Látra-Björg (1716-1784) var hörkukelling sem sótti sjó og tók á móti börnum, orti fleygar vísur og lagðist í flakk. Hún er ein af fáum konum frá 18. öld sem urðu nafnkunnar en margt það sem konur ortu þá og rituðu hefur glatast. Björg kemur við sögu í nokkrum nýlegum skáldverkum og heimildamynd er í smíðum um hana. Hermann Stefánsson gerir Björgu að aðalpersónu í nýrri skáldsögu sinni, Bjargræði, og segir frá hinstu kaupstaðarferð hennar.

Sagan af Björgu gerist í nútímanum, á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hún kallar„rass veraldar“ (12). Þangað hefur Tómas, tuttugustu aldar líkkistusmiður, dregið Björgu nauðuga til að fá hjá henni ráð. Hún lætur gamminn geisa yfir kaffinu um klerka og hrokafulla valdsmenn, duglausar ríkisstjórnir, homma og túrista; tengslaleysi, ástleysi og áhugaleysi í nútímanum og hvernig fólk hefur tapað tengingunni við náttúruna; orðhvöss og napuryrt sem fyrr. Já, það stendur út úr henni blábunan, eins og hún segir iðulega í bókinni.
Mergjaðir tímar
Björg fæddist fyrir réttum þrjú hundruð árum, ólst upp hjá vandalausum á Látrum við sult og seyru og fór ung til sjós. Hún var harðdugleg og fékk sama hlut aflans og karlar, sem þótti tíðindum sæta. Oft var illt orð lagt til hennar, hún jafnvel þjófkennd og grunuð um galdra. Hún lagðist í flakk og fann á eigin skinni að það er „óbrigðult mæliker á hvert samfélag hvernig komið er fram við umrenninga“ (51). Björg var uppi á mergjuðum tímum í Íslandssögunni þegar djöfullinn sat um sálina, huldufólk bjó í steinum, orðin höfðu magn og jurtir lækningamátt. Og hún var barn síns tíma: „ég er orðanna, ekki skilgreininganna, galdursins og ekki vísindanna“ (29).
Hofmóðugir gikkir
Magnús Stephensen, embættismaður og ríkisbubbi á átjándu öld, sem hataðist við alþýðukveðskap, er jafnan talinn helsti boðberi fræðslustefnu sem kallast upplýsing hér á landi. Efst á stefnuskránni var að bægja burt myrkri hjátrúar og fáfræði með ljós skynseminnar að vopni. Viðhorf almúgans til framfarabröltsins í forsprökkum upplýsingarinnar birtist vel hjá Björgu. Hún getur ekki fallist á að hafa fálmað í myrkri alla sína tíð og að lausnina við öllum vanda sé að finna í endalausum umbótum og hofmóðugri upplýsingu – hún er jafn svöng og fátæk fyrir því. Það eina sem hún fær að kenna á er hroki, valdníðsla og lygi (151-152). Björg rís gegn valdinu og gengur hnakkakert móti straumnum í samfélaginu ef því er að skipta:
Þó að gæfan sé mér mót
og mig í saurinn þrykki
get ég ekki heiðrað hót
hofmóðuga gikki
(239)
„Hvílíkt þvaður“
Sjónarhorn sögunnar er frumlega útfært. Björg masar allan tímann en Tómas kemst aldrei að. Hún hefur yfirsýnina, alla þræði í hendi sér, þekkir fortíð og framtíð, allar hugsanir og þrár. Þetta er einræða þar sem talað er við 2. persónu, erfiður frásagnarháttur sem er örsjaldan notaður og því sérlega gaman þegar svo vel tekst til eins og í þessu verki.
Orðræða Bjargar einkennist af innibyrgðri sorg og reiði. Hún verið rægð, útilokuð og hrakin allt sitt líf. Ekki er hún sátt við skrif Tómasar Guðmundssonar, skálds, um sig í Konum og kraftaskáldum, þar sem segir að hún hafi mótast af ástarsorg: „hvílíkt þvaður, melódrama úr froðusnakki, hvílíkur hroki gagnvart liðinni tíð“ (30). Og aðrir fræðimenn sem um hana hafa fjallað fá einnig makið um bakið. Hún getur þó ekki verið annað en ánægð með Hermann Stefánsson sem dregur hér upp fádæma skemmtilega mynd af henni.
