Ísak Harðarson

Eitt vetrarsvartholið enn

Ísak Harðarson er látinn. Síðasta smásagnasafnið hans, Hitinn á vaxmyndasafninu, fannst mér frábært verk. Ég fór honum til heiðurs að gramsa á veraldarvefnum eftir umfjöllun um bækur hans. Það rifjaðist upp að ég skrifaði sjálf örstutt um síðustu ljóðabók hans með titlinum furðulega, Ellefti snertur af yfirsýn þann 23. október 2018 á vef Kvennablaðsins sáluga sem er nú týnt og tröllum gefið. En ég fann greinina í iðrum tölvunnar og deili hér með, ég hafði soldið fyrir því að hafa ljóðabrotin í ComicSans þegar greinin birtist. Takk Ísak fyrir skáldskapinn.

Ísak Harðarson (f. 1956) er eitt af þekktustu skáldum sinnar kynslóðar. Kraftmikil og myndræn ljóð  hans búa yfir mótþróa, kaldhæðni  og heitri trúarþörf. Fyrsta ljóðabók Ísaks, Þriggja orða nafn, kom út 1982. Ljóðabók hans, Rennur upp um nótt (2009), var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011.

Ísak er ómyrkur í máli í nýrri ljóðabók sem hann nefnir Ellefti snertur af yfirsýn. Bókin er sú ellefta í röð ljóðabóka hans og titillinn tengist ljóðlínu um fjall sem hann verður að ganga á til að fá þó ekki nema snert af yfirsýn á hrun (heimsins) og rústir siðmenningar. Þótt lesandi sé í upphafi varaður við því að orð og slitur myndi ekki neina samfellu, drætti eða mynstur, er heildarsvipur á bókinni. Andúð á efnishyggju, græðgi og offors er ríkjandi og heimsendir er nær en maður hefði haldið.

Það er dómsdagsstemning hvert sem litið er. Allt er hrunið, kurlað í mask, engin hús, engin bók, engin merking en guð er nálægur þótt hann sé hvergi að sjá. Og lítill strákur steinhissa sem fæddist á Allraveraldarvegi er orðinn Grafarvogsbúi. Jörðin, Úfinkolla Sunnudóttir, er á hverfanda hveli og feigðin vofir yfir.

Allt er ögrandi við ljóðabók Ísaks: Orðaleikir, ádeila, textauppsetning, titill, mynd á bókarkápu og hið forljóta letur ComicSans sem ýfir viðkvæmar taugar allra sem telja sig til fagurkera. En glæsileg eru ljóðin:

Lokaljóð bókarinnar er ástarljóð til deildar 33A á Landspítalanum, fullt af ást, þakklæti og von.

Ljóðið er ódrepandi, Ellefti snertur af yfirsýn kemur okkur í gegnum eitt vetrarsvartholið enn.

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017