Steinar Bragi

Fokkið ykkur öll. Um smásögur Steinars Braga, Allt fer

Smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer, er hnausþykkt og efnismikið og inniheldur nítján langar og fullburða sögur. Þær eru hvorki fallegar né meinlausar og ekki allar nýjar, þær eru margar og misgóðar en það er í þeim miskunnarlaus kraftur. Ef Steinar Bragi fær ekki bókmenntaverðlaunin, af þeim sem tilnefndir eru 2016, eru þau bara prump.

Hvergi verður maðurinn eins lítill og ófrjáls, svo augljóslega roðhundur og þræll, eins og í fríhöfninni, þeim óskáldlega stað þar sem „meira að segja skórnir voru tortryggðir“ (11). Þar gengst fólk undir lög, vald og skrifræði af fúsum og frjálsum vilja, „Hver einasti fermetri verðlagður og öryggisvottaður oft á dag“ (11) og sætir sjálfviljugt rannsókn á persónulegum farangri, jafnvel eigin líkama. Glansandi fríhöfnin er sögusvið fyrstu sögunnar í safninu, „Reykjavík er að vakna“ þar sem firring vestrænnar menningar er undirtónninn, þar sem hjarðhegðunin nær hámarki. Engin tilviljun að þetta er fyrsta sagan í safninu, hún er þrusugóð.

Karnívalísk útrás

Myndir úr fleiri sögum safnsins sitja fastar á heilaberkinum að loknum lestri. Í „Kaiser Report“ hittast tveir kunningjar sem báðir eru búnir að mála sig út í horn. Kyrkislanga og kettlingar koma við sögu og atburðarásin er svo hrollvekjandi að ráðsettur lesandi unir ekki lengur undir leslampanum heldur hrökklast fram á bað til að skvetta framan í sig köldu vatni. „Páfastóllinn“ er sprenghlægileg, um par sem glímir við ófrjósemi, og karnivalísk útrásin nær hámarki í órum rúnksenu á læknastofu í Smáralind; verulega kröftugt atriði. „Kristalsgíraffinn“ er nútímalegt ævintýri um að selja sál sína djöflinum, það er sígilt þema sem vísar ekki síst til nútímamannsins sem gín yfir öllu. Sama þema er  á ferð í „Sögunni af þriðjudegi“. Báðar nöturlegar frásagnir af mannlegri eymd.

„Hvíti geldingurinn“ vekur upp þanka um tilvist mannsins. Hvað verður um mann sem ekki aðeins glatar frelsi sínu heldur er kynhvötin líka frá honum tekin? Hvað drífur þann áfram sem er án löngunar, án ástar? Sagan er ofbeldisfull og grimmdarleg en með sérkennilegu seiðmagni, ein af myndrænustu sögunum í safninu. Í „Ósýnileikanum“ nýtir kona sér að geta horfið sjónum annarra, hún njósnar um fólk og hnýsist í sjálfan dauðann, rýfur friðhelgi á viðkvæmum tímum þegar vanmáttur og óreiða ríkir, hún mætir í jarðarfarir og erfidrykkjur og sest við banabeð:

_Fyrstu tvær jarðarfarirnar sat ég úti í sal með hinum, svo færði ég mig upp á altarið til prestsins, ekki til að vanvirða neinn, en ég er forvitin, mig langaði að sjá andlit allra í kirkjunni, horfa í andlit sorgarinnar. Úti í kirkjuskipinu sér maður aldrei nema út eftir sætaröðinni, inn í hnakkann á fólkinu fyrir framan og það er ókurteist að teygja fram hausinn og glápa. Af hverju sitjum við ekki í hring í kirkjum – þær eru formaðar fasískt og við horfum aldrei nema í andlit prestsins og það er andstætt öllu sem munnurinn á honum segir um bræðralag og kærleika!“ (312).

Allt í rassgati

Titill smásagnasafnins Allt fer vísar í ýmsar áttir; til forgengileika, missis og hrörnunar sem er kannski klisja, hver segir sosum að allt þurfi alltaf að halda áfram (296) en líka til þess að allt fer einhvern veginn, tíminn líður og hugsjónir og draumar fjara út, fólk þroskast saman eða í sundur, dofið af dópi eða vana í bullandi sjálfhverfu. Hverjum er það að kenna þegar flosnar upp úr sambandi sögumanns og Jennýjar í raðhúsahverfinu inni í rassgatinu á Sigmundi Davíð?

