Höfundur: Steinunn Inga

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

Endalaus hamingjugleði

Strendingar, skáldsaga eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur, kom út í lok síðasta árs. Ekki er titillinn sérlega lokkandi né eiturgul bókarkápan en innihaldið er þeim mun betra. Eins konar íslensk Bonusfamilje sest að á Stapaströnd, litlu plássi fyrir norðan, og ýmislegt gerist þar sem getur svo auðveldlega gerst í alvörunni. Þetta er raunsæ saga um líf fólks í samtímanum, drauma þess og ógnir, en venjulegt líf stendur alltaf tæpt og getur farið á hvolf af minnsta tilefni.

Eva Guðrún er harðjaxl – eða þykist vera það – með ríka réttlætiskennd. Hún rís gegn feðraveldi og kirkju í þorpinu og fær svo sannaralega að finna til tevatnsins – bókstaflega því hún er sett í kaffibann heilsu sinnar vegna. Maður hennar er Pétur, ekki sá klettur sem nafnið gefur til kynna, heldur sveimhugi með skáldagrillur sem getur auðveldlega kúplað sig frá öllu og lagst í freyðibað með hljóðbók. Hann á að baki slóð misheppnaðra tilrauna til að láta drauma sína rætast því hann skortir úthald og frumleika. Foreldrar hans voru klettar, þau Berg-ur og Stein-unn sem búa í sveitinni, en þeirra bíður bara glötun eins og alls sem þeirra kynslóð stendur fyrir. Silja er bráðum 15 ára dóttir Evu og á vonlausan pabba, hún spilar tölvuleiki og er skáld á kafi í öllu unglinga- og kærastatráma sem hugsast getur. Steinar er miðjubarnið, í fyrsta bekk og hegðun hans er viðfangsefni sálfræðinga. Tveir málleysingjar, Olla yngsta barn enn á brjósti og kötturinn Sahure/Mjálmar, hafa líka rödd í sögunni en raddirnar skiptast á, hver fjölskyldumeðlimur á sinn kafla, sitt málfar og sína sýn á hlutina. Líka afinn Bergur sem þjáist af alzheimer og flytur inn á fjölskylduna til að toppa allt.

Saman böðlast Eva og Pétur í gegnum áföllin sem á dynja og standa sterkari á eftir, svo virðist sem börnin muni líka komast nokkuð heil frá atburðunum sem setja allt á annan endann á því hálfa ári sem sögutíminn spannar. Strendingarnir eru eins og hver önnur íslensk nútímafjölskylda sem stendur frammi fyrir alls konar vandamálum. Sagan er vel skrifuð, skemmtilega margradda með húmorinn í botni og beinir líka spjótum að samfélagi okkar. Viðfangsefnið er harmur manna en ekki engla, hverful og brothætt tilveran er efni í hressilega sjónvarpsseríu.

„Ég hefði ekkert á móti því að öskra á einhvern, fyrst þessi heimsókn snerist svona í höndunum á mér. Kannski ég byrji á því að öskra á Steinar fyrir að ljúga og fyrir að hrekkja önnur börn, svo öskra ég á Silju að drulla sér úr tölvunni og hreyfa sig og læra heima og hætta að verja þennan aumingjapabba sinn, ég gæti öskrað á Pétur fyrir það hvað við erum glataðir foreldrar, fundið einhverja leið til að kenna honum alfarið um ástandið á Steinari, ég hlýt að geta það. Mögulega gæti ég öskrað á Ollu fyrir að vilja endalaust drekka alla helvítis nóttina. Að sjálfsögðu myndi ég öskra á tengdapabba að hætta að reyna að kyssa mig með stingandi broddunum sínum og ógeðslegu gömlukarlarakspíralyktinni.

Það verður gleði.

Það verður endalaus hamingjugleði.“

(177-8)

Birt á skáld.is, 13. febrúar 2021

„Vertu alltaf hress í huga“

Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem kallaði sig Erlu, var ómenntuð alþýðukona, öndvegis ljóðskáld og einnig þýðandi. Glataðu spælimenninir eftir Heinesen heitir í þýðingu Erlu Slagur vindhörpunnar (1956). Þessa bók þýddi einnig Þorgeir Þorgeirson árið 1984 en skáldsagan nefndist þá Glataðir snillingar. Einhver þarna úti sem hefur borið þýðingarnar saman? Af hverju valdi Þorgeir að endurþýða bókina? Er þýðing Erlu síðri?

