kvennabókmenntir

„Hef ekki herbergi út af fyrir mig“

Ég er stolt af þessu viðtali við Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur um ævisögu Jakobínu Sig. Birt á skáld.is, í desember 2019. 

Í Kennarahúsinu við Laufásveg í Reykjavík sitjum við Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir yfir kaffibolla. Hún er kölluð Sigga Stína, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur, og höfundur ævisögu hennar sem tilnefnd er bæði til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og til Fjöruverðlaunanna. Það er vel við hæfi að hittast í Kennarahúsinu en Jakobína ól ung með sér draum að verða kennari en fátækt og veikindi komu í veg fyrir að sá draumur rættist. 

Jakobína er einn af merkustu rithöfundum 20. aldar. Eftir hana liggja níu skáldverk og tvær bækur hennar voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á dögum hennar var staða kvenrithöfunda erfið og viðtökur ekki alltaf uppörvandi. Talað var niður til kvenrithöfunda og skáldskapur þeirra beinlínis sagður lítilsigldur. Það brennur á okkur Siggu Stínu. Eftir að hafa hellt bollana fleytifulla af snarpheitu kaffi hefst spjallið.

 Talaði Jakobína eða skrifaði um stöðu sína sem rithöfundar í karlaheimi? Ég man hún hafi flutt einhvern tímann erindi í útvarp um kynbundið uppeldi og jafnrétti. Var hún femínísti?

Já, ég held að hún hafi talað um þetta, hún sagði að aldrei væri talað um heimilisaðstæður karla þegar rætt væri um bækur þeirra, eins og gert var varðandi hennar verk. Þá á ég við að sífellt var verið að tala um hve merkilegt væri að kona í sveit og með öll þessi börn skyldi gefa út bækur. Varðandi jafnréttismálin, þá hefur hún síðar meir fengið gagnrýni fyrir klisjukenndar kvenímyndir, eins og kennslukonuna í Dægurvísu. En hún var hlynnt jafnrétti kynjanna og sýndi það víða í skrifum sínum, bæði skáldskap og blaðagreinum.

 

Vist og kaupamennska, láglaunavinna og basl einkenndu yngri ár Jakobínu, það virðist vera svo langt síðan þetta var hlutskipti ungra kvenna á Íslandi en er þó svo stutt. Þura í Garði naut t.d. ekki skáldskaparhæfileika sinna, náfrænka Starra, eiginmanns Bínu. Bríet Bjarnhéðinsdóttir er nefnd til sögunnar en hún var ekki sú eina sem lagði eitthvað af mörkum til kvennasögunnar?

Bríet er eins og Everest í íslenskri kvennasögu! En að sjálfsögðu var hún ekki ein á báti. Kvenfélögin höfðu menntun kvenna og bætta stöðu kvenna á stefnuskrá sinni og ekki má gleyma Kvenréttindafélaginu sem barðist að sjálfsögðu fyrir réttindum kvenna og þar má t.d. nefna konu eins og Þorbjörgu Sveinsdóttur. Bríet var hins vegar mikill brautryðjandi og óþreytandi baráttukona svo það er ekki skrítið að nafn hennar heyrist oftast.

Jakobína er afar lipurt ljóðskáld en segist ekki vilja yrkja, nema bara sér til hugarhægðar. Það er mjög áhugavert að lesa um efasemdir hennar, vonir og drauma í bókinni þinni. Heldurðu að hún hafi verið sátt?

Held að ekkert skáld sé sátt við æviverkið. Ég ímynda mér að hún, eins og svo margir aðrir, hafi ætlað sér að skrifa svo miklu meira. Eflaust var hún eins sátt og hægt var við það sem hún fékk gefið út, að baki hverrar bókar lá mikil vinna.

 

Í bókinni nefnir þú veikindi, erfiða andlega heilsu, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Varðstu vör við þetta á heimilinu í Garði í Mývatnssveit?

Ég nefni sjálfsvígshugsanir sem möguleika á hennar yngri árum og byggi það á bréfum sem hún fær sem svar við einhverju sem hún hefur skrifað. Ég held samt ekki að það hafi rist djúpt. Þyngslin voru meiri á yngri árum – en jú, við systkinin fundum alveg fyrir því að mamma væri ekki alltaf létt í lund. Hún tók sér daga til að sinna þunglyndinu. Svo var nú þetta með breytingaskeiðið; læknar jusu ávanabindandi lyfjum í konur og það tel ég hafa verið slæmt fyrir mömmu. Ég áttaði mig ekki á þessu sem þyngslum fyrr en ég hafði þroska til að meta slíkt. Ég óttaðist þessi köst hennar, þurfti nefnilega að fela þau fyrir nágrönnunum, fannst mér. Hún var stíf í lund, ekki mjög sveigjanleg. Við urðum að lúffa fyrir lögmálum hennar, annars mætti manni kuldi og þögn. En svo var hún líka svo létt og skemmtileg, með góða kímnigáfu og svo notalegt að sitja með henni og rabba um heima og geima. Lífskjör hennar og aðstæður voru þannig að mér dettur ekki í hug að áfellast hana fyrir skapbresti eða óstjórn, ég vil fremur minnast góðu stundanna.

Bréfin, já. Mér svelgist á kaffinu við að hugsa um fjögur horfin bréfasöfn. Og dagbók sem er brennd á báli! Hvað á kona að gera ef hún er beðin um að farga slíku góssi?

