19. öld

Guðrún Borgfjörð, liðlega tvítug Reykjavíkurmær

Ég hafði stúlkur alls staðar að og hef kennt svo tugum skiptir. Oftast var ég heppin að fá myndarlegar stúlkur, en tiltölulega fáa klaufa. Þær komu á morgnana klukkan tíu og voru til þrjú. Ég tók sex krónur um mánuðinn fyrir stúlkuna. Svo saumaði ég allt hvað af tók seinni part dagsins. Ég hafði talsverða inntekt og gat keypt mér falleg og góð föt, en mikið gekk inn í heimilið. Ég vildi ekki láta móður mína vanta neitt, ef ég mögulega gat hjá því komist. Sú meðvitund að hafa getað stutt að því, að hún gat lifað áhyggjuminna lífi síðari árin, gleður mig svo ósegjanlega.

Á þessum árum kom ég mér upp ljómandi fallegum og vönduðum skautbúningi. Ég saumaði hann á þann hátt, að ég fór eitt sumar á fætur klukkan fmm á hverjum morgni og baldýraði eða skatteraði í samfelluna til klukkan átta. Þá fór ég að sauma eitthvað annað, sem af þurfti að komast. Ég kom af bæði pilsinu og borðunum á treyjuna og þóttist góð. Ég kom mér líka upp reiðtygjum og reiðfötum, en ekki keypti ég mikið af glysvörum eða gullstássi. Enginn skal halda, að ég hafi ekki reynt að vera alls staðar með, ef eitthvað var á seyði til skemmtunar. Jú, ég var svei mér með. Ég var kát og lífsglöð og hafði ákaflega gaman af að dansa, enda var ég á mörgum böllum. Mér þótti líka mjög gaman að hlusta á þingræður. Oft hef ég setið á pöllunum. Stundum var eins gaman að hlusta á athugasemdir, sem þar mátti heyra (99).

Merkilegur pinni sem alkunnur var um allt land

Dægradvöl. ForlagiðBenedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) var fræðimaður og skáld, snillingur á mörgum sviðum en gekk illa að nýta hæfileika sína af ýmsum ástæðum. Hann ritaði sjálfsævisögu, Dægradvöl, sem prentuð var löngu eftir hans dag og Mál og menning gaf út nýlega í kilju í flokknum „íslensk klassík“ með skýringum og athugasemdum Ingvars Stefánssonar úr útgáfunni frá 1965. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu. Hún skipar sérstakan sess meðal sjálfsævisagna, m.a. vegna þess að Gröndal hlífir engum í frásögninni, allra síst sjálfum sér, og vegna þeirra áhrifa sem hún hefur haft á íslenskrar bókmenntir, t.d. á skrif Þórbergs Þórðarsonar. Nú síðast varð lítið atvik sem minnst er á í verkinu kveikja að skáldsögunni Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson (355-6). Dægradvöl hefur varðveist í handriti í Landsbókasafni, bæði í styttra uppkasti og sem rúmlega 500 blaðsíðna endurgerð með fíngerðri og fallegri rithönd Gröndals. Textinn er innblásinn, andríkur og meinfyndinn, með neðanmálsgreinum, útstrikunum og innskotum, hann flæðir viðstöðulaust fram og mörgu ægir saman: minningum, skáldskaparpælingum, samfélagsgagnrýni, mannlýsingum og  vonbrigðarausi; og allt á gullaldarmáli.

Sögunni er skipt í kafla eftir tímaröð.  Æskuárunum er lýst  í skipulegum texta, sem morar af margs konar staðar- , náttúru- og mannlýsingum. Í gegnum þær glittir í lítinn strák, sílesandi og teiknandi, sem þráir ást og viðurkenningu og særist í samskiptum sínum við annað fólk  enda „ekki vanur að vera með mönnum“ eins og mamma hans sagði (98). Skemmtilegar eru lýsingar hans á skólalífinu á Bessastöðum, bæði á hrekkjum piltanna, kennurunum og kennsluháttum.  Sjálfur segist hann vera latur meðalsluksari og þegar hann útskrifast er hann stefnulaus og óráðinn um framtíðina og foreldrar hans láta hann sjálfráða: „en hefði nokkur maður þurft leiðbeiningar eða áminningar, þá var það ég; lífið var fyrir mér eins og fagur draumur, ég vissi ekkert, hvað ég vildi, ég hafði enga hugmynd um embættislestur, og mér datt ekki í hug, að maður þyrfti að vinna fyrir sér; allt sem ég gerði, það gerði ég út í bláinn, tilgangslaust, einungis mér til gamans eða einhverrar ánægju“ (155). Eins og glópur fór hann í háskólann í Kaupmannahöfn,  var áhugalaus við námið  enda stundaði hann það án nokkurs takmarks eða tilgangs.  Gröndal segir þegar hann horfir um öxl að Hafnardvölin hafi  haft slæm áhrif á sálarlíf hans, valdið „alvöru hans undir niðri“ þótt hann væri „glaður ofan á og haft gaman af lífsnautn og fyndni“ (185). Rúmlega þrítugur hefur hann ekki lokið neinu háskólaprófi, slarkað og sukkað, eitthvað ort og skrifað en ekkert af viti,  „sundurtættur af sorg og eymd“. Um hríð dvaldi hann í klaustri án þess þó að fá nokkra sáluhjálp en náði að einbeita sér að skáldskap. Loks lauk hann prófi í norrænum fræðum, fyrstur Íslendinga, náði sér í konu og gerðist kennari í Reykjavík en missti konuna, hraktist svo frá kennarastarfinu vegna þunglyndis og drykkjuskapar, og harkaði ýmislegt upp frá því, skrifaði, orti og teiknaði, einmana og fátækur. Allt þótti honum sér andsnúið og enginn vildi neitt hafa að gera með „þennan merkilega pinna sem alkunnur var um allt land“ (365). Undir lok sögunnar er tímaskynið farið að riðlast og tíminn hleypur frá honum. Hann reynir að skapa heild úr smáatriðum, minnisleiftrum og gloppóttum brotum en hrekst alltaf út í óreiðu og stefnuleysi í skrifunum sem enda síðan snögglega, á dæmigerðum bituryrðum um „hvernig ég var flekaður, með refjum og lygum og yfirgangi…“ (392).

