fram að sagan sé skáldskapur í bland við minningabrot um atburði og persónur „úr eigin lífi“ en hugmyndaflugið ráði.

En það er ekki laust við að hvarfli að lesanda að sagan standi sögumanni mun nær en látið er í veðri vaka.

Birt á skáld.is 26. nóvember 2022