Ofurseld

Eins og ég er nú lítil ljóðakelling… ofurseld ljóðum Kr.Óm.

 

„amma þín skuldaði sjónvarpinu pening og þú erfðir skuldina

sast hlekkjuð fyrir framan tækið en óskaðir þér að liggja hjá mér

og tókst sjálfsmynd á myndavélina og sendir systrum þínum

og mér og ég lagði ljósmyndina hjá gleraugunum á koddann

klæddi mig úr sokkunum og sofnaði – vært – eins og safngripur“

(51)

Bölsýnn lambaleggur

iceland-poet338x450

Kristín Ómarsdóttir, mynd: http://www.ralphmag.org/GW/reindeer-woods.html

Er að böggla saman ritdómi fyrir rúv um ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningarglugga. Þetta er kvöld númer þrjú sem ég sit við að skrifa, helaum í öxlinni og að auki hrollkalt þar sem ofnarnir eru í ólagi í húsinu. Mig vantar bara berkla og óendurgoldna ást til að uppfylla staðalmyndina. Það er nógur efniviður í amk 20 síðna ritgerð um Kóngulærnar. Er stórhrifin af þessu til dæmis:

hönd hvílir á diski

glös standa vörð við sorgardúk

einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

 

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg

höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

 

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

 

sósan teiknar varir á dúkinn

 

ég gaf hönd mína fyrir málsverð

hugsar skuggavera klædd döprum fötum

kápufóðrið: grátmúrinn

 

hve langa stund það tekur því að kveðja

hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun

notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

 

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

 

ekki skilja mig eftir

hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði

(45)

 

 

 

Kim Leine

Náði mynd af Kim Leine þar sem hann las upp í Eymundsson í Austurstræti regnblautan miðvikudag. Leine fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Spámennina í Botnleysufirði  og eftir upplesturinn fór hann að hitta kollega sinn, Einar Má Guðmundsson, á kaffihúsi.  Kalak er sjálfsævisaga, þar sem lýst er uppvexti Kims í Kaupmannahöfn þar sem hann býr við kynferðisofbeldi og vanrækslu af hendi föður síns og leiðist út í alls konar rugl, flytur til Grænlands og gengur þrusuvel að aðlagast lífinu þar en Kalak þýðir eiginlega „gegnheill Grænlendingur“; nafn sem söguhetjan fékk sér til háðungar þar í landi. Frábær bók.

21931192_746977192160550_391816008_o

Náttmyrkrið

3367923

Treystu náttmyrkrinu

fyrir ferð þinni

 

heitu ástríku

náttmyrkrinu

 

Þá verður ferð þín

full af birtu

 

frá fyrstu línu

til þeirrar síðustu

 

Sigurður Pálsson, 1948-2017

(Ljóð muna rödd, 2016)
Mynd: bokmenntaborgin.is

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Einsýnn porri

…Jón var fremur lágur vexti, en hverjum manni harðgerðari og snarmenni hið mesta, svo að fáir eður engir stóðust honum snúning. Hann var vel greindur maður. Réttust lýsing á  Jóni er í vísu, er hann kvað um sjálfan sig, þótt hún hafi ekki mikið skáldskaparlegt gildi. Vísan er þannig:

Einsýnn porri er að skálda

æði mikla vitleysu.

Hann er líkur gráum fálka,

þegar hann er í skinnpeysu.

 

(Laxárdals menn í Hrunamannahreppi eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Blanda, fróðleikur gamall og nýr VI, bls.277.

Vísa eftir Sigurð Breiðfjörð

Í veizlu á Hjaltabakka í Húnavatnssýslu var Sigurður Breiðfjörð gestur og var orðinn svo drukkinn, að tveir menn fóru út með hann um kvöldið eða nóttina, til þess að hjálpa honum að kasta af sér vatni. Sjór var fallinn hátt. Lítur Sigurður þá fram á sjóinn og segir:

Fallegt er, þá fellur sjór

að fjalla klónum.

Einn er guð í öllu stór

og eins í sjónum.

