Virkni, ábyrgð, áhugi og lýðræði í framhaldsskóla

 

screen-0

Í námskeiðinu Skólaþróunarverkefni KEN213F, við menntavísindasvið HÍ á vormisseri 2014, var öflugur hópur nemenda sem fjallaði um innleiðingu lýðræðislegra kennsluhátta í Menntaskólann í Kópavogi.

Lýðræði er einn af grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) og er ætlað að auka virkni nemenda í námi með lýðræðislegum kennsluháttum. Skólaþróunarverkefni hópsins góða snýst um að innleiða lýðræði inn í allt skólastarf, kennsluefni, kennsluhætti og námsmat.

Markmiðin eru:

  • að nemendur taki virkari þátt í námi sínu
  • að kennarar nýti sér fjölbreytta kennsluhætti og námsmat og þrói lýðræðisleg vinnubrögð innan skólastofunnar
  • auka möguleika nemenda til að hafa áhrif á inntak og aðferðir náms og kennslu

Lesa má skýrsluna hér: Lýðræðislegir kennsluhættir

Höfundar:

Ásta Kristín Ingólfsdóttir, Haraldur Gunnarsson, Jón Björgvin Hilmarsson, Malla Rós Valgerðardóttir, Melkorka Edda Sigurgrímsdóttir, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Sævar Þorleifsson

 

 

Kalt bað

Water surfaceKona þarf að setja sér markmið og ná þeim. Í sumar lét ég spana mig í að fara ofan í kaldan pott í sundlauginni á Þórshöfn (allt Gunnu systur að kenna sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna). Ég hélt ég gæti þetta ekki. Og það var óþægilegt og skrýtið en ekki eins slæmt og ég hélt. Svo ég setti mér markmið, að venjast því að fara í kalt bað, halda þetta út, láta hugann ekki hræða mig. Svo ég fór aftur og aftur, stutt og enn styttra, aftur og aftur. Ég er ekki farin að stunda klakaböð eða fara í sjóinn en ég komst að því að ég þoli vel miklu kaldara vatn en ég hélt. Nú læt ég renna úr garðslöngunni í pottinn á pallinum og dýfi mér þrisvar ofan í, upp að höku með hendurnar uppúr, tel upp að 20 minnst. Og það er sannarlega hressandi. Bæði að finna kalt vatnið fríska mann upp og ekki síður hitt að hafa sigrast á óttanum og náð markmiðinu. Takk Gunna!

 

Draumur um lúðalegan gaur

Greg_Spalenka_Spiritual_journey-696x506

Mig dreymdi að ég var í fjölmennu samkvæmi þar sem glatt var á hjalla. Allt í einu er sagt við mig: Hvernig líst þér á þennan? Átt var við mann sem stóð fyrir aftan mig í bláum tvíhnepptum jakka með gullhnöppum. Ég sá hann ekki almennilega. „Óttalega lúðalegur gaur“ sagði ég. Hann færði sig til og þá sá ég framan í hann en þetta var maður sem var einu sinni bekkjarbróðir minn, bráðmyndarlegur, köllum hann S. Ég fór til S og baðst afsökunar á þessum ummælum, hann tók því vel og bauð mér að búa með sér í pínulitlu herbergi uppi í risi. Gerði ég mig heimakomna hjá S og puntaði í kringum okkur en allt í einu fannst mér eins og ég gæti ekki verið þar lengur. Ég yrði að koma mér burt.

