Skinka dauðans og skuggahliðar netfrægðarinnar

Perlan

Hvernig  verður maður drottning samkvæmislífsins, síðan hirðfífl þjóðarinnar og karakter í áramótaskaupinu? Það fékk Perla Sveins að reyna, eftir að hafa verið sú sætasta í Réttó og fjörugasta í MH, og loks með heitustu trendin, vinsælasta bloggið og rosalegustu djammfréttirnar frá Reykjavík og New York um langa hríð. En í hruninu töpuðu allir húmornum fyrir þessu gríni og Perla varð táknmynd yfirborðsmennsku og hégómleika; skinka dauðans.

Drekkir sér í bleikum kokteil

Perla hefur verið villuráfandi sauður alllengi. Í New York þar sem hún býr hefur lífið snúist um djamm og hark með hljómsveitargaurum og leikurum. En nú eru yngri stelpur, ferskari og viljugri, farnar að mæta í partýin og tilboðum og tækifærum fer fækkandi . Hún er einmana í stórborginni, fljót að klippa á tengsl við annað fólk og afgreiðir hlutina hratt í huga sér, drekkir þeim einfaldlega í bleikum kokteil. Undanfarið hefur Perla fundið fyrir æ meiri angist og einmanaleika. Um borð í flugvél skrifar hún langan tölvupóst til vinkonuhópsins á Íslandi þar sem hún segir loksins hreinskilnislega frá lífi sínu og líðan. En á síðustu stundu guggnar hún á að senda hann og skrifar annan þar sem lyginni um hressu og svölu heimskonuna er haldið við. En hversu lengi getur þetta gengið?

Birna Anna Björnsdóttir skrifar Perluna, hressilega skáldsögu um „meinta skinkuvæðingu íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins“, eins og segir á bókarkápu. Perla minnir kannski örlítið á Ragnheiði Birnu, fræga persónu úr skáldsögu Hallgríms Helgasonar (Þetta er allt að koma, 1994) sem rembdist alla ævi við að verða fræg en aumlegar tilraunir hennar spegla og skilgreina meðalmennsku í lífi og list á íronískan hátt. Í bók Birnu Önnu er engin slík íronía en þar er frægðin til umfjöllunar og skoðað er grannt hvað er undir öllu meikinu og feikinu í prófæl-myndinni.

Gremja góða fólksins

Þeim fer sífellt fjölgandi sem eru frægir fyrir það eitt að taka myndir af matnum sínum, máta föt og mála sig á samfélagsmiðlum. Í bókinni er spáð í hvort konur  í þessum geira séu afurð menningar og orðræðu eða táknmyndir um bakslag kvennabaráttunnar á 21. öld. Og hvort það megi þá beina að þeim allri þeirri beiskju og kaldhæðni sem kraumar hjá hinum ófrægu, hjá góða fólkinu. En er eitthvað að því að konur taki sér pláss í samfélagi og menningu með þeim hætti sem þær sjálfar kjósa? Er vatnslitamynd endilega göfug en meiköppvídeó ömurlegt?

Sögunni vindur fram með hlykkjóttri tímalínu. Sjónarhornið er hjá ýmsum sögupersónum, til dæmis hjá fyrrverandi kærasta Perlu, Bjarna, sem er á kafi í sjálfshjálparprófum á netinu og lafhræddur við nýju kærustuna, og hjá móður hennar sem er innantóm snobbhæna. Ein mikilvæg persóna bókarinnar er Ingigerður Ásgeirsdóttir, einmana og heimakær stundakennari í kynjafræði, en þær Perla eiga það sameiginlegt að líf þeirra er í tómu tjóni. Það dregur til tíðinda þegar fundum þeirra ber saman. Svo vill til að Ingigerður hefur varið miklum tíma í að stúdera Perlu og kynna  hana í fræðilegri lokaritgerð sem aðalskinku landsins, án þess að Perla hafi hugmynd um.