„Við erum bæði ágætis manneskjur  og viljum vel og ég segi það í alvöru: ef helmingur þessara endaloka skrifast á brestina í okkur og allt helvítis kjaftæðið úr æskunni, fullyrði ég að hinn helmingurinn fellur skuldlaust á leigumarkaðinn og  barninginn í öll þessi ár og helvítis pólitíkusa sem hafa gleymt því fyrir hverja þeir vinna, og græðgina í bönkunum og Gísla í Gamma og gamla Quarashi-tillann Sölva viðskiptafræðing, allt þetta lið sem liggur eins og vampírur á hjörtum okkar sem gæðum miðbæinn lífi – fokkið ykkur öll (299-300).

Trump-týpan

Síðasta sagan, „Garðurinn“, er glæsilegur endasprettur á þessu sagnamaraþoni. Stórgrósser á ráðstefnu  vopnasala í sótugri Shanghai er sama týpa og Donald Trump: erkiillmenni, siðblindur, firrtur og lyginn, glúrinn á markaðstækifæri en orðinn mettur á lífinu. Hann hefur reynt allt, keypt allt og fyrir honum er veröldin tóm og grimm flatneskja:

„Í partýi um daginn fékk ég hugmynd sem rifjast upp fyrir mér núna: að reisa verulega há og sparsöm háhýsi með engum gluggum sem þýðir allt önnur lögmál í burðarþoli, en fella skjái í innanverða veggina, alla með sérsniðnu útsýni – allir fengju hornskrifstofur með útsýni af hundruðustu hæð yfir borg að eigin vali, eða breytilegt, með mánudaga á tindi Everest, þriðjudaga úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Skjáir eru orðnir ódýrari en gluggar og kostar ekkert að þrífa þá, upplausnin HD í metersfjarlægð, færa sig svo yfir í þrívíddina. Þemadagar á föstudögum með útsýni yfir Kabúl, Raqqua eða Jemen og hádegisfyrirlestur um þær sætu hörmungar, eftir því við hvað fyrirtækin í húsinu eru að díla“ (324-325).

„Garðurinn“ er bæði reiðilestur yfir mannkyni sem skilur eftir sig sviðna jörð en líka elegía um mennskuna sem er á niðurleið, ástina sem er glötuð og ógeðið sem alls staðar viðgengst.

Manneskjan er bara líkami

Smásagnasafn Steinars Braga sker sig bæði að öllu leyti frá hinum óvenju mörgu smásagnasöfnum  sem út komu 2016 og frá öðrum skáldverkum síðustu áratuga.   Það er ekki verið að gæla við tungumálið, stílinn, orðlistina. Ekki verið að daðra við ismana, tala undir rós eða blikka ljóðrænuna. Það eru hugmyndirnar sem ráða ríkjum, þær vella fram, tæpitungulaust. Brýnt erindi og eldmóður einkenna þessar sögur allar, skapandi kraftur og ádeila sem helst minna á skáldskap Guðbergs Bergsson á góðum degi. Hið háleita er einskis vert, manneskjur eru ekkert merkilegar eða dularfullar,  þær eru bara líkamar.  „ – Líkamar að gera eitthvað við sjálfa sig, við aðra líkama eða við hluti… En líklega værum við ekkert án þessara litlu leyndarmála okkar, hvert í sínu horni að pota í holur, skera okkur með naglaþjöl, kasta upp. Hvað veit ég“ (307).

Engin miskunn

Á sagnaslóðum Steinars Braga eru fáir á ferli, hér eru óskáldlegir staðir eins og Eiðistorg, Perlan og Húsasmiðjan, skítugar stórborgir, fráhrindandi persónur, barnagirnd, tabú og töfrar og ógnvekjandi atburðir. Maður er hvergi óhultur, hræðilegir hlutir gerast í sífellu og alls staðar. Og það er enga miskunn að finna, aðeins myrka heimsmynd og dapurlega framtíðarsýn: „Ég er lappalaus fugl, hugsaði ég, líf mitt er sífellt flug úr einum stað í annan og ég get hvergi lent eða fundið hvíld“ (301).

