Ýmislegt

ja hérna

SKAM-æðið

Nú geisar SKAM-æði á Íslandi. Allir hafa séð þessa norsku sjónvarpsþætti, allir elska þá, ungir sem aldnir. Yfir sjö þúsund manns eru í íslensku SKAM-aðdáendagrúppunni á facebook. Þrjár seríur eru í sarpinum á Rúv og sú fjórða á leiðinni. Og ef maður byrjar að horfa, er engin leið að hætta.

SKAM segir frá nokkrum unglingum í Hartvig Nissen-menntaskólanum í Ósló. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum eru hressar stelpur að unglingast, hamast í símanum og tölvunni, verða ástfangnar, djamma og sofa hjá. Þær eru líka að reyna að þóknast, fá viðurkenningu, vera mjóar og vinsælar en ekki druslur. Í þriðju seríu er kastljósið meira á strákunum, sem eru nokkurn veginn í sama gírnum . Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi eða frumlega, hvað er það við þetta efni sem verður til þess að það fer eins og eldur í sinu um alla heimsbyggðina?

Það er markaðssetningin og máttur samfélagsmiðlanna sem skapa þessar gríðarlegu vinsældir. Áður en þættirnir fóru í loftið voru þeir kynntir á heimasíðu þáttanna og öllum samfélagsmiðlum og markhópurinn var aðallega ungar stúlkur. Aðalpersónur þáttanna eru með instagram og facebook-prófíl sem þúsundir fylgja þar sem má sjá efni úr skálduðu lífi þeirra á degi hverjum áður en það birtist svo í heild í sjónvarpinu/netinu. Allt gerist hægt í þáttunum sem eru í dogmastíl, það eru langar þagnir, svipbrigði sem fá svigrúm og slómó-senur sem skapa stemninguna og tilfinningu fyrir rauntíma, raunsæi og trúverðugleika. Átta manna harðsnúið lið sér svo um að halda samfélagsmiðlunum á fullu stími allan sólarhringinn. Samt er þetta ódýrasta þáttagerð sem NRK hefur nokkurn tímann ráðist í.

Handritshöfundurinn, Julie Andem, lagði á sig mikla rannsóknarvinnu áður en hún skrifaði þættina. Hún las ótal skýrslur um hag og líðan unglinga og tók viðtöl við fjöldann allan af norskum skólakrökkum til að komast sem næst veruleika þeirra. Handritið er líka ansi gott,  bæði sannfærandi, dramatískt og fyndið en líka sárt. Margar persónanna bera harm í hjarta og þær eru einar á báti, eiginlega munaðarlausar eins og t.d. bæði Noora og William. Þarna er allt þetta vandræðalega frá unglingsárunum sem allir kannast við, eins og bólur, blankheit og standpína. Og Skömmin er alls staðar, í hremmingum Nooru, í sjálfsmynd Vildu, að Eva stakk undan Ingrid og er alltaf blindfull í partýum, í kynhneigð Isaks og fortíð Williams. Múslimastúlkan Sana hins vegar skammast sín ekki fyrir neitt og Chris, sú þybbna, er algjör nagli með sjálfstraustið í lagi. Eskild, meðleigjandi Nooru og seinna Isaks, er afar vel gerð persóna, bæði fyndinn og klár, og svo er hjúkrunarfræðingurinn í skólanum frábær karakter.

Skömmin setur mark sitt á líf allra, líka kynlífið enda vita allir að norskir strákar sleikja ekki píkur þótt þeir vilji hins vegar ólmir fá tott. Í þáttunum er fjallað um mikilvæg mál á mannlegum nótum, svo sem staðalmyndir, fordóma, lystarstol, femínisma og hrelliklám.

Það er mikill kostur að karakterarnir eru venjulegir í útliti. Sumir eru laglegir en ekki eins og í mörgum amerískum sjónvarpsþáttum þar sem áherslan er á hár, förðun og merkjaföt og allir líta eins út. Og það er enginn hamingjusamur hollywood-endir á hlutunum í Skam. Heyrst hefur að í bígerð sé að gera ameríska útgáfu af þáttunum, sem er algjör katastrófa þar sem Skam er einmitt andsvar við sápuóperum Kananna þar sem fólk er matað á glysi.

Þýðing Matthíasar Kristiansen á fyrstu tveimur þáttaröðunum er ansi klaufaleg og gamaldags en Erla E. Völudóttir þýðir þriðju seríuna lipurlega. Ennþá er hægt að sjá þættina á rúv.is en að hika er sama og að tapa því þeir verða þar ekki til eilífðar.

Leyfðu ljúfum markaðsöflum að heilla þig með Skömm, taktu prófið HÉR; hvaða SKAM-persóna ert þú?

