Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s