Elísabet Jökulsdóttir

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu

„Skipt um sýlinder með köldu blóði“

Mynd_0890266

Elísabet Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnan gefið bækur sínar út sjálf en nú hefur hún hlotið Fjöruverðlaun og Lesendaverðlaun DV sem er fagnaðarefni, bæði verðskuldað og tímabært.

Í nýrri ljóðabók, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014), lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa.

Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.

Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.

Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).

Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:

Kaffiskvettan

Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)

Birt í Kvennablaðinu, 29. mars 2015

Kona ársins

download (1)

Ofbeldi og glæpir eru ein af skuggahliðum samfélagsins. Það færist í aukana með vaxandi misrétti í hálfhrundu velferðarkerfi, fjársveltu skólakerfi og vanhæfu dómskerfi eins og íslenska þjóðin býr við um þessar mundir. Konur eru sláandi oft fórnarlömb glæpa og eru eiginlega hvergi óhultar, síst heima hjá sér. Kynbundið ofbeldi þrífst, dafnar og viðgengst sem aldrei fyrr í samfélagi okkar og ratar sem eðlilegt er í bókmenntirnar. Elísabet Jökulsdóttir hlaut t.d. Fjöruverðlaunin nýlega fyrir einlæga og berorða ljóðabók um andlegar og líkamlegar misþyrmingar í ástarsambandi.  Doðranturinn Kata eftir Steinar Braga ryðst fram með réttlátu reiðiöskri og miskunnarlausum lýsingum á stöðu og hlutskipti kvenna í ofbeldisfullum heimi. Þar er vaktar upp siðferðislegar spurningar um glæp og refsingu, sígilt þema en nú í femínísku ljósi.

Titilpersónan Kata er hjúkrunarfræðingur og vinnur á krabbameinsdeild Landspítalans þar sem dauðinn er sífellt yfirvofandi. Hún heldur kúlinu, skammtar lyf og spjallar hljóðlega við sjúklingana eins og líknandi engill. Á bráðamóttökunni þar sem Kata leysir af er allt í uppnámi; stjórnleysi, víma, ofbeldi, nauðganir, slagsmál og grátur; þannig er umhorfs árið um kring og sumir koma um hverja helgi til að láta tjasla sér saman. Ástandið versnar sífellt og úrræðin eru engin en Kata gerir sitt besta, „hokrandi eins og kósí rúsína í umönnunarstarfi sem samfélagið gaf skít í. – Dyramotta“ (171). En þegar hún kemur heim úr vinnunni þarf hún að glíma við eigin sorg og reiði eftir að Vala, dóttir hennar, hvarf með voveiflegum hætti.

Kata hélt að hún byggi í fullkominni veröld,  kona í ágætum efnum og  vel menntuð, á fallegt hús og er í góðri vinnu, maður hennar ötull læknir og Vala fullkomnar fjölskyldumyndina.  Kata er trúuð og hefur áhuga á bókmenntum og klassískri tónlist. Þegar lík Völu finnst, og í ljós kemur að hún hefur verið myrt og beitt kynferðislegu ofbeldi, hrynur veröld Kötu til grunna. Í rústunum sér hún allt í nýju ljósi; líf sitt, hjónaband og samfélag.  Ofurfínt og rándýrt dúkkuhús sem Vala átti er ekki bara íbsensk vísun heldur táknmynd fyrir líf hennar til þessa, öllu er þar snyrtilega stillt upp, allt er í réttum hlutföllum en þar búa bara dúkkur. Í lyfjarússi fer Kata í dúkkuhúsið sem endurspeglar sálarlíf hennar og þar er ekki fagurt um að litast. Þar hittir hún m.a. Kalman, rithöfundinn sem hún dáir en það er lítið  hald í honum í þeirri krossferð sem Kata tekst á hendur. Þar er líka stelpa í fjötrum og karl sem minnir á nashyrning sem seinna holdgerist í sögunni á hryllilegan hátt. Martraðarkennd veröld dúkkuhússins er táknræn fyrir vanlíðan og vímu Kötu meðan hefndaráætlunin er að taka á sig mynd. Kata kynnist Sóleyju og þegar þær stöllur sjá fram á að lögregla og dómsvald eru máttvana gagnvart ofbeldinu taka þær til sinna ráða.