HÆGLÆTISSUMARIÐ 2025

Sumarið 2025 var um margt óvenjulegt hjá mér. Einkum vegna þess að við kærustuparið vorum einstaklega heimakær þessar sex sumarfrísvikur og fórum aðeins í eina útilegu allt sumarið en það hefur aldrei áður gerst. En það var hjólað og hjólað, amk annan hvern dag hér í nærumhverfinu. Nú er Brynjar orðinn sérlega áhugasamur um hjólreiðar og ég fékk mér nýtt (notað) hjól, svartan racer-fák sem vegur aðeins 6.4 kg og er ansi viljugur! Annað sem verður lengi í minnum haft varðandi þetta sumar er að viðburði sem átti að vera einn af helstu hápunktum sumarsins var aflýst!

Lífinu var tekið með ró, ég hitti vinkonur og systur, naut þess að elda og baka, fór með föt í hreinsun og viðgerð, svamlaði í heita pottinun, þvoði ullarpeysur sem er amk 2ja daga ferli, skrifaði eina grein á Literary Encyclopedia (en er ekki enn byrjuð á greininni fyrir Són sem á að skila í ágúst…), tók til í fataskápum, lagaði ýmislegt sem var í skralli á þessu bloggi, sinnti erindum og tölvupóstum, fór á tónleika með Ásgeiri Trausta (takk Gestur) og náði að sjá Hr Hnetusmjöri bregða fyrir í Tjaldinu #hjartahafnarfjarðar, las haug af bókum, hlustaði á rás eitt og horfði á hverja þvæluna á fætur annarri á Netflix. Oftast var rigning en hlýtt og inn á milli komu dásamlegir sólardagar þar sem við borðuðum úti – á svölunum sem mér finnst alltaf yndislegt.

Hjá mér hófst sumarið með kórferðalagi til Ítalíu í byrjun júní. Við Gunna systir hófum að syngja með Árkórnum sl haust af miklum móð, ég í alt og hún í sópran. Seinna um haustið bættist Ólína skólasystir mín í altinn og syngur eins og engill. Æfingar eru öll miðvikudagskvöld í Áskirkju og Hildigunnur frænka stýrir kórnum af alkunnri fagmennsku sinni, alúð, húmor og hlýju. Við lögðum af stað að morgni 8. júní og flugum til Mílanó. Þaðan fórum við með rútu til Marina di Pietrasanta sem er eiginlega þorp… og þar var frábært hótel: Hotel villa Tiziana, sem er heimilislegt og notalegt. Við Gunna vorum herbergisfélagar og hófum hvern morgun á að opna gluggahlerana út í hótelgarðinn. Skipulagið var þannig að á hverjum morgni hittumst við öll í garðinum og fengum morgunverð í skugga trjánna. Kvöldverður var alltaf í matsal hótelsins og þegar keypt var léttvínsflaska var hún merkt og geymd til næsta dags ef ekki kláraðist úr henni.

Næsta dag var farið með rútu til Pisa og gengið þar um með leiðsögumanni í steikjandi hita og svo til borgarinnar Lucca þar sem eru margar áhugaverðar búðir! Óttar Guðmundsson og Jóhanna Þórhalls fóru á kostum í míkrafóni rútunnar, þau lögðu línurnar um pikköpplínur á ítölsku, sögðu sögur af Sigurði Breiðfjörð og fóru með valda kafla úr Íslenskri fyndni o.fl. Á degi tvö var báts- og lestarferð, til þorpanna La Spezia, Monterosso, Vernassa og Levanto sem öll tilheyra Cinque Terre en við þurftum ekkert að þramma þá leið, heldur skoðuðum þetta bara frá sjó og brugðum okkur örstutt í land. Við héldum tónleika um kvöldið með stúlknakór Reykjavíkur í dómkirkjunni í Marina de Massa sem var algjörlega frábær upplifun. Öndvegis hljómburður, dásamlegt umhverfi og ólgandi kraftur í öllum þessum röddum! Ekkert rosa margir áheyrendur en við í kórnum skemmtum okkur allavega vel og Hildigunnur var ánægð með frammistöðu okkar. Á eftir var partí á hótel Lido. Við áttum síðan frjálsan dag og við Gunna leigðum okkur hjól og þvældumst og villtumst um svæðið, vatnslausar og sólbrenndar í yfir 30 stiga hita. En komumst loks heim fyrir ráðsnilli Gunnu. Skruppum svo á ströndina í Marina di Pietrasanta en þar ræður víst mafían (Hjaltarnir) ríkjum og rukkar grimmt en á móti kemur að ströndin er einstaklega snyrtileg og allt í röð og reglu. Um kvöldið nenntum við ekki að fara í mötuneytið og fórum þrjár saman á flottan veitingastað með geggjuðu útsýni og skrautlegum drykkjum og áttum dásamlegt kvöld. Farðin endaði svo í Genúu á 4ra stjörnu hóteli, Best Western Plus City, og þar fór nú aldeilis vel um okkur systur. Við skelltum okkur í óperuna sem var í næsta húsi og sáum Töfraflautuna í frekar skondinni uppfærslu, við Ólína drógum ýsur undir ljúfri tónlistinni. Síðasta daginn var skoðunarferð um borgina og svo gauf og rölt og spritz-þamb í hitanum. Í borginni fæddust mikilmenni eins og Kólumbus og Paganini en mér til furðu var styttan af fiðlusnillingnum afhjúpuð árið 2021 en nýlendukúgarinn Kólumbus hefur staðið þarna steyptur í eir um árabil. Síðasta kvöldmáltíðin var á kirkjutorginu undir berum himni og var yndisleg! Við höfum nú lært nöfn allra í kórnum og er farið að þykja afar vænt um kórfélagana en elskum auðvitað kórstjórann allra mest.