Uppgjör óumflýjanlegt

Uppgjör er því óhjákvæmilegt; Ingigerður þarf að endurskoða dólgafemínisma sinn og Perla að taka einhverja heiðarlega stefnu í lífinu. Þetta er einföld og skemmtileg flétta og í rauninni sígilt þema: hroki og hleypidómar og eftirsókn eftir vindi. Fjallað er um muninn á ímynd og staðreynd, og um smættun og hlutgervingu kvenna í samtímanum ásamt skuggahliðum netfrægðarinnar. Það er þó hvorki kafað djúpt né hugmyndum bylt, allt er þetta á léttum nótum. Talmálskenndur og afslappaður stíllinn er heldur tilþrifalítill en fellur vel að efni og persónum; ég efast um að þær gætu hugsað eða tjáð sig öðru vísi nema tapa trúverðugleikanum. LOL.

Víðsjá, 20 desember 2017

Jólamatur

„Allir hlökkuðu til jólanna í þá daga. Á jólunum var vel skammtað þar, sem góð björg var í búi. Hver karlmaður fékk hálfan reyktan bringukoll og stóran magran hangikjötsbita, síðubita, sperðil og sneið af reyktum lundabagga, hálfan magál, pottbrauðssneið, smjör, hangikjötsflot og fjórar laufabrauðskökur.

Konur fengu sams konar mat, en allt að helmingi minna en karlmaðurinn“ (39).

Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason. Elínborg Lárusdóttir

 

Hvað stóð upp úr 2017?

Það er ekkert sérstakt sem skarar fram úr í íslenskri skáldsagnagerð i ár, ekkert sem greip mig heljartökum, af því sem ég hef lesið. Ekki laust við að örli á makindalegu hiki og íhaldssemi í skáldskap góðærisins. Ég hafði gaman að Stofuhita eftir Berg Ebba, þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndirnar viðraðar, samfélagsmiðlarnir rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur og Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur eru nærtækar. Ljóð þeirra beggja eru djarfleg, gagnrýnin og fersk.

Öndvegis sjálfshjálparbók

738858

Mynd: mbl.is

Það liggur eitthvað í loftinu. Menn eru að verða svo meyrir og nostalgískir, menn horfa til baka, gera upp líf sitt, kafa ofan í uppeldið, ástina, eineltið, fátæktina, fíknina og skömmina, hjónabandið, geðveikina, dauðann. Og pæla í hvernig varð ég nú skáld, ballettdansari, prestur  eða róni – hvað gerði mig að því sem ég er?

Tilhneiging sjálfsverunnar til að gera upp fortíðina birtist víða í skáldverkum samtímans, í ljóðum, sjálfs-/skáldævisögum, myndlist og kvikmyndum. En það er ekki oft sem sjálfsævisaga er ekki skrifuð að sjálfinu, af þeim sem sagan snýst um. Ég verð að viðurkenna að það ergði mig dulítið í fyrstu að handleika Þúsund kossa, (sjálfs)ævisögu Jógu eftir Jón Gnarr. Af hverju er karl að skrifa fyrir konu? Er þetta enn eitt dæmið um karl sem tekur efni konu, sögu hennar og ljóð, og býr til prentunar, raðar upp, skrifar formála og athugasemdir og klippir burt eða bætir í að eigin geðþótta eins og svo mörg dæmi eru um úr bókmenntasögunni? Jóhanna Jóhannsdóttir, sem alltaf er kölluð Jóga, hefur orðið í bókinni og segir frá hverju klandrinu á fætur öðru í lífi sínu en Jón, eiginmaður hennar, skráir og er höfundurinn. Er Jóga dáin eða mállaus? Er hann búktalari fyrir Jógu? Hvað er málið?

Jóga segir: „Ég veit ekki mikið um bækur. Ég hef ekki lesið margar bækur og aldrei skrifað bók, en ég hugsaði sem svo að kannski gæti hann farið í gegnum þetta með mér með því að skrifa söguna“ (272).

Nú nú, allt í lagi, gefum þessu sjens, Jón er fínn rithöfundur og textasmiður og styður við bakið á konu sinni. Sagan hefst á notalegum árum í Kópavoginum þar sem Jóga elst upp, hress og opin, soldið fiðrildi og krútt, hæfileikarík og sjálfstæð stúlka. Þeir kaflar eru léttir og ljúfir og mesta furða hvað hægt er að búa þar til úr litlu efni. Í fyrri hluta bókarinnar er lesandinn búinn undir að Jóga muni reka sig harkalega á í tilverunni, sakleysi hennar og trúnaðartraust mun sannarlega tortímast.

