Hlaup

Það sem ég tala um þegar ég tala um þýðingar

haruki-murakami

Ljósmynd: Runners World

Ímynd rithöfundarins fræga, Haruki Murakami, er maður sem heldur sér til hlés, ritar dularfullar skáldsögur og lætur ekki uppskátt um eigin hag. Það var því óvænt ánægja þegar hann sendi frá sér bókina Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup (á frummáli: Hashiru Koto ni Tsuite Kataru Toki ni Boku no Kataru Koto) þar sem hann lýsti tildrögum þess að hann byrjaði að skrifa skáldverk ásamt djúpri ástríðu sinni fyrir hlaupum. Um leið og hann segir frá sínum bestu sprettum, æfingum, keppni og maraþoni lýsir hann því hvernig hann hugsar og heldur dampi í þrotlausri vinnu sem rithöfundur. Hlaupabókin er því hvorki venjuleg hlaupadagbók, ævisaga né hefðbundin minningabók þótt undirtitill hennar sé Endurminningar (Memoirs) en vissulega er hún blanda af þessu öllu.

Er hann ofurmenni?

Hlaup eiga þolið, einbeitinguna, álagið og samkeppnina sameiginlega með þrotlausu starfi rithöfundarins. Murakami fer á fætur kl 5 að morgni, borðar grænmeti og fisk og reimar svo á sig hlaupaskóna hvernig sem viðrar. Svo situr hann við skriftir tímunum saman og er kominn í háttinn um tíuleytið á kvöldin. Ekkert fær haggað rútínunni sem er honum lífsnauðsynleg. Murakami er ekkert ofurmenni, hann predikar ekki yfir lesendum að hlaup séu endilega lausn við öllum vanda, heldur segir hreinskilnislega frá því hvernig reglusemi, hreyfing og einfalt mataræði auðvelda honum lífið og stuðla að velgengni hans sem rithöfundar og manneskju. Hann hefur skrifað á annan tug skáldverka sem öll hafa slegið í gegn, hefur hlaupið 25 maraþon á ævinni og hann er hvergi nærri hættur.

Murakami-æði um alla heimsbyggðina

Murakami er stórt nafn í heimsbókmenntunum og segja má að eins konar æði hafi gripið um sig síðustu ár (1,2 milljón „læk“ á facebook-síðunni hans) og er Ísland ekki undanskilið. Hann hefur meira að segja komið hingað til lands, því hann var gestur á bókmenntahátíð í Reykjavík 2003. Aðdáendur Murakami vænta þess á hverju ári að hann fái nóbelinn í bókmenntum en dómnefndin hefur látið sér fátt um finnast hingað til.

Verkum Murakami, skáldsögum og smásögum, má gróflega skipta í tvennt. Annars vegar skrifar hann sálfræðilegar vísindaskáldsögur, hins vegar tilvistarlegar ástarsögur. Hlaupabókin sker sig því verulega úr höfundarverki hans. Fimm skáldverk eftir Murakami komu út á íslensku í sérlega vönduðum þýðingum Ugga Jónssonar á árunum 2001-2006 og eitt í ágætri þýðingu Ingunnar Snædal 2014.  Að þýða bækur Murakami, hvort sem það er úr japönsku eða ensku, er ekkert áhlaupaverk og mun erfiðara en það virðist við fyrstu sýn.

Þýðingardæmi

Hlaupabókin kom fyrst út í Japan 2007 og einn helsti þýðandi Murakami, Peter Gabriel, snaraði henni á lipurlega  á ensku. Íslensk þýðing Kristjáns Hrafns Guðmundsonar, sem sennilega er upp úr þeirri ensku, er því miður ansi brokkgeng. Textinn í Hlaupabókinni er vissulega ekki eins mystískur og fágaður og í skáldsögum Murakami en hann er samt myndrænn og heimspekilegur eins og höfundarins er von og vísa. Það skilar sér ekki í þýðingunni, auk þess sem enskan smitar textann víða. Of oft eru t.d. notuð eignarfornöfn að enskum sið þar sem engin þörf er fyrir þau á íslensku (líkami minn, líf mitt, barinn minn, skórnir mínir) og sums staðar er orðalagið beinlínis klúðurslegt, eins og sjá má af eftirfarandi dæmum:

„Það rigndi í stutta stund á meðan ég hljóp, en það var kælandi rigning sem veitti mér vellíðan. Þykkt ský barst af hafi og yfir höfuð mitt, og notalegir regndropar féllu í smástund…“ (13).

