Bjarni Bernharður er mörgum kunnur fyrir ljóðabækur sínar sem hann hefur mestmegnis gefið ötullega út sjálfur. Í árslok 2014 kom út heildarsafn og úrval ljóða hans, Tímasprengja. Myndskreytt af honum sjálfum.
Ekki fer á milli mála að ljóðmælandi er víðast Bjarni Bernharður sjálfur enda rödd hans sterk og einlæg í öllum ljóðunum. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er tíminn honum hugleikinn.
Horft er um öxl til þeirra daga sem voru myrkir í lífinu og hann er fullur þakklætis fyrir að hafa komist heill frá „náttglöpum“, „heimi blæðandi myrkurs“ og „sýrunóttum“. En fram undan eru bjartir tímar, kyrrlátt ævikvöld í góðum friði við guð og menn við að skapa og njóta lífsins. Bjarni Bernharður hefur víða sagt frá lífshlaupi sínu sem er skrautlegt og einkennist m.a. af ofbeldi, geðveiki og fíkniefnaneyslu. Hann segist þó vera gæfumaður og „hamingjuhrólfur“ og horfir sáttur um öxl: „fleyi siglt / til víkur / við ljúfan / sálarbyr/ útlit fyrir sálarfrið“ (84).
Þjóðfélagsrýni er snar þáttur í ljóðagerð Bjarna Bernharðs. Sem dæmi mætti nefna ljóðið Þjóðlíf sem fjallar um misrétti, græðgi og andlega tómhyggju í þjóðarvitundinni (206). Mörg önnur ljóð eru á svipuðum nótum, þau einkennast af ríkri réttlætiskennd og innilegri von um jöfnuð og bræðralag. En þau hitta ekki í mark vegna þess að í ádeiluljóðum Bjarna er margnotað myndmál sem ekki hefur neitt nýtt fram að færa, þar birtast hriktandi stoðir þjóðarbúsins, hagkerfi í molum, skuldafen, blóm í byssukjafta o.s.frv. Það vantar ferska hugsun, frumleg efnistök og hið óvænta í ljóðin.
En Bjarni er svellkaldur og yrkir ótrauður um lífsins tafl, múra einsemdar, hug sem sveiflast eða flýgur, vor lífsins, akur lífsins, aldingarð ástarinnar og orð á hvítri örk eins og það hafi bara aldrei verið gert áður.
Menningarstig þjóðarinnar, einkum staða bókmennta, er áberandi þema í ljóðum Bjarna Bernharðs. Hann hefur löngum verið utangarðsmaður í skáldskapariðkun sinni og hvorki hlotið náð fyrir augum bókmenntaelítunnar, gagnrýnenda né útgefenda. Þess bera nokkur ljóð glögg merki og stundum tekur reiðin öll völd:
„Ritstýra forlagsins glennti klofið / og sagði: komiði, komiði strákar / með póstmódernísku skaufana …“
(129). Þá fær bókmenntaþátturinn Kiljan kaldar kveðjur í ljóðinu Herra og frú Egilz sem er algerlega grímulaust beint að Agli Helgasyni, umsjónarmanni þáttarins (132-133). Eitt ljóðið heitir Gagnrýnandinn og endurspeglar vægast sagt lúna klisju:
Harmar mjög
sitt lífshlaup
skúffuskáldið.
Ungur
átti sér draum
um sigra á bókmenntasviði.
Í dag
leigupenni
blautlegur bókarýnir
á morgunblaði
hjávillu sinni trúr.
(198)
Bókina prýða málverk Bjarna Bernharðs sem eru litrík og skemmtileg. Á bókarkápu lýsir hann því yfir að hann ætli nú að snúa baki við ljóðagerð og sinna myndlist og ævisagnaritun framvegis. Gott og vel.