Í lok júní brá ég mér til Akureyrar á jarðarför skólabróður úr Barnaskóla Akureyrar frá því fyrir um 50 árum, Þorsteins Magnússonar, Steina Magg. Í skólanum voru krakkar af Brekkunni og víðar og við bundust þar mörg vináttuböndum sem enn halda. Þessi hópur hittist nokkuð reglulega með ca 5 ára millibili og hefur Tumma séð til þess að Steini fengi upplýsingar um það, því hann var ekki á facebook sem hann fyrirleit. Hann var einfari og batt bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir, etv var hann asberger eða einhverfur og fleira sem ekki var greint forðum daga. Alltaf mætti hann á hittingana, fínn og strokinn, og hafði gaman af að spjalla við skólasystkinin og okkur þótti vænt um hann. Hann sat yfirleitt aftast í skólastofunni í Barnaskólanum og þeir voru sessunautar, Þorsteinn Hjaltason og Þorsteinn Magnússon, og nafni hans sá til þess að Steini fengi að vera í friði fyrir hrekkjusvínum en hann var auðvelt fórnarlamb. Eins var Biggi honum einstaklega góður vinur. Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá Steina en hann spilaði eins vel úr sínum spilum og hann mögulega gat, sinnti sinni vinnu og áhugamálum, átti íbúð og var sjálfstæður. Hans verður saknað á næsta bekkjarhittingi. Ekki einn einasti sálmur var sunginn við útför Steina heldur mörg falleg lög sem hann hélt upp á og útgöngumarsinn var You never walk alone. Við Helga og Tumma áttum skemmtilega stund á BackPackers. Ég gisti eina nótt hjá Gyðu minni og Einari, flaug svo heim aftur, sátt við guð og menn.

Svo var stórkostlegt brúðkaup í fjölskyldunni í sumar. Þau Breki Páls og Stefanía giftu sig og umgjörðin öll var einkar glæsileg og allt gert til að gleðja gestina (Arna Páls skipulagði!). Mikið fjör og frábært að hitta skemmtilegt fólk og djamma með systrum mínum og frænkum, frábærar veitingar og flottir tónlistarmenn litu inn, Frikki Dór og PBT. Við Brynjar fengum okkur snúning á dansgólfinu en það var orðið ansi langt síðan síðast… Ungu hjónin eru svo falleg og glöð, bjartsýn og ástfangin; ég óska þeim alls hins besta ávallt. Stefaníu þekki ég lítið ennþá en Breki er draumaprins!

Þann 10. júní varð Inga mín þrítug. Þessi fagra og gáfaða, fyndna, góðhjartaða og vel heppnaða stúlka. Ég hef oft sagt að dagurinn sem hún fæddist hafi verið mesti hamingjudagur lífs míns. Hún var svo velkomin í heiminn, stóri bróðir hennar átta ára yndislegur og skemmtilegur drengur, foreldrarnir voru ástfangnir upp fyrir haus og framtíðin svo björt!

Við Brynjar hjóluðum óvenju mikið í sumar. M.a. fórum við á Þingvöll og víðar. Það er gaman að hjóla með honum, hann ýtir mér áfram til að fara lengra og víðar. Það var hann sem kom auga á notað hjól til sölu á fb og sannfærði mig um að ég þyrfti nauðsynlega að hafa carbon-stell, rafmagnsgíra og diskabremsur. Hann er mikill dellukarl og undanfarið eru hjólreiðar dellan hans. Hann er farinn að æfa með hjóladeild Víkings þar sem mikill keppnisandi ríkir og km eru taldir vandlega – undir 100 telst varla nokkuð afrek. Svo er horft á myndbönd á youtube, þar sem aðrir eru að hjóla eða gera við eða sýna græjur og nýjar hjólaleiðir og svo auðvitað Tour de France… Ég hef ekki fylgst með keppninni fyrr en 2024 og vonaði að Jonas Vingegaard (f. 1996) yrði sigurvegari enda af mikilli hjólaþjóð en hann varð að sætta sig við annað sætið sem er nú býsna gott miðað við að vera að jafna sig á viðbeinsbroti. Pogacar (f. 1998) frá Slóveníu sigraði í fjórða sinn, stórkostlegur hjólari. Hans lið, UEA Emirates, er afar fjársterkur sponsor. Verðlaun fyrir fyrsta sæti eru rúmar 70 milljónir og svo streyma aðrar sporslur inn, t.d. er hver cm á fötum og hjálmi keppenda þakinn auglýsingum. Því það sama gildir í hjólreiðum og öðrum íþróttum nú til dags, allt snýst þetta um peninga.