„It rained for a short time while I was running, but it was a cooling rain that felt good. A thick cloud blew in from the ocean right over me, and a gentle rain fell for awhile…“ (5).

„Þegar hrekkjavakan er búin mætir veturinn á svæðið, á hnitmiðaðan og þöglan máta eins og þaulreyndur skattheimtumaður“ (106)

 „Once Halloween is over, winter, like some capable tax collector, sets in, concisely and silently“ (89)

„Að keppa við tímann er ekki mikilvægt. Það sem mun hafa miklu meiri þýðingu fyrir mig núna er hversu mikið ég get notið hlaupsins, hvort ég get klárað fjörutíu og tvo kílómetra með ánægjutilfinningu. Ég mun njóta og meta á hátt sem ekki verður tjáður með tölustöfum, og ég mun fálma eftir stolti sem kemur frá aðeins öðrum stað en venjulega (142)“.

„Competing against time isn´t important. What´s going to be much more meaningful to me now is how much I can enjoy myself, whether I can finish twenty-six miles with a feeling of contentment. I´ll enjoy and value things that can´t be expressed in numbers, and I´ll grope for a feeling of pride that comes from a slightly different place“ (121).

Bókstaflega 90% sviti

Burtséð frá vanköntum þýðingarinnar er áhugavert að kynnast manninum sem birtist þarna á hlaupum því hér gefur hann í fyrsta sinn færi á sér.  Á hann kannski eitthvað skylt með skáldsagnapersónum sínum? Hann er vissulega einrænn og dulur, fáskiptinn og sérlundaður líkt og svo margar persónur í verkum hans en málið er flóknara en svo. Það er magnað sjá hvernig hann hefur náð valdi á bæði hugsunum sínum og líkama og ekki annað hægt en dást að staðfestu hans og þrautseigju. Um leið fæst sjaldgæf innsýn í líf hans og hagi; það hefur verið sagt um vinnu rithöfunda að hún sé 90% sviti og 10% snilligáfa, það sannast hér, bókstaflega.

Hver einasti joggari með sómatilfinningu verður að lesa 3. kafla sem segir frá fyrsta langhlaupinu sem Murakami lagði á sig. Það var hin 42,2 km langa leið frá Aþenu til bæjarins Maraþon; mögnuð frásögn. Allir pælarar um skáldskap, bæði bókmenntaunnendur og rithöfundar, munu hafa gaman af að lesa Hlaupabókina, þótt þýðingin sé ekki góð. Nú er lag að reima á sig hlaupaskóna og taka nýja árið með trukki.

Benedikt bókaútgáfa, 2016

204 bls

Enskar tilvitnanir: Murakami 2009, Vintage Books, Random House, NY.

Birt 24. janúar 2017 (Kvennablaðið)

 

Hálfmaraþon

10184_1408561496Mér tókst að ljúka hálfmaraþoni í RM í sumar. Ég var búin að strengja þess heit að gera þetta á árinu 2014 en var soldið hikandi, mér fannst undirbúningur minn ekki nógu góður. Ég hafði hlaupið mest 19 km og það var í apríl! En æft nokkuð stöðugt í sumar, stuttar vegalengdir, 5-8 km, 2-3 í viku.  En félagar mínir í hlaupahópnum höfðu mikla trú á að ég gæti þetta og ég lét spana mig. Síðustu dagana fyrir hlaupið var ég ótrúlega „peppuð“, fór 11, 13 og 15 km og hlakkaði til hlaupsins. Í 10 km hlaupinu í fyrra var ég ekki svona kát, þá var tímapressa á mér, en nú vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í og var hin glaðasta. Stutta útgáfan er sú að eftir 5 km fékk ég krampa í kálfann sem varði allt hlaupið svo segja má að ég hafi farið þetta á einni löpp! En þetta var æðislegt! Tíminn 2,10 og ég er alsæl með árangurinn. Næst er það hlaup í útlöndum, ekki spurning!

