Þær stöllur Annika og Nina rannsaka málið en verður lítið ágengt, m.a. þar sem einkalífið tekur sitt pláss. Í því stússi er Annika mannleg og breysk persóna sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Hún þarf m.a. að glíma við illskeyttan fyrrverandi eiginmann, stjúpbörn núverandi sambýlismanns og léttklikkaða systur svo hún hefur í mörg horn að líta. Nina á að baki flókna fortíð og á erfitt með umgengni við annað fólk, en það er jú þekkt minni úr nýlegum skandinavískum bókmenntum og kvikmyndum að lögreglukonur þurfa að vera hálfskrýtnar og næstum fatlaðar í samskiptum til að vera trúverðugar.
Stieg Larsson var einna fyrstur til að lýsa tölvunotkun sögupersóna ítarlega í sínum frægu bókum, til að undirstrika ráðsnilli þeirra á tækniöld. Nú hafa margir tekið upp þetta trix sem virkaði flókið og spennandi þegar var verið að lýsa glæpum á netinu og starfsaðferðum hakkara en er ekki sérlega áhugavert þegar verið er að teygja lopann: „Hendur hennar sveimuðu ofan við lyklaborðið, hún vissi ekki hvernig forritin virkuðu en grundvallaratriðin hlutu að vera eins og á PC-tölvu. Neðst á skjánum var röð af táknum fyrir ýmis forrit, þau stækkuðu þegar hún færði bendilinn yfir þau. Hún smellti á pósthólfið, í innhólfinu var eitt skeyti“(356).
Annika Bengtzon er heillandi sögupersóna, hún er eldklár hörkunagli, hirðuleysisleg í útliti en hugurinn er sístarfandi. Hún er fyrsta kvenkyns aðalpersóna í sænskri glæpasagnaflóru og í bókum um hana er fókusinn jafnan á stöðu kvenna og barna. Bækur Lizu Marklund um þessa eldkláru blaðakonu hafa selst í 15 milljónum eintaka og verið þýddar á 30 tungumál. Þýðing Ísaks Harðarsonar er ágæt, þyrfti ekki að vera samræmi milli titilsins Hamingjuvegar (Lyckliga gatan) og þeirrar Hamingjugötu sem verður endastöðin í lok bókarinnar?
Hamingjuvegur er hörkuspennandi bók og stendur alveg fyrir sínu en er langt í frá besta bók Lizu Marklund. Maður hefur á tilfinningunni að hún sé upphitun fyrir næstu bók þar sem margir lausir endar þvælast fyrir í sögulok. Fyrrverandi eiginmaður Anniku hefur t.d. eitthvað misjafnt í hyggju, Valter starfsnemi í fjölmiðlun, er kynntur til sögu en gufar svo bara upp og kannski fær Annika stöðuhækkun innan skamms. Hún hefur allavega ekki sagt sitt síðasta orð og næstu bók verður tekið fagnandi.