Á sjöunda áratug síðustu aldar var módernismi í íslenskri sagnagerð í uppsveiflu og Guðbergur Bergsson var manna djarfastur í formbyltingunni. Skáldsaga hans, Anna (1969), þótti ekki þægileg náttborðslesning á sínum tíma; framvindan lúshæg í ofurraunsæi sínu, söguþráðurinn sífellt brotinn upp með löngum einræðum og samtölum, nærgöngulum lýsingum, hringlandi hugsunum, kynórum, draumum og tímaflakki.
Þýtt úr módernísku
Anna lýsir hverdagslegu, íslensku alþýðufólki en líf þess snýst um uppfyllingu frumþarfanna: vinna, éta, sofa. Í sögunni felst mikil samfélagsgagnrýni og hún fjallar ekki síst um flókin tengsl skáldskapar, höfundar, persóna og lesanda um leið og ráðist er að ýmsum viðteknum hugmyndum um líkama, tungumál, sögu og menningu. Að brjótast í gegnum Önnu var eins og að glíma við flókna en heillandi gestaþraut. Nú hefur Guðbergur einfaldað þrautina verulega og endurritað Önnu; eiginlega þýtt hana úr „módernísku“.
Í Önnu er unnið markvisst að því að tefja fyrir lesandanum og trufla hann, ögra honum og brjóta hann niður. T.d. eru persónur sögunnar þokukenndar, ýmist nafnlausar eða heita mörgum nöfnum. Lesandinn verður sjálfur að finna út hver segir hvað og hver hugsar hvað: „Það gildir einu hver er hvað, allar persónurnar eru sama markinu brenndar og ég greini þær ekki í sundur“ segir húsmóðirin og rithöfundurinn Katrín (410). Hugsanir persónanna eru oft án greinarmerkja – af tryggð við raunsæið; við hugsum ekki með greinarmerkjum.
Atburðarásin er langdregin, óljós og óskiljanleg, ekkert „gerist“ í sögunni; myndmálið er óvenjulegt; umhverfið óljóst og tíminn flókinn. Aftast í bókinni eru Svörin og þar standa m.a. þessi frægu orð tiltölulega lítið breytt: „Ef höfundur gefur rótgrónum söguþræði á kjaftinn ruglast hefðbundin frásögn. Þetta getur snúist á ýmsa, óvænta vegu og orðið margbrotinn skáldskapur sem stendur fastur í hænuhaus lesandans“ (463).
Ropað og rekið við
Sagan hefst á sunnudegi, útvarpsmessunni er nýlokið og fjölskyldan sameinast við steikarát og gosþamb. Í Ásgarði (eða Valhöll) búa þrjár kynslóðir, hjónin Sveinn og Katrín (maðurinn og konan / Anna), börnin þrjú: Valdís (Valgerður, Valla), Kristján (líka kallaður Gulli) og Boggi (stundum er nafnið hans ritað afturábak: Iggob;, heitir líka Hermann) og gamla konan, móðir Sveins. Í kjallara hússins býr Svanur sem á dularfullan hátt er Höfundurinn og hefur undarlegt vald yfir Katrínu / Önnu sem segir söguna: „Höfundurinn brúkar okkur Önnu, hvora með sínum hætti, og lætur okkur ganga með hugarfóstur sín og fæða þau í þann heim sem lesmál getur orðið“ segir Katrín (440).
Að auki dvelur í húsinu undarlegur gestur frá annarri hvorri nýlendu Dana: Færeyjum eða Grænlandi. Hann vinnur skítverkin meðan hinir græða á nýlendu Kana á Suðurnesjum. Hjá kynslóðunum þremur í Ásgarði ríkir styrjaldarástand: foreldrarnir óttast börn sín og þola þau ekki, berja þau og varna þeim inn- og útgöngu, börnin fyrirlíta foreldrana og segja ömmunni að halda kjafti en hún lifir í þokuheimi þambandi malt. Allar persónurnar eru frekar ógeðfelldar auk þess sem þær ropa, reka við og froðufella í erg og gríð sem gerir þær síst geðslegri.
Bítur í sporð á sér
Atburðarás sögunnar er í sjálfu sér ekki flókin. Kristján skreppur í veiðiferð með vini sínum eftir matinn en ferðin tekur óvænta stefnu; Boggi og Valla standa í stórræðum í sjoppunni á staðnum og til sögu koma hjónin Diddi og Dóra Aggý; Lollý sem afgreiðir í sjoppunni og er ófrísk; nokkrir unglingar og fleira fólk í Kanapartíi. Sveinn og Katrín fara aldrei út úr húsi í sögunni en tala endalaust um lífið og tilveruna við gestinn og fá vinkonurnarnar Sollu, Möggu og Böggu í heimsókn en þær eru nýkomnar heim frá Ameríku – vonsviknar eftir kynni sín af fyrirheitna landinu. Sveinn og Katrín verða svo andvaka, tala saman eða réttara sagt í kross og Katrín sinnir ritstörfum en hvorugt þeirra furðar sig á hvar börnin eru. Undir morgun er Kristján ókominn, Valla fílefld á leið í vinnuna eftir næturgöltrið en Boggi liggur lífvana á gólfinu með tómt pilluglas og kveðjubréf sér við hlið. Sveinn fer í vinnuna og Katrín / Anna vaknar undir hádegi við að vinkonurnar þrjár eru komnar í mat. Þar lýkur sögunni, hún bítur í sporð á sér eins og „góðar sögur gera í lokin“ (segir Katrín, 364).