Í marga mánuði höfðum við Gunna og Halli hlakkað til að fara á ELO-tónleika í Manchester með Heiðrúnu og Sollu. Við keyptum miða í október í fyrra og flug frá miðvikudegi til sunnudags, fjörið átti að vera á fimmtudagskvöldinu. Tónleikadagurinn rann upp bjartur og fagur – hitinn þessa daga sem við vorum í MCH var alltaf um 30 gráður og ekki datt dropi úr lofti sem er sögulegt í borginni – og við vorum mætt tímanlega í CoOp höllina, búin að kaupa okkur ELO-boli og ég var komin með romm og kók í plastglas að bíða eftir að langþráð fjörið hæfist. Mér fannst um stund ég væri í himnaríki. En þá kom reiðarslagið: Jeff var veikur og tónleikunum aflýst! Vá hvað þetta var óvænt og óraunverulegt – þótt hann sé ekkert unglamb, 77 ára… Við urðum að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, reyndum að halda okkar eigin tónleika úti á túni með bjór og flögur úr Tesco en svekkelsið sat í okkur. Við dunduðum síðan í borginni sem er þekkt fyrir iðnað og auðvitað fótbolta, fórum í búðir (keypti mér sumarkápu og skóreimar) og gerðum vel við okkur á pöbbum og veitingahúsum, hoppuðum á sightseeing-bus, skoðuðum fótboltasafnið, heimsóttum styttu af Alan Touring, hommahverfið var ein gata og Kínahverfið hálf gata. En félagsskapurinn með frænkum mínum var frábær og mikið hlegið.

Þegar ég kom heim frá MCH var dóttir Brynjars komin til að vera hjá okkur um hríð með hundinn sinn Ketil. Það breytti plönum fyrir restina af sumrinu en gott var að geta hjálpað eitthvað aðeins til. Við fórum loksins í eina útilegu, til Vestmannaeyja en planið var að hjóla þar hring um Heimaey. Vorum rétt búin að tjalda Hilleberg og troða okkur í níðþröng hjólafötin þegar byrjaði að rigna og það stytti ekki upp fyrr en um hádegi næsta dag! Við skiptum um gír og dress og fórum út að borða um kvöldið á Gott sem var mjög gott. Daginn eftir hjóluðum við svo Eyjahringinn á malbiki í súld og úða, hann mældist nú ekki nema 20 km.

Svona er staðan 28. júlí þegar vika er eftir af sumarfríinu. Spáin ekkert sérlega góð fyrir versló en það verður hjólað eitthvað og dyttað að húsinu. Afmæli Ólínu, Gestrisinn, gönguferð í Kerlingarfjöllum, nýtt upphaf í ræktinni, samvera með fjölskyldu og systrum mínum omfl er enn framundan áður en haustið skellur á. Ég hlakka til að byrja að vinna aftur og koma sem mestu í verk í skólanum mínum áður en rekið verður smiðshögg á þetta hæglætissumar með hjólaferð til Ítalíu.

Fulldempað rafmagnshjól, endalausir möguleikar

Frá því ég byrjaði að hjóla af einhverju viti árið 2016 hefur margt breyst, bæði í bransanum og hjá mér sem hjólreiðakonu. Ég fór frá því að nota hjólið sem fararskjóta til og frá vinnu yfir í að brúka það mér til skemmtunar, sem heilsubót, áskorun um að fara út fyrir þægindaramma, og til samveru með karli mínum. Nú er staðan aftur þannig að ég á tvö hjól, racerinn minn rauða og svo rafmagnshjól en gamla Wheelerinn gaf ég frá mér fyrir löngu.

Fulldempað rafmagnshjól gaf Brynjar mér í haustið 2021 en hann tosar mig alltaf lengra en ég held ég geti, þori og vilji sjálf. Hann fékk sér slíkt sjálfur sumarið áður og það breytti alveg gangi leiksins. Algjör bylting enda hafði þessi tegund hjólreiða slegið í gegn um þessar mundir, ekki síst meðal miðaldra fólks. En vel að merkja; ekki falla í þá gryfju að kaupa ódýrt hjól sem ekki er fulldempað. Það verður fljótt stirt og leiðigjarnt að hjóla á því.