Nítján ára gömul fer Jóga sem au pair til New York, lendir þar í alvarlegu bílslysi 1981 og tilveran fer á hvolf. Eftirmálin eru með mestu ólíkindum, allt klúðrast sem klúðrast getur og Jóga snýr aftur heim, niðurbrotin og skömmustuleg. Það er fyrst núna, þrjátíu og fimm árum síðar, sem hún kastar af sér byrðum áralangrar sjálfsásökunar og skoðar hlutina í nýju ljósi.

Það kemur á daginn að Jón Gnarr er hvergi nálægur í þessari bók, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Honum tekst afar laglega að halda sjálfum sér utan við söguheiminn og skrásetja frásögnina án þess að troða Jógu um tær. Hann (eða þau?) skapa trúverðugan og viðkunnanlegan sögumann, sem í senn er „Viking Woman“ og „óttalegur njóli“. Ung og hrekklaus verður Jóga fyrir alvarlegu áfalli, staulast síðan um með brotna sjálfsmynd, fótsár og vegmóð af illsku heimsins. Þetta er vel gert og nærfærnislega í bókinni og ekki annað hægt en finna til samúðar og samkenndar með stúlkunni í öllum hremmingunum.

Það sem kom fyrir Jógu í Ameríku er viðkvæmt mál en í bókarlok tekur hún saman hvaða mark þessi erfiða reynsla hefur sett á hana. Skömmin er stór hluti af afhjúpuninni og uppgjöri við fortíðina. Það þarf mikið hugrekki til að opinbera það sem maður hefur blygðast sín fyrir alla ævi en það er líka léttir. Saga Jógu er um svikið sakleysi en hún fjallar líka um fyrirgefningu; um það að geta fyrirgefið sjálfum sér.

Jóga segir: „Ég veit ekki alveg ennþá hver tilgangurinn með þessari bók er. Kannski er einhver frekari heilun fólgin í því fyrir mig að koma þessari reynslu frá mér. Kannski styrkir það mig að hafa gengið í gegnum þetta upprifjunarferli. Ég veit það ekki enn. Kannski getur saga mín hjálpað öðrum á einhvern hátt, gefið styrk eða von. Ég vona það af öllu hjarta“ (281).

Ég er viss um að skrifin skila einhverju góðu fyrir hana og Jón. Lesendur munu áreiðanlega hafa gaman af bókinni; dúndrandi eitís-fílingnum, heiðarleikanum, hugrekkinu og uppgjörinu; og jafnvel draga af henni nokkurn lærdóm enda er þetta öðrum þræði öndvegis sjálfshjálparbók. En ég velti fyrir mér hvort það sé alveg bitið úr nálinni. Er Jóga tilbúin að bera höfuðið hátt eða ætlar hún að standa að baki Jóni, hinum vel skrifandi karli? Það eru nokkrar myndir í bókinni úr einkasafni en engin almennileg mynd af Jógu, á bls 180 er mynd af þeim hjónum þar sem sést ekki framan í hana og á bókarkápunni heldur hún fyrir andlitið.

Víðsjá, 30 nóv 2017

Skíta-Grænlendingur segir frá

KimLeine

Kalak eftir Kim Leine (f. 1961) er afar óvenjuleg bók. Kannski er þetta skáldsaga eða þroskasaga að einhverju leyti en miklu líklegar þó (skáld)ævisaga eða endurminningar, ef marka má það sem höfundurinn segir sjálfur. Í það minnsta er Kalak bersögul og afdráttarlaus saga þar sem lestir og brestir sögumanns eru dregnir fram af sjaldséðu miskunnarleysi. En það sem heillar mest eru framandi staðhættir sögunnar sem gerist að mestu leyti á Grænlandi. Kynþáttafordómar og nýlendukomplexar krauma meðan leiftrum bregður fyrir af grandalausri þjóð sem undir merkjum kristni og skandinavískrar velferðar var varpað úr hlýjum snjóhúsum inn í gráar og kaldar steinsteypublokkir meðan auðlindir hennar voru mjólkaðar.