Stjórnlaus orðaflaumur
Persónur sögunnar gegna því hlutverki að enduróma þreyttar skoðanir og innantómar hugmyndir. Þær eru uppsprettur stjórnlauss orðaflaums í sundurlausum eintölum og stefnulausum samtölum þar sem engin niðurstaða fæst en soralegur hugarheimur þeirra birtist í skýru ljósi. Stöðnun, vonleysi og vani setja mark sitt á persónurnar, þær taka hvorki þroska né breytingum í sögunni. Þær tala ekki saman heldur talar hver í sínu horni. Orðræðan einkennist af hjali og tauti, hátíðlegu og klisjulegu máli innihaldslausum skipunum og yfirlýsingum, merkingarlausum og þversagnakenndum málsháttum, fjölmiðlasíbylju og áróðri. „Við erum auðvitað hér glaðvakandi, andvaka og ráðvillt. Eftir sögunni að dæma er það í eðli okkar að vaka myrkranna á milli, skynja hvorki stund né stað og vera með mælgi“ segir Katrín (407-8). Talinu er markvisst er beitt til að sýna fram á og deila á vaðalinn og klisjurnar sem einkenna samskipti fólks yfirleitt.
„Allt lafir slappt og þróttlaust“
Sögumaður á í dularfullu sambandi við persónur sínar. Svo virðist sem Katrín / Anna sé að skrifa bókina jafnóðum og sagan gerist. Sífellt er lesandinn minntur á að hann sé að lesa BÓK með tilbúnum blaðsíðum og kaflaskilum og persónurnar séu leiksoppar, háðar valdi sögumannsins. „Krakkar, núna ek ég ykkur úr sögunni og í háttinn, sagði Dóra Aggý, ekki laus við tilgerð… Mér er sama hvert þið farið, ef þið farið, þið eruð bara aukapersónur, allar nafnlausar“ (336). Og á einum stað segir Katrín: „Flettu upp á síðu hundrað fjörutíu og átta í þessari bók“ (440). Veruleikalíking eða blekking skáldverksins er þannig rofin sífellt enda lífið allt of flókið til að komast fyrir í skáldsögu.
Botnlaust grín er gert að rithöfundinum (Katrínu / Önnu) sem situr í skáldskapartjaldi og íhugar samband bókmennta og samfélags, í kulda og trekki (því kuldi og gremja er undirstaða listanna) með fæturna í fötu með volgu vatni þar sem plastleikföng synda um (til að varðveita barnið í sér) og horfir á heiminn af sjónarhóli reynslunnar (354): „Konan sat á buxunum einum fata uppi á háum stól. Þannig ætlaði hún að vera persónugervingur nakta sannleikans með penna í hönd á svipaðan hátt og réttvísin heldur á vogarskálum. Slöp, lúin brjóstin löfðu niður með síðunum og hún hugsaði oft af þeirri kaldhæðni sem einkennir kveneðlið: Þannig er komið fyrir skáldagyðjunni og listunum í lok þessarar aldar: Allt lafir slappt og þróttlaust nema símalandi tungan“ (353).
Prútt lesmál
Anna er gagnrýnin saga á mörgum sviðum. Hún ræðst að smáborgarahætti, hræsni, þýlyndi og þröngsýni, og gagnrýnir vana, andlegan doða og yfirborðsmennsku. Firring persónanna er leidd í ljós í margbrotnu formi sögunnar og klisjurnar í tali þeirra endurspegla stöðnun og ófullnægju. Form og efni haldast þétt í hendur (kaflanúmer bókarinnar má skilja á þann veg að hana eigi að lesa aftur og aftur eða jafnvel afturábak), firringin og endurtekningin er í senn efni sögunnar og búningur hennar. Anna gamla átti brýnt erindi við 68-kynslóðina og boðskapur hennar er enn í fullu gildi.
Nútímalesendur fá söguna í þægilegum neytendaumbúðum, formið er orðið aðgengilegra og sagan læsilegri, textinn er fyllri af skýringum og útleggingum Guðbergs auk þess sem greinarmerki og greinaskil hjálpa nú aðeins til. Lesmálið er orðið býsna stillt og prútt miðað við fyrri gerð en minna stendur eftir af töfrum gátunnar fyrir vikið; merkingin er nú tekin fram yfir leyndarmálið (182). En fyndnin og orðsnilldin halda sínum hlut.
Guðbergur segir fremst í bókinni að veruleiki skáldsögunnar sé margvíslegur og „fyrir bragðið ættu að vera gefnar út að minnsta kosti tvær gerðir af sömu skáldsögu svo hægt sé að bera saman þá fyrri og fylgju hennar sem hugsanlega lokagerð.“ Endurvinnsla í myndlist, tónlist, kvikmyndum og bókmenntum blómstrar nú sem aldrei fyrr. Að endurrita eigin bækur eða annarra stunduðu Íslendingasagnahöfundar til forna með góðum árangri og nýlegt tilbrigði við þetta stef má t.d. sjá í Höfundi Íslands eftir Hallgrím Helgason. Það er tilhlökkunarefni að sjá hverju Guðbergur tekur upp á næst og hverju fram vindur í fylgjumálum hans. Nýrri, aukinni og endurbættri útgáfu (fylgju) Önnu 2001 ber tvímælalaust að fagna með látum, helst flugeldum og kampavíni.