„Þessi einstaka skáldkona þýddi líka mörg merkisverk úr ensku og Norðurlanda-málunum, og er hin undurfagra bók, Slagur Vindhörpunnar, eftir færeyska skáldið William Heinesen, eitt merkra þýðingarverka hennar og kom út hér á landi, árið 1956. Hvernig Erlu tókst að afkasta öllu þessu í erli daganna, ber glöggt vitni magnaðrar konu. Hún safnaði ljóðunum sínum árum saman og orðin vel fullorðin þegar fyrstu ljóðin tóku að birtast. En fallegt og glæsilegt ritsafn verka hennar, kom út árið 2013, útgefið af Félagi austfirskra ljóðaunnenda“ (Draumasetrið Skuggsjá).

Eitt af kvæðum Erlu hljómar svo:

Kvöld í sveit

Hofsá rennur hægt að sævi,

hvamminn fyllir nið.

Fuglakvak í kjarri rýfur

kvöldsins þögn og frið.

Kvæði eitt frá 1937 er mjög hressandi og flytur með sér baráttuanda:

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því, að þér á herðar

þyngri byrði’ ei varpað er

en þú hefir afl að bera.

Orka blundar næg í þér.

Móðir Erlu var skáldmælt og sjálf var hún móðir Þorsteins Valdimarssonar, skálds og kennara, sem kunnur var fyrir limrur sínar.

Allmikið af skemmtilegu og dýrmætu efni með rödd Erlu/Guðfinnu Þorsteinsdóttur

s.s. kvæði, rímur og þulur og frásagnir, er að finna á ísmús.

Birt á skáld.is, 26. apríl 2021

Sögur að handan

Trúir þú á framhaldslíf? Að tilgangur sé með þessu jarðlífi? Að til sé endurholdgun, karma, eilíft líf? Þá ættir þú að gefa gaum að bók sem ber heitið Smásögur að handan (2017) eftir Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.

Bókin inniheldur 10 smásögur sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um líf handan þessa heims. Höfundur er hugmyndaríkur og mikill húmoristi. Leonardo da Vinci flytur inn í raðhús á Selfossi og kynnust Emblu litlu, eigandi Galdrabókar Sæmundar fróða kynnist ástinni, hinn lífsleiði Drakúla greifi fer til geðlæknis og erkiengillinn Raziel sýnir enga miskunn. Í eilífðinni rætast draumar, kærleikur umlykur allt og „hvert andartak hefur eilífa vídd og við getum komið hingað aftur og aftur af fúsum og frjálsum vilja á hvaða öld sem er“ (53). Ingibjörg Elsa virk á samfélagsmiðlum og „heldur uppi heilbrigðu andófi á fésbókarsíðu sinni gegn allskyns skerðingu á almennu tjáningarfrelsi.“ Hún málaði sjálf dulúðuga mynd á bókarkápu.

Aftast í bókinni eru þakkir til Braga Jósefssonar og Guðbergs Bergssonar og Rithrings „því þar hófust smásagnaskrif mín og án Rithringsins hefði ég sennilega aldrei uppgötvað smásöguna sem mitt uppáhalds tjáningarform (113), segir Ingibjörg Elsa að lokum.

Birt á skáld.is, 9. júlí 2021

Til heiðurs Þóru skáldkonu

Þóra Jónsdóttir skáldkona er nýorðin 96 ára. Hún fæddist 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist þriggja ára með fjölskyldunni að Laxamýri í Þingeyjarsýslu þar sem hún ólst upp á mannmörgu heimili við hefðbundin sveitastörf. Skólagangan var stopul – farskóli frá tíu ára aldri – en hún lærði ung að lesa og féll ekki bók úr hendi upp frá því. Einkum vöktu ljóð áhuga hjá henni.