Norður-Grænland liggur í dimmum skugga vetrar. Sólarupprás rennur saman við sólsetur án þess að nokkur dagur hafi orðið. En þegar sólin nálgast sjóndeildarhringinn byrjar hafið að ljóma og suðurhiminninn deilist upp í mörg lög af litum. Rautt, appelsínugult, grænt, gult, dimmblátt. Hér er kalt, tólf stiga frost og fer kólnandi, en mér er hætt að vera kalt. Kuldanum fylgja hæðarsvæði og norðurljós. Sum kvöld eru þau grafkyrr eins og ljóskeilur frá frá tröllauknum kösturum, önnur skipti flökta þau, bylgjast, bregða lit í grænt, blátt, hvítt. Það heitir „boltaleikur“. Það er þegar dána fólkið fer í boltaleik með hauskúpu af rostungi (172).

Söguhetjan Kim starfar sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og heillast af villtri náttúru og frumstæðri þjóð. Hann hefur djöfla að draga, faðir hans beitti hann kynferðisofbeldi á unglingsaldri, hann þjáist af lyfjafíkn, glímir við gamla heift og flóknar sálarkrísur og hrekst eirðarlaus milli gírugra ástkvenna. Fjölskylduna hefur hann skilið eftir í Danmörku og brátt trosnar sambandið við börnin hans tvö og óspennandi eiginkonu. Allt stefnir í átt að uppgjöri við hataðan föður, sem er sjálfhverfur hommi og Vottur Jehóva og sennilega enn meira einmana en Kim, ef það er hægt.

Kalak* þýðir „skíta-Grænlendingur“ (93) sem Kim segir sjálfur að lýsi honum best. Hann er ofurseldur einmanaleika og skömm en innst inni þráir hann auðvitað sátt og frið eins og við öll. Stemningin í sögunni er engu lík, köld og hrá. Frásögnin er bæði grimm og grípandi, textinn er þunglyndislegur; einhvern veginn hljómlaus og einkennist af sambandsleysi við annað fólk: „…einsemd mín, eða kaldlyndi, er nokkuð sem ekki verður ráðin bót á. Hún er eitthvað sem ég þarf að læra að lifa með“ (127). Bláköld hreinskilnin og átakanlegt varnarleysið í verkinu setjast í huga lesandans og láta hann ekki í friði.

Í starfi sínu gifsar Kim brotin bein, saumar saman skurði, fæst við voðaskot og sjálfsmorð, fæðingar og botnlangabólgu en er sjálfur í lamasessi; með taugaendana galvaníseraða af 400 mg af klópoxíði (261). Hann deyfir sársaukann vegna sifjaspellsins með lyfjum og kynlífi og færist sífellt nær glötun. En hann getur ekki snúið aftur til fyrra lífs í Danmörku „Því útlínur fjallsins hafa rist sig á sjónhimnur mínar og eru í æpandi andstöðu við þessa plægðu akra“ (165).

Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er mjög fín víðast hvar en hugsanlega er Kalak ennþá magnaðri á frummálinu (dönsku) vegna flókinna tengsla Dana og Grænlendinga. Kim Leine hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir Spámennina í Botnleysufirði, frábæra bók sem líka gerist á Grænlandi – hjá nágrannaþjóð okkar sem við Íslendingar hefðum svo sannarlega getað reynst betur í gegnum árin.


Kalak eftir Kim Leine.

Sæmundur, 2017

319 bls.


