skáld

„Ritstýra forlagsins glennti út klofið“

Bjarni Bernharður er mörgum kunnur fyrir ljóðabækur sínar sem hann hefur mestmegnis gefið ötullega út sjálfur. Í árslok 2014 kom út heildarsafn og úrval ljóða hans, Tímasprengja. Myndskreytt af honum sjálfum.

Timasprengja

Ekki fer á milli mála að ljóðmælandi er víðast Bjarni Bernharður sjálfur enda rödd hans sterk og einlæg í öllum ljóðunum. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er tíminn honum hugleikinn.

Horft er um öxl til þeirra daga sem voru myrkir í lífinu og hann er fullur þakklætis fyrir að hafa komist heill frá „náttglöpum“, „heimi blæðandi myrkurs“ og „sýrunóttum“. En fram undan eru bjartir tímar, kyrrlátt ævikvöld í góðum friði við guð og menn við að skapa og njóta lífsins. Bjarni Bernharður hefur víða sagt frá lífshlaupi sínu sem er skrautlegt og einkennist m.a. af ofbeldi, geðveiki og fíkniefnaneyslu. Hann segist þó vera gæfumaður og „hamingjuhrólfur“ og horfir sáttur um öxl: „fleyi siglt / til víkur / við ljúfan / sálarbyr/ útlit fyrir sálarfrið“ (84).

Þjóðfélagsrýni er snar þáttur í ljóðagerð Bjarna Bernharðs. Sem dæmi mætti nefna ljóðið Þjóðlíf sem fjallar um misrétti, græðgi og andlega tómhyggju í þjóðarvitundinni (206). Mörg önnur ljóð eru á svipuðum nótum, þau einkennast af ríkri réttlætiskennd og innilegri von um jöfnuð og bræðralag. En þau hitta ekki í mark vegna þess að í ádeiluljóðum Bjarna er margnotað myndmál sem ekki hefur neitt nýtt fram að færa, þar birtast hriktandi stoðir þjóðarbúsins, hagkerfi í molum, skuldafen, blóm í byssukjafta o.s.frv. Það vantar ferska hugsun, frumleg efnistök og hið óvænta í ljóðin.

En Bjarni er svellkaldur og yrkir ótrauður um lífsins tafl, múra einsemdar, hug sem sveiflast eða flýgur, vor lífsins, akur lífsins, aldingarð ástarinnar og orð á hvítri örk eins og það hafi bara aldrei verið gert áður.

Menningarstig þjóðarinnar, einkum staða bókmennta, er áberandi þema í ljóðum Bjarna Bernharðs. Hann hefur löngum verið utangarðsmaður í skáldskapariðkun sinni og hvorki hlotið náð fyrir augum bókmenntaelítunnar, gagnrýnenda né útgefenda. Þess bera nokkur ljóð glögg merki og stundum tekur reiðin öll völd:

„Ritstýra forlagsins glennti klofið / og sagði: komiði, komiði strákar / með póstmódernísku skaufana …“
(129). Þá fær bókmenntaþátturinn Kiljan kaldar kveðjur í ljóðinu Herra og frú Egilz sem er algerlega grímulaust beint að Agli Helgasyni, umsjónarmanni þáttarins (132-133). Eitt ljóðið heitir Gagnrýnandinn og endurspeglar vægast sagt lúna klisju:

Harmar mjög
sitt lífshlaup
skúffuskáldið.

Ungur
átti sér draum
um sigra á bókmenntasviði.

Í dag
leigupenni
blautlegur bókarýnir
á morgunblaði

hjávillu sinni trúr.
(198)

Bókina prýða málverk Bjarna Bernharðs sem eru litrík og skemmtileg. Á bókarkápu lýsir hann því yfir að hann ætli nú að snúa baki við ljóðagerð og sinna myndlist og ævisagnaritun framvegis. Gott og vel.

Birt í Kvennablaðinu 10. júní 2015

„Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til“

„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161).

