Ástir vitavarðarins

Hverfum aftur í tímann um heila öld og yfir hálfan hnöttinn, alla leið til Ástralíu. Stríðshetjan Tom Sherbourne gerist vitavörður á afskekktri eyju í leit að sálarró eftir erfiða æsku og hörmungar heimstyrjaldarinnar fyrri. Hann unir hag sínum vel í einverunni en þegar hann hittir hina ungu og ástríðufullu Isabel verða tímamót í lífi hans. Þau fella hugi saman, giftast og flytja út í eyjuna. Hjónabandið er ástríkt en Isabel missir þrásinnis fóstur og er farin að örvænta um að þau eignist nokkurn tímann afkomanda þegar bát rekur að eyjunni. Um borð er lík og grátandi ungabarn. Tom og Isabel standa þá frammi fyrir erfiðu vali. Er siðferðið annað fjarri mannabyggð? Gilda reglurnar bara þegar einhver sér til? Er ástin réttlæting alls?

Þetta er í stuttu máli plottið í spennu- og ástarsögunni Ljós af hafi, fyrstu skáldsögu ástralska höfundarins Margot L. Stedman sem vermt hefur metsölulista um heim allan. Sagan nær slíkum heljartökum á lesandanum að þótt hún sé löng og á köflum svolítið yfirdrifin og hæg er ekki hægt að leggja hana frá sér fyrr en ljóst er hver málalokin verða. Persónur sögunnar eru tragískar og þannig úr garði gerðar að það er ekki hægt annað en að samsama sig við þær og hafa samúð með misviturlegum ákvörðunum þeirra. Isabel er tilfinningavera, rómantísk og hvatvís en Tom er skynsemin og reglufestan uppmáluð. Dulur og ábyrgðarfullur finnur hann langþráðan frið við að fylgja rútínu og skýrum reglum við vitavörsluna og lítur svo á að það sé hlutverk hans að vernda konu sína fyrir öllu illu, þótt það geti kostað hann lífið.

Ljos_af_hafi-175x275

Skrautlegar aukapersónur tínast inn á sögusviðið eftir því sem atburðarásin verður dramatískari og þær eru dregnar skýrum dráttum. Það er auðvelt að hrífast með sögunni, bæði eru umhverfis- og samfélagslýsingar heillandi og á efninu eru ýmsar spennandi siðferðislegar og sammannlegar hliðar.

Á frummálinu heitir bókin The Light between Oceans; eyjan þar sem vitinn er liggur að tveimur höfum og titill bókarinnar undirstrikar það sem skilur Isael og Tom að. Það rúmast ekki í íslensku þýðingunni á titlinum en gerir sosum ekki mikið til. Þýðing Guðna Kolbeinssonar er óaðfinnanleg eins og hans er von og vísa.

Það er eitthvað sjarmerandi við vita. Teinréttur og draugalegur varpar hann ljósi út á hafið til verndar sjófarendum. Í bókmenntum hefur viti mörg og mismunandi tákngildi, hann er bæði fastur punktur í tilverunni og útvörður siðmenningar, tákn styrks og skjóls en líka innilokunar. Í huga Toms öðlast vitinn táknræna merkingu þegar hann kvelst af sálarangist vegna þeirra þjáninga sem hann hefur valdið öðrum: „Hann beindi athyglinni að snúningi geislans og hló beisklega að þeirri tilhugsun að stefnan á honum þýddi að eyjan sjálf var alltaf í myrkri. Viti er fyrir aðra, getur ekki lýst upp svæðið sem næst honum er“ (224).

Ljós af hafi er áhrifarík og dramatísk saga sem hefur dimman undirtón um stríð, ást og missi. Hún hreyfir við lesandanum, knýr hann til að taka afstöðu og krefst svara um hvort mögulegt og réttlætanlegt sé að byggja líf sitt á blekkingum og sorg og óhamingju annarra þegar eigin sálarheill er í húfi.

Nú er bíómynd í vændum eftir bókinni með Aliciu Vikaner og Michael Fassbinder í hlutverkum Isabel og Toms. Þegar er byrjað að markaðssetja myndina og er hennar er beðið með mikilli óþreyju. Það verður spennandi að sjá hvort hún verður eins mögnuð og bókin.

Birt í Kvennablaðinu, 18. júlí 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s