Smásögur eru í senn bæði strangt og róttækt bókmenntaform sem býr yfir sérstökum áhrifamætti. Steinar Bragi hefur fullkomin tök á forminu og sýnir frábæra takta.  Allt smellur.

Birtist í Kvennablaðinu, 10. janúar 2017

Kona ársins

download (1)

Ofbeldi og glæpir eru ein af skuggahliðum samfélagsins. Það færist í aukana með vaxandi misrétti í hálfhrundu velferðarkerfi, fjársveltu skólakerfi og vanhæfu dómskerfi eins og íslenska þjóðin býr við um þessar mundir. Konur eru sláandi oft fórnarlömb glæpa og eru eiginlega hvergi óhultar, síst heima hjá sér. Kynbundið ofbeldi þrífst, dafnar og viðgengst sem aldrei fyrr í samfélagi okkar og ratar sem eðlilegt er í bókmenntirnar. Elísabet Jökulsdóttir hlaut t.d. Fjöruverðlaunin nýlega fyrir einlæga og berorða ljóðabók um andlegar og líkamlegar misþyrmingar í ástarsambandi.  Doðranturinn Kata eftir Steinar Braga ryðst fram með réttlátu reiðiöskri og miskunnarlausum lýsingum á stöðu og hlutskipti kvenna í ofbeldisfullum heimi. Þar er vaktar upp siðferðislegar spurningar um glæp og refsingu, sígilt þema en nú í femínísku ljósi.

Titilpersónan Kata er hjúkrunarfræðingur og vinnur á krabbameinsdeild Landspítalans þar sem dauðinn er sífellt yfirvofandi. Hún heldur kúlinu, skammtar lyf og spjallar hljóðlega við sjúklingana eins og líknandi engill. Á bráðamóttökunni þar sem Kata leysir af er allt í uppnámi; stjórnleysi, víma, ofbeldi, nauðganir, slagsmál og grátur; þannig er umhorfs árið um kring og sumir koma um hverja helgi til að láta tjasla sér saman. Ástandið versnar sífellt og úrræðin eru engin en Kata gerir sitt besta, „hokrandi eins og kósí rúsína í umönnunarstarfi sem samfélagið gaf skít í. – Dyramotta“ (171). En þegar hún kemur heim úr vinnunni þarf hún að glíma við eigin sorg og reiði eftir að Vala, dóttir hennar, hvarf með voveiflegum hætti.

Kata hélt að hún byggi í fullkominni veröld,  kona í ágætum efnum og  vel menntuð, á fallegt hús og er í góðri vinnu, maður hennar ötull læknir og Vala fullkomnar fjölskyldumyndina.  Kata er trúuð og hefur áhuga á bókmenntum og klassískri tónlist. Þegar lík Völu finnst, og í ljós kemur að hún hefur verið myrt og beitt kynferðislegu ofbeldi, hrynur veröld Kötu til grunna. Í rústunum sér hún allt í nýju ljósi; líf sitt, hjónaband og samfélag.  Ofurfínt og rándýrt dúkkuhús sem Vala átti er ekki bara íbsensk vísun heldur táknmynd fyrir líf hennar til þessa, öllu er þar snyrtilega stillt upp, allt er í réttum hlutföllum en þar búa bara dúkkur. Í lyfjarússi fer Kata í dúkkuhúsið sem endurspeglar sálarlíf hennar og þar er ekki fagurt um að litast. Þar hittir hún m.a. Kalman, rithöfundinn sem hún dáir en það er lítið  hald í honum í þeirri krossferð sem Kata tekst á hendur. Þar er líka stelpa í fjötrum og karl sem minnir á nashyrning sem seinna holdgerist í sögunni á hryllilegan hátt. Martraðarkennd veröld dúkkuhússins er táknræn fyrir vanlíðan og vímu Kötu meðan hefndaráætlunin er að taka á sig mynd. Kata kynnist Sóleyju og þegar þær stöllur sjá fram á að lögregla og dómsvald eru máttvana gagnvart ofbeldinu taka þær til sinna ráða.