Hjólið mitt er risastórt og í rauninni alltof stórt fyrir píslina mig – 16″ og 25 kg sanseraður fjólublár hlunkur með þremur hraðastillingum og fullt af gírum. Allt rafmagnsknúið, svo einfalt og þægilegt að skipta um gír. Batteríið er líka stórt, ég kemst 80 km á því fullhlöðnu. Fyrst var ég afar klaufsk á þessu flykki en B datt í hug að það væri sniðugt fyrir mig að byrja ferilinn á því að hjóla gamla veginn upp Kambana! Ekki alveg byrjendaverkefni. Ég steyptist síðan á hausinn á því hér á jafnsléttu á Hlíðarveginum rétt fyrir jól fyrir einberan klaufaskap og braut á mér öxlina. En eftir því sem ég æfði mig meira gekk allt betur og ég varð öruggari og sífellt djarfari.

Ég kemst allt á þessu hjóli og það er svo frábært! Allt öðru vísi hjólreiðar en á racernum en hvort tveggja er gaman. Það er snilld að geta gripið í Boozt-stillinguna til að ýta sér upp erfiðar og torfærar brekkur, fara á Eco niður brekkur til að spara rafmagn og Trail til að príla fjallastíga! Hjólið fékk ég auðvitað í Everest, það er sama merki og racerinn minn, og heitir Stevens E-Inception ED 7.6.1 GTF. Það gefur mér færi á að hjóla á allskonar undirlagi, á krókóttum stígum eins td í Heiðmörk, í drullu og vatni, fjörusandi, grýttri götu og snjó og ís á nöglum.

Það er hrikalega gaman að hjóla um malar- og skógarstíga, moldartroðninga og upp torfærar brekkur eins og ekkert sé. Dekkin eru mjúk og breið og gleypa allar misfellur svo það er hreinlega eins og að svífa á hjólinu. Margar góðar stundir hef ég átt á þessu dásamlega hjóli en hátindurinn var líklega þegar við B hjóluðum upp á Úlfarsfell og niður aftur!

Hanna

Þau Ari og Hanna í Hvammi tóku mér afskaplega vel þegar ég birtist í bæjardyrunum sem tengdadóttir þeirra á níunda áratug síðustu aldar. Tötraleg unglingsstelpa, týnd og uppreisnargjörn, fann í Hvamminum ást, frið og frelsi sem hún þurfti þá.

Í Hvammi var um þessar mundir mannmargt heimili, fjárbúskapur og refarækt. Mikið var um gestakomur, gripið í spil og spjallað yfir kaffiglasi og brúntertusneið í notalegu eldhúsinu með útsýni yfir Þistilfjörðinn. Alltaf var gott að leita til Hönnu, hún hafði þann einstaka eiginleika að finna alltaf það góða í hverjum og einum. Dómharka var ekki til hjá henni, hún umvafði alla með kærleika sínum.

Við Vignir slitum samvistum en sonur okkar átti alltaf öruggt skjól hjá ömmu sinni hvernig sem veröldin veltist. Fyrir það er ég ævinlega þakklát, fyrir vináttuna sem alltaf hélst, fyrir örlætið og æðruleysið sem Hanna ávallt sýndi.

Ari lést fyrir aldur fram í mars 1986. Hanna var fædd 1940 og lést 2020.

Arnþór

Frændi minn, Arnþór Karlsson (1954-2022), var hetja sem hafði mikil áhrif á okkur öll sem honum kynntust. Sem ungur maður lamaðist hann upp að hálsi í slysi og var upp frá því í hjólastól. Fyrst um sinn bjó hann áfram með foreldrum sínum, þeim heiðurshjónum Hauki og Vilborgu ömmusystur minni, í Borgarfelli á Þórshöfn. Þangað var alltaf gott að koma og þar naut hann frábærrar umönnunar fjölskyldunnar.

Hvernig átti lamaður maður, búsettur á Langanesi á áttunda áratug síðustu aldar, að hafa ofan fyrir sér? Hann gerði svo sannarlega allt sem hann gat, sá um bókhald í fyrirtæki sem hann stofnaði með bróður sínum og mági og hann pantaði kost og fleira fyrir báta á miðunum í gegnum talstöð. Þegar ég var á rúntinum á Þórshöfn forðum daga með vinahópnum var oft kallað í Arnþór og gantast lengi kvölds í talstöðinni: 6817, 6817? Ásgarður kallar! Yfir! Seint þreyttist hann á ruglinu í okkur. En fyrir rúmum 30 árum flutti hann svo úr þorpinu sínu og keypti sér fallega íbúð í SEM-húsinu á Sléttuvegi í Reykjavík. Þar fékk hann góða þjónustu og bjó þar til dauðadags.