*Kalak er líka nafn á vinafélagi Grænlands og Íslands. Ég mæli með þessari grein á heimasíðu félagsins: https://kalak.is/hryllilegt-hvernig-folkid-er-rifid-upp-med-rotum/


Ljósmyndina tók höfundur af Leine þegar hann las upp úr bókinni í Eymundsson á dögunum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 22.11.2017

Hlýleg nostalgía en átökin vantar

Kristin Steinsdottir

Kristín Steinsdóttir Ljósm: Kabusa Böcker

 

Þrjátíu ár eru liðin frá því fyrsta bók Kristínar Steinsdóttur kom út, metsölubókin Franskbrauð með sultu. Síðan hefur Kristín skrifað 32 bækur, aðallega barna- og unglingabækur og hlotið bæði verðlaun og viðurkenningar. Á vef íslenskra bókmennta er viðtal við Kristínu, líklega frá 2010, þar sem hún segir m.a.:

„Fyrsta verkið sem ég skrifaði fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni (2004), hafði líka verið lengi með mér áður en það kom út. … Í rauninni hafði ég skrifað  söguna margoft í huganum. Til að byrja með kom ég ekki auga á að gera neitt annað en að skrifa fyrir börn. Svo fór mig að langa að skrifa fyrir fullorðna. En þegar ég sýndi forlaginu mínu handritið þótti mönnum þetta vera óþarfabrölt. Búin að vinna til fjölda verðlauna sem barnabókahöfundur. Ætti ég ekki bara að halda mig við það?“

En Kristín lét ekki undan síga og síðustu ár hefur hún sent frá sér skáldsögurnar Ljósu, Bjarna-Dísu og Vonarland, allt verk um konur sem búa við fátækt, fordóma og misrétti. Nýjasta bók hennar, Ekki vera sár, er sömuleiðis um konu en sú glímir við lúxusvandamál miðað við stallsysturnar. Ingibjörg eða Imba er komin á eftirlaun og ígrundar lífshlaup sitt og reynir að gera það heiðarlega. Upp koma bernskuminningar frá alkóhólísku heimili, farsæll en metnaðarlaus starfsferill og hjónaband sem einkenndist af auðsveipni hennar og lítilþægni, og loks núið þar sem gjá hefur myndast á milli þeirra hjóna.

Söguþráðurinn sem tengist fortðinni í Laugarnesinu á eftirstríðsárunum er virkilega áhugaverður. Hjónaband foreldra Imbu er stormasamt, pabbinn er túramaður og mamman þögul og afskiptalaus. Litla stelpan þráir athygli og ást móður sinnar og trúir á loforð og skýjaborgir föðurins um betra húsnæði og betra líf. Þegar mamman getur enga ást gefið og pabbinn bregst öllum vonum og yfirgefur fjölskylduna, skapast frumstæð og sár tilfinning í sálardjúpi Imbu sem fylgir henni í gegnum allt lífið, tilfinning fyrir missi, að vera ekki ástar verð, ekki nógu góð og ekki nógu dugleg. Þessu er komið vel til skila í textanum í gegnum sjónarhorn sem er í senn barns og fullorðins, þar sem Kristín er á heimavelli.

Farið er yfir atburði sem hafa markað skil í lífi Imbu og það rennur upp fyrir henni að hún hefur látið ýmis tækifæri, drauma og þrár sér úr greipum ganga. Hún öðlast við þessa yfirferð nýjan skilning á ýmsu, s.s. stöðu móður sinnar sem átti ekki margra kosta völ í lífinu, fráskilin og atvinnulaus með þrjú börn. Einnig að hún er sjálf haldin djúpri sektarkennd gagnvart Kela, litla bróður sem varð eftir heima þegar hún fór til náms. Hann varð óreglumaður en henni finnst hún hafa brugðist honum og þar átti eiginmaðurinn Jónas stóran hlut að máli sem hún hefur ekki fyrirgefið. Þegar Keli deyr hellist þunglyndi yfir:

„Nú fór ég að kvíða fyrir öllum hlutum, var með verk undir bringspölunum og miklaði allt fyrir mér. Lá mikið fyrir og hvíldi mig. Á nóttunni dreymdi mig lífið eins og það var áður. Og Keli var hjá mér. Þess vegna vildi ég ekki vakna á morgnana en barðist við að sofa lengur. Mér fannst það vera eins og risastórt fjall að fara yfir að koma mér fram úr rúminu. Ef ég gæti bara breytt því sem liðið var“ (173).