 

 

 

Draumur um einveru

Mig dreymdi að ég væri í sumarbústað. Ég naut einverunnar, var með stafla af bókum á borði, tebolla og tölvuna mína. Síðan heyrði ég mannamál og sá að hópur fólks nálgaðist. Ég vildi vera í friði og ákvað að fela mig, þykjast ekki vera heima. Þegar ég hafði hniprað mig saman á felustaðnum heyrði ég að fólkið var komið, það kallaði og hringgekk húsið og ég vissi að það sæi dótið mitt á borðinu, rjúkandi teið og legði saman tvo og tvo. Einn gekk svo langt að leggjast upp að glugganum á klósettinu þar sem ég var í felum og reyna að gægjast inn. Ég þorði ekki að hreyfa mig né draga andann og hugsaði með mér hversu skömmustulegt það væri ef upp kæmist að ég lægi þarna í felum. Eftir drykklanga stund hélt fólkið sína leið. Loksins þorði ég að líta upp og sá þá að það hefði verið ómögulegt að sjá mig, það var neglt fyrir gluggann og aðeins hægt að rýna inn um agnarlítið gægjugat.

spiritual_manipulation-e1552464164357-696x470

Mynd: https://fractalenlightenment.com/

Draumur um elskhuga

cranes

Mig dreymdi að ég ætti marga elskhuga og vildi gleðja þá alla. Þeir voru a.m.k. þrír og allir saman komnir á einum stað, í húsi sem var í byggingu, rykugt og ófrágengið. Einn þeirra er maður sem ég þekki og elskaði forðum sem við skulum kalla G. Hina hef ég ekki fyrr séð, einn þeirra var miklu  yngri en ég og hét M. Mér fannst mikilvægt að þeir rækjust ekki hver á annan. En í miðjum innilegum faðmlögum við G fannst mér ég verða að segja honum að ég væri líka að hitta M. Þá kólnuðu faðmlögin. Síðan birtist M, mér fannst hann hafði grennst gríðarlega og fríkkað til muna og hann var afar hávaxinn. Ég gladdist við að sjá hann en hann dró mig inn í lítið herbergi og stillti mér upp við vegg. 

Draumur um refi

dreams-and-visions-accessing-the-beyond_0

Ég var á hóteli og rakst á lítinn kassa. Þá mundi ég allt í einu eftir refunum mínum. Þeir voru tveir, pínulitlir, rauður og blár, og höfðu verið lokaðir lengi ofan í kassanum. Ég opnaði kassann og bjóst alveg eins við því að refirnir væru steindauðir. Þeir voru í einhvers konar dvala og bærðu strax á sér, spruttu svo upp eins og stálfjaðrir og hófu þegar að hlaupa tryllingslega um, soldið stífir í hreyfingum eins og þeir væru upptrekktir. Sá rauði var fjörugri. Ég óttaðist að ég mundi missa þá út úr herberginu og að þeir hlypu um hótelganginn öllum til ama.  Ég hugsaði með mér að ég skyldi hvorki opna glugga né dyr herbergisins og hleypa þeim aldrei út fyrir þessa veggi. Hins vegar sá ég enga leið til að koma þeim í kassann aftur.

 

 

Brautskráning

64780874_379876379320777_613534888527659008_n (1)

Stoltir foreldrar fagna merkum áfanga. Inga lauk BA prófi í listfræði og mamman MA í hagnýtri menningarmiðlun. Þriðja meistaragráðan hennar, er þetta ekki orðið gott? Oddný G komin á blað og allir kátir. Veislan var haldin á heimili Haraldar og fjölskyldu og stóð langt inn í sumarnóttina.

Skil

60220473_287084208864318_8614296174783889408_nÞann 4. maí sl. skilaði ég MA-ritgerð um Oddnýju Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi (1908-1985). Ritgerðin var afrakstur margra mánaða vinnu sem var bæði skemmtileg og gefandi. Ég elska að grúska, finna samhengi, kynnast fólki úr fortíðinni og miðla sögu þeirra til nútímans.  Að kvöldi 11. maí skilaði ég svo tveimur útvarpsþáttum um skáldkonuna til yfirferðar hjá mesta útvarpsþáttagerðarsnillingi á Íslandi. Kannski þarf ég að laga eitthvað, kannski er þetta bara gott, kemur í ljós í vikunni. Ég er allavega fegin, sátt og glöð og ætla ekki að finna mér aðrar áskoranir næstu mánuði. Bara læra að gutla á gítarinn minn og hjóla sem lengst og oftast.