Villimenn í vestri

Shirley Jackson (1916–1965) var þekktur rithöfundur í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hún var heimavinnandi húsmóðir, stundaði ritstörf sín jafnan heima við og annaðist börn og bú samhliða. Þekktust var hún fyrir gotneskar hrollvekjur sínar sem jafnað hefur verið líkt við sögur eins frægasta hryllingsmeistara fyrr og síðar, Edgars Allen Poe.

Líf á meðal villimanna, sem er nýkomin út á íslensku, er kannski ekki alveg dæmigerð fyrir höfundarverk Shirley Jackson. Engu að síður er bókin mikill fengur fyrir alla sem unna listilegum stíl og heimsbókmenntum.

Ekki þarf að lesa nema fyrstu blaðsíðurnar til að átta sig á því að sögumaðurinn er ekki bara einfaldlega glaðlegur og einlægur í frásögn sinni eins og virðist við fyrstu sýn, heldur lymskulega háðskur og meinfyndinn í lýsingum sínum á daglegu amstri barnafjölskyldu í Vermont um miðja síðustu öld. Hversdagslegir hlutir, eins og t.d. leikir barnanna, prakkarastrik elsta sonarins, ökunám húsmóðurinnar, barátta við skólakerfið, briddskvöld og innkaupaferð með dúkkuvagn, að ógleymdri „Inflúensuráðgátunni“ miklu, verða alveg drephlægilegir. Veruleiki heimavinnandi húsmóður og eiginkonu í úthverfi lítils háskólabæjar er sveipaður hippalegum töfraljóma um leið og gert er góðlátlegt grín að öllu saman. En undir niðri má greina óljósa taugaveiklun, vanmátt og ístöðuleysi húsmóðurinnar sem birtist í því að uppeldið er laust í reipum, krakkarnir leika lausum hala meðan pabbinn er í vinnunni og mamman situr á kafi í drasli og les glæpasögu. Oft er hún alveg út á þekju:

„Ég veit hvernig þau öll líta út, að sjálfsögðu. Hundurinn er með fjóra fætur og er mun stærri en kettirnir, sem virka hvort sem er einsog tvíburar. Drengurinn er óhreinn og er í gauðrifnum bláum gallabuxum. Faðirinn er áhyggjufullur á svip, dálítið yfirþyrmdur einhvern veginn. Eldri dóttirin er stærri en yngri dóttirin, þótt þar sé í gangi flókið kennslaferli, þar sem sú minni er í fötum sem sú stærri var í þar til fyrir skömmu, og þær eru báðar með ljósa lokka og blá augu. En hvað varðar að reyna til dæmis að muna hver tvö af þeim þremur hafa þegar fengið hlaupabóluna og hvert þeirra var bólusett gegn kíghósta, og hvort þau fengu öll þrjár sprautur eða hvort eitt þeirra fékk níu … Þetta ætlar að gera út af við mig“ (113).

imgres

Amerískar kvennabókmenntir í vandaðri íslenskri þýðingu rekur ekki á fjörur okkar á hverjum degi. Líf á meðal villimanna kom fyrst út í Bandaríkjunum 1953. Áður hafði Shirley skotist upp á stjörnuhimininn með smásöguna Lottery sem birtist í The New Yorker. Aldrei hafði blaðinu borist jafnmörg hatursbréf eins og vegna þessarar smásögu sem síðan varð heimsfræg og þýdd á fjölda tungumála, tveir þýðendur hafa m.a.s. spreytt sig á henni á íslensku, þau Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir (1999) og Kristján Karlsson (1957).

Gyrðir Elíasson þýðir bókina undurvel en hann er einstaklega fundvís á merkilegar bækur til þýðingar, bækur sem annars væru utan seilingar, eru óvenjulegar, eftirminnilegar og áhrifamiklar. Eftirmáli hans við Líf á meðal villimanna varpar skýru ljósi á höfundinn, verkið og söguna að baki. Gyrðir segir m.a. að sitthvað í efnistökunum minni á Sálminn um blómið eftir Þórberg Þórðarson „hvað skopstyrk og spennu varðar“ (241), er þá ekki verið að tala um snilldarverk? Ég er ekki frá því, þetta er allavega bók sem enginn bókmenntaunnandi má láta framhjá sér fara.

Birt í Kvennablaðinu 20. júlí 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s