Arnþór var skynsamur og traustur, húmoristi og mikill mannvinur. Hann undi sínu þungbæra hlutskipti án biturðar og einstök skapgerð hans einkenndist lífsgleði, æðruleysi og umhyggju fyrir öðrum. Hann var vinmargur og ættrækinn, það var oft gestkvæmt á Sléttuveginum og alltaf gaman að koma til hans. Hann kom alltaf auga á hið spaugilega í tilverunni og var hafsjór af fyndnum sögum og fróðleik. Arnþór var höfðingi heim að sækja og hélt ótal frábær partí, þá var djammað og dansað eins lengi og sjúkraliðarnir leyfðu. Hann sætti því að þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og tók því af einstakri þolinmæði. Hann vann áfram við bókhald um skeið en okkar samfélag býr reyndar ekki sérlega vel að fólki sem hefur skerta starfsgetu. Hann var því feginn þegar hann komst á eftirlaun og hætti að vera öryrki! Miklar skoðanir hafði hann á stjórnmálum og var jafnaðarmaður í hjarta sínu. Við áttum margar góðar stundir í gegnum árin, hann fylgdist vel með mér og uppvexti barna minna enda einstaklega barngóður og lét sér annt um fólkið sitt. Um skeið fórum við saman í Kringluna á Benzinum um jólaleytið til að kaupa gjafir og hápunkturinn var að fá okkur hressingu á kaffihúsi að því búnu. Hann hélt þjóðleg matarboð og elskaði að fá sér siginn fisk og þorramat. Það var svo gaman að koma til hans á sumrin og fara með kaffið út á svalir, hann elskaði sólina! Arnþór var innsti koppur í búri í Átthagafélagi Þórshafnar og var lengi í stjórn þess. Við vorum bæði í nefndinni sem stofnaði það ágæta félag, héldum fyrstu samkomuna í salnum á Sléttuveginum og þar er enn haldinn fjölmennur félagsfundur í maí þegar svartfuglseggin koma úr björgunum.

Aldrei heyrði ég Arnþór frænda kvarta yfir sínu hlutskipti í lífinu og af honum lærði ég að vera ekki að væla yfir smámunum. Aldrei vildi hann láta á sér bera eða hafa mikið fyrir sér umfram það sem þurfti. Hann var sáttur þegar hann kvaddi og ósk hans var að útförin færi fram í kyrrþey – það er dæmigert fyrir hann. Minningin lifir um mann sem tókst á við mótlæti með hugrekki og jafnaðargeði og gladdi aðra með hlýrri nærveru, kærleika og hárfínum húmor. Allri stórfjölskyldu Arnþórs, Kristínu og vinum hans sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og þakka fyrir allt. Yfir og út.

Viðtal við Arnþór, 1995

Ellý og Vilhjálmur

Ég hef alltaf haft tónlistaráhuga. Lærði lög og texta fljótt og auðveldlega sem barn. En aldrei lærði ég almennilega á neitt hljóðfæri þótt mér hafi boðist það heldur varð unglingauppreisn og eilífðargelgja til þess að ég hunsaði vilja og ráð foreldra minna. Ég syng mikið og dansa í eldhúsinu við alls konar tónlist; gömul dægurlög sem ég ólst upp við, t.d. lög Ellýjar og Vilhjlálms, popp og diskó, en ekki síður nýjustu slagarana sem unglingarnir fíla, elska remix, þjóðlög innlend og erlend, og svo mætti lengi telja.

Síðustu vikur hef ég fengið mikinn áhuga á klassískri tónlist, og hef sérlega gaman af að hlusta á Magnús Lyngdal velja Greatest hits af gulnuðum nótnablöðum á rás eitt. Nýlega hóf ég að æfa með Árkórnum, skemmtilegasta kór á landinu, og komst að því hvað það er gaman að syngja með öðrum og skapa samhljóm sem hefur heilandi áhrif á sál og líkama.

Við mamma fórum í Borgarleikhúsið í gær á leiksýninguna um Ellý sem nú er vegna mikillar eftirspurnar sýnd í takmarkaðan tíma Þetta er í annað sinn sem við sáum sýninguna, sem er frábær. Nýrri uppsetningin er lítillega breytt til batnaðar, meira er farið á dýpið; sársaukinn vegna drykkfelldra eiginmanna, fjarvista frá ungum börnum og áfalls við bróðurmissinn, virðist einhvern veginn meiri en áður. En tónlistin er jafnyndisleg og ljóst að þau systkinin Ellý og Vilhjálmur eiga sérstakan sess í huga fólks. Ekki var þurrt auga í salnum þegar fregnin um slysið í Lúxemborg barst Ellý og Björgvin Franz söng Söknuð. Sjálf man ég vel hver mikil áhrif skyndilegt fráfall Vilhjálms hafði á alla sem ég þekkti; segja má að ríkt hafi þjóðarsorg.

