Höfundur: Steinunn Inga

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

Dagur 8

Málari mætti kl 8 eins og um var talað og hófst strax handa. Yfirsmiður kom og eftir 5 kaffibolla og 5 sígarettur var byrjað að smíða grind fyrir niðurtekna loftið. Það er þrælavinna sem tók allan daginn. Svo var ekki hægt að halda áfram því rafvirkinn á eftir að leggja fyrir ljósunum og hann er í fríi fram á þriðjudag. Þetta er víst algengt í bransanum, að bíða eftir næsta iðnaðarmanni dögum saman. En málarinn heldur áfram að spartla (búinn úr þremur 15 l fötum), mála meðfram og undirbúa, hann er með tvo hitablásara á fullu til að þurrka. Algjör meistari.

Ég stakk af frá fræðistörfum mínum í steypurykinu um stund og gekk á Úlfarsfellið í fyrsta sinn á ævinni. 2 m fjarlægðin virt í traffíkinni þar, greinilega fleiri sem fengu þessa hugmynd í samkomubanninu.

Hér er allt á hvolfi, ekkert páskaskraut, engin páskaegg, engir túlípanar. En messan á sínum stað í útvarpinu.

 

92741153_679987819440585_6732766389334966272_n

Hörkukallar, laghentir og laglegir

92934587_885523665264984_6669483589576425472_n

Nýi liturinn, hvaða blettur er þarna í loftinu? Aldrei séð hann fyrr…

Dagur 7

Nú gengur þetta loksins aðeins hraðar. Málari mætti kl 11 á miðvikudegi, eins og hann hafði sagst gera, og var að til kl 19. Eldhúsið var heilspartlað en þar eru veggirnir með létthraunaðri áferð og stofan undirbúin en þar er einskonar marengs á heilum vegg. Við verkstjórinn vorum búin að fara í Sorpu með gömlu kerruna hans pabba sem hefur heldur betur komið að góðum notum í þessum framkvæmdum. Við vorum búin að taka niður gardínur, þjappa öllum mublum saman á einn stað í stofunni og breiða plast yfir. Sömuleiðis var plasti tjaldað yfir bókahilluna enda óþarfi að mála á bak við hana, skilst mér. Keyptar voru sjö hnausþykkar og blýþungar gipsplötur og spýtur í loftgrindina skv. fyrirmælum yfirsmiðsins. Það er nóg af handtökum og snatti þótt ekki séu iðnaðarmennirnir alltaf á staðnum. Málarinn mætti með málninguna, 60 lítra af gullfallegum lit sem Sæja stakk upp á. Hann er grábrúnn, hlýr og dökkur. Mér kom sosum ekki á óvart að hann fékk 0 atkvæði í könnun meðal smekkmanna á Snapchat en ég valdi hann samt. Honum fylgir örugglega góð tilbreyting og nýjar áskoranir fyrir alls konar smartheit.

 

Dagur 6

Fjórir múrarar mættir til að fræsa rendur í gólfið fyrir hitalagnir og loka gatinu þar sem ruslalúgan var. Ég hef bent á að hlífa þurfi parketinu þar sem það mætir flísunum og í stiganum og að skafa þurfi skít og skán af veggnum við lúguna en fengið svörin „Það þarf ekki!“ Var frekar pirruð þangað til að mér var bent á að ef ég vildi gera þetta gæti ég gert það sjálf. Sem er góður punktur.

92017862_545419606383141_4253723386481475584_n

Þessi ofn verður fjarlægður enda aldrei almennilega heitur hvort sem er.

Hér sést gólfhitinn með floti út á og verkstjórinn ásamt litaprufunum tveimur. Múrararnir mættu um hálf ellefu og klukkan fimm var allt búið. Röskir menn.

Dagur 5

Varla hægt að telja þennan dag með. Og þó. Ég tók allt úr veggskápum í stofunni en þeir verða teknir niður meðan stofan verður máluð. Ég vafði stelli og desertskálum og ýmsu fíneríi í handklæði og dagblöð og gekk frá blómunum í skjól.

Setti málningarprufur á eldhúsvegginn. Annar liturinn sem arkitektinn Sæja valdi er brúnleitur, hinn grár. Nú þurfa vogirnar að velja. Hér er upphaflega planið, þetta verður svona ca, inréttingin frá Parka er 15 cm lengri og við ætlum að sleppa marmaranum.

Screen Shot 2020-04-05 at 20.44.42

Dagur fimm

Rafvirki búinn að gera sitt að mestu. Múrari afboðaði sig. Pípari guggnaði á að setja hita í gólfið. En yfirsmiður kom með prófílana fyrir niðurtekna loftið. Já, maður er kominn með lingóið.

Kannski skrapar maður lausa málningu af veggjum um helgina. Og þurrkar af ryk. Bara bið framundan.

Dagur 4

Hófst tveimur dögum seinna. Beðið var eftir iðnaðarmönnum… Í morgun komu bæði rafvirki og múrari í einu. Núna kl. tvö er búið að brjóta af bitanum sem er milli loftanna í eldhúsi og stofu og búið að afráða að setja hita í gólfið, með tilheyrandi útgjöldum til viðbótar.

Verkstjórinn var stressaður og úrillur eftir því í morgun en blíðkaðist þegar leið á daginn. Ég reyndi að vinna heima og taka fjarfundi í öllum skarkalanum, sólin skein og bjargaði deginum.

 

Dagur þrjú

Rólegheit framan af degi. Vorum að stúdera teikningarnar og forgangsraða með hafragrautnum. Hversu mikilvæg er skuggarönd með ledborða í loftinu í stóra samhenginu og forsvaranlegt að borga 3x meira fyrir hana? Heimavinna hjá mér allan daginn en til að minnka smithættu í vinnunni vegna kórónaveiru skipti ég upp í tvö lið sem vinna ýmist heima eða í skólanum. Verkstjórinn og vinnumaðurinn fóru með hauga af gólfflísum í Sporpu ásamt ótal glerullarhnoðrum. Plast-tjald var sett upp til að halda ryki utan stofunnar en það var ansi seint í rassinn gripið. Örþunnt lag af hárfínu ryki hefur lagst yfir gólf og mublur. Síðan var farið í að rífa það sem var byggt í kringum ruslalúguna en það verður fyllt upp í það gat, í nýja speisaða eldhúsinu verður maður að fara út með ruslið. Heilmikið pillerí var eftir við að slétta úr mestu misfellum, límklessum og nibbum á veggjum og við gluggann en ramminn utan um hann var flísalagður. Unnið var þrotlaust frá kl 13-20 en þá tókst ráðskonunni að elda franskar og buff á tveimur hellum við góðar undirtektir.