Þóra fór í Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal og þaðan í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi. Hún kenndi í Flensborgarskóla í Hafnarfirði einn vetur áður en hún hélt til Kaupmannahafnar ásamt eiginmanni sínum, Páli Flygenring ráðuneytisstjóra. Þar las hún tvo vetur bókmenntir við Kaupmannhafnarháskóla. Eftir að heim kom sinnti hún manni og þremur börnum næstu árin eins og þá tíðkaðist en lauk einnig vetrarnámi í Kennaraskóla íslands. Hún vann um árabil á Borgarbókasafni Reykjavíkur.

Ritstörf hóf hún seint eins og svo margar skáldkonur fyrri tíma, eða ekki fyrr en börn hennar voru komin á legg. Fyrsta bók hennar, Leit að tjaldstæði, kom út árið 1973 og fékk afar góða dóma. Alls hafa komið út eftir hana 16 bækur: ljóð, örsögur og ljóðaþýðingar, nú síðast örsagnasafnið Sólardansinn (2019). Hún hefur hlotið rithöfundarverðlaun Ríkisútvarpsins og viðurkenningu dómnefndar um verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir handrit að ljóðabókinni Far eftir hugsun. Ljóð eftir hana hafa verið þýdd á ensku, norsku, finnsku og japönsku. Safnrit með ljóðum hennar kom út hjá bókaforlaginu Sölku 2005 og ber titilinn Landið í brjóstinu.

Þóra hefur verið sílesandi ljóð alla ævi og er afar vel að sér í íslenskum og norrænum kveðskap. Á miðjum aldri hóf hún að mála bæði með vatnslitum og olíu og leitaði sér tilsagnar á því sviði, m.a. í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún er enn að lesa og mála þrátt fyrir sjóndepru sem hefur ágerst með aldrinum. Þóra er dóttir Elínar Vigfúsdóttur (1891-1986), kennara, ljóðskálds og húsmóður á Laxamýri (Mbl. 17. janúar 2020 Árnað heilla. Þóra Jónsdóttir ljóðskáld 95 ára).

Vinnubrögðum sínum við skáldskapinn lýsti Þóra í viðtali við Mbl., 5. desember 2019:

Þóra tekur daginn snemma og segir að sér verði mest úr verki við skáldskapinn á morgnana. „Ég er best upplögð um miðjan morgun, það finnst mér besti tíminn.“ Þegar andinn komi yfir hana sé hún fljót að koma hugsunum sínum á blað og sitji því ekki lengi við hverju sinni. „Þetta er allt saman svo stutt,“ segir hún og leggur áherslu að hún sé ekki sérstaklega vel skipulögð við skriftirnar, en það komi ekki að sök. „Ég verð 95 ára í janúar og sennilega læt ég ekki meira ritað mál frá mér.“

Umfjöllun um verk Þóru má sjá m.a. í nýjasta Skírni og hér. Ilmur Dögg Gísladóttir fjallaði ítarlega um ástarljóð Þóru í Lesbók Morgunblaðsins 2005 og Soffía Auður Birgisdóttir fjallaði um verk hennar í grein sinni Uppskerutími sem birtist á skáld.is í árslok 2019 og sagði m.a. um stöðu Þóru í íslenskri samtímaljóðagerð: „Ef allt hefði verið með felldu í bókmenntamati á síðari hluta tuttugustu aldar ætti ljóðskáldið Þóra Jónsdóttir öruggan sess meðal íslenskra módernista“. Um bók hennar Hversdagsgæfu (2010) sem inniheldur örsögur, segir Úlfhildur Dagsdóttir m.a.:

„Hún er eitt þeirra skálda sem ekki ber mikið á, og ekki mun þessi bók líkleg til að vekja á henni frekari athygli, en útgáfan er í alla staði hljóðlát, bókin lítil um sig og prósarnir fjarri öllum æsingi. Það þýðir þó ekki að bókin sé hljóðlát að gæðum, en sem fyrr búa texta Þóru yfir einkennilega heillandi yfirbragði, í raun öllu því sem gera ljóð góð (svo ég haldi mig við mína eigin bókaflokkun). Á margan hátt minna prósarnir í Hversdagsgæfu á þulukennd ljóð í einni af fyrri bókum höfundar, Línur í lófa (1991), en sú bók er nokkuð ólík öðrum verkum hennar. Ljóðin eru frásagnarkenndari og byggja á minningum úr æsku skáldkonunnar. Hér er einnig á ferð einhverskonar upprifjun, þó ekki sé endilega ljóst hvað sé skáldskapur eða hvað minningar (enda skiptir það engu máli).

