Gerður Kristný

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Dansað á línunni

Drapa-175x263 Forlagið

Drápa Gerðar Kristnýjar hefst um vetur, um kalda og flæðandi nótt.  Einhver ógn hvílir yfir heiminum, m.a.s. snjórinn er fjandsamlegur í Reykjavík, borginni sem er sokkin og minnir á Sin City, og dularfullur sirkus rennur saman við myrkrið. Illúðlegir trúðar eru á stjái og undarlegur „Ég“, kannski dauðinn eða skrattinn sjálfur sem er stundum hundur en stundum maður með slútandi hatt eða svarta vængi, á stóran þátt í skuggalegri atburðarásinni. Leiðir línudansara og boxara liggja óvænt saman í þessari syndum spilltu veröld og illska, grimmd og dauði taka völdin.

Myndmálið í Drápu er rammgert og vekur strax hugrenningatengsl við hrylling og ofbeldi;  hnífsoddar stingast, nóttin fellur á með hvini eins og öxi, húð er rist upp og skorið er á æðar og sinar. Línudansarinn, fulltrúi fíngerðra hreyfinga, lipurleika og jafnvægislistar, kemst að því að boxarinn er ekki sá bjargvættur sem hann virtist vera en er ekki undankomu auðið.  Hann fær makleg málagjöld í grimmum dauðdaga en allt er þetta til einskis þegar upp er staðið, því  hið illa lyftir sér til flugs og leitar alltaf fyrir sér á nýjum stað.

Öll er drápan er vandlega  ydduð og engu orði ofaukið en það er eitt af einkennum á ljóðum Gerðar hversu fáguð og knöpp þau eru. Margir kunnuglegir frasar birtast í nýjum búningi, t.d. örlöglaus, mín er borgin myrk sem blý, svefn hinna ranglátu og að lofa græsku grafarans. Hér er höfundur í essinu sínu, víðlesinn og margfróður með sinn hárfína og ísmeygilega  húmor. Myndræn nýyrði verða til, eins og  t.d. „grjóteygur“ sem á einkar vel við um snjókarla. Kuldi og vetur eru sérgrein Gerðar og koma fram í mörgum bókum hennar. Veturinn er hér persónugerður á ný og tengist stríði og ofbeldi á mjög ferskan hátt. Og snjöll er t.d. myndin af bárujárni sem bylgjast í straumi (52).

Vísanir eru víða, m.a. í forn kvæði og ný, þjóðsögur og ævintýri, heiðni og kristindóm.  Einnig skjóta taktar úr fornum bragarhætti upp kolli, bæði ljóðstafir, hálfrím og hendingar. Þá voru í drápum jafnan stef til að skapa hrynjandi og svo er einnig í Gerðardrápu, eftirfarandi er endurtekið með óreglulegu millibili og tilbrigðum:

borgin

slegin nóttu

hvarf í kóf

Stefin eru kunnuglegar vörður í skuggaveröld Drápu, skapa draugalegt samhengi og og halda við óhugnaðnum og þeirri heimsendastemningu sem þrumir yfir í ljóðinu.

Það er auðvelt að sökkva sér ofan í Drápu og gleyma sér í myrkraveröld hennar, njóta fegurðar orðanna, kjamsa á myndmáli og stílbrögðum, túlka þetta óræða kvæði og greina óhugnanlegan boðskapinn. Ég komst ekki hjá að velta fyrir mér hvort táknin væru orðin þreytt, klisjuleg og margnotuð. Sirkus er jú flókið fyrirbæri sem hefur löngum verið skáldum hugleikið, þar renna saman list og íþrótt, frelsi og ánauð, gaman og alvara, maður og dýr; kjörinn vettvangur fyrir skáldskap. En Gerður er eins og línudansari og kemst klakklaust yfir klisjurnar.  Myrkusinn er úthugsaður og töfrum slunginn bæði að formi og efni.  Bókarkápan er smekklega hönnuð, blaðsíður sem skipta ljóðinu í kafla eru með naglaförum klóruðum í kistulok en sú hryllingsmynd birtist í kvæðinu. Það er vel splæst í umgjörð þessarar eigulegu ljóðabókar og enginn kotungsbragur á. Víðast eru ekki nema nokkrar línur á blaðsíðu en innihaldið er þeim mun magnaðra.

Maðurinn með ljáinn

Hann kemur mér 

í opna skjöldu

þar sem hann blasir við

á gamalli ljósmynd

Það er ekki blikandi ljárinn

sem kemur upp um hann

heldur hnausþykk gleraugun

Það hlaut að vera

að hann sæi illa

eins ómannglöggur og

hann getur verið

 

Gerður Kristný (Skáldagjöf SÁÁ, 2011)