Allir sem einhvers máttu sín litu svo á að tungan væri aðeins fyrir Íslendinga, einu þjóðina í heiminum sem fékk að hafa móðurmál sitt í friði fyrir öðrum, þótt friðurinn stafaði einungis af gagnsleysi þess fyrir utan landsteinana. Tungan var ekki einu sinni nothæf til að selja með henni þorskalýsi og lopa á erlendum mörkuðum. Hið algera gagnsleysi varði tunguna, ekki hún sjálf með notagildi sínu. Menn hrósuðu sér af því að eiga tungumál sem væri svo djöfullega snúið að ekki væri á færi annarra en innfæddra að læra það og fæstum tókst það fullkomlega… (Ein og hálf bók, hryllileg saga 2006)
Endalausir gullmolar eru í verkum hins síunga snillings, Guðbergs Bergssonar. Þetta t.d. rakst ég á í gær, á áttræðisafmæli hans, þegar ég seildist í eina bók úr hillunni af handahófi. Hver einasta bók hans hefur sinn sjarma og snilld, það er stíllinn og orðaforðinn, háðið, kaldhæðnin, viska og yfirsýn, ádeila, tabú, þjóð og menning, remba og rotinpúrra, útnáraháttur, skáldskapur, pólitík, kellingar, æska og elli, ást og hjónaband osfrv. Mest held ég uppá Önnu og bernskubækurnar. Hvenær fær hann eiginlega nóbelinn?
Þú ættir að gúggla Guðberg og skoða hvaða myndir birtast… Veit Binni af þessu?
Þetta er satt, frekar glataðar myndir af svona fallegum manni. Geri Binna (panorama.is) viðvart!
Ég átti nú við að þegar ég gúgglaði nafnið hans og leitaði eftir myndum komu líka upp fullt af myndum af ykkur skötuhjúum. Sem eru að sjálfsögðu bara til prýði 🙂
Hvuddin má það vera? Nú er ég hlessa!