bókmenntagagnrýni

Enginn svefnfriður ef þessi er á náttborðinu

Lars Kepler“ er dulnefni sænskra hjóna sem ákváðu að leggja í púkk og skrifa saman sakamálasögur. Verk þeirra eru mergjuð og hafa enda slegið í gegn, verið þýdd á fjölmörg tungumál og seljast í bílförmum. Parið hefur skrifað svo til eina bók á ári frá 2009 og í haust er væntanleg fimmta bók þeirra, Stalker (Eltihrellir), sem vonandi verður þýdd á íslensku hið snarasta. Sandmaðurinn frá 2012 kom út í  afbragðsgóðri þýðingu Jóns Daníelssonar á síðasta ári og er ómissandi sumarlesning.

Raðmorðinginn ógurlegi, Jurek Walter, hefur setið inni á lokaðri geðdeild í Svíþjóð í 13 ár þegar eitt meintra fórnarlamba hans finnst á lífi. Þrjóskasta lögga í heimi, hinn finnskættaði Joona Linna, tekur málið upp og þar með hefst hrikalega spennandi atburðarás sem lesandinn sogast inn í og endar með ósköpum.  Helstu persónur sögunnar eru listavel smíðaðar. Joona Linna er hörkunagli sem hefur fórnað lífshamingju sinni fyrir öryggi fjölskyldunnar, hann er ráðagóður og einbeittur, eldklár og gefur sig aldrei ef hann telur sig vera kominn á sporið.  Hann þaulþjálfaður í sjálfsvörn og bardaga í návígi að hætti ísraelska hersins  og bregður sér hvorki við sár né bana. Fyrri hluti bókarinnar fer í að rifja upp forsögu Jurekmálsins og það er ekki fyrr en eftir 150 blaðsíður sem Saga, hin aðalpersónan, birtist. Hún er yfirfulltrúi hjá Öryggislögreglunni og ekki minni jaxl en Jooni. Hún er fimur boxari, hárnákvæm skytta og sérmenntuð í yfirheyrslutækni auk þess að vera svo fögur að flestir „sem sjá hana fyllast undarlegum söknuði. “ (150). Hún fær það flókna verkefni að ná til Jureks Walters innan rimlanna og veiða hann í net sitt.

Að vera grafinn lifandi hlýtur að vera ein versta martröð sem til er og það er einmitt aðferðin sem Jurek Walter notar. Hann er stórhættulegur maður, skarpgreindur og snarbrjálaður. Jurek er haldið í algerri einangrun og starfsfólkið á geðdeildinni setur í sig eyrnatappa því  hann býr yfir seyðandi afli sem fær fólk til að skelfast hann og hlýða skipunum hans umyrðalaust. Í sögunni kemur skýrt fram að lög og mannréttindi eru að engu höfð á deildinni, sjúklingar eru beittir valdi og sprautaðir með lyfjum til að auðveldara sé að eiga við þá. Það hindrar Jurek samt ekki í ætlunarverki sínu og grimmd hans virðast engin takmörk sett.

Nokkrum hliðarsögum fer fram um leið og spennan vex og allt er þetta afar vel smíðað. Hinn þjóðsagnakenndi Sandmaður gegnir svipuðu hlutverki og Óli Lokbrá, en það sofnar enginn fyrr en þessi bók er á enda lesin. Langt er síðan ég hef lesið svo magnaðan reyfara og löngu eftir að ég lauk við hann velti ég enn fyrir mér örlögum persónanna. Og sagan er ekki búin,  enn meiri ógn og hryllingur bíða í næstu bók.