Þetta brot er úr nýrri og áhrifamikilli skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur sem ber heitið Flækingurinn. Þar segir frá unglingspiltinum Hrafni (stundum kallaður Óskar eða Georg Washington Jensen), útilegumanni nútímans og sprautufíkli sem þvælist um götur Reykjavíkur í leit að mat og dópi. Þessi ógæfusami piltur hittir margs konar fólk á vegi sínum, flest er á jaðri samfélagsins eins og hann sjálfur. Þegar sagan hefst býr hann á einhvers konar sambýli eða athvarfi fyrir fíkla og ræður bjargvætturinn Laufey þar ríkjum. Brátt hrökklast hann þaðan, hreiðrar um sig í geymslu í kjallara í dansskóla, lendir svo í slagtogi við alls konar furðufugla og fyrir ýmist ásetning eða misskilning kemst hann í kast við lögin. Sögunni lýkur svo þar sem hún hófst, í húsi Laufeyjar, með absúrd drápsenu sem minnir mest á bíóhasar, en raunveruleiki og jarðtenging eru býsna langt undan í þessu skáldverki.

Framvinda sögunnar markast af ráfi Hrafns um bæinn og samskiptum hans við misruglaðar persónur, dóprausi og ranghugmyndum, ofbeldi og brostnum draumum. Stíllinn er mjög ljóðrænn og fallegur, senur eru margar súrrealískar enda rambar sögumaður á mörkum vímu og veruleika.

Hrafn er mállaus og skrifar á blað það sem honum liggur á hjarta. Hann missti málið/tunguna á einhvern óljósan hátt og var beittur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmynd hans er verulega brengluð og mörkuð af erfiðri æsku og vímuefnanotkun: „Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ spurði ég sjálfan mig, þakklátur fyrir að mega skilja sjálfan mig án aðstoðar milliliðs. Úff, ég hefði ekki boðið í það hefði ég þurft á túlki að halda til að skilja mig. Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127).

Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld. Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.

Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita. „Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159).

Þeir fóstbræður eiga mögnuð samtöl í ruglinu en hrista svo af sér slenið og halda í ævintýraför þar sem ættingjar og vinir fá makleg málagjöld í grátbroslegum ofbeldisatriðum sem varpa ljósi á bæði sjúklega hugsun fíkilsins og meðvirkni og skilningsleysi fórnarlambanna.

Útigangsmönnum í höfuðborginni fer fjölgandi en um þessar mundir eru a.m.k. 200 manns heimilislausir árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. Er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli. Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.

Tími flækingsins er runninn upp, hugsjónirnar eru dauðar, heimur hvíta mannsins er liðinn undir lok, segir Engilbjartur sem hatar bláeygt gelgjupoopp og allt sem er hvítt. En er líf flækingsins æðsta stig tilverunnar? Er hann frjáls? Hvort er það hugrekki eða hugleysi að velja þá braut í lífinu? Þeim sem hafa í huga að leggjast út er ráðlagt að skoða lista í handbók útigangsmannsins sem birtist á bls. 263–4 í bókinni. Þar kemur fram að gott er að eiga m.a. kertisstubb og kveikjara, snæri og kúbein, trefil og vatnsþéttan skófatnað, skrúfjárn, teppi og samanbrotinn plastpoka. Og svo er bara að smæla framan í heiminn: Bless vinna, fjölskylda, eignir, ábyrgð og skuldir! Hæ, frelsi?

Birt í Kvennablaðinu 16. apríl 2015

Ekki er það útdautt enn…

400px-Pinguinus_impennus_(Audubon)

Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.

Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.

Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).

Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:

geirfugl

(ertu aftur farinn að gráta?)

skerið mitt sokkið

öndvegið víðsýna

leikvangur ljóssins

og hreiðurklöppin mín fegurst allra

hjarta mitt skelfur

líkt og dauðaþögnin

rétt fyrir jarðskjálftann mikla

angistin nístir sem

logandi teinn

eggið mitt kólnar

á skötuskeri

tjóðraður við

minn titrandi skugga

bíð ég komu mannanna

með bareflin

brugðnu

(25)

Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.

Birt í Kvennablaðinu 12. mars 2015