heilsa

10 km eins og ekkert sé

Ég get hlaupið tíu km, án þess að stoppa og kasta mæðinni! Ég komst að því í Reykjavíkurmaraþoninu í dag þegar ég tók í fyrsta skipti þátt í opinberum íþróttaviðburði. Veðrið var eins og best verður á kosið og stemningin frábær, hvatningarhróp og gleðilæti á hverju horni svo maður var næstum hrærður. Slökkviliðsmenn fá fimm stjörnur frá mér en þeir hlupu sveittir og stæltir í útigalla með fatlaða í kerru. Ég var nr 2778 í röðinni af 4307 konum. Og tíminn (lokatími og „flögutími“):

2778 7095 Steinunn Inga Óttarsdóttir IS200 F 40 – 49 ára 340 01:07:17 01:04:17

Hnémeiðsl

RM eftir 2 daga, stress í hámarki og skipulagið allt í klúðri. Bæði hef ég lítið æft í vikunni og svo sneri ég eitthvað upp á hnéð á mér í dag þegar ég var að klöngrast yfir girðingu. Ég læt það samt ekkert stoppa mig, fæ mér bara voltaren og hnéhlíf. Ætli fall sé ekki fararheill?

Maraþon, já sæll!

Ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþon, 20. ágúst. Ætla að skrönglast 10 km hvað sem tautar og raular, vona að ég lifi það af og að starfsmenn hlaupsins verði ekki farnir heim þegar ég kem í mark. Nú þarf maður víst að fara að æfa sig, við Þóra hlupum rólega 5,6 km í blíðunni í dag og tókum stigann í tveimur lotum.

Skokk

Samhliða hollu mataræði hef ég tekið upp á því að hreyfa mig meira en engin markviss hreyfing eða þjálfun hefur verið í gangi hjá mér síðan í vor. Ég er nú farin að skokka/jogga einu sinni í viku. Þrjá sl. miðvikudaga höfum við hist nokkrar kellur í vinnunni og skokkað okkur til heilsubótar, á hægum og jöfnum hraða. Fyrstu tvö skiptin hlupum við 3 km með erfiðismunum og síðast urðu þeir rúmlega fjórir. Það er erfitt að hafa sig af stað en frábært þegar maður er búinn. Síðast var ein okkar með rosalega græju sem mældi km, tíma, hraða og kaloríur. Verður maður ekki að eiga svoleiðis…?

Matur er mannsins megin

Ég er alveg sæmilega hress allajafna og þykist heilsugóð þótt ýmsir smákvillar angri mig endrum og sinnum, t.d. munnangur, orkuleysi, vindgangur, magaþemba og brotnar neglur. Ég tók mig til og fór á náttúrulækningastofu Matthildar til að fá svör við því af hverju ég, sem er grönn og spræk kona og borða hollt og reglulega, þrífst ekki nógu vel. Þar var ég sett í einhvers konar rafsegulsmælingafæðupróf sem gefur til kynna hvaða fæðutegundir henta mér og hverjar ekki. Þá kom ýmislegt í ljós, m.a. að upptaka steinefna í líkama mínum er mjög léleg, og að margt sem ég borða og drekk, og held að geri mér gott, veldur mér margvíslegum líkamlegum óþægindum. T.d. tómatsósa, svínakjöt, apríkósur, bananar og appelsínur, rúsínur, kartöflur, hveiti og hvít hrísgrjón, sterkt karrý, mjólkurvörur, tyggjó, ávaxtate, hvítur sykur, lakkrís og unnar kjötvörur eins og kæfa og pepperóní. Að ógleymdu nescafé, hvítvíni og bjór. Í morgunmat var því hafragrautur með hrísmjólk, svo var spelthrökkbrauð með eggi, tómötum, lambhagasalati og avocado í hádeginu. Það er örugglega á sig leggjandi að prófa hvort breytt mataræði hefur einhver áhrif á líðan manns. Eitt hænuskref verður tekið í senn, t.d. á ég hálffullan hvítvínskút sem ég þarf að klára og fullt af æðislegu ávaxtatei, rjóma og mjólkursúkkulaði. Þeir sem þola slíkar veitingar eru velkomnir í heimsókn að neyta þeirra, ég japla á spínatblaði á meðan.