Skokkað í dölunum

Rólegt skokk í morgun í mun betra veðri en ég bjóst við. Tók 13 km á pace 7 í Elliðaárdal og Fossvogsdal á góðum stígum í fallegu umhverfi. Í ágúst er ég búin að hlaupa samtals 127 km, yfirleitt þrisvar í viku. Nokkuð sátt með það, líður vel og er ómeidd.

Rosa rosa gott að liggja í mosa

Rosa rosa gott að liggja í mosa

RM 2013

10 km hlaupið að baki og tíminn liggur fyrir. Fór á 60 mín (flögutími) svo til sléttum og er frekar svekkt með það. Gerði þau mistök að fara of aftarlega í röðina, stillti mér upp í 60-65 en hefði átt að vera framar. Þvagan þokaðist af stað og dýrmætar mínútur fóru til spillis. Pace-ið var 5,5 mestallan tímann og ég var í góðum gír, hefði átt að fara þetta á 57 allavega. Gengur betur næst! Veðrið var gott, allir glaðir og hvetjandi, Odda í markinu eins og í fyrra og toppurinn á deginum var að Gunna systir og Jóhanna Sigrún voru komnar niður í bæ og fögnuðu mér að hlaupi loknu!
FcertA4.tmpl-1

Þannig standa stigin

Æfingar með Bíddu aðeins standa sem hæst hjá mér þessa dagana. Ég finn mikinn mun á hversu vel mér líður, andlega og líkamlega, þegar ég skokka. Ég byrjaði í janúar sl., tók mér hlé hálfan febrúar og staðan nú er þessi:

Æfingar 14. jan- 12. mars: 18

Km 14.  jan- 12. mars: 150,99

Meðalhraði, km á klst: 8,2

Brennsla: 10.580 kal

Þessar upplýsingar getur maður grafið upp á garmin.com en úrið mitt góða safnar þessu öllu saman. Hlaupahópurinn samanstendur af skemmtilegu fólki, aðallega konum, allt frá einbeittum  járnkonum og maraþonmönnum til byrjenda og tómstundaskokkara. Í gær mættu 35 manns, við hlupum í sólinni og nutum hverrar mínútu. Æfingar hópsins eru á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 17.30 og laugardögum kl. 9. Mæting við Kópavogslaug. Og allir eru velkomnir!

_BAG7308

 

Langur laugardagur

Í gær vaknaði ég snemma eins og undanfarna laugardagsmorgna 2013, þ.e. síðan ég gekk til liðs við hlaupahópinn Bíddu aðeins. Var mætt við Kópavogslaug kl 9 eftir próteinsheik Þorbjargar Hafsteins og væna vítamínskammta og framundan var hlaup dagsins. Síðasta laugardag setti ég persónulegt met, hljóp 14 km, úr Kópavogi yfir í Garðabæ og í kringum Vífilsstaðvatn. Það fannst mér frekar strembið, mishæðótt og brekkur og mótvindur og svo fékk ég blöðru á hægri fót. Nú skipti engum togum að ég hljóp með nokkrum sprækum konum það sem okkur var sett fyrir  samtals 17,3 km sem er nýtt persónulegt met í vegalengd.  Á hverjum laugardagsmorgni slæ ég orðið mitt eigið met og er harla ánægð. Þetta laugardagshlaup var ekki erfitt, mest á jafnsléttu, gott veður og frábær félagsskapur, öflugar konur sem draga mann áfram,  meðalpace 4,25 (er það gott?) og nóg eftir í endasprett. Var móð og másandi, rennsveitt og það lagaði blóð úr tánum á mér en rígmontin og harla glöð með árangurinn, ef þetta gengur svona vel áfram stefni ég á hálfmaraþon í apríl, OMG!