Einmitt! Þegar mamma dó var ég í svo mikilli sorg. Dóttir mín var nýfædd, kannski flæddu hormónarnir stjórnlaust um líka. Í mínum huga kom ekki annað til greina en að hlýðnast óskum mömmu um að brenna bréf og dagbækur. Ég dauðsé eftir þessu, en gert er gert og kannski myndi ég gera þetta líka núna ef ég stæði frammi fyrir slíku.

Í bókinni eru skemmtilegar senur þar sem þið mæðgur spjallið saman, hún lifnar þar alveg við, sú gamla. Húsverkin hafa verið krefjandi, borðaði hún út í horni? Var hún sífellt að vinna? Skrifaði hún á nóttunni?

Oft borðaði hún við eldhúsbekkinn en ekki við borðið með hinum. Að sumu leyti held ég að það hafi verið af andúð á afa og svo voru líka húsmóðurskyldurnar, að þurfa kannski að bæta mat á borð, þá var allt eins gott að sitja þar sem var auðvelt að athafna sig.

Varðandi skriftirnar og húsverkin; einhverjir héldu eflaust á sínum tíma að skrifin bitnuðu á húsmóðurskyldunum, en það var nú ekki þannig. Hún skrifaði oft á nóttunni, sagðist ekki hafa þurft mikinn svefn fyrr en hún tók að eldast. Svo kom föðursystir mín á hverju sumri með fjölskyldu sína og sá um heimilið í einhverjar vikur meðan mamma skrifaði. Það voru einu skiptin sem hún hafði almennilegan vinnufrið. Þegar við systkinin uxum úr grasi fór hún stundum suður og fékk inni einhvers staðar þar sem hún gat unnið.

Þú nefnir í bókinni klemmuna um hlutlausa fræðimennsku og það að skrifa um móður sína, nærtækan og persónulegan efnivið. Hún er goðsögn í bókmenntum, róttæklingur og athvarf þitt og skjól, sterk kona, fyrirmynd þín. Hvernig valdir þú sjónarhornið, hvernig gekk að finna frásagnaraðferð?

 Ég vinn allt öðru vísi en mamma gerði, enda voru tölvurnar ekki til þegar hún var að skrifa. Ég veð áfram og skrifa allt sem mér dettur í hug og síðan finn ég smám saman hvernig ég vil nálgast efnið. Mamma glímdi lengi við sín skáldverk í huganum áður en hún tók að skrifa. Þá mátaði hún ýmsar formgerðir og svo átti hún það til að skrifa allt upp á nýtt ef henni líkaði ekki formið, eins og hún gerði með Lifandi vatnið. Bara með penna og ritvél að vopni. Ég ætlaði að skrifa af hjartans lyst út frá sendibréfum fyrst og fremst og láta fræðimennskuna lönd og leið. Skrifa stutta bók. Það stangast samt á við það sem ég lærði í sagnfræðiskor Háskóla Íslands, ég er nefnilega með meistarapróf í sagnfræði og hef skrifað ýmislegt efni fræðilegt, t.d. kennsluefni í sögu. Þannig að meðan ég vann textann svona kæruleysislega þá setti ég samt inn tilvísanir og neðanmálsskýringar til að halda þeim til haga. Eftir því sem verkið óx og stækkaði sá ég að ég yrði að vinna þetta með slíkum hætti, þetta væri svo mikið heimildaverk.

 

 

En ég hafði efasemdir um að kollegar mínir í sagnfræðinni fengjust til að viðurkenna þessa sögu sem sagnfræði, þar sem viðfangsefnið stendur mér nærri og ég nálgast frásögnina svo persónulega. Slíkt er auðvitað ekki óþekkt innan sagnfræðinnar, ekki einu sinni að eiga samtal við rannsóknarefnið. Um það vissi ég reyndar ekki, þetta með samtalið, heldur var mér bent á það eftir á. Þegar ég var að skrifa svona um einkamál mömmu og líf hennar, þá glímdi ég auðvitað við svolítið samviskubit, vitandi það að hún hefði aldrei nokkru sinni látið annað eins á prent. Ekki einu sinni sagt frá því. Því fékk ég þessa hugmynd, að í stað þess að glíma bara við samviskuna – og mömmu – í huganum, að búa til þetta samtal við hana. Einhverjir yfirlesara minna voru í fyrstu með svolitlar efasemdir, en ég var alveg hörð á þessu og flestir sem ég heyri til eru mjög hrifnir af þessari nálgun. Þeir sem þekktu mömmu finnst þeir jafnvel heyra í henni!

Fram kemur í bókinni að Jakobína hafi verið óstöðug og stjórnsöm, tekið læknadóp og verið sívinnandi. Hvernig var hún á heimilinu? Ég man nefnilega aðeins eftir henni, afskaplega grönn og síreykjandi, líka á nóttunni. Hún þekkti afa minn og ömmu og foreldra mína, hún dvaldi hjá okkur fjölskyldunni í nokkrar nætur í Köben þegar við bjuggum þar 1976. Mér þykir alltaf doldið vænt um þessa minningu.

Ha? Nú verður þú að ættfæra nánar! Hvaða fólk er þetta?

Afi minn var líka rithöfundur á Norðurlandi, Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli. Ekki er ólíklegt að hann hafi beðið foreldra mína fyrir Bínu.

Þá hefur þetta verið 1977, sem hún segir frá í bréfum sínum, þegar hún var á leið til Stokkhólms í tilefni sænskrar þýðingar á Lifandi vatninu. Þá stoppaði hún einmitt í Kaupmannahöfn. Svona er nú heimurinn lítill.