Hversdagurinn er helsta viðfangsefnið með öllum sínum undrum, meðal annars hanska sem sögukona finnur og tyllir í gluggakistu, bara til að hitta þar stuttu síðar fyrir konu sem er ægiglöð yfir að hafa fundið hanskann sinn: „Ég samgleðst því að blár kvenhanski, nöturlegt tákn einsemdar og reiðileysis, hefur raðast snögglega á réttan stað í almyndina. Þetta örstykki í púsluspili tilverunnar.” Og þannig er bók Þóru, örstykki í púsluspili skáldskaparins, einmitt eitt þeirra stykkja sem heldur myndinni saman.“

Eitt ljóða Þóru dregur upp mynd af hlutskipti margra genginna skáldkvenna sem ekki er að finna á skald.is:

„Hún dó úr tæringu í baðstofu / frá manni og ungum börnum / mælti svo fyrir að ljóð sín yrðu brennd / Engin ljósmynd er til af henni / að eigin ákvörðun / Hún var talin skilningsgóð / á fagurfræðilega hluti / Hryggir trúðu henni fyrir sorgum“

(Lesnætur, 1995)

Að lokum er hér ljóð eftir Þóru úr bók hennar Leiðin heim (1975):

Ég, sem held um þetta stýri,

bið þig að stjórna vegferð minni.

Lát mig muna til þeirra

sem ferðast fótgangandi

og virða allra rétt.

Forða mér frá gálausum akstri annarra.

Lát ljós mín lýsa

án þess að blinda.

Megi ég velja rétta akrein á hringtorgum

og rata nýjar leiðir.

Gef oss

grænt ljós yfir gatnamót

og vísan áfangastað.

Birt á skáld.is, 9. febrúar 2021

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021

Lærðu harma að hylja…

Í bók um spænsku veikina (2020) eftir Gunnar Þór Bjarnason er m.a. sagt frá ævi og örlögum skáldkonunnar Höllu Lovísu Loftsdóttur.

Ófrísk ekkja með fimm börn

Halla Lovísa bjó á Sandlæk í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, með Ámunda manni sínum og fimm börnum við kröpp kjör. Hún var ófrísk að sjötta barninu þegar Ámundi veiktist af inflúensunni og lést 1. desember 1918. Elsta barn þeirra var sex ára þegar Halla varð ekkja. „Aldrei mun ég þekkja nokkurn mann réttlátari eða sannari í öllu dagfari en hann var“ sagði Halla síðar þegar hún minntist eiginmannsins með miklum trega (sbr. 177). Um vorið fæddist barnið andvana. Sjálf veiktist Halla af inflúensunni og var lengi að ná sér. Bróðir hennar reyndist henni vel og rák þau saman bú á Sandlæk í tólf ár. Þá fluttist Halla til Reykjavíkur og vann fyrir sér m.a. með vélprjónaskap og starfaði ötullega að félagsmálum, m.a. innan Kvenréttindafélags Íslands (179).

Mynd tekin 1. desember 1918

Þráði að mennta sig

Unga dreymdi Höllu um að komast til náms en af því gat ekki orðið. „Ungar alþýðustúlkur áttu ekki margra kosta völ í fátæku og fábreyttu bændasamfélagi eins og því sem var á Íslandi um aldamótin 1900“ segir í bók Gunnars Þórs (178).

„Hún var grannvaxin, fríð sýnum, dökkhærð og fagureygð, gáfuð, viðkvæm í lund og yndislega hlý í viðmóti.“ Svo er Höllu lýst sem ungri konu. Skáldskapur var henni í blóð borinn og ung byrjaði hún að yrkja. Síðar birtust ljóð eftir hana af og til í tímaritum en nú þekkja sennilega fáir nafn hennar og skáldskap“ (179).