Keyrslan á Kötu er rosaleg, bæði í vinnu og einkalífi, tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og loks endar hún á geðdeild eftir máttlausa morðtilraun. En hvort verður Kata geðveik í öllum þessum hremmingum eða loksins heilbrigð þegar hún sér grímulausan veruleikann blasa við sér? Því spurt er hvort maður á að láta berast með straumnum, meðvitundarlaust vinnudýr og skuldaþræll fram á grafarbakkann, eða á maður að segja sig úr lögum við guð og menn og ryðja skrýmslunum úr vegi? Hverju hefur maður eiginlega að tapa? Verðum við ekki að taka undir orð Kötu? „Ég ætla ekki að sitja hjá og fela mig fyrir lífinu, ég vil sjá það eins og það er og taka þátt í því og breyta því“ (441). Hún gerist hefndargyðja og refsinorn, „kona ársins“ – hún hefur fína aðstöðu á spítalanum til að ná sér í morðvopn og skirrist ekki við að nota þau. Samúð lesandans sveiflast milli þess að samþykkja krossferð Kötu, réttmæta heift hennar og grimmdarlegar aðferðir, og þeirrar viðteknu og trúarlegu  hugmyndar að hefnd og ofbeldi skili engu en réttlætið sigri samt að lokum.

Sumar persónur og atburðir sögunnar eiga sér þjóðþekktar fyrirmyndir. Björn Boli er t.d. greinilega greyptur úr góðkunningjum eins og yfirlýsingaglöðum steratröllum sem fjölmiðlar hafa furðulegt dálæti á og smákrimmum sem níðast á barnungum „skinkum“ sem þeir ná á vald sitt. Bæði Kalman og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar koma fram undir eigin nafni þótt þeir séu ekki beinlínis í draumahlutverki. Kunnuglegar persónur með þekkt nöfn eða dulnefni knýja lesendur til að tengja við við félagslegt raunsæi bókarinnar sem er umbúðalaust. Millistéttin fær makið um bakið, skuldug og óhamingjusöm lifir hún fyrir eitt í einu: „…dagurinn var röð úrlausnarefna sem leysa þurfti hvert af öðru, og þar sem þeim sleppti tók við þreyta, svefn og vonin um að eitthvað betra tæki við á morgun, um helgina eða um sumarið, haustið, vorið, stundum veturinn…“ (356). Í sögunni er hamrað á því að á meðan þegnar samfélagsins hlaupa eins og hamstrar í hjóli gerist ekkert í brýnum þjóðþrifamálum.

Kata er bæði sorgarsaga og mergjuð skammarræða, loksins heyrum við í rithöfundi sem hefur fengið nóg af kynbundnu ofbeldi og spilltu samfélagi og og segir því stríð á hendur: „Níska og ömurleiki, Ísland á einar gjöfulustu náttúruauðlindir heims og ef auðnum væri ekki sóað  í græðgishít peningakarla gæti sérhver manneskja á eyjunni lifað ef ekki í velsæld þá að minnsta kosti mannsæmandi lífi“ (253). Ef  skammarræða Steinars Braga nær eyrum þeirra sem ráða í samfélaginu og þeir sjá að sér er það fagnaðarefni. Og ef við sem hlýðum og þegjum förum að hugsa okkar gang, er það líka fagnaðarefni.  Þá er Kata komin með nýtt hlutverk, ekki bara að hefna harma sinna, heldur líka að breyta heiminum:  „Þegar ég hef velt mér nógu mikið upp úr sjálfri mér til að geta hætt því ætla ég að beita mér meira en ég hef gert, hætta að sóa tíma mínum í dútl, bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég get breytt heiminum á hvaða hátt sem mér sýnist. Við getum það öll“ (262).

Kata vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Er auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heilladrjúgt til langframa? Eru öfgafemíninstahreyfingar eins og aðgerðahópurinn KATA sem boðar áherslur á borð við vernd, refsingu og systralag fyrir allt það sem karlar hafa gert konum til miska og taka sér svo vald til að refsa þeim án dóms og laga rétta svarið? Hvað er að dómskerfi sem hnekkir dómum um nálgunarbann, tekur kynbundna afstöðu í nauðgunarmálum og vægir kynferðisbrotamönnum? Hvað er að þessum blessuðu körlum sem hata konur? Og af hverju eru konur ekki búnar að segja stopp fyrir löngu?

Birt í Kvennablaðinu, 24. feb. 2015