En að spurningu þinni, mamma stjórnaði með þögninni. Ef henni mislíkaði gat hún skammað mann, síðan tók þögnin við og stóð þess vegna í nokkra daga, allt eftir stærð brotsins. Hún var afar sterkur persónuleiki og við beygðum okkur undir hennar lögmál, öll börnin og kannski ég mest, enda mesta mömmubarnið. Hún var harðdugleg og sívinnandi. Þó svo einhverjar kellingar í sveitinni hafi baktalað hana sem lélega húsmóður (og einhverjir karlar sönglað með) þá var það helber lygi. Hún eldaði, bakaði, tók slátur og allt það, saumaði, prjónaði, gerði við fatnað, tók börn í fóstur, var í stöðugri gestamóttöku og guð veit hvað. Veit ekki hvað sumum þótti vanta þar á, nema ef vera skyldi þessi dauðasynd að gera eitthvað annað en að vera móðir og húsmóðir.

 Hún var viðkvæm og mátti ekkert aumt sjá. Henni féll illa ef fólk kom illa fram við dýr og við minnimáttar. Til dæmis man ég að þegar ríki kommúnismans voru að falla og taka átti Sjáseskú og frú af lífi í Rúmeníu ca. 1989, þá lá við að hún legðist í bælið, ekki af því að þau væru á neinum stalli í hennar huga, heldur vegna þess hvað þetta ofbauð hennar mannúðarhugsun. Hún var góð við krakka, talaði alltaf við þau eins og fólk og af virðingu. Á síðari árum kynntist ég betur hve gamansöm hún gat verið og „aðhlægin“ eins og hún sagði sjálf. Ef henni fannst eitthvað verulega spaugilegt þá veltist hún um af hlátri.

 

Ég tala um læknadóp, já, því var ausið í hana þegar henni leið illa á breytingaskeiðinu. Ég tel, án þess að hafa rannsakað það, að þetta hafi verið gert í miklum mæli við íslenskar konur (kannski erlendis líka). Breytingaskeiðið hafði í för með sér svefnvanda og þungar hugsanir; ráðið var valíum, diazepan og mogadon eða eitthvað þvíumlíkt, vanabindandi róandi lyf og svefntöflur. Hins vegar var hún svo stíf á prinsippinu að ég held að þetta pilluát hafi aldrei farið neitt villimannlega úr böndunum. Hins vegar drakk hún sig stundum fulla þegar mjög illa lá á henni og það fannst mér miklu verra. Ekki að hún væri neitt úti í sveit að skandalísera, heldur lokaði hún sig af. Þetta var e.t.v. bara eitt síðdegi eða kvöld, daginn eftir var eins og ekkert hefði í skorist. Eftir að hafa skoðað ævikjör hennar betur finnst mér þetta skiljanlegt. Hún var svo einmana og um margt ósátt við ævikjör sín. Ég er viss um að ég hefði farið margfalt lengra út á galeiðuna í hennar sporum!

Naut Bína aldrei sannmælis, kona í karlaheimi sem bjó fyrir norðan, var hennar hlutskipti svipað og Oddnýjar Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi? Gat hún aldrei almennilega helgað sig köllun sinni? Er það fórnin sem konur færa eilíflega vegna móðurhlutverks, eiginkonustöðu og brauðstrits?

Oddný var vinkona mömmu, hún var einhleyp og starfaði sem farkennari. Hún hafði því tvennt fram yfir mömmu, menntun og frelsi (upp að vissu marki). Mamma þráði menntun en fékk ekki. Og móðurhlutverkið og brauðstritið kom auðvitað í veg fyrir að hún gæti helgað sig köllun sinni, en um leið skapaði það henni tækifæri til að skrifa. Hefði hún átt heima í bæ þar sem hún vann fastan vinnutíma, e.t.v. gift verkamanni og með öll þessi börn, þá hefði það aldrei gengið. Í sveitinni gat hún hagrætt verkunum og leyft sér að vaka á nóttunni og leggja sig á daginn. Oddný þurfti ekkert að velta þessu fyrir sér en hún þurfti að vinna og hún var kona og konur áttu erfiðara uppdráttar með að koma ritverkum sínum á framfæri.

Það er við hæfi að fá sér meira kaffi núna, þegar hugurinn leitar að kellingabókaumræðunni. Hin fræga sena þegar karlar niðruðu bækur kvenna í fjölmiðlum á sjöunda áratugnum og dr. Helga Kress dró fram í dagsljósið, erum við ennþá þar?

Ja – við erum með Fjöruverðlaun, ekki satt? Segir það ekki dálitla sögu? En samt, ég held að við færumst fjær með ári hverju. Þetta er samt ekki eins og hraðlest, meira eins og hægfara sveitalest sem stoppar á hverri stöð.

 

Hjónaband Bínu og Starra í Garði, sannast þar að ástin er sterkari en listin? Kom þeim vel saman? Átti hann ekki sinn þátt í að ekki var gert neitt í því að tengdafaðir Bínu beitti fjölskylduna ofbeldi? Gat hún fyrirgefið það? Hún fer ekki burt en hvert hefði hún getað farið? Hefði brottför eða skilnaður frelsað hana?