Nóvember 1976

Nóvember 1976Skáldsagan Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson kom út 2011 en ég var að lesa hana núna fyrst í sumar. Hún er mjög fín,  vel skrifuð, fyndin og yfir henni notaleg nostalgía. Sjálf bjó ég í blokk (á Akureyri) 1976 en sagan fjallar um nokkra íbúa í blokk í Reykjavík sem allir hafa sinn djöful að draga og er um leið einskonar míníútgáfa af samfélaginu. Mjög gott form til að halda utan um persónugallerý  og söguþráð en vissulega hætta á að klisjur verði til. Það gerist þó ekki í þessari sögu þótt persónurnar séu ekki sérlega flóknar eða djúpar. Þær eru svo ljóslifandi, skoplega mannlegar í neyðarlegum aðstæðum, samtölin milli þeirra eru eðlileg og stórskemmtileg og sjónarhornið skiptist á milli þeirra. Sérstaklega eru kvenpersónurnar í sögunni flottar, bæði Dóróthea, kúskuð eiginkona Ríkharðs en hann er orðheppinn pungrotta og laus höndin, og Bíbí, mussan sem fer sínar eigin leiðir. Á sögutímanum er kvennabaráttan ótrúlega stutt á veg komin (og miðar enn hægt) og augljós er samúð sögumanns með málstað jafnréttis kynjanna. Konur vinna flestar heima og þjóna körlum sínum og börnum, þær sem stíga út fyrir það hefðbunda mynstur eru litnar hornauga. Kynslóðabilið er að verða til um þessar mundir, unglingarnir eru hálfvegis týndir og komnir í uppreisn gegn ríkjandi viðhorfum, s.s.nýtni og sparsemi, að vinnan sé dyggð og að það eigi að bera virðingu fyrir sér eldra fólki. Þóroddur er fulltrúi ungu kynslóðarinnar, latur og áttavilltur. Samfélagið er að opnast og breytast, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Litasjónvarpið er að ryðja sér til rúms og veldur á skemmtilega íronískan hátt straumhvörfum í lífi persónanna. Sagan er efni í hörkugóða bíómynd. Mæli með þessari bók, hér er góð gagnrýni um hana.

Eitt andartak í einu

Stundum fannst mér að Snjólaug væri farin að skrifa Dalalíf strikes back þegar ég las þorpssögu Hörpu Jónsdóttur sem út kom 2011. Þetta er skemmtileg ástarsaga Lalla og Sólu og gerist í litlu plássi úti á landi, mikið drama og kósí stemning. Sagan einkennist af mikilli frásagnargleði, líflegum samtölum og heimilislegri spennu. Andstæður eru skýrar, þorp og borg, gott og illt, sorg og gleði. Lárus er hlédrægur og einhleypur á besta aldri, hjálpsamur og samviskusamur. Hann hefur þurft að þola stríðni og uppnefni í æsku (ekki mikið gert úr því í sögunni), hann þykir frekar lúðalegur en löngu er orðið tímabært að hann finni sér konu, Sólveig kemur ófrísk í þorpið eftir að hafa lent í ruglinu í Reykjavík, glæsileg og dularfull. Tildragelsi þeirra er skemmtilega lýst og þorpsbúar eru spenntir að sjá hvernig fer fyrir  turtildúfunum. Persónurnar eru margar, þær skjóta upp kolli hér og þar í sögunni með fyndin tilsvör og alls kyns uppákomur. Það hefði mátt gefa sumum þeirra meiri tíma og alúð, t.d. sögu Guðmundar grjóts og Guðbjargar hárgreiðslukonu. Og hvað varð t.d. um Sigga bróður? Það er auðvelt að lifa sig inn í söguna, hún rennur vel og persónurnar eru kunnuglegt fólk en ýmsar alka- og trúarpælingar hefði kannski mátt stytta.Víða er skipt milli sögusviða og oft tengt saman með slúðri, kerlingar hittast yfir kaffibolla og taka stöðuna eða kallar kjafta í heita pottinum. Boðskapur sögunnar felst í titli hennar, það er víst best að lifa eitt andartak í einu því aldrei veit maður hvenær skipast veður í lofti. Hér má heyra Hörpu lesa upphaf sögunnar.