Heima á Akureyri var mikið hlustað á þau Ellý og allar plöturnar þeirra voru í rekka í stofunni og spilaðar daginn út og inn. Þau boðuðu líka alltaf komu jólanna á heimilinu. Plötur þeirra beggja seldust í bílförmum enda höfðaði tónlistin til fjölbreytts hóps hlustenda og gerir enn. Salurinn í gærkvöldi var troðfullur af ungum sem öldnum – nokkrar göngugrindur biðu upp við vegg eftir aðdáendum – en tónlistin höfðar til breiðs hóps og má segja að hún sé orðin sígild.

Allir fara leikarar vel með hlutverk sín í sýningunni en Katrín Halldóra er algjörlega frábær, það er eins og Ellý holdgerist á sviðinu og sjarminn streymir frá henni. Og Björgvin Franz fer algjörlega á kostum í sínum mörgu hlutverkum. Hann er Vilhjálmur með bartana, ungur og óöruggur, skrifar undir lélegan samning við SG hljómplötur, hann er KK og Raggi Bjarna með alla sína takta, breitt bros og húmor. Svo er þarna alvöru hljómsveit á sviðinu enda ekki annað boðlegt þegar fengist er við líf og tónlist dáðustu dægurlagasöngkonu landsins. Við mamma mælum með að ná sæti á einhverja af sýningunum sem framundan eru, þær verða samtals 258 og sú síðasta er 28. desember nk.

Bréf frá langömmu

Ættarmót Holtunga stendur fyrir dyrum um næstu helgi. Af því tilefni fórum við systur að grúska í gömlum bréfum og fundum m.a. þennan gullmola.

Holti, 11. mars 1962

Óttar minn elskulegur!

Ég hefi farið óskaplega illa að ráði mínu, að hafa aldrei sent þér orð á blaði í vetur. Ég er þó oft búin að skammast mín fyrir það. Ég þakka þér bréf með síðasta pósti, svo skemmtilegt og gott, og ég þakka ykkur Agga fyrir afmælisskeyti. Skilaðu því.

Blessað fólkið gerði þessi ósköp með mig á afmælisdaginn. Samferðafólk mitt frá gömlum árum sendi mér kveðjur, það lán hefur fylgt mér að hafa ætíð gott fólk í kringum mig. Sólin skein glatt á afmælisdaginn minn, þá veistu hvað dýrðlegt er í Holti. Dals- og Gunnarssstaðafólk kom, auðvitað Vilborg og Haukur og Arnþór. Hilla var ráðskona heima. Aðalsteinn Eiríksson og hans kona sendu mér stól, fínan og góðan, þvílíkt! Arnbjörg mín hafði veislukaffi, allir voru glaðir, en söngur varð ekki svo að hvinur yrði af!!

– Það er gott að allt gengur vel hjá þér, blessaður drengurinn, og gott að vita að bætast í kennarastéttina góðir drengir.

Ég og allir hér þakka kærlega fyrir jólakveðjur og allt gott. Myndina af stúdent Óttari hefi ég aldrei þakkað fyrir, geri það hér með, það er stórmyndarlegur maður, elskan.

Þú finnur nú hvernig amma þín er, bréf sem ég fékk snemma í desember hefi ég aldrei svarað. Mig dagaði uppi fyrir jól, Það var ekki fyrir að að ég vildi ekki. Svo langaði okkur að tala við ykkur á Akureyri milli jóla og nýárs, þá var veðrahamur og ómögulegt að fá samband eins og alltaf er héðan. Geiri vildi ekki senda þér þennan miða aftur. Hann sendi beint til þeirra suður í pöntun. Svo þú ert laus allra mála í því.
Frændur þínir voru einu sinni að bera við að þeir ættu að skrifa þér en það verður víst ekki í þetta sinn.

Það er gott að frétta af okkur. Skepnurnar hafa nóg, sjaldan beitt fé í vetur. Oddviti hugsandi yfir þeim vestur í firðinum. Sumir hafa víst lítið.

Ég enda þá þetta ómyndarbréf. Við hér biðjum kærlega að heilsa Agga, og óskum kennaraefnunum góðs afreks með vorinu. Allir biðja að heilsa þér auðvitað.

Vertu þá blessaður alla æfina og þakka þér elskulegheitin öll, elsku Óttar minn. Sólin blessuð vermi þig.