Þrjú kvæði

Í Eimreiðinni 1925 birtust nokkur kvæði eftir skáldkonuna á Sandlæk undir nafninu Lovísa Loptsdóttir og Halla Loptsdóttir:

Í fyrsta hefti birtust þessi þrjú kvæði, og í því hefti er líka kvæði sem heitir Únglíngurinn í skóginum eftir Halldór Laxness – þar sem kveður við tón róttæks menntamanns sem hafði öll tækifæri sem buðust til frama og ferðalaga. Annað kvæði átti Halla í 2. hefti sama árgangs. Mest allt efnið í Eimreiðinni 1925 er eftir karla en tvær aðrar skáldkonur áttu kvæði í þessum árgangi, þær Ólína Andrésdóttir og Ólöf frá Hlöðum. Ekki amalegt fyrir Höllu Lovísu að vera með þeim í hópi.

Eftirfarandi brot er dæmi um kveðskap Höllu og tíðarandann á hennar dögum þegar fátæktin var flestra fylginautur, tímarnir voru erfiðir og úrræðin fá.

Lærðu harma að hylja,

hafðu þol og vilja.

Þó að blæði bitur sár,

brosin láttu dylja tár,

lærðu harma að hylja.

Ein ljóðabók

Halla Lovísa orti m.a. sex erinda erfikvæði eftir Ámunda sinn, undir fornyrðislagi. Það er að finna í einu ljóðabók Höllu þar sem kveðskap hennar var safnað saman. Kvæði kom út 1975, Halla lést sama ár og lifði ekki að fá hana í hendurnar.

Tóndæmi

Hér má heyra Höllu Lovísu flytja afmælisljóð sem hún orti til vinkonu sinnar. Seint er Árnastofnun og ríkisútvarpinu fullþakkað fyrir að hafa á síðustu öld sett starfskrafta í að taka frásagnir og kveðskap kynslóðanna upp á band til varðveislu. Brátt þagna raddir þeirra sem nú eru gamlir orðnir, tungutak þeirra hverfur með þeim og spor þeirra mást burt eins og spor Höllu Lovísu.

Birt á skáld.is, 31. mars 2021

Að standa sig á vígvellinum

Steinunn Þ. Guðmundsdóttir fæddist aldamótaárið 1900 og lést 85 árum síðar. Á efri árum samdi hún og gaf út sjálf á eigin kostnað bæði skáldsögu, smásagnasafn og ljóðabók. Líklega teiknaði hún einnig bókarkápurnar en þess er þó ekki getið.

Skýr skilaboð

Skáldsagan Í svölum skugga frá 1976 segir frá togstreitu milli vaxandi borgar og hnignandi sveitamenningar, frá djúpu kynslóðabili, áhrifum hernámsins og ýmsum ástarmálum. Vond stjúpa tekur glys og glaum fram yfir sveitalífið, óðalsbóndinn verður utanveltu, veikluleg stjúpdóttir lætur allt yfir sig ganga, ungar stúlkur glepjast af hermönnum og skyndigróði er ekki happadrjúgur.

Skilaboðin eru skýr og frekar íhaldssöm: í sveitinni er best að vera, ekki níðast á minnimáttar, þeim sem bíður mun hlotnast, konur eiga réttindi en hafa jafnframt skyldum að gegna og her á ekki að vera á Íslandi.

Niður fljótsins (1979) inniheldur allnokkrar smásögur og eru margar þeirra ágætar. Ljóst er að Steinunn hefur haft metnað til að vanda til þeirra, fágað formið og dregið upp myndir af stöðu fólks og dýra sem eiga undir högg að sækja.