Ég veit ekki hvað segja skal. Listin var nú kannski sterkari en ástin, vegna þess að mamma/Bína brotnaði svolítið og hún átti í raun ekki val. En hún var alltaf að hugsa um listina, um það sem hún þráði heitast að gera. Hún var yfir sig hrifin af pabba og þau hvort af öðru. Ástandið heima fyrir reyndi verulega á samband þeirra. Bróðir minn myndi eflaust halda því fram að hjónaband þeirra hafi verið hörmung, en ég er ósammála. Pabbi studdi hana eindregið varðandi rithöfundarferilinn. Það var bara svo takmarkað sem hann gat gert, þau þurftu bæði að strita myrkranna á milli. Ég held að hann hefði gert allt til að létta undir með henni, hefði hann getað. Og þau deildu skoðunum og um margt áhugamálum og þau gátu oftast talað saman. Þetta skrifar hún líka til móður sinnar, eins og fram kemur í bókinni. Já og þetta með að fyrirgefa – það held ég að hún hafi gert og hún álasað sjálfri sér líka, er það ekki bara svolítið dæmigert fyrir okkur konur?

Það er greinilega mikil togstreita í sál Bínu, hún er mjög lokuð manneskja og talar ekki um tilfinningar eða erfiða atburði, það er talað um vestfirska þögn í bókinni. Er hún nú afhjúpuð?

Já, þögnin er sannarlega rofin. En ég afhjúpa auðvitað ekki allt sem ég veit. Ég afhjúpa bara það sem mér finnst þjóna tilgangi í frásögninni. Ég get nefnt sem dæmi að ég skrifa talsvert langt mál um föðurafa minn. Ég komst að ýmsu um hann í leit minni, ég segi ekki frá því öllu vegna þess að ég sé ekki að ég þurfi fleiri drætti í þá mynd. Mamma fær líka að eiga einhverja hluti í friði. Sjálfsagt ekki nógu marga, hefði hún fengið að ráða.

 

Hef ekki herbergi út af fyrir mig, segir Jakobína. Er það sérherbergið sem Virgina Woolfe þráði svo heitt á sínum tíma? Bínu langar að dvelja heima um hríð í herbergi Guðnýjar systur því hún getur ekki unnið í Garði, segir hún. Þá er hún að skrifa Lifandi vatnið. Fríða systir hennar fékk betri tækifæri, bæði til að mennta sig og sinna sínum skáldskap. Mun kvenrithöfunda alltaf vanta sérherbergi til að geta skrifað?

Þegar mamma skrifaði sínar bækur áttu konur erfitt uppdráttar í bókmenntaheiminum. Skrif þeirra náðu ekki eyrum bókmenntaskríbenta sem allir voru karlar. Viðmið „góðra“ bókmennta voru rit karla. Ég veit ekki hvort hætt er að lýsa bókum eftir konum sem litlum huggulegum bókum, eins og svo oft var gert, með áherslu á „litlar“. Konur höfðu fæstar efni á að sitja við skriftir. Mamma var lítið skólagengin og hafði ekki efni á menntun. Hún gat ekki, eins og samtíðarkarlar margir hverjir, rifið upp pening með því að fara á vertíð (eins og Þórbergur lýsir t.d. í Ofvitanum) til að komast í Kennaraskólann, eins og var markmið hennar. Enginn vildi kosta skrif hennar, eins og gert var fyrir Halldór Laxness. Fyrir utan það að Laxness þurfti ekkert að hafa fyrir heimilishaldinu, Auður sá um það. Pabbi var fullkomlega ósjálfbjarga í eldhúsinu!

 Varðandi spurningu þína, þá held ég að hlutirnir hafi breyst mjög mikið. Enn eru þó konur skylduræknari og með meiri ábyrgð á herðunum en karlar. Þá á ég ekki við „opinbera“ sviðið sem er t.d. á vinnumarkaði, heldur einkasviðið, heimilið. Þær eiga pottþétt erfiðara með að taka sér tíma heima heldur en karlar.

Þú vilt breyta umsögn um Jakobínu þannig að hún setji stétt jafnt kyni. Af hverju?

Bína/mamma var eldrauð í sinni lífsafstöðu. En hún var aldrei neinn sellukommi og skellihló þegar ég spurði hana eitt sinn að því. En sósíalisti, jú, það var hún í anda. Hún var samt aldrei virk í stjórnmálaflokki, mér vitanlega. Stjórnmálabarátta hennar var á vettvangi hernaðarandstæðinga, þeirri baráttu helgaði hún krafta sína. Ég varð ekkert tiltakanlega vör við viðhorfið „stétt gegn stétt“ eins og oft heyrðist meðal vinstrimanna. Verk hennar einkennast af gagnrýninni hugsun, ekki upphafinni dýrkun verkamannastéttarinnar. Hins vegar fyrirleit hún auragræðgi og peningadýrkun. Auðvaldið átti ekki upp á dekk hjá henni.

 

Mér finnst gagnrýni sumra feminískra bókmenntafræðinga á verk hennar byggð á misskilningi. Vissulega má segja að sumar konur í verkum hennar séu klisjukenndar. En erum við þá að segja að slíkar tilfinningar hafi ekki fyrirfundist? Að aldrei hafi verið til miðaldra kona sem hafði farið á mis við ástina og séð eftir því? Eða má ekki segja frá því? Það sem vekur mig til svolítillar uppreisnar er lýsing kvenna sem eru eins og brúður, komast áfram út á útlit og kynþokka, eiga góða fyrirvinnu og hugsa bara um útlit og veraldleg gæði en þykjast ekki hafa vit á neinu öðru. Eins og Svava í Dægurvísu. Ég er ekki í vafa um að nóg var af lifandi fyrirmyndum, en mér finnst mamma dæma þær svolítið hart. Þær voru bara afurð ríkjandi fyrirkomulags og hlutverks kvenna innan þess. Af hverju ég segi að hún setji jafnrétti kynjanna jafnt stéttabaráttu? Jú, vegna þess að jafnrétti kynjanna er rauður þráður í skrifum hennar og þau mál voru henni afar hugleikin.