Fánýti, vonbrigði og sársauki gegnsýra ævisöguna og  einmanakenndin er leiðarstef. Gröndal er  útilokaður, beiskur og vonsvikinn,  dægradvölin snýst upp í dægurþras. Brugðið er upp óvægnum myndum af t.d. Jóni Sigurðssyni, Fjölnismönnum, Matthíasi Jochumssyni, Grími Thomsen og fleiri kunnum 19. aldar mönnum sem og alþýðufólki samtímans, og gagnrýnum lýsingum á aldarfari og tíðaranda. Fræg er lýsing hans á rímnaskáldinu Sigurði Breiðfjörð, og örlögum hans: „Sigurður var gildur meðalmaður, ljótur og luralegur, og auðsjáanlega spilltur og tútinn af slarki; hann gekk á grófum kalmúksfrakka og var fullur, þegar hann gat. Hann dó úr sulti á lofti í „Hákonsenshúsi“, Íslendingum til sóma“ (92).

Það kemur skýrt fram í sögunni að Gröndal upplifir sig öðruvísi en aðrir menn. Hann stóð alltaf í skugga föður síns, Sveinbjarnar Egilssonar, skálds og þýðanda, þótt hann nyti góðs af orðstír hans í mörgu. Hann passaði hvergi inn, tilheyrði hvorki menntamannaklíkunni sem skipti með sér embættum og bitlingum í samfélaginu, þjóðskáldunum né alþýðu manna. Í Dægradvöl birtist ráðvilltur og vanmetinn snillingur, viðkvæmur sveimhugi og ídealisti í fjandsamlegu og þröngsýnu samfélagi sem einkennist af stéttaskiptingu, klíkuskap og  kjaftagangi. Alla tíð var Gröndal ósáttur við sinn hlut og það brýst út í sögunni, í kæruleysi, biturri kaldhæðni og sárri öfund yfir velgengni annarra. En hann fegrar ekki mynd sína heldur leyfir sér alltaf að vera hann sjálfur, fúllyndur en fyndinn karl sem á endanum hætti að vonast eftir langþráðri viðurkenningu og grúfði sig yfir hugðarefni sín í litlum kofa út við sjó.

Dægradvöl

Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) er nýkomin út í kilju, merktri „íslensk klassík“ (síðast birtist hún á rafbók 2010). Ég er alveg dottin ofan í hana og er með ritdóm í smíðum sem birtist í Kvennablaðinu fljótlega. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu, á gullaldarmáli, fyndin og fróðleg og einstök meðal íslenskra sjálfsævisagna, því Gröndal hlífir engum í samtíðarspegli sínum, síst sjálfum sér. Í grúski mínu rakst ég á þessa mynd af Gröndal (eftir Ólaf Th. Ólafsson), hún er táknræn og doldið falleg. Bóhem með sveitalegt skólasetrið í bakgrunni, bókamaður og fagurkeri sem sker sig úr umhverfi sínu.

 

Image

Úr Annál 19. aldar

(1839) Aðfaranótt hins 18.október ól Guðrún Sveinsdóttir, ógfit vinnukona í Ljótshólum í Húnavatnssýslu, barn úti í fjósi, og gekst húsbóndi hennar, Sveinn Jónsson, við, að hann væri faðir að því. Skýrði hún svo frá atvikum við fæðinguna: Þegar allir í bænum voru háttaðir um kvöldið, tók hún ljettasóttina, fór á fætur, hljóðaði nokkuð, en vakti þó engan; gekk hún svo út í fjós til þess að ala barnið, og að því búnu vafði hún það og fylgjuna í hálsklút sinn, fór með það út í skemmu og lagði það í fatakistu sína og háttaði svo aftur á þess að nokkur í bænum yrði var við, hvað gerst hafði. Meðan á fæðingunni stóð og ef til vill nokkrurn tíma á eftir, sagðist hún hafa legið í öngviti og eigi vitað af sjer, en undireins og hún raknaði við, hefði  hún tekið barnið upp, hreinsað með tungunni alt slím úr munni þess, augum og nefi, en hún hefði ekkert lífsmark með því fundið. Þó fanst henni eins og barnið hreyfði sig snöggvast, þegar hún fyrst tók það upp. Hún skýrði einnig frá að hefði hún fundið lífsmark með því, hefði hún ætlað að láta fatið sitt utan um það, fara með það inn í baðstofu og hjúkra þar að því. Þegar barnið fannst 23 .s.m. skoðaði hjeraðslæknirinn það, og áleit hann að barnið hefði náð þeim aldri, að það  hefði getað lifað eftir fæðinguna, og þótt honum líklegt, að það hefði verið með lífi, þegar það fæddist, en hitt þótti honum ólíklegt, að það hefði orðið fyrir nokkurri misþyrmingu. Guðrún þverneitaði einnig, að hún hefði misþyrmt barninu eða ætlað að fyrirfara lífi þess. Var mál höfðað gegn henni og sá undirrjettardómur uppkveðinn 30. desember, að hún skyldi missa líf sitt og höfuð hennar setjast á stjaka (bls. 130).

Annáll 19. aldar, safnað hefur síra Pjetur Guðmundsson frá Grímsey