Frumleik skortir

Um ljóðasafn Steinunnar sem út kom að henni látinni segir bókmenntagagnrýnandinn Jóhann Hjálmarsson í Mbl.:

„Kostir ljóða Steinunnar Þ. Guðmundsdóttur eru einkum þeir að hún vandar málfar sitt og gætir hófs, stefnir að samræmi. Gallarnir aftur á móti þeir að frumleik skortir, ljóð hennar eru mjög slétt og felld, en vekja ekki lesandann til umhugsunar með óvæntri mynd eða sjálfstæðum tökum á yrkisefni. Vissulega geta frumleikakröfur verið strangar og ósanngjarnar, en sviplítill skáldskapur verður ekki eftirminnilegur. Rímuðu Ijóðin í bókinni eru verst. Í þeim koma fram ýmsir helstu gallar slíkra ljóða, m.a. það að lýsa í staðinn fyrir að draga upp mynd, samanber: „Þú ert blómið bjarta og yndisfagra / í blæsins létta mjúka sólskinsdansi“. Barnslegur túlkunarmáti gæðir sum ljóðanna vissu lífi og rómantíkin þótt gamaldags sé á sér eðlilegar forsendur… „

Væri gaman að kanna hvort skáldskapur Steinunnar er virkilega ófrumlegri, meira gamaldags eða verri en annarra skálda á þessum tíma. Einkum var menntuðum körlum á þessum tímum uppsigað við óskólagengnar kerlingar sem sendu í sífellu frá sér bækur sem nutu almennra vinsælda, sbr. kerlingabókamálið mikla þar sem Guðrún frá Lundi var m.a. til umfjöllunar.

Verður kölluð kerlingarbók

Þann 3. desember 1972 birtist viðtal við Steinunni í Þjóðviljanum. Þar sagði hún m.a.:

„— Ef einhver spyrði hvort það væri erfitt að fara út á þessa braut og birta sína fyrstu sögu, þá myndi ég hiklaust svara því játandi. Það væri æskilegt að höfundar þyrftu ekki að ganga á milli útgefenda heldur væru einhverjir aðrir, t.d. samtök rithöfunda, sem byðu fram verkin. Höfundar eins og ég vitum svo lítið um kjör á hverjum tíma.

— Kvíðirðu þvi, að þetta verði kölluð kerlingabók?

— Ég er alveg hárviss um að hún verður kölluð það!… En það er um leið dálítil ögrun. Kerling og karl eru gömul og góð íslenzk heiti, og þá ættu alveg eins að vera til karlabækur!… Það er þá um að gera að standa sig á vigvellinum!“

Birtist 31. júní 2021 á skáld.is

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

Magnað og kjarngott

Ísland eftir ca. 20 ár: Samkenndarprófið er í boði til að mæla hvort fólk hafi nægan siðferðisstyrk og meðlíðan með öðrum. Standist fólk prófið býðst því að merkja sig í Kladdann og þar með er rétt siðferði tryggt.

Merktir fá að búa í fínum hverfum innan varnargarðs út gleri, með beinum, hvítum strætum og klassískum byggingum, fá góða atvinnu og er almennt treystandi. Viljir þú ekki taka prófið, eða það sem verra er, fallir á því, snarfækkar möguleikum á mannsæmandi lífi.

Til stendur að gera merkinguna að skyldu með kosningum en um það er hart deilt, merking býður upp á kerfislæga mismunun að sumra mati. Samfélagið er klofið í tvær hugmyndafræðilegar fylkingar um réttmæti merkingarinnar, SÁL og KALL. Og síðan eru þeir sem þegja og hlusta og þora ekki að taka afstöðu og eru þannig hálfu verri en hinir.

Reiður fíkill

Svona er staðan í Merkingu, skáldsögu Fríðu Ísberg sem gerist í náinni framtíð. Sköpuð er tæknivædd normalíseruð stemning sem gengur ljúflega upp: fólk tengir sig við appið Zoé sem fylgist með hjartslætti og öndun og svarar öllum spurningum og það er hægt að hafa kveikt á Samfylgd sem er verndarapp í úrinu, fólk sendir skilaboð sem kallast gramm út og suður, notar heilógrímur til að dyljast, bílar eru sjálfkeyrandi og andlitsskanni sér um að útiloka ómerkta úr húsum, verslunum og fyrirtækjum.