Skemmtilegur er lokakaflinn þar sem Bína sjálf segir álit sitt á bókinni í sviðsettu samtali ykkar mæðgna. Ertu þá búin að ljúka kafla í lífi þínu, koma frá þér fargi eða skyldu, ljúka köllun þinni með þessari bók?

Jú, ljúka kafla í lífi mínu, það er rétt lýsing. En ég myndi aldrei kalla það farg eða skyldu. Ég hef mikla ánægju af að skrifa, hvort heldur er sagnfræði eða skáldskapur en er samt byrjandi þar. Auðvitað hvílir á manni að þurfa að klára verk fyrir ákveðinn tíma og viss léttir að ljúka því. Og mér fannst ég verða að skrifa þessa bók – hún átti reyndar aldrei að verða svona stór, en þannig eru skriftir, þær þróast og ekki hægt að sjá fyrir hvernig, jafnvel þótt höfundurinn setji sér stefnu og markmið.

 

Mér heyrist þú ætla að skrifar meira? Ertu kannski með sérherbergi?

 Alltaf skrifandi. En ég er fullvinnandi kona og vinnan er oft krefjandi og stundum koma tímabil þar sem ég ferðast mikið og hef þá ekki tíma til skrifta. Ég fæ alls konar hugmyndir, hef skrifað skáldsögu sem ekki náði í gegn sem fullunnið ritverk og er líka með hugmyndir að annars konar ritverk. Árið 2013 kom út bók eftir mig sem heitir Alla mína stelpuspilatíð. Hún var einskonar feminísk ævisaga, ég var að velta fyrir mér kjörum kvenna fyrr og nú og notaði eigin æviatriði sem grunn. Þessi bók varð satt að segja talsvert vinsæl, alls konar fólk hringdi í mig eða skrifaði og þurfti að ræða efni hennar. Það var svo skemmtilegt. Hún varð ekki metsölubók, en seldist samt upp, held ég. Fékk engin verðlaun en þessar viðtökur, jafnvel að fólk stoppaði mig inni í verslun til að ræða bókina, voru það besta sem hægt er að fá. Þá bók skrifaði ég meðfram krefjandi vinnu og hafði mitt eigið litla sérherbergi með bókunum mínum. Þetta var meðan ég bjó í Skagafirði. 

Hér í borginni er ég líka með indælt vinnuherbergi með allt sem ég þarf. Maðurinn minn hvetur mig áfram og styður allt sem ég tek upp á. Það má segja að hann eigi stóran þátt í tilurð bókanna, því með fyrri bókina rak hann mig til að senda uppkast til útgefanda og með þessa bók hvatti hann mig til að halda inni þessum fræðilega vinkli. Án hans hefði ég líklega ekki fengið þessar tvær tilnefningar til bókmenntaverðlauna, sem eru svo ótrúlega ánægjulegar og hvetja mig áfram. Samt finnst mér eiginlega að mamma og konurnar í Hælavík á Hornströndum og í Garði í Mývatnssveit séu að fá viðurkenningu frekar en ég.

Takk Sigga Stína, fyrir að halda heiðri Jakobínu á lofti, rjúfa þögnina um hana og leyfa okkur að kynnast henni og þér.

Kaffið hefur kólnað meðan á spjallinu stóð, Sigga Stína orðin óróleg og lítur á úrið sitt, því hún hefur lítið komist í jólaundibúninginn vegna anna við að kynna bókina sína. Við erum búnar að tala okkur heitar um konur og skáldskap og höldum hugdjarfar út í frostið og snjóinn.

12. desember 2019

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Grúsk vikunnar

Photo389127

„Það hefur farið með versta móti um hjartað í mér undanfarið. Það hefur lamist lengi, og upp á síðkastið hefur verið þröngt um það í brjóstinu eins og brjóstið og hjartað eigi ekki saman lengur. Eitthvað er sem þrengir að rifjunum og í sambandi við þetta gína mér kolsvört leiðindi og hræðsla í allar áttir, stundum svo að mér verður flökurt. Nú er tími til að byrja á bókinni um píslirnar. Engin lifandi sál nærri, að heitið geti, fegurð heimsins fjarri mér, nema einhver ögn af fegurð himinsins. Það sem ég hef fyrir augum eru veggirnir, rúmin, konurnar í rúmunum, fólkið sem hefur þann leiðindastarfa með höndum að stjana við okkur, rytjulegir fuglar sem tína í sig mola af hvítabrauði til að gera sig heilsulausa, grimmilegir sjófuglar að hakka í sig kryddað ket og þykir vont, skima í kringum sig við hvern bita til að forða því að frá þeim verði hrifsað, ljótir veggir, ljót þök og afarljótur strompur, rytjulegar jurtir að deyja í leirkerum sínum. Samt er jörðin full af auði og allsnægtum, og jörðin er góð, vindar hennar og birta og fjöldamargt annað, og líklega einhverjar sálir til einhverstaðar, þó að þær séu vandfundnar og hittist helst í bókum –“.

Málfríður Einarsdóttir

1899-1983

Sögumaður sem þegir

„Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, um bókina Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

680

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér – en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og sænsku hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.

Víðsjá, 24. apríl 2017

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.