þín amma Ingiríður Árnadóttir

Loksins barst niðurstaða

Á degi 5 kl 13.15 var hin langþráða sýnataka á Suðurlandsbraut. Urðu þar fagnaðarfundir því þeir sem voru í boðinu alræmda voru boðaðir á svipuðum tíma. Allan daginn var ég að bíða eftir svari en undir kvöld höfðu flestir fengið neikvætt svar. En ekki ég. Verð að viðurkenna að ég sveiflaðist á milli vonar og ótta þótt ég hefði engin einkenni. Hvað ef ég er með covid? Kæmist ekki til vinnu dögum saman, lægi í bælinu og gæti enga björg mér veitt og yrði jafnvel marga mánuði að jafna mig? Ég mátti ekki til þess hugsa. Vá hvað ég ætlaði að gæta mín framvegis varðandi sóttvarnir. Það varð alveg skýrt í mínum huga hvað ég er í raun heppin en líf hvers manns er brothætt og góðir dagar hverfulir. Í raun þarf ótrúlega litið til að allt fari á hvolf í tilverunni: atvinnumissir, ástvinamissir, vinir fjarlægjast, heilsubrestur, skilnaður, eignatjón, ofbeldi… enginn er undir þetta búinn en þetta er blákaldur veruleiki. Því skyldi hvern dag að kveldi lofa, þakka fyrir það sem er til staðar, fylla sjálfan sig og aðra af kærleika og umburðarlyndi, horfa á stóru myndina en festa sig ekki í nöldri, píslarvætti og smámunum. Leita skýringar á vanlíðan eins og höfnun og ástleysi, vanmætti, uppgjöf, pirringi og reiði; takast á við og vinna úr þeim tilfinningum sem skolast yfir á hverjum degi án ásökunar eða örvæntingar. Iðka æðruleysi og sleppa tökum. Með þessi fögru fyrirheit að leiðarljósi bjó ég mig til svefns þetta sunnudagskvöld. Þegar ég lagðist á koddann barst sms: þú ert ekki með covid.

Sóttkví enn

Þriðji dagur í sóttkví. Í gær fórum við Gunna systir, en við erum báðar sóttkvígur, í 7 km gönguferð um Kársnesið sem hressti mig verulega. En annað hvort er ég ímyndunarveik eða covid er að grassera í hausnum á mér í dag. Eitthvað slen í mér og slím í hálsi og svo er ég komin með bumbu af endalausu snarli og kaffiþambi. Tveir Teams vinnufundir í morgun, bréfaskipti og símtöl fram að hádegi, svo hefur verið rólegt hjá mér „í vinnunni“.

Í byrjun apríl er leshringsfundur og efni fundarins er Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, sem lést í spænsku veikinni. Í manifesto leshringsins frá síðustu öld segir að meðlimir verði að vera lesnir í heimsbókmenntum og helstu lókal kanónum svo JT hefur lengi legið óbættur hjá garði.

Fyrstu bindin af Höllu og heiðarbýlinu tvö fékk ég hjá Huldu minni og spændi þau í mig . Óttar Har reddaði mér svo síðustu tveimur bindunum af bókasafni þar sem ég má ekki fara neitt, svo ég lagðist í maraþonlestur í kvínni. Laaaangar náttúrulýsingar sem falla að sálarlífi persónanna taka á þolinmæðina, samtöl eru fá, sögumannsröddin er ágeng en persónur lifandi og eru málpípur augljósar og enginn endir á hörmungunum hjá Höllu. Ljóst er að skáldinu svíður stéttaskiptingin, ömurlegur húsakosturinn, hrikaleg fátæktin og örbirgðin. Ræður Péturs á Kroppi og Aðalsteins læknis eru reiðiþrungnar, þær lýsa grimmum örlögum fólksins sem minnst má sín. Þau sem flytja á heiðarbýlin í leit að frelsi og lausn undan arðráni húsbænda sinn strita þar á hungurmörkum, híma í dimmum og köldum kofa allan veturinn, féð sveltur, kýrin er skorin, börnin deyja úr kirtlaveiki og fólkið dregst upp af skyrbjúg. Síðar hafa auðvitað fleiri snillingar eins og Laxness, Guðrún frá Lundi , Oddný Guðm og Hallgrímur Helgason lýst þessu öllu í svipuðum anda.

En ég er viss um að ef JT hefði haldið áfram með söguna hefði Halla óðarar tekið til við að bjarga Þorsteini frá sjálfum sér og fengið jafn litlar þakkir fyrir og þegar hún bjargaði heiðri pokaprestsins unga með því að gifta sig, ekki þeim næstbesta heldur þeim allraversta. Mig blóðlangar að skrifa lokabindið af Höllu og láta hana verða stönduga og virta í kaupstaðnum, koma börnum sínum til náms og mögulega taka saman við Þorgeir verslunarstjóra.

Nú skín sólin og Binni er að drífa sig aftur á gosstöðvarnar. Hann ætlar samt að fara með mér um leið og ég losna. Hlakka til!