Keyrslan á Kötu er rosaleg, bæði í vinnu og einkalífi, tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og loks endar hún á geðdeild eftir máttlausa morðtilraun. En hvort verður Kata geðveik í öllum þessum hremmingum eða loksins heilbrigð þegar hún sér grímulausan veruleikann blasa við sér? Því spurt er hvort maður á að láta berast með straumnum, meðvitundarlaust vinnudýr og skuldaþræll fram á grafarbakkann, eða á maður að segja sig úr lögum við guð og menn og ryðja skrýmslunum úr vegi? Hverju hefur maður eiginlega að tapa? Verðum við ekki að taka undir orð Kötu? „Ég ætla ekki að sitja hjá og fela mig fyrir lífinu, ég vil sjá það eins og það er og taka þátt í því og breyta því“ (441). Hún gerist hefndargyðja og refsinorn, „kona ársins“ – hún hefur fína aðstöðu á spítalanum til að ná sér í morðvopn og skirrist ekki við að nota þau. Samúð lesandans sveiflast milli þess að samþykkja krossferð Kötu, réttmæta heift hennar og grimmdarlegar aðferðir, og þeirrar viðteknu og trúarlegu  hugmyndar að hefnd og ofbeldi skili engu en réttlætið sigri samt að lokum.

Sumar persónur og atburðir sögunnar eiga sér þjóðþekktar fyrirmyndir. Björn Boli er t.d. greinilega greyptur úr góðkunningjum eins og yfirlýsingaglöðum steratröllum sem fjölmiðlar hafa furðulegt dálæti á og smákrimmum sem níðast á barnungum „skinkum“ sem þeir ná á vald sitt. Bæði Kalman og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar koma fram undir eigin nafni þótt þeir séu ekki beinlínis í draumahlutverki. Kunnuglegar persónur með þekkt nöfn eða dulnefni knýja lesendur til að tengja við við félagslegt raunsæi bókarinnar sem er umbúðalaust. Millistéttin fær makið um bakið, skuldug og óhamingjusöm lifir hún fyrir eitt í einu: „…dagurinn var röð úrlausnarefna sem leysa þurfti hvert af öðru, og þar sem þeim sleppti tók við þreyta, svefn og vonin um að eitthvað betra tæki við á morgun, um helgina eða um sumarið, haustið, vorið, stundum veturinn…“ (356). Í sögunni er hamrað á því að á meðan þegnar samfélagsins hlaupa eins og hamstrar í hjóli gerist ekkert í brýnum þjóðþrifamálum.

Kata er bæði sorgarsaga og mergjuð skammarræða, loksins heyrum við í rithöfundi sem hefur fengið nóg af kynbundnu ofbeldi og spilltu samfélagi og og segir því stríð á hendur: „Níska og ömurleiki, Ísland á einar gjöfulustu náttúruauðlindir heims og ef auðnum væri ekki sóað  í græðgishít peningakarla gæti sérhver manneskja á eyjunni lifað ef ekki í velsæld þá að minnsta kosti mannsæmandi lífi“ (253). Ef  skammarræða Steinars Braga nær eyrum þeirra sem ráða í samfélaginu og þeir sjá að sér er það fagnaðarefni. Og ef við sem hlýðum og þegjum förum að hugsa okkar gang, er það líka fagnaðarefni.  Þá er Kata komin með nýtt hlutverk, ekki bara að hefna harma sinna, heldur líka að breyta heiminum:  „Þegar ég hef velt mér nógu mikið upp úr sjálfri mér til að geta hætt því ætla ég að beita mér meira en ég hef gert, hætta að sóa tíma mínum í dútl, bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég get breytt heiminum á hvaða hátt sem mér sýnist. Við getum það öll“ (262).

Kata vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Er auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heilladrjúgt til langframa? Eru öfgafemíninstahreyfingar eins og aðgerðahópurinn KATA sem boðar áherslur á borð við vernd, refsingu og systralag fyrir allt það sem karlar hafa gert konum til miska og taka sér svo vald til að refsa þeim án dóms og laga rétta svarið? Hvað er að dómskerfi sem hnekkir dómum um nálgunarbann, tekur kynbundna afstöðu í nauðgunarmálum og vægir kynferðisbrotamönnum? Hvað er að þessum blessuðu körlum sem hata konur? Og af hverju eru konur ekki búnar að segja stopp fyrir löngu?

Birt í Kvennablaðinu, 24. feb. 2015