Kata

Kona ársins

download (1)

Ofbeldi og glæpir eru ein af skuggahliðum samfélagsins. Það færist í aukana með vaxandi misrétti í hálfhrundu velferðarkerfi, fjársveltu skólakerfi og vanhæfu dómskerfi eins og íslenska þjóðin býr við um þessar mundir. Konur eru sláandi oft fórnarlömb glæpa og eru eiginlega hvergi óhultar, síst heima hjá sér. Kynbundið ofbeldi þrífst, dafnar og viðgengst sem aldrei fyrr í samfélagi okkar og ratar sem eðlilegt er í bókmenntirnar. Elísabet Jökulsdóttir hlaut t.d. Fjöruverðlaunin nýlega fyrir einlæga og berorða ljóðabók um andlegar og líkamlegar misþyrmingar í ástarsambandi.  Doðranturinn Kata eftir Steinar Braga ryðst fram með réttlátu reiðiöskri og miskunnarlausum lýsingum á stöðu og hlutskipti kvenna í ofbeldisfullum heimi. Þar er vaktar upp siðferðislegar spurningar um glæp og refsingu, sígilt þema en nú í femínísku ljósi.

Titilpersónan Kata er hjúkrunarfræðingur og vinnur á krabbameinsdeild Landspítalans þar sem dauðinn er sífellt yfirvofandi. Hún heldur kúlinu, skammtar lyf og spjallar hljóðlega við sjúklingana eins og líknandi engill. Á bráðamóttökunni þar sem Kata leysir af er allt í uppnámi; stjórnleysi, víma, ofbeldi, nauðganir, slagsmál og grátur; þannig er umhorfs árið um kring og sumir koma um hverja helgi til að láta tjasla sér saman. Ástandið versnar sífellt og úrræðin eru engin en Kata gerir sitt besta, „hokrandi eins og kósí rúsína í umönnunarstarfi sem samfélagið gaf skít í. – Dyramotta“ (171). En þegar hún kemur heim úr vinnunni þarf hún að glíma við eigin sorg og reiði eftir að Vala, dóttir hennar, hvarf með voveiflegum hætti.

Kata hélt að hún byggi í fullkominni veröld,  kona í ágætum efnum og  vel menntuð, á fallegt hús og er í góðri vinnu, maður hennar ötull læknir og Vala fullkomnar fjölskyldumyndina.  Kata er trúuð og hefur áhuga á bókmenntum og klassískri tónlist. Þegar lík Völu finnst, og í ljós kemur að hún hefur verið myrt og beitt kynferðislegu ofbeldi, hrynur veröld Kötu til grunna. Í rústunum sér hún allt í nýju ljósi; líf sitt, hjónaband og samfélag.  Ofurfínt og rándýrt dúkkuhús sem Vala átti er ekki bara íbsensk vísun heldur táknmynd fyrir líf hennar til þessa, öllu er þar snyrtilega stillt upp, allt er í réttum hlutföllum en þar búa bara dúkkur. Í lyfjarússi fer Kata í dúkkuhúsið sem endurspeglar sálarlíf hennar og þar er ekki fagurt um að litast. Þar hittir hún m.a. Kalman, rithöfundinn sem hún dáir en það er lítið  hald í honum í þeirri krossferð sem Kata tekst á hendur. Þar er líka stelpa í fjötrum og karl sem minnir á nashyrning sem seinna holdgerist í sögunni á hryllilegan hátt. Martraðarkennd veröld dúkkuhússins er táknræn fyrir vanlíðan og vímu Kötu meðan hefndaráætlunin er að taka á sig mynd. Kata kynnist Sóleyju og þegar þær stöllur sjá fram á að lögregla og dómsvald eru máttvana gagnvart ofbeldinu taka þær til sinna ráða.

