Framkvæmdir 2020

Dagur 6

Fjórir múrarar mættir til að fræsa rendur í gólfið fyrir hitalagnir og loka gatinu þar sem ruslalúgan var. Ég hef bent á að hlífa þurfi parketinu þar sem það mætir flísunum og í stiganum og að skafa þurfi skít og skán af veggnum við lúguna en fengið svörin „Það þarf ekki!“ Var frekar pirruð þangað til að mér var bent á að ef ég vildi gera þetta gæti ég gert það sjálf. Sem er góður punktur.

92017862_545419606383141_4253723386481475584_n

Þessi ofn verður fjarlægður enda aldrei almennilega heitur hvort sem er.

Hér sést gólfhitinn með floti út á og verkstjórinn ásamt litaprufunum tveimur. Múrararnir mættu um hálf ellefu og klukkan fimm var allt búið. Röskir menn.

Dagur 5

Varla hægt að telja þennan dag með. Og þó. Ég tók allt úr veggskápum í stofunni en þeir verða teknir niður meðan stofan verður máluð. Ég vafði stelli og desertskálum og ýmsu fíneríi í handklæði og dagblöð og gekk frá blómunum í skjól.

Setti málningarprufur á eldhúsvegginn. Annar liturinn sem arkitektinn Sæja valdi er brúnleitur, hinn grár. Nú þurfa vogirnar að velja. Hér er upphaflega planið, þetta verður svona ca, inréttingin frá Parka er 15 cm lengri og við ætlum að sleppa marmaranum.

Screen Shot 2020-04-05 at 20.44.42

Dagur fimm

Rafvirki búinn að gera sitt að mestu. Múrari afboðaði sig. Pípari guggnaði á að setja hita í gólfið. En yfirsmiður kom með prófílana fyrir niðurtekna loftið. Já, maður er kominn með lingóið.

Kannski skrapar maður lausa málningu af veggjum um helgina. Og þurrkar af ryk. Bara bið framundan.

Dagur 4

Hófst tveimur dögum seinna. Beðið var eftir iðnaðarmönnum… Í morgun komu bæði rafvirki og múrari í einu. Núna kl. tvö er búið að brjóta af bitanum sem er milli loftanna í eldhúsi og stofu og búið að afráða að setja hita í gólfið, með tilheyrandi útgjöldum til viðbótar.

Verkstjórinn var stressaður og úrillur eftir því í morgun en blíðkaðist þegar leið á daginn. Ég reyndi að vinna heima og taka fjarfundi í öllum skarkalanum, sólin skein og bjargaði deginum.

 

Dagur þrjú

Rólegheit framan af degi. Vorum að stúdera teikningarnar og forgangsraða með hafragrautnum. Hversu mikilvæg er skuggarönd með ledborða í loftinu í stóra samhenginu og forsvaranlegt að borga 3x meira fyrir hana? Heimavinna hjá mér allan daginn en til að minnka smithættu í vinnunni vegna kórónaveiru skipti ég upp í tvö lið sem vinna ýmist heima eða í skólanum. Verkstjórinn og vinnumaðurinn fóru með hauga af gólfflísum í Sporpu ásamt ótal glerullarhnoðrum. Plast-tjald var sett upp til að halda ryki utan stofunnar en það var ansi seint í rassinn gripið. Örþunnt lag af hárfínu ryki hefur lagst yfir gólf og mublur. Síðan var farið í að rífa það sem var byggt í kringum ruslalúguna en það verður fyllt upp í það gat, í nýja speisaða eldhúsinu verður maður að fara út með ruslið. Heilmikið pillerí var eftir við að slétta úr mestu misfellum, límklessum og nibbum á veggjum og við gluggann en ramminn utan um hann var flísalagður. Unnið var þrotlaust frá kl 13-20 en þá tókst ráðskonunni að elda franskar og buff á tveimur hellum við góðar undirtektir.

Dagur 2

Áfram var haldið. Að þessu sinni hófst vinna kl 12 þegar vinnumaðurinn mætti. Áður hafði ég eldað mér hafragraut sem hitaður var á hellunni góðu. Ísskápurinn er kominn í bækistöðina svo það er allt við hendina. Farnar voru nokkrar ferðir í Sorpu, verkstjóri og vinnumaður eru ótrúlega hraustir og húsmóðirin dundar sér m.a. við að flokka skrúfur, kaupa bala og raða dóti í plastkassa.

Ekki sé ég eftir þessu gamla eldhúsi eitt augnablik. Alveg búið að þjóna sínum tilgangi. En það er víst enginn sem vill gamlan ofn og helluborð né eldhúskrana?

Framkvæmdir, dagur eitt

28. mars

Þegar við fluttum í húsið vorum við næstum ákveðin í að taka eldhúsið niður. Það bar áttunda áratugnum skýrt vitni og var orðið frekar lúið um 2004. En aldrei höfðum við okkur í verkið, enda værukær og afslöppuð bæði. Núna loksins, eftir að hafa hugsað málið síðan þá, var hafist handa. Og það sem tók áratugi að hugsa um að gera, tók tvo daga að framkvæma.

Vinnumaður mætti um fimm leytið, sjálfskipaði verkstjórinn var þá búinn að ráðast á innréttinguna með borvél og sleggju og hamast í þrjá tíma. Húsmóðir komst að því að hún getur borað en vissi fyrir að verkvitið er ekki meira en guð gaf. Klukkan hálf átta áttum við pantað borð á veitingastað enda átti vinnumaðurinn afmæli og við drifum okkar þangað heldur ánægð með dagsverkið.

91509978_884132672008419_4133549948136325120_n

Flísarnar á veggnum málaði ég yfir árið 2004 til að geta afborið þær í nokkrar vikur enn. Gólfflísarnar mega eiga að þær eru níðsterkar og geta verið haugdrullugar vikum saman og ekki sér á þeim.

90961492_528591791366866_2005725108479459328_n

Svo var að útbúa aðstöðu í Ingu-herbergi, bráðabirgðaeldhús þar sem aðstaðan er ekki ósvipuð og í húsbílnum, 2 hellur og kósí stemning og engar kröfur um flókna eldamennsku.

91067327_3271627639729313_7544295224349032448_n