 

Að brenna húsið til að sjá mánann

„Maður man og á í höfði sínu dýrindis upptökur og bara kveikir á og fer þangað“, segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, í sjálfsævisögu sinni, Stúlka með höfuð. Sagan er smiðshöggið í ættarsöguþríleik en formæður hennar voru stúlkur með fingur og maga.

Einlæg og nærgöngul

Stulkamedhofud-175x261Í sjálfsævisögum  ganga höfundar misjafnlega nærri sjálfum sér enda markmið og tilgangur þeirra margvíslegur. Sjónarhornið ræður miklu og áhugavert að skoða hvað ratar í ævisögu og hverju er sleppt til að búa til ímynd eða sjálfsmynd úr brotakenndum minningum. Aðferðirnar eru mismunandi, margir fegra og göfga sögu sína, fæstir afhjúpa lífshlaup sitt grímulaust en fela heldur og bæla það sem ekki kemur þeim vel í heildarmyndinni, loks er sumu hreinlega stungið undir stól. En skemmst er frá því að segja að einlæg og nærgöngul sjálfsævisaga eins og Þórunnar er sjaldséð og mikill happafengur.

Tíminn er ekki lína

Sagan hefst í föðurhúsum, Tóta litla elst upp meðal sjö systkina, pabbinn er flugkappi, móðirin einkabarn og stúdent. Farið er yfir skólaárin, samband  foreldranna sem endar með sársaukafullum skilnaði, sumarstörfin, sveitadvölina og fiskvinnuna, vinkonurnar, sjensana og menntaskólann. Þá er heimdraganum hleypt, utanlandsferðir, námsárin og svo hjónalíf og barneign. Lífshlaupið er dæmigert (a.m.k. framan af) fyrir manneskju sem fædd er á Íslandi um miðja síðustu öld og sett í skáldlegt og þroskað samhengi, líkt og hjá fleiri höfundum af 68-kynslóð sem skrifa nú í óða önn minningabækur sínar.

Mesta áherslan er á æskuna og fram yfir tvítugt, einkum á það tráma sem skilnaður foreldranna var. Þegar hún kemst til vits og ára tekur bóhemlífið við með ýmsum tilfæringum og skemmtilegum tilraunum. Sagan er ekki alveg í krónískri röð heldur kvikna hugrenningar hver af annarri og tengjast á ýmsa vegu. Tíminn er heldur ekki lína, „Þetta eru tvenn ímynduð lönd, fortíðin og framtíðin. Hrygglengjan er föst í núinu, vængirnir dreyma sig burt. Hvor í sína átt“ (315).

Skrýtin gimbur

Þórunn hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér og kallar sig skrýtna gimbur, galning og lukkugæs. Hún hefur líka húmor fyrir lífinu og kokkar enga sorgarsúpu eins og hún orðar það þrátt fyrir erfiðleika og skakkaföll og vill ekki að skrifa ljótt um samferðafólk sitt. Hér eru engir skandalar, ekkert slúður eða illmælgi. Allir eru yndislegir, fagrir og góðir á sinn hátt í minningunni. Það er hins vegar galli að alltof margir  eru nefndir til sögunnar í svip og hér hefði mátt skerpa línur, sérstaklega í kaflanum um menntaskólaárin.

Foreldrarnir fá skilning og samúð þrátt fyrir brotalamir sínar, því frá þeim kemur sitthvað sem gerir mann að því sem maður er. Þórunn segir að sér hafi í gegnum árin tekist að stilla saman ólíka heima foreldra sinna og þannig vanist mótsögnum í sjálfri sér og  lífinu (162). Það er stórt skref í lífi og þroska sérhverrar manneskju.

„Gangandi taugaþúfa“

Einlægnin í sögunni er einstök, það nennir enginn að lesa prakkaralegar drengjabækur, glansmyndakenndar frægðarsögur eða karlagrobb eftir að hafa lesið Stúlku með höfuð. Og höfuðið er stórt, það er „gangandi taugaþúfa“, fullt af alls konar hugsunum og minningum; um Reykjavík síðustu aldar, laugardagsbaðið og sveskjugraut í vömbinni, uppeldisaðferðir og atlæti kynslóðar sem hafði lifað heimstyrjöld – um veröld sem  var.

Það er svo margt sem hefur áhrif á þroskann og sjálfsmyndina, margs konar áföll og sigrar, álit annarra, tíska og hippamenning, hass og sýra, vinátta, kynlíf og ástarsambönd en á endanum kemst stúlkuhausinn furðu heill frá þessu öllu. Sjálfsmyndin hefur breyst frá bólóttum og viðkvæmum gleraugnaglámi sem er skrýtinn að innan og ömurlegur í leikfimi yfir í fallega og lífsreynda konu sem er þakklát fyrir gjafir lífsins.

Frábær stílisti

Stíllinn er ljóðrænn, fyndinn og tregafullur, fullur af dásamlegu trúnaðartrausti. Orðfærið er mjög skemmtilegt, forneskjulegt og frumlegt í senn, enda Þórunn frábær stílisti. Sem dæmi mætti nefna að taka trú dýrúðar (gerast grænmetisæta), mánatíðir (blæðingar), eiga flugpabba, að landlasta o.m.fl.

Bókina prýða bæði ljósmyndir (af sparihliðunum) og teikningar Þórunnar sjálfrar sem gefa sögunni enn frekar yfirbragð nándar og trausts .Víða er stuðst við gömul bréf og jafnvel gægst í facebook til að athuga hvað orðið hefur um gamla kærasta. Og öllu brasinu slegið upp í grín: „Hvað er maður alltaf að reyna að útskýra allt. Böl sagnfræðinámsins. Böl mannlífsins“ (259).