Keyrslan á Kötu er rosaleg, bæði í vinnu og einkalífi, tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og loks endar hún á geðdeild eftir máttlausa morðtilraun. En hvort verður Kata geðveik í öllum þessum hremmingum eða loksins heilbrigð þegar hún sér grímulausan veruleikann blasa við sér? Því spurt er hvort maður á að láta berast með straumnum, meðvitundarlaust vinnudýr og skuldaþræll fram á grafarbakkann, eða á maður að segja sig úr lögum við guð og menn og ryðja skrýmslunum úr vegi? Hverju hefur maður eiginlega að tapa? Verðum við ekki að taka undir orð Kötu? „Ég ætla ekki að sitja hjá og fela mig fyrir lífinu, ég vil sjá það eins og það er og taka þátt í því og breyta því“ (441). Hún gerist hefndargyðja og refsinorn, „kona ársins“ – hún hefur fína aðstöðu á spítalanum til að ná sér í morðvopn og skirrist ekki við að nota þau. Samúð lesandans sveiflast milli þess að samþykkja krossferð Kötu, réttmæta heift hennar og grimmdarlegar aðferðir, og þeirrar viðteknu og trúarlegu  hugmyndar að hefnd og ofbeldi skili engu en réttlætið sigri samt að lokum.

Sumar persónur og atburðir sögunnar eiga sér þjóðþekktar fyrirmyndir. Björn Boli er t.d. greinilega greyptur úr góðkunningjum eins og yfirlýsingaglöðum steratröllum sem fjölmiðlar hafa furðulegt dálæti á og smákrimmum sem níðast á barnungum „skinkum“ sem þeir ná á vald sitt. Bæði Kalman og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar koma fram undir eigin nafni þótt þeir séu ekki beinlínis í draumahlutverki. Kunnuglegar persónur með þekkt nöfn eða dulnefni knýja lesendur til að tengja við við félagslegt raunsæi bókarinnar sem er umbúðalaust. Millistéttin fær makið um bakið, skuldug og óhamingjusöm lifir hún fyrir eitt í einu: „…dagurinn var röð úrlausnarefna sem leysa þurfti hvert af öðru, og þar sem þeim sleppti tók við þreyta, svefn og vonin um að eitthvað betra tæki við á morgun, um helgina eða um sumarið, haustið, vorið, stundum veturinn…“ (356). Í sögunni er hamrað á því að á meðan þegnar samfélagsins hlaupa eins og hamstrar í hjóli gerist ekkert í brýnum þjóðþrifamálum.

Kata er bæði sorgarsaga og mergjuð skammarræða, loksins heyrum við í rithöfundi sem hefur fengið nóg af kynbundnu ofbeldi og spilltu samfélagi og og segir því stríð á hendur: „Níska og ömurleiki, Ísland á einar gjöfulustu náttúruauðlindir heims og ef auðnum væri ekki sóað  í græðgishít peningakarla gæti sérhver manneskja á eyjunni lifað ef ekki í velsæld þá að minnsta kosti mannsæmandi lífi“ (253). Ef  skammarræða Steinars Braga nær eyrum þeirra sem ráða í samfélaginu og þeir sjá að sér er það fagnaðarefni. Og ef við sem hlýðum og þegjum förum að hugsa okkar gang, er það líka fagnaðarefni.  Þá er Kata komin með nýtt hlutverk, ekki bara að hefna harma sinna, heldur líka að breyta heiminum:  „Þegar ég hef velt mér nógu mikið upp úr sjálfri mér til að geta hætt því ætla ég að beita mér meira en ég hef gert, hætta að sóa tíma mínum í dútl, bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég get breytt heiminum á hvaða hátt sem mér sýnist. Við getum það öll“ (262).

Kata vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Er auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heilladrjúgt til langframa? Eru öfgafemíninstahreyfingar eins og aðgerðahópurinn KATA sem boðar áherslur á borð við vernd, refsingu og systralag fyrir allt það sem karlar hafa gert konum til miska og taka sér svo vald til að refsa þeim án dóms og laga rétta svarið? Hvað er að dómskerfi sem hnekkir dómum um nálgunarbann, tekur kynbundna afstöðu í nauðgunarmálum og vægir kynferðisbrotamönnum? Hvað er að þessum blessuðu körlum sem hata konur? Og af hverju eru konur ekki búnar að segja stopp fyrir löngu?

Birt í Kvennablaðinu, 24. feb. 2015