Holt

Amma á Akureyri

19732250_10209688463550208_4169520249553070341_n

Amma mín á Akureyri, Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti (1917-2017) var einstök kona. Lágvaxin, fíngerð og falleg, léttlynd og glaðvær og hló smitandi hlátri. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og listum og það var alltaf mikið fjör á heimili hennar og afa, ekki síst þegar gripið var í píanóið og harmónikkuna. Heimili þeirra afa og ömmu var fallegt og nýtískulegt, þar var afar gestkvæmt og allir velkomnir.

Lífið var henni mótdrægt að mörgu leyti. Dóttir hennar, Hildigunnur, lést langt um aldur fram frá þremur litlum börnum, yngsti sonurinn og augasteinn allra, Einar Kristján, lést 46 ára. Óttar, faðir minn, lést 2013 og en þá var amma orðin fótsár af ævinnar eyðimörk.

Þegar amma fór á elliheimili opnaði hún dyr að heimili sínu og bað afkomendur að taka það af hennar góssi og nota sem þeim líkaði því hún þyrfti það ekki lengur. Það lýsir vel höfðingsskap hennar, nýtni og nægjusemi.

Amma var friðarsinni og jafnaðarmaður, örlát og hlý og tróð engum um tær. Vandvirk og vönd að virðingu sinni, smekkleg og kurteis. Mikið má af henni læra um lífsviðhorf, fallega framkomu, húmor og styrk í mótlæti. Þau pabbi voru bestu vinir enda lík um svo margt. Elsku amma er hvíldinni fegin, hún er afkomendum sínum falleg og góð fyrirmynd; minning hennar mun lifa lengi í hjörtum þeirra.