Draumar

Draumur um lúðalegan gaur

Greg_Spalenka_Spiritual_journey-696x506

Mig dreymdi að ég var í fjölmennu samkvæmi þar sem glatt var á hjalla. Allt í einu er sagt við mig: Hvernig líst þér á þennan? Átt var við mann sem stóð fyrir aftan mig í bláum tvíhnepptum jakka með gullhnöppum. Ég sá hann ekki almennilega. „Óttalega lúðalegur gaur“ sagði ég. Hann færði sig til og þá sá ég framan í hann en þetta var maður sem var einu sinni bekkjarbróðir minn, bráðmyndarlegur, köllum hann S. Ég fór til S og baðst afsökunar á þessum ummælum, hann tók því vel og bauð mér að búa með sér í pínulitlu herbergi uppi í risi. Gerði ég mig heimakomna hjá S og puntaði í kringum okkur en allt í einu fannst mér eins og ég gæti ekki verið þar lengur. Ég yrði að koma mér burt.

 

 

 

Draumur um einveru

Mig dreymdi að ég væri í sumarbústað. Ég naut einverunnar, var með stafla af bókum á borði, tebolla og tölvuna mína. Síðan heyrði ég mannamál og sá að hópur fólks nálgaðist. Ég vildi vera í friði og ákvað að fela mig, þykjast ekki vera heima. Þegar ég hafði hniprað mig saman á felustaðnum heyrði ég að fólkið var komið, það kallaði og hringgekk húsið og ég vissi að það sæi dótið mitt á borðinu, rjúkandi teið og legði saman tvo og tvo. Einn gekk svo langt að leggjast upp að glugganum á klósettinu þar sem ég var í felum og reyna að gægjast inn. Ég þorði ekki að hreyfa mig né draga andann og hugsaði með mér hversu skömmustulegt það væri ef upp kæmist að ég lægi þarna í felum. Eftir drykklanga stund hélt fólkið sína leið. Loksins þorði ég að líta upp og sá þá að það hefði verið ómögulegt að sjá mig, það var neglt fyrir gluggann og aðeins hægt að rýna inn um agnarlítið gægjugat.

spiritual_manipulation-e1552464164357-696x470

Mynd: https://fractalenlightenment.com/

Draumur um elskhuga

cranes

Mig dreymdi að ég ætti marga elskhuga og vildi gleðja þá alla. Þeir voru a.m.k. þrír og allir saman komnir á einum stað, í húsi sem var í byggingu, rykugt og ófrágengið. Einn þeirra er maður sem ég þekki og elskaði forðum sem við skulum kalla G. Hina hef ég ekki fyrr séð, einn þeirra var miklu  yngri en ég og hét M. Mér fannst mikilvægt að þeir rækjust ekki hver á annan. En í miðjum innilegum faðmlögum við G fannst mér ég verða að segja honum að ég væri líka að hitta M. Þá kólnuðu faðmlögin. Síðan birtist M, mér fannst hann hafði grennst gríðarlega og fríkkað til muna og hann var afar hávaxinn. Ég gladdist við að sjá hann en hann dró mig inn í lítið herbergi og stillti mér upp við vegg. 

Draumur um refi

dreams-and-visions-accessing-the-beyond_0

Ég var á hóteli og rakst á lítinn kassa. Þá mundi ég allt í einu eftir refunum mínum. Þeir voru tveir, pínulitlir, rauður og blár, og höfðu verið lokaðir lengi ofan í kassanum. Ég opnaði kassann og bjóst alveg eins við því að refirnir væru steindauðir. Þeir voru í einhvers konar dvala og bærðu strax á sér, spruttu svo upp eins og stálfjaðrir og hófu þegar að hlaupa tryllingslega um, soldið stífir í hreyfingum eins og þeir væru upptrekktir. Sá rauði var fjörugri. Ég óttaðist að ég mundi missa þá út úr herberginu og að þeir hlypu um hótelganginn öllum til ama.  Ég hugsaði með mér að ég skyldi hvorki opna glugga né dyr herbergisins og hleypa þeim aldrei út fyrir þessa veggi. Hins vegar sá ég enga leið til að koma þeim í kassann aftur.