Líkaminn og kynhvötin

Saga Þórunnar er mjög líkamleg, hún er öðrum þræði um ástarsambönd, kynþroska og hormóna, blæðingar, afmeyjun og fullnægingar. Allt það sem þvælist endalaust fyrir stúlku með kristilegt uppeldi,  sem hefur lesið rómantískar ástarsögur og er alin upp við borgaralegt siðferði.

Líkaminn og kynhvötin eru alls staðar í textanum og húmor og viska alltumlykjandi: „Ég man pissandi píkurnar á kúnum, svo líkar manns eigin sem kona getur aldrei séð gera slíkt hið sama. Víst eru til speglar en á þá pissar maður ei“ (147).

Erfðasyndin

Syndin er lævís og lipur og leggst af þunga á stelpuskjátuna, hún ætlar að stela pening fyrir sælgæti, þorir ekki að lúra hjá svölum Eyjapeyja því þá er hún svo mikil hóra og svo kremur hún hjörtu aðdáenda sinna. Og nú nagar hún sig í handarbökin yfir að hafa sleppt mörgum góðum sjens vegna misskilinnar tryggðar og niðurdrepandi sektarkenndar.

Langan tíma tekur að losna undan uppeldi og samfélagi þar sem bæling er alls ráðandi og dyggð barnsins felst í að láta lítið fyrir sér fara, ekki biðja um neitt, vera ekki fyrir. Strangleiki föðurins býr til endalausar sjálfsásakanir, ástarsorg móðurinnar býr til fælni við náin kynni og hvort tveggja fylgir alla ævi.

Útlínur minnisins

Sorgin knýr dyra eins og gengur og setið er í ekkjudómi eftir góðan mann sem lést sviplega og var öllum harmdauði. Fram kemur að hann vildi ekki vera í bókinni svo sagan endar þar sem hann kemur til skjalanna. Sagan er drifin áfram í sorg eftir hann og fjarvera hans er kvika sem sífellt minnir á sig, þannig er lesanda aftur og aftur kippt inn í nútíðina. Það er auðséð að sögumaður er enn að fóta sig í nýrri tilveru eftir missinn, reyna að leggja drög að nýrri framtíð og takast á við ný verkefni með sátt og fyrirgefningu í farteskinu.

Þórunn Jarla hefur lært hvað það er að elska, missa, gráta og sakna og að gleðjast um leið yfir öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða:

„…því ég er orðin gangandi æðruleysi. Þegar Eggert dó hætti allt að skipta máli. Líka hvort ég lifi eða dey eða þjáist. Þið getið ekki klipið mig með glóandi töngum, ég flýg burt, er úr eter og hverf sem skuggi fyrir sólu. Stundum þarf að brenna húsið til að sjá mánann“ (194).

 

Stúlka með höfuð, sjálfsævisaga

JPV, 2015

321 bls

Birt í Kvennablaðinu, 19 des. 2015

Ástin á snjallsímaöld, #tístogbast

Það er eitthvað lausbeislað og einlægt í ljóðum Eydísar Blöndal (f. 1994). Fyrsta ljóðabók hennar, Tíst og bast, kom út á dögunum hjá „Lús, forlagi sem fær fólk til að klóra sér í hausnum“. Eydís heldur bókinni hressilega á lofti á tístinu, þar kemur m.a. fram að hún hefur verið nefnd í Kiljunni og Rás 2 og ratað á metsölulista Eymundsson.

12270278_10153724748399328_746557452_n

Engir stuðlar skilja mig

Yrkisefni Eydísar er ástin, eða ástleysið öllu heldur, og einkaheimur ungmennisins sem er skítugt herbergi, pítsukassar og 101. Myndmálið er hrátt og einfalt, töffaralegt og slangrað. Lúið, gamalt og stirðnað form eldri höfunda nær ekki yfir veruleikann lengur;  „engin orð ná dýptinni / og engir stuðlar skilja mig“. Rímið er stundum með í för, tilraunakennt og frjálslega farið með, ekkert bindur unga og óstýriláta hugsun niður.

Ljóðin sveiflast milli sælla minninga og sjálfsvorkunnar („ringluð sál og hjarta sem blæðir“) og sjálfshaturs: „mikið djöfulli getur þú verið heimsk“. Þetta er enginn væminn unglingakveðskapur, þarna eru þroskaðar hugmyndir, alvöruinnihald og brennandi andi. Örsnögg mynd segir meira en mörg orð: „ég hálf tóm, þú hálf fullur“. Og það er hárbeittur tónn í ljóði sem ber tvírætt nafn: „amen, nr 4“ og ætti að vera skyldulesning fyrir alla (karla).

Ástin í símanum

Tvö ljóð bera nafnið „Harmleikur á snjallsímaöld“. Það er orðið alltof auðvelt að fylgjast með símtalaskránni og kveljast  yfir að enginn hafi hringt, minnsta mál að senda eldheit eða reiðiþrungin sms og bíða svo í angist eftir svari og  yfirþyrmandi sárt að fylgjast með fyrrverandi á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Ástarsorg er gnægtarbrunnur fyrir skáld og rithöfunda eins og dæmin sanna.