Fótbrotinn köttur
Málfar Bjargar er kröftugt, myndrænt, meinfyndið og fyrnt, stuðlað og taktfast, heimspekilegt (hávaxið fólk stendur nær himinum, 35); ljóðrænt (sinugult sumartungl, 42); og fyndið („þar sem var svo þýft að eitt sinn fótbrotnaði þar köttur,“ 43). Það er hrein unun að lesa þennan texta. Og það lýstur einhverju fallegu saman í huga lesandans þegar notuð eru 18. aldar orð og hugtök til að lýsa nútímanum; bera t.d. saman kaffihús og baðstofu og stöðu útigangsmanna fyrr og nú. Orðfærið er dillandi gamaldags, greinilega grafið upp úr gulnuðum skjölum: „Þannegin, óekkí, læknirnarnir, einnegin, spesímen og dokúment…“. Björg tekur fyrir helstu búsvæði nútímamanna (200) með aðferðum sem minna á Ferðabók Eggerts og Bjarna þar sem íbúar hvers landshluta fá lyndiseinkunn; stórskemmtilegt er t.d. hvernig helstu hverfin í Reykjavík koma Björgu fyrir sjónir og vei þeim bjálfum sem búa í Kópavogi eða Garðabæ!
Langanes er ljótur tangi
Björg var þjóðþekkt fyrir að yrkja beinskeytt kvæði um bæi sem hún kom á þegar hún var á flakki og fékk misjafnar viðtökur, s.s. vísuna landsfrægu: „Langanes er ljótur tangi…“. Víða eru kunn kvæði Bjargar felld smekklega inn í söguna og einnig er ort í anda hennar:
Hér eru menn með flírugt fas
firrtir dagsins striti
vaða elg með argaþras
engu þó af viti
ráfa í svefni um rótlaust líf
rata hvergi en dorma
iðka mont og kvart og kíf
klína sig við storma
í vatnsglösum og vælið þý
væmna kyrjar sálma
um blýþungt fiður, fiðrað blý
en fúlir hundar mjálma…
(50-51)
Listilega gert
„Sannleikurinn er mín íþrótt, kúgandi valdið fjandmaðurinn, stuðlarnir mitt lífsmagn og rímið mitt skjól (37), segir Björg borubrött. Bjargræði er skáldsaga um skáldkonu og skáldskap og hún fjallar líka um vald og ást og pólitík; helstu drifkrafta mannlegrar tilveru á öllum tímum. Nútíminn er skoðaður í spegli fortíðar og það hallar verulega á „nútíðarmennin“ sem þvælast dekruð og þýlynd með sjálfustöng í þunnildislegu borgartildri og vita hvorki í þennan heim né annan.
Og á meðan bunan stendur út úr Björgu, fer einnig fram sögu af ástarraunum Tómasar. Þannig tala aldir og kyn saman um ástina, hið sígilda yrkisefni, sem breytist lítið í tímans rás. Björg vandar honum ekki kveðjurnar þegar hann klúðrar sínum ástamálum hrapallega:
„Tómas, þú ert helvítis taðsekkur, herjans tussa á kletti, galapín og gorvambarhaus, ég hef megnustu skömm á þér, guddilon, hérvillingur, hémóna og geðluðrunnar guddilon og vesalingur og bjálfi“ (141).
Það kemur í ljós undir lok sögunnar að Látra-Björg hvílir ekki í friði því hún á erindi við Tómas, líkt og fortíðin á alltaf erindi við nútímann. Bjargræði er listilega skrifað hjá Hermanni Stefánssyni, sama hvar gripið er niður.
Bókaútgáfan Sæmundur, 2016
307 bls með eftirmála
Birt í Kvennablaðinu, 29. nóv. 2016