Sálfræðingar hafa gríðarleg áhrif og völd í þessu samfélagi, hvort sem þeir eru af holdi og blóði eða gervigreind. Til þeirra leita allir sem verða undir, nauðugir viljugir. Ungir karlmenn fara verst út úr þessu, staðan hjá Tristan Mána er t.d. arfaslæm, hann á engan sjens í þessu samfélagi; reiður fíkill með alllangan glæpaferil sem tilkominn er vegna höfnunar og mótþróa. Sjónarhorn Tristans er „fucking“ frábærlega vel stílað, og ekki annað hægt en sogast hratt inn í slangrandi hugarheim hans og hrakfallasögu.

Kennari á kvíðalyfjum

Vetur heitir kennari á kvíðalyfjum sem er tvístígandi í afstöðu sinni, hún hefur rannsakað siðferðislegan þátt fjölmiðla varðandi birtingu niðurstaðna á samkenndarprófinu en þorir ekki að taka af skarið, sjálf brennd af ofbeldi fyrrum elskhuga. Er það kannski versta afstaðan, að gera ekki neitt? Innsta eðli Vetrar / manneskjunnar birtist skýrt í samtali hennar við Alexandriu: hún sér sjálfa sig í ömurlegum aðstæðum hennar og fyrirlítur hana fyrir það.

Ólafur Tandri er í framboði fyrir SÁL og trúir því öðrum þræði að öflugt heilbrigðiskerfi sé lausnin, að merking sé forvörn en getur þó ekki varist efa þegar Sólveig kona hans þrætir við hann og setur honum skýr mörk. Hann veit innst inni að glæpamenn geta verið fullir samkenndar og að siðblindir geta verið saklausir en köld rök og tölur tala sínu máli í hans huga, glæpatíðni er hærri hjá hinum ómerktu. Skólakerfið tekur gagnrýnislaust þátt í þessu öllu, beinir unglingunum í prófið og til sálfræðinganna ef þeir ná ekki tilgreindu lágmarksviðmiði.

Gott fólk

Í Merkingu Fríðu Ísberg er búin til mynd af samfélaginu eins og það gæti svo auðveldlega orðið og er kannski þegar orðið. Dregið er fram hvernig sannleikanum er hagrætt og fjölmiðlar mata fólk á þeim veruleika sem hentar hverju sinni. Og hvernig tungumálið er notað til að ná sínu fram, hvort er verið að útskúfa eða innlima, merkja til góðs eða ills, alls konar heilaþvottur er í gangi fram að kosningunum um hvort aflið fær að ráða í samfélaginu. Kappræður fara fram (233-34) og stríðandi aðilar ætla báðir að breyta heiminum til hins betra, þetta er gott fólk í góðri trú á að verið sé að byggja upp öruggt og réttlátt velferðarsamfélag án ofbeldis.

Hafþór fucking Laxness

Í hverjum kafla er sjónarhornið hjá einni persónu sem hefur sitt málsnið og lífsskoðun, sagan er margradda og lesandinn þarf sjálfur að hugsa og velja sér skoðun eða afstöðu. Vinkonurnar Laíla og Tea, sem eru vel menntaðar og hafa tungumálið á valdi sínu, eru ekki persónur í sögunni, en skjóta inn bréfum milli kaflanna og gera það ekki einfaldara fyrir lesandann að marka sér stöðu.

Í sögunni tekst Fríða ekki aðeins á við tilvistarlegar spurningar um vald og siðferði af innsæi og visku heldur glímir líka við tungumál og stíl af miklum og heillandi þrótti. Hver persóna hefur sína lífsreynslu og afstöðu sem birtist úthugsuð og útpæld í málfari og orðavali. Ruglingslegur hugarheimur framakonunnar Eyju endurvarpast t.d. í brotakenndum textanum hennar. Og þegar kommentin byrja að flæða eru þau eins raunveruleg og hugsast getur. Rödd Tristans er einstaklega trúverðug, kröftug og hressandi: „Þegar hann sest niður man hann nafnið á rithöfundinum: Hafþór fucking Laxness“ (47). Og sögukaflinn þar sem Alexandria lætur dæluna ganga er hreinlega stórkostlega skrifaður.

Það er orðið langt síðan ég hef lesið nokkuð svona merkilegt. Magnað og kjarngott.

Birt fyrst á skáld.is, 23. okt. 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021