11 km í rigningu og roki

Í gær var skokkað, í mígandi rigningu og roki. Hópurinn hittist við Kópavogslaug að venju um níuleytið,  um 20 manns höfðu rifið sig framúr til að mæta á 90 mínútna hlaupaæfingu og engin miskunn var sýnd. Það var farið fyrir Kársnesið, upp í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Er skemmst frá því að segja að ég var orðin algerlega gegndrepa áður en yfir lauk, vettlingarnir orðnir níðþungir, það sullaði í skónum mínum og rass og lær voru algerlega dofin. Hefði átt að klæða mig betur. Endaði samt með 11 km sem voru eins og 15 í mótvindinum og var mjög sátt þegar heim kom. Skellti mér svo í nudd í Reykjavík-Wellness, það var alveg dásamlegt.  Febrúar byrjar vel

Fyrsta hlaupaæfing ársins

Undanfarnir mánuðir hafa einkennst af önnum, þreytu og veikindum. Pabbi hefur verið mjög veikur og verið á spítala síðan á aðfangadag. Sjálf hef ég verið lasin og orkulaus síðan í lok október en nú er komið að því að herða sig upp og láta sér líða vel. Ég hef ætlað lengi að drífa mig en ekki fundist ég nógu hress til þess, full af kvefi og aum alls staðar. En í dag fékk ég nóg, það þýðir ekki að bíða lengur eftir að maður hressist. Fyrsta hlaup ársins var því í dag, með Bíddu aðeins. Samtals fór ég um 7 km, þar af 4 km í hringi  á Breiðabliksvellinum, í myrkri og kulda. En mikið var það hressandi.

Skokka eitthvað

Þeysti smáspöl á Þeistareykjum í sumar

Það er alltaf verið að skokka eitthvað en nú er enginn staður til að safna sprettunum saman eða skrá þá, eftir hakkaraárásina á hlaup.com. Á mánudaginn fór ég frá MK, fyrir Kársnesið og eftir stígnum inn allan Fossvoginn að sjoppunni og til baka í MK. Það voru rúmir 10 km, tími 63 mín. Veðrið var frábært og playlistinn góður svo ég var í góðu stuði. Í dag fór ég styttra en ég ætlaði í upphafi, aðallega vegna kuldans en vindurinn nísti í gegnum merg og bein. Skrönglaðist þó 7 km. Hjartahlaupið er á sunnudaginn og ég mæti bara ef veðrið verður gott.

Reykjavíkurmaraþon

Reykjavíkurmaraþonið, 10 km,  er mjög skemmtilegt hlaup og á heimsmælikvarða. Að hlaupi loknu spjallaði ég við franska konu sem kom hingað um langan veg gagngert til að taka sjálf þátt í 10 km og fara svo með börnin sín í Latabæjarhlaup. Hún hrósaði þessu öllu í hástert. Í hlaupinu ríkti almenn gleði og bros á flestum andlitum. Hlaupið er mjög vel skipulagt, hvatningin frábær og hlaupaleiðin skemmtileg. Undirbúningur minn vikuna fyrir fólst aðallega í að skokka í 60 mínútur á þriðjudeginum, fara rólega 4 km á fimmtudaginn, skólpa úr hlaupagallanum, klippa táneglurnar og nudda fætur með góðu kremi, sofa vel og hvílast og borða létt og hollt dagana fyrir hlaupið. Ég bægði markvisst frá mér stressi, leti, úrtölum og niðurrifshugsunum sem leituðu á. Um morguninn vaknaði ég snemma, borðaði minn hafragraut með eplum og hörfræolíu eins og venjulega en sleppti sveskjunum og sötraði powerrade með. Tók svo eina rippedfuel töflu og var til í slaginn. Tilfinningin að hlaupi loknu var góð, ég hafði reynt almennilega á mig, var ómeidd og endurnærð og afar stolt af sjálfri mér að hafa náð takmarkinu sem ég setti mér. Ég mæti aftur á næsta ári með nýtt markmið.