 

(eftir blöðum að norðan, Blanda, fróðleikur gamall og nýr VII, 1940-1943, bls. 380)

Einsemdin er hið nýja krabbamein

Allt_i_himnalagi_Oliphant_72-600x942

Skáldsagan Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant, sem er frumraun skoska rithöfundarins Gail Honeyman, hefur aldeilis slegið í gegn. Reyndar er nákvæmlega ekkert í himnalagi hjá Eleanor en hún hreiðrar strax um sig í hjarta lesandans; svo átakanlega einmana og tragísk en líka ansi skarpskyggn og hreinskiptin. Frásögnin af hremmingum hennar í samskiptum við annað fólk og skuggalegri fortíð er meinfyndin og stílinn skemmtilega kaldhamraður, í vel heppnaðri þýðingu Ólafar Pétursdóttur.

Í þrjátíu ár hefur Eleanor Oliphant hálfvegis verið hælismatur, utangarðs og umkomulaus, með margvíslega þráhyggju og fælni. Hún ólst upp hjá illgjarnri og geðveikri móður og hraktist síðan milli stofnana og misgóðra fósturheimila. Sjálfsmyndin er í molum, hún er í ömurlegri vinnu, hefur enga stjórn á lífi sínu og liggur í kojufylleríi allar helgar. Einsemd hefur alltaf verið hennar hlutskipti og vaninn hennar varnarháttur.

Nú er einsemdin nýtt krabbamein, skammarlegt og vandræðalegt fyrirbæri sem maður kallar yfir sig með dularfullum hætti. Hryllilegt og ólæknandi mein, svo viðurstyggilegt að ekki er hægt að nefna það. Aðrir vilja ekki heyra það nefnt upphátt af ótta við að verða fyrir áhrifum þess, eða að það freisti örlaganna til þess að kalla áþekkan hrylling yfir þá sjálfa (288).

Sjónarhornið í sögunni er frumlegt að því leyti að margt það sem venjulegt fólk telur til sjálfsagðra hluta, kemur Eleanor spánskt fyrir sjónir. Til dæmis að fara í klippingu, dansa, sýna tilfinningar eða eignast vini: „Það kom á daginn að þegar maður hittir sömu manneskjuna nokkuð reglulega verða samræðurnar strax ánægjulegar og óþvingaðar – maður getur eiginlega haldið áfram þar sem frá var horfið og þarf ekki að byrja upp á nýtt í hvert skipti“ (313-14). Þegar hún bregður út af vananum og stígur út fyrir þægindahringinn, verður hún alltaf jafn hissa á því hvað lífið hefur upp á að bjóða.

„Hvað á þetta að vera?“ sagði ég. „Er þetta… er þetta ostur?“ Ég hafði aldrei fengið helíumblöðru að gjöf, síst af öllu svona sérkennilega.

„Þetta er hann Svampur, Eleanor,“ sagði hann og talaði mjög hægt og skýrt eins og ég væri einhver bjáni. „Svampur Sveinsson.“

Hálfmennskur baðsvampur með útstæðar framtennur! Til sölu eins og ekkert væri! Aðrir hafa alltaf sagt um mig að ég sé skrítin, en þegar ég sé eitthvað þessu líkt rennur upp fyrir mér að ég er tiltölulega eðlileg (300).

Framan af sögu eltist Eleanor við draumkennda ást sína á „Tónlistarmanninum“ með spaugilegum tllburðum. Til þess að ganga í augun á honum þarf hún að breyta hirðuleysislegu útliti sínu og hallærislegum klæðaburði. Það er lumman langlífa, frá örófi til vorra daga, að kona heldur að hún þurfi að falla að staðalmyndum til að ná athygli karlmannsins. Þegar augu hennar opnast, sér hún að ástin er nær en hana grunaði – eins og lesandinn er fyrir löngu búinn að átta sig á. Síðasti þriðjungur bókarinnar snýst um hvernig Eleanor reynir að losna undan fortíðinni, þar á meðal meinfýsinni mömmu sinni sem er ekki átakalaust. En ungfrú Oliphant er ekki fisjað saman, hún bræðir alla með skarpri sýn á samferðamenn sína og kaldhæðnum húmor fyrir sjálfri sér.

JPV, 2017

Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant

405 bls

Þýðandi: Ólöf Pétursdóttir

 

 

Birt í Kvennablaðinu, 4. ágúst 2017