Málfríður Einarsdóttir

Hvort

Hvort mun þeim sem loksins lúinn

lýkur göngu fótasár

hvíld í sedrushlíðum búin,

hvíld á bökkum Jökulsár?

 

Mundi þar sem ljós að landi

lyftist alda og gnýr við strönd,

eða í gröf í gulum sandi

grafa lík mitt ókunn hönd?

 

Sama er mér, því guðs hin góða

grund mun álík þar og hér

og um næturhvolfið hljóða

hvirfing stjarna yfir mér.

 

Heinrich Heine
Málfríður Einarsdóttir þýddi með liðsinni frá Ólafi Halldórssyni

Grúsk vikunnar

Photo389127

„Það hefur farið með versta móti um hjartað í mér undanfarið. Það hefur lamist lengi, og upp á síðkastið hefur verið þröngt um það í brjóstinu eins og brjóstið og hjartað eigi ekki saman lengur. Eitthvað er sem þrengir að rifjunum og í sambandi við þetta gína mér kolsvört leiðindi og hræðsla í allar áttir, stundum svo að mér verður flökurt. Nú er tími til að byrja á bókinni um píslirnar. Engin lifandi sál nærri, að heitið geti, fegurð heimsins fjarri mér, nema einhver ögn af fegurð himinsins. Það sem ég hef fyrir augum eru veggirnir, rúmin, konurnar í rúmunum, fólkið sem hefur þann leiðindastarfa með höndum að stjana við okkur, rytjulegir fuglar sem tína í sig mola af hvítabrauði til að gera sig heilsulausa, grimmilegir sjófuglar að hakka í sig kryddað ket og þykir vont, skima í kringum sig við hvern bita til að forða því að frá þeim verði hrifsað, ljótir veggir, ljót þök og afarljótur strompur, rytjulegar jurtir að deyja í leirkerum sínum. Samt er jörðin full af auði og allsnægtum, og jörðin er góð, vindar hennar og birta og fjöldamargt annað, og líklega einhverjar sálir til einhverstaðar, þó að þær séu vandfundnar og hittist helst í bókum –“.

Málfríður Einarsdóttir

1899-1983