Ástarljóðin eru gullfalleg, t.d. Varúð: þetta ljóð er um kynlíf. Og hér er skemmtileg mynd sem gengur vel upp:

„þvottavél

ég hélt ég væri þvottavél

og tróð inn í mig
óhreinustu drullusokkum borgarinnar
í von um að bjarga þeim

trúið mér
það virkar aldrei“

Tilraun framkvæmd

Í bókinni eru tæplega 40 ljóð. Lokakafli bókarinnar ber heitið Ástarsorg. Hverfistregða einsleitrar stúlku. Tilraun framkvæmd þarna um árið. Ljóðin í þessum hluta eru númeruð líkt og í skýrslu, tilraunin endar í kafla „3.4. Sátt“ og lokakafinn er nr. „4. Niðurstöður og úrvinnsla.“ Það er ekkert nýtt að ljóðið sé notað eins og þerapía fyrir hrellda sál en í þessari bók verður að segjast að það er býsna vel gert. Með nákvæmri klínískri tilraun fást svellkaldar og óhagganlegar niðurstöður og það er ein aðferð til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar eins og höfnun, reiði og sorg. Tíst og bast er fyrirtaks frumraun ungs höfundar sem á örugglega eftir að gera fleiri tilraunir í lífinu.

Ljóð

Lús, 2015

Ekkert blaðsíðutal

Birt í Kvennablaðinu, 20. nóv. 2015

Villimenn í vestri

Shirley Jackson (1916–1965) var þekktur rithöfundur í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hún var heimavinnandi húsmóðir, stundaði ritstörf sín jafnan heima við og annaðist börn og bú samhliða. Þekktust var hún fyrir gotneskar hrollvekjur sínar sem jafnað hefur verið líkt við sögur eins frægasta hryllingsmeistara fyrr og síðar, Edgars Allen Poe.

Líf á meðal villimanna, sem er nýkomin út á íslensku, er kannski ekki alveg dæmigerð fyrir höfundarverk Shirley Jackson. Engu að síður er bókin mikill fengur fyrir alla sem unna listilegum stíl og heimsbókmenntum.

Ekki þarf að lesa nema fyrstu blaðsíðurnar til að átta sig á því að sögumaðurinn er ekki bara einfaldlega glaðlegur og einlægur í frásögn sinni eins og virðist við fyrstu sýn, heldur lymskulega háðskur og meinfyndinn í lýsingum sínum á daglegu amstri barnafjölskyldu í Vermont um miðja síðustu öld. Hversdagslegir hlutir, eins og t.d. leikir barnanna, prakkarastrik elsta sonarins, ökunám húsmóðurinnar, barátta við skólakerfið, briddskvöld og innkaupaferð með dúkkuvagn, að ógleymdri „Inflúensuráðgátunni“ miklu, verða alveg drephlægilegir. Veruleiki heimavinnandi húsmóður og eiginkonu í úthverfi lítils háskólabæjar er sveipaður hippalegum töfraljóma um leið og gert er góðlátlegt grín að öllu saman. En undir niðri má greina óljósa taugaveiklun, vanmátt og ístöðuleysi húsmóðurinnar sem birtist í því að uppeldið er laust í reipum, krakkarnir leika lausum hala meðan pabbinn er í vinnunni og mamman situr á kafi í drasli og les glæpasögu. Oft er hún alveg út á þekju:

„Ég veit hvernig þau öll líta út, að sjálfsögðu. Hundurinn er með fjóra fætur og er mun stærri en kettirnir, sem virka hvort sem er einsog tvíburar. Drengurinn er óhreinn og er í gauðrifnum bláum gallabuxum. Faðirinn er áhyggjufullur á svip, dálítið yfirþyrmdur einhvern veginn. Eldri dóttirin er stærri en yngri dóttirin, þótt þar sé í gangi flókið kennslaferli, þar sem sú minni er í fötum sem sú stærri var í þar til fyrir skömmu, og þær eru báðar með ljósa lokka og blá augu. En hvað varðar að reyna til dæmis að muna hver tvö af þeim þremur hafa þegar fengið hlaupabóluna og hvert þeirra var bólusett gegn kíghósta, og hvort þau fengu öll þrjár sprautur eða hvort eitt þeirra fékk níu … Þetta ætlar að gera út af við mig“ (113).

imgres

Amerískar kvennabókmenntir í vandaðri íslenskri þýðingu rekur ekki á fjörur okkar á hverjum degi. Líf á meðal villimanna kom fyrst út í Bandaríkjunum 1953. Áður hafði Shirley skotist upp á stjörnuhimininn með smásöguna Lottery sem birtist í The New Yorker. Aldrei hafði blaðinu borist jafnmörg hatursbréf eins og vegna þessarar smásögu sem síðan varð heimsfræg og þýdd á fjölda tungumála, tveir þýðendur hafa m.a.s. spreytt sig á henni á íslensku, þau Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir (1999) og Kristján Karlsson (1957).

Gyrðir Elíasson þýðir bókina undurvel en hann er einstaklega fundvís á merkilegar bækur til þýðingar, bækur sem annars væru utan seilingar, eru óvenjulegar, eftirminnilegar og áhrifamiklar. Eftirmáli hans við Líf á meðal villimanna varpar skýru ljósi á höfundinn, verkið og söguna að baki. Gyrðir segir m.a. að sitthvað í efnistökunum minni á Sálminn um blómið eftir Þórberg Þórðarson „hvað skopstyrk og spennu varðar“ (241), er þá ekki verið að tala um snilldarverk? Ég er ekki frá því, þetta er allavega bók sem enginn bókmenntaunnandi má láta framhjá sér fara.

Birt í Kvennablaðinu 20. júlí 2015