Söguþráðurinn þegar fortíðinni sleppir er losaralegri og ekki eins áhugaverður. Þau hjónin eru ólík og það kemur alltaf betur og betur í ljós eftir því sem árin líða og meiri tími gefst til að grufla í fortíðinni. Þegar Jónas færir henni nellikur, getur hún ekki varist þeirri hugsun að hann viti að rósir séu hennar eftirlætisblóm, en „nellikur stóðu lengur“ (57). Hún hefur aðlagað sig að Jónasi til að forðast missætti og týnt sjálfri sér. Óskir hennar um að fara á tónleika og ferðast til sólarlanda eru virtar að vettugi, hann hefur áhuga á öðru og sinnir því, hagsýnn og handlaginn maður sem heldur sig dögum saman í sumarbústaðnum alsæll að dytta og dunda. Og Imba hefur ekki dug til að standa með eigin sannfæringu og löngunum: „Ég þagði og sneri mér undan en mig langaði mest til að segja honum að fara með þennan bústað til andskotans“ (107).

Sár tilfinningin frá bernskuárunum hefur haldið Imbu niðri í gegnum árin og „Ekki vera sár“ er frasi sem Jónas hefur notað á hana til að bæla vilja hennar og hafa sitt fram. Þegar gamalt leyndarmál úr hjónabandinu dúkkar upp er erfitt að finna til samúðar með Imbu. Hún hefur alltaf lifað í læðingi, valið öryggi umfram frelsi. Hvenær fær hún nóg? Dætur hennar og vinkonur eru miklu sterkari en hún en þær eru bara skuggamyndir. Leyndarmálið verður þó til þess að hvörf verða í sögunni.

Hlýleg nostalgía einkennir nýja skáldsögu Kristínar Steinsdóttur en ég saknaði átaka við form og efni. Sagt er frá vonbrigðum, þunglyndi og ósigrum á svo yfirvegaðan hátt að allt verður eins og blíðalogn. Samtöl eru yfirleitt rakin í óbeinni ræðu, sjaldnast er dvalið við tilfinningar, hugsanir eða atburði eða kafað undir yfirborðið né nokkuð undanskilið sem tvíræðni eða tilefni til túlkunar. Ekki aðeins er Imba bæld heldur er textinn bældur líka, einkum í seinni hluta bókarinnar.

Hlutskipti eldra fólks hefur verið nokkuð til umfjöllunar í skáldsögum síðustu ár. Halldóra Thoroddsen, Álfrún Gunnlaugsdóttir og fleiri hafa fjallað um þetta efni sem brýnt er og gott. En það má ekki vanta storma, blóð, ögrun og uppreisn.

Víðsjá, 20 nóv 2017

 

 

 

Yfir Áfallaheiðina

lox_hallgrim_16-03-_732349y

Hallgrímur Helgason mynd: Librarius

Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.

Laus undan fargi

Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.

Í sjávarháska

Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.

07.07.15

Strandarefur skýst upp úr fjörunni

og skoppar upp urðina

brúnn með hvítan hala

Einmitt þannig dröttumst við

með veturinn í eftirdragi

alltof langt inni í sumarið

(63)

01.01.15

Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó

geng ég fram á huggulegt lítið flugslys

svartrjúkandi brunaþúst

í bómullarmjöllinni miðri

Rek síðan augun

í yfirsnjóuð fótsporin í kring

og man að einmitt hér

er brotlendingarstaður hins liðna

Hé koma eyjarskeggjar saman

til að fylgjast með árunum farast

ég greini rjúkandi kolin

af ap jún sept nóv

(37)

Frá sorg til sáttar

En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.

Tíminn og ljóðið

Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði

En það að vera harmþrunginn

eða sorgbitinn

er ekki það sama

og að vera óhamingjusamur

(101)

Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?

 

Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017


Íslenskur djammveruleiki

Jónas Reynir Gunnarsson sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Millilending. Steinunn Inga Óttarsdóttur fjallaði um bókina í Víðsjá.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

nightlife-in-reykjavik-1„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, nýrri skáldsögu eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Hún kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá8 nóv 2017: http://www.ruv.is/frett/islenskur